„Hvar?“

„Sum skáld fylla margar ljóðabækur, og öldin gerir orð þeirra og hugmyndir að sínum; en svo getur alteins farið að fáar einar línur úr æviverki þeirra lifi þá, og í mörgu falli ekki ein. Ágætur bókmentafrömuður hefur komist svo að orði útaf Söknuði Jóhanns: „Jóhann er eins kvæðis maður og það er honum nóg, margur má una við minna.“ Ég held næstum að óhætt væri að taka meira af: flest skáld verða að láta sér nægja ekki einusinni það. Því þótt þeir hafi ritað þúsund kvæða á þolinmóðan pappírinn, hafa þeir ekki fundið í brjósti þjóðarinnar hið endíngargóða efni er geyma kunni um aldur letur þeirra. Fæst skáld ná því nokkru sinni að skrá letur kvæða sinna í þann stað einn þar sem kvæði eiga heima. Halda áfram að lesa

Er Gunnar Þórðarson ekki nógu fínn fyrir elítuna?

Það var loksins gott efni í sjónvarpinu, þegar sýndir voru tveir heimildaþættir um Gunnar Þórðarson.
 
Flestir hafa áttað sig á snilli hans í gegn um langa, fjölbreytta og farsæla tónlistarsögu.
Það sem hreyfði þó hvað mest við mér var upprifjunin á því hvernig hann var með öllu hunsaður af tónlistarelítunni, óskólagenginn og sjálfmenntaður snillingur, þegar hún neitaði að taka óperuna Ragnheiði til sýninga, svo hann varð að sjá um og standa straum af því sjálfur að setja hana á svið í Skálholti.
 

Halda áfram að lesa

Að kunna ekki að bíta gras

„ … hví ættum vér, sem erum heil þjóð, að horfa í kostnað af fyrirtæki sem eflir fegurðarskyn vort og hefur oss til æðra lífs; alt sem horfir til menníngarauka fyrir þjóðina er ódýrt, hvort sem það kostar mikið eða lítið. Ég veit þeir menn eru til sem fortelja okkur að það sé ódýrast og hagkvæmast að lifa eins og skynlaus skepna og hafa aungva tónlist og aungva leiklist, þeir telja að sá einn ljóður sé á ráði mannkynsins að það kunni ekki að bíta gras.“

(HKL. 1955. Ræða á listamannaþíngi 1950. Dagur í senn (bls. 12). Helgafell, Rvk).

Tilefni ummæla: opnun þjóðleikhúss og stofnun sinfónískrar hljómsveitar.

Sér er nú hver „armslengdin“

Stefán Ólafsson skrifaði á visir.is ágæta grein um afskipti ráðherra af Landsbankanum (14. apríl 2024, sjá hér): „Bankasýslan var sett á stofn til að tryggja aðskilnað stjórnmála frá rekstrarákvörðunum banka í eigu ríkisins í kjölfar bankahrunsins 2008 (svokallað „armslengdar-fyrirkomulag“). Þetta var hugsað þannig að bankar í eigu ríkisins væru einfaldlega reknir á sömu forsendum og einkabankar og ættu að standa sig í samkeppninni á bankamarkaðinum – án afskipta stjórnmálamanna. Halda áfram að lesa

Fátæk þjóð

Fátæk þjóð 1944 – og 2024

Hér að neðan eru birtir bútar úr grein sem Halldór Kiljan laxness skrifaði árið 1944, „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Fátt virðist hafa breyst síðan. Greinin talar beint inn í samtíma okkar árið 2024: þrugl afturhaldsins um listamannalaun, um „ræningjalýðinn“, sem nú er að vísu innlend elíta en ekki útlendingar fyrr á tímum, „sem áttu hlut að Íslandsversluninni“, og í staðinn fyrir þáverandi skort á  nauðsynlegum innviðum; snæri til að hengja sig, spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, er nú langt komið með að eyðileggja velferðarkerfið sem alþýða þessa lands byggði upp á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir einarða andstöðu auðvaldsins. Halda áfram að lesa

Menntun fanga ósáinn akur

Fréttablaðið 4. okt. 2018, bls. 14

Skólahald í fangelsum á Íslandi verður 40 ára í nóvember. Kennslustjóri í fangelsum vill af því tilefni hvetja til skýrari framtíðarsýnar um skólahaldið, og menntun sem besta mögulega betrunarúrræði fyrir fanga, eins og rannsóknir hafa undirstrikað og flestir eru sammála um. 

 

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Fyrsta haustið innrituðust 14 nemendur í iðnskóladeildina á Litlahrauni og tíu árum síðar voru þeir orðnir 20. Árin á eftir var nemendafjöldi svipaður, milli 20-30, en tók síðan kipp árið 2010 þegar námsráðgjafi var ráðinn til starfa. Síðan þá hafa að jafnaði um og yfir 60 nemendur innritað sig til náms. Námsárangur í fangelsum hefur eðli málsins samkvæmt verið upp og ofan. Til að koma til móts við nemendur er skólinn sveigjanlegri en almennt gerist og nemendur fá lengri tíma til að ljúka einstökum áföngum. Enn er margt sem má bæta í fangelsunum til þess að hvetja fanga og gefa þeim tækifæri til menntunar. Það er margtuggin staðreynd að menntun sé lykilþáttur í betrun. Halda áfram að lesa

Skóli í fangelsum 40 ára

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Við stofnun Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1981 var kennsla í fangelsinu á Litlahrauni eitt af því sem fylgdi með Iðnskólanum á Selfossi inn í hina nýju stofnun. Allt frá 1970 höfðu fangar notið leiðsagnar velviljaðra á Eyrarbakka í föndri og trésmíði en þegar Helgi Gunnarsson tók við sem forstöðumaður vinnuhælisins árið 1973 fóru hjólin að snúast. Árið eftir fékk hann kennara við barnaskólann á staðnum til kennslu en hafði samt háleitari áform; að fangar gætu lokið iðnnámi, og hugsanlega öðru námi, meðan þeir afplánuðu dóma.  Halda áfram að lesa

Áramótakveðja ’23 – ’24

Vélabrögð af verstu sort í veröldinni

vekja núna sorg í sinni,

sé ei von að þessu linni.

 

Áralöng er óöldin í Úkraínu.

Þrælahald, við þurft og pínu.

Þjóðarmorð í Palestínu.

 

Starað. Tekin staða gegnt og steyttir hnúar.

Hvergi skilningsbilið brúar

barnamorð, í nafni trúar.

 

Skinhelgin er skelfileg í skertum heimi.

Sem sig á asnaeyrum teymi

yfirvöld, og siðum gleymi.

 

Er þá bara ekkert fyrir oss til ráða?

Horfa upp á aðra smáða?

Undan líta? Hunsa þjáða?

 

Stórt er spurt! En stöndum upp, og staðföst munum:

Þessu líku aldrei unum!

Hið eina svar við spurningunum.

 

Heimsins lýður hamingju og heilsu njóti.

Mitt nýársheit: Að mæla móti

meinsemdum, þó skammir hljóti.

 

Jólakveðja 2023

Þó láti glatt, um greiðan veg í skjól,

þín gengin spor

er ferðalagið engum aðeins sól

og eilíft vor

en mörgum tamt að tefja lítið við,

að týna sér í fjöldans raddaklið.

 

Er unum sæl við stundarglys og glaum

við gleymum því

að ljósi, sem þarf að eins lágan straum,

ei lifir í;

því heimsins gæðum gjarnan rangt er skipt

svo gleði, von og lífi fólk er svipt.

 

Ég finn í hjarta sorg og sinnuskort,

já, sáran sting,

þó gæfan hafi margan óðinn ort

mig allt um kring.

Er borin von að trúin flytji fjöll,

að flærð sé eytt, í kærleik lifum öll?

 
(Lag: Lýs, milda ljós: Charles Henry Purday / Matthías Jochumsson)