Af skapvonsku

Birt á Facebook 19.11.2025
Hagsmunapot við heimaþil
hleypir öllu‘ í kekki.
Leyndarhyggjulaumuspil
líða megum ekki.
 
Ég var á kóræfingu og sat í grandaleysi, fyrir upphaf æfingar, með félaga mínum að ræða málefni kórsins og dagskrána framundan, þegar vatt sér að okkur háttsettur opinber aðili og skvetti því framan í mig í vitna viðurvist að ég væri „skapvondasti maðurinn í Bláskógabyggð“, eins og það var orðað. Þetta kom mér vissulega í opna skjöldu, þar sem ég taldi mig vera á nokkuð „vernduðu svæði“ fyrir pólitískum átökum, í mínu frístunda- og félagsstarfi, og varð því svarafátt.

Tilefni sneiðarinnar var sem sagt af pólitískum toga, það að ég framdeildi færslu sveitunga míns hér á Fjasinu og tjáði mig í leiðinni (sjá færslu frá 9. nóvember) um tilefni og aðdraganda lokunar heilsugæslu Uppsveita í Laugarási og stofnun og opnun þess sem lagt hefur verið til að kallað væri „Heilsugæsla Ytri-Hrepps á Flúðum“, og umfjöllun fjölmiðla þar um; sagði fréttaflutning af allsherjar fagnaðarhátíð Uppsveitafólks hafa verið „til háborinnar skammar“ í ljósi umræðu og harðra mótmæla margra íbúa, sem hafi verið „rasandi yfir vinnubrögðunum“ sem beitt var.
 
Allt það sem fram kemur í færslu minni er, vel að merkja, byggt á skjalfestum opinberum gögnum, en ekki eigin, daglegum geðsveiflum.
 
Allri þessari umræðu og hörðu mótmælum frá íbúum væri hægt að safna saman, ef einhver nennti því, en óheppilegt væri sennilega að þá kæmi trúlega í ljós að ég yrði snarlega af titlinum „Skapvondasti maðurinn“, þar sem ummæli mín komast varla í hálfkvisti við það sem margir aðrir geta stoltir státað af.
 
Auðvitað er það alþekkt aðferð að gjaldfella málefnalega gagnrýni sem skapvonsku viðkomandi, „skort á tilfinningalegum stöðugleika“ o.s.frv. og „hjóla þannig í manninn en ekki boltann“. Því gagnrýnin er málefnaleg, eins og ályktun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar vitnar um.
 
Það eru sem sagt ekki bara geðlurður meðal óbreyttra íbúa uppsveitanna sem eru sekar um að hafa skeytt vondu skapi sínu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og sveitarstjórn Hrunamannahrepps, því gjörvöll sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerði það svo um munaði í ályktun sem hún samþykkti á 336. fundi sínum þann 31. maí 2023. Þar gagnrýnir sveitarstjórnin þessi áform HSU harðlega:
  • Í fyrsta lagi fyrir að gefa upp sem ástæðu fyrir flutningum 150 milljóna króna viðhaldsþörf á húsnæði heilsugæslunnar í Laugarási, án þess að sýna nein gögn til að styðja það, jafnvel þó eftir væri leitað.
  • Í öðru lagi fyrir að makka með sveitarstjórn Hrunamannahrepps um nýtt húsnæði á Flúðum og fara í sérstaka skoðunarferð þangað, án vitneskju eða þátttöku hinna sveitarfélaganna, sem hafa staðið órofa að samstarfsverkefninu um sameiginlega heilsugæslu í 125 ár samfleytt, þar af meira en 100 ár í Laugarási.
  • Í þriðja lagi lýsir sveitarstjórn Bláskógabyggðar efasemdum um að fagleg vinnubrögð verði viðhöfð þegar auglýst verði eftir nýju húsnæði, vegna þess að þegar hafi verið gefið undir fótinn með að ganga til samninga við Hrunamannahrepp.
Í ljós kom, þegar fram liðu stundir, að allar áhyggjur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar reyndust á rökum reistar. Skýrari dæmi um leyndarhyggju, sérhagsmunapot og laumuspil finnast vart. Og „skapvondari sveitarstjórn“ er þá vandfundin en sveitarstjórn Bláskógabyggðar.
 
Eina eðlilega málsmeðferðin hefði verið að byrja á því að ræða það á sameiginlegum fundi allra sveitarfélaganna hvort ástæða væri til að ráðast í endurbætur á þáverandi húsnæði heilsugæslunnar og leggja þegar fram tölur um áætlaðan kostnað, hvort ástæða væri til að endurnýja húsnæðið frá grunni, hvort ástæða væri til að flytja heilsugæsluna, hvaða rök væru með tilfærslu og hver á móti, hverjir hagsmunir íbúa á svæðinu væru af staðsetningu heilsugæslunnar þar eða þar, o.s.frv., kynna málið allt vel og vandlega fyrir íbúum og taka í framhaldinu sameiginlega, upplýsta ákvörðun, í eins mikilli sátt og mögulegt væri, hver sem hún yrði. Það var hinsvegar ekki gert, heldur farið í einkasamræður við eitt sveitarfélagið, framhjá og óafvitandi öllum hinum. Það er ólíðandi stjórnsýsla og til þess fallin að varpa skugga á allt samstarf sveitarfélaganna til framtíðar, þegar eitt þeirra hagar sér með þessum hætti, eins og fram kemur í samþykkt Bláskógabyggðar. Það er með engum hætti hægt að verja þessa málsmeðferð.
 
Kjarninn í allri gagnrýni, eða „skapvonskuköstum“, sveitarstjórnar og ósáttra íbúa varðar málsmeðferðina en ekki beint staðsetninguna, þó vissulega séu líka færð fram gild rök fyrir því að Laugarás sé heppilegasti staðurinn. Þetta orðar Kristófer A. Tómasson, sviðsstjóri hjá Bláskógabyggð og fyrrum sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, svo í færslu á Facebook:
„Ef það hefði verið staðið að þessum flutningum heilsugæslunnar með eðlilegum hætti þá hefði maður sætt sig við þennan gjörning.“
 
Án vafa geta fleiri tekið undir þau orð.
 
Það sem hefur endurvakið umræðu um þetta mál, sem er um garð gengið, þó afleiðingar til lengri tíma eigi vissulega eftir að koma í ljós, eru falsfréttir í fjölmiðlum og galgopalegar yfirlýsingar um að opnun heilsugæslunnar á Flúðum sé sérstakur gleðidagur allra íbúa Uppsveitanna. Það er ekki svo, þó vel kunni að vera að „brosið fari ekki af Hrunamönnum“, eins og einn fjölmiðillinn tekur til orða.
 
Hinir ágætu íbúar Hrunamannahrepps eru vel að sem bestri þjónustu komnir, þó vandséð séu rök fyrir því að skerða einhliða þjónustu við íbúa annarra sveitarfélaga í leiðinni.

Skildu eftir svar