Er Gunnar Þórðarson ekki nógu fínn fyrir elítuna?

Það var loksins gott efni í sjónvarpinu, þegar sýndir voru tveir heimildaþættir um Gunnar Þórðarson.
 
Flestir hafa áttað sig á snilli hans í gegn um langa, fjölbreytta og farsæla tónlistarsögu.
Það sem hreyfði þó hvað mest við mér var upprifjunin á því hvernig hann var með öllu hunsaður af tónlistarelítunni, óskólagenginn og sjálfmenntaður snillingur, þegar hún neitaði að taka óperuna Ragnheiði til sýninga, svo hann varð að sjá um og standa straum af því sjálfur að setja hana á svið í Skálholti.
 
Var hann ekki nógu „menntaður“ og fínn fyrir Íslensku óperuna og hina klassísku háelítu?
 
Ekki þori ég að fullyrða um þetta, óskólagenginn með öllu í tónlistarfræðum, eða hinar raunverulegu ástæður þessarar höfnunar, en vangaveltur í þessa átt frá þeim tíma rifjuðust þó upp við áhorfið.
 
Hvað sem öðru líður er Gunnar Þórðarson án alls vafa í allra fremstu röð íslenskra listamanna – og mun nafn hans uppi meðan landið er byggt og margir langskólaklassíkerar löngu gleymdir.

Að kunna ekki að bíta gras

„ … hví ættum vér, sem erum heil þjóð, að horfa í kostnað af fyrirtæki sem eflir fegurðarskyn vort og hefur oss til æðra lífs; alt sem horfir til menníngarauka fyrir þjóðina er ódýrt, hvort sem það kostar mikið eða lítið. Ég veit þeir menn eru til sem fortelja okkur að það sé ódýrast og hagkvæmast að lifa eins og skynlaus skepna og hafa aungva tónlist og aungva leiklist, þeir telja að sá einn ljóður sé á ráði mannkynsins að það kunni ekki að bíta gras.“

(HKL. 1955. Ræða á listamannaþíngi 1950. Dagur í senn (bls. 12). Helgafell, Rvk).

Tilefni ummæla: opnun þjóðleikhúss og stofnun sinfónískrar hljómsveitar.

Sér er nú hver „armslengdin“

Stefán Ólafsson skrifaði á visir.is ágæta grein um afskipti ráðherra af Landsbankanum (14. apríl 2024, sjá hér): „Bankasýslan var sett á stofn til að tryggja aðskilnað stjórnmála frá rekstrarákvörðunum banka í eigu ríkisins í kjölfar bankahrunsins 2008 (svokallað „armslengdar-fyrirkomulag“). Þetta var hugsað þannig að bankar í eigu ríkisins væru einfaldlega reknir á sömu forsendum og einkabankar og ættu að standa sig í samkeppninni á bankamarkaðinum – án afskipta stjórnmálamanna.

Nú er komin upp sú staða að forsendan um armslengd frá stjórnvöldum er orðin algerlega meiningarlaus – eða opinberuð sem blekking með þeim starfsháttum sem Bankasýslan hefur stundað! Fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur lýst sig algerlega andvígan ákvörðun stjórnenda Landsbankans um að kaupa tryggingafélagið TM til að styrkja stöðu og samkeppnishæfni bankans – og það hefur beinar afleiðingar fyrir bankann.

Ráðherrann fylgdi þessu eftir og skipaði Bankasýslunni að reka allt bankaráð Landsbankans og knýja fram umsnúning á þessari rekstrarákvörðun stjórnenda Landsbankans með nýju handvöldu bankaráði.“

Hér birtist enn eitt skólabókardæmið um það hvernig fólkið sem talar fjálglegast um frjálsan markað og óholl afskipti ríkisvaldsins af fyrirtækjarekstri – og þjóðlífinu almennt séð – sýnir í verki allra verstu tilþrifin í pólitískri handstýringu samfélagsins, sannkallað „alræði auðvaldsins“. Það talar um „armslengd“ ákvarðana frá stjórnmálum, til að skreyta sig með lýðræðislegum hugtökum. En armslengdarregla þess felst í því að skipa pólitíska snata og dindla í stjórnir og ráð. Og ef pólitísk markmið um alræði einkavinanna eru í hættu, hvert er þá viðbragðið? Jú, hreinsa burt með handafli og setja með handafli aðra inn í staðinn, sem líklegri eru til að velta sér á bakið og dilla rófunni.
Svona eins og í fasískum einvaldsríkjum. Það er nú öll armslengdin, frelsið og manndáðin.
 
Þetta er arfleifð núverandi ríkisstjórnarflokka, að hafa fest spillinguna frá fyrirhrunsárunum í sessi, í stað þess að nýta tækifæri hrunsins til að byggja upp nýtt, lýðræðislegt, og réttlátt jafnræðisþjóðfélag.
 
Það er arfleifð Katrínar Jakobsdóttir að hafa leitt hina endurnýjuðu spillingarvæðingu, og blekkt þannig stóran hluta þjóðarinnar, sem horfði á hana sem vonarstjörnu heiðarleika, mannúðar, jafnréttis og jöfnuðar. Slíka manneskju vilja margir draga að húni á Bessastöðum, sem „sameiningartákn þjóðarinnar“. Meiri og gróteskari öfugmæli eru vart hugsanleg.
 

Fátæk þjóð

Fátæk þjóð 1944 – og 2024

Hér að neðan eru birtir bútar úr grein sem Halldór Kiljan laxness skrifaði árið 1944, „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Fátt virðist hafa breyst síðan. Greinin talar beint inn í samtíma okkar árið 2024: þrugl afturhaldsins um listamannalaun, um „ræningjalýðinn“, sem nú er að vísu innlend elíta en ekki útlendingar fyrr á tímum, „sem áttu hlut að Íslandsversluninni“, og í staðinn fyrir þáverandi skort á  nauðsynlegum innviðum; snæri til að hengja sig, spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, er nú langt komið með að eyðileggja velferðarkerfið sem alþýða þessa lands byggði upp á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir einarða andstöðu auðvaldsins.

En rifjum upp úr grein HKL:

„„Við íslendíngar erum fátæk þjóð“ – dögum oftar má lesa þessi vísdómsorð í blöðunum og í samtölum eru þau endurtekin einsog viðlag við flestar niðurstöður: hvað sem öðru líður erum við fátæk þjóð. Allur okkar ómyndarskapur er afsakaður með þessu töfraorði – ef við gaungum með göt á sokkunum, eða vantar á okkur tölurnar, eða við böðum okkur ekki, ég tala nú ekki um ef við erum lúsugir, þá er það alt af því við erum fátæk þjóð. Við rísum ekki undir því að kaupa vatn og sápu.

Einum okkar ágætu listamanna varð tíðrætt um það í blaði um daginn hve raunalegt væri að jafn listelsk þjóð skyldi vera svo fátæk að geta ekki bygt sér listasafn. En um leið gat hann ekki stilt sig um að láta í ljós undrun á því að þessi fátæka þjóð skyldi þó hafa efni á að reka fimm voldugar makarínverksmiðjur […].

Fyrir nokkrum árum bauðst einn af bestu listamönnum Íslands, Sigurjón Ólafsson myndhöggvari, til að gefa landinu listaverk eftir sig til skreytíngar á bænum. […] En þessi opinberi aðili treysti sér ekki til að taka boðinu af því það þurfti að kosta umbúðir um listaverkin og borga undir þau flutníngskostnað til landsins: Sumsé við erum fátæk þjóð. […] Ásmundur Sveinsson, þessi göfugi hámentaði listamaður, bauðst einu sinni til að vinna í samráði við bæarfélagið að skreytíngu bæarins með myndlist; tilboði hans var ekki ansað; við íslendíngar erum fátæk þjóð […]

Einar Jónsson er geymdur í Hnitbjörgum einsog niðursuða. Hann er einn af faungum þjóðfélagsins. […] Við erum fátæk þjóð. Sem sagt fimm makarínverksmiðjur.

Nú skulum við að gamni líta um hæl, því þessi fátæka þjóð á sér sögu. Eftilvill er það merkilegast í allri sögu vorri að þrátt fyrir hina margumræddu fátækt höfum við aldrei lifað það tímabil að þessi fámenni hópur manna hér, íslendíngar, hafi ekki staðið undir fleiri auðkýfíngum en nokkur þektur hópur annarstaðar í heiminum jafnstór. Í miðaldamyrkrinu á 10du öld þegar húngursneyðir eymd og stríð ríkti í Evrópu, og mannát var þar að minstakosti eins algeingt og styrjuhrognaát er nú, stóð ótrúlega mikill auður saman á Íslandi, efamál hvort nokkur Evrópuþjóð hefur búið við betri lífskjör þá en hinir fátæku íslendíngar. Við vorum svo ríkir að við tókum við kristindómnum af einskæru snobberíi árið þúsund. En jafnvel á þeim öldum laungu seinna þegar þjóðin lifði við mesta neyð, og þúsund manna horfellir á ári hjá okkur þótti varla saga til næsta bæar, stóðum við undir fjölda auðkýfínga, útlendínga sem áttu hlut að Íslandsversluninni. Auðugustu menn ýmsir í Danmörku á 17du og 18du öld, greifar biskupar borgarstjórar og hefðarfrúr, höfðu grætt fé sitt á íslendíngum; þar voru þeirra tíma miljónamæríngar okkar. Við vitum nöfn þessara manna og sögu. Fyrir tvöhundruð árum til dæmis áttum við varla snæri í snöru til að heingja okkur þó nauðsyn bæri til, oft ekki spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, og verkfæri okkar voru af því tagi að útlendir menn ráku upp stór augu og hlógu þegar þeir sáu okkur vinna, eins og amrikumenn gera nú á dögum þegar þeir sjá okkur puða með skóflum í vegavinnu – en alt um það, á þessum tímum áttum við okkar fimm makarínfabrikkur, okkar miljónamærínga, alveg eins og nú: hörmángara, almenna verslunarfélagið, kónginn, compagniet eða hvað þessi ræníngjafélög hétu. Þeir reyttu saman alveg ótrúlegan auð af íslendíngum. Stórhýsi Kaupmannahafnar voru reist fyrir þann arð sem rænt var af íslendíngum. […]

Nei, þessi fátæka þjóð hefur frá upphafi vega staðið undir ótrúlega miklum auði. Hvergi á bygðu bóli moka jafnfáar hræður saman jafnmiklu fé. Árið 1942 flytjum við út fisk […] sem svarar sex tonnum fisks á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Við rekum meiri utanríkisverslun á mannsbarn en nokkur önnur þjóð. Við höfum að vísu ekki her, en við stöndum undir ákaflega dýru stjórnkerfi, dýrara en nokkrar aðrar hundraðþúsund sálir á jörðinni. […] Áþreifanlegasta dæmið um auðlegð vora er þó það enn í dag, ekki síður en á dögum hörmángara, að óvíða munu á jörðinni finnast svo fáar mannhræður í þjóðarlíki standa undir jafnmörgum miljónamæríngum og íslendíngar.

Sannleikurinn er sá að vísdómsorðin um íslendínga sem fátæka þjóð í efnalegu tilliti eru þrugl sem menn japla hugsunarlaust hver eftir öðrum, af því einhverjum ræníngjum fyr á öldum hefur þóknast að telja okkur trú um þetta þegar þeir voru búnir að rýa okkur inn að skyrtunni. Við búum og höfum einlægt búið í miðri einhverri mestu gullnámu heimsins, á fiskisælustu miðum Atlantshafs. […]

(1944)“

(HKL. 1980. „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Sjálfsagðir hlutir (bls. 204-210). Helgafell, Rvk.)

Menntun fanga ósáinn akur

Fréttablaðið 4. okt. 2018, bls. 14

Skólahald í fangelsum á Íslandi verður 40 ára í nóvember. Kennslustjóri í fangelsum vill af því tilefni hvetja til skýrari framtíðarsýnar um skólahaldið, og menntun sem besta mögulega betrunarúrræði fyrir fanga, eins og rannsóknir hafa undirstrikað og flestir eru sammála um. 

 

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Fyrsta haustið innrituðust 14 nemendur í iðnskóladeildina á Litlahrauni og tíu árum síðar voru þeir orðnir 20. Árin á eftir var nemendafjöldi svipaður, milli 20-30, en tók síðan kipp árið 2010 þegar námsráðgjafi var ráðinn til starfa. Síðan þá hafa að jafnaði um og yfir 60 nemendur innritað sig til náms. Námsárangur í fangelsum hefur eðli málsins samkvæmt verið upp og ofan. Til að koma til móts við nemendur er skólinn sveigjanlegri en almennt gerist og nemendur fá lengri tíma til að ljúka einstökum áföngum. Enn er margt sem má bæta í fangelsunum til þess að hvetja fanga og gefa þeim tækifæri til menntunar. Það er margtuggin staðreynd að menntun sé lykilþáttur í betrun.

Fyrstu árin var aðstaða til skólahalds fremur dapurleg en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. En betur má ef duga skal. Gylfi Þorkelsson er kennslustjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í fangelsum landsins og hefur sinnt því starfi síðustu fjögur árin.

„Þó margt hafi áunnist, nám og kennsla smám saman vaxið að umfangi og fjölbreytni, fangelsum fjölgað og starfið þróast í samræmi við það, þá má fullyrða að menntun fanga og skólastarf í fangelsum er að stórum hluta til ósáinn akur,“ segir Gylfi. „Það eru enn ótal möguleikar vannýttir. Ég og samstarfsfólk mitt höfum undanfarin ár verið að reyna að mjaka málum áleiðis með erindum, tillögum og skýrslum til þingmanna, stofnana og ráðuneyta, móta tillögur um framtíðarskipan mála, en það gengur því miður hægt að fá skýr svör og enn hægar að fá einhverjar niðurstöður, framtíðarlausnir og framkvæmdir.“

Fangelsin gefa það út að boðið sé upp á nám í öllum fangelsum en þó er það misjafnt eftir fangelsum hverskonar nám er í boði. Á Hólmsheiði er til að mynda aðeins fjarnám í boði og á Litlahrauni segir Gylfi að mikill skortur sé á verknámi.

„Margir fangar glíma við athyglisbrest, lestrarörðugleika, fíkn og aðrar hindranir. Verklegt nám höfðar oft frekar til slíkra nemenda. Við hefðum viljað bjóða upp á meira verknám og það þarf að efla það stórlega. Hér á Litlahrauni getum við t.d. aðeins tekið inn fimm nemendur í einu í verklega áfanga málmiðngreina, því aðstaðan á verkstæðinu býður ekki upp á meira. Það má því segja að „fyrstir koma, fyrstir fá“ og alltaf er einhver biðlisti í þetta nám. Og aðstaða til verknáms er ekki fyrir hendi í öðrum fangelsum“.

Námsráðgjafi FSu í fangelsum er með sína meginaðstöðu á Litlahrauni en fer einu sinni í viku á Sogn og undanfarin ár hafa fangelsin á Kvíabryggju og Akureyri einnig notið þjónustu námsráðgjafa, sem m.a. aðstoðar nemendur þar við fjarnámsskráningar. Námsráðgjafi FSu fer einnig tvisvar í viku á Hólmsheiði. Á síðasta skólaári bættist sérkennari í fast stöðugildi við skólahald FSu í fangelsunum og heimsækir hann Litlahraun tvisvar í viku, en Sogn og Hólmsheiði einu sinni í viku. Þörfin fyrir þjónustu sérkennara er mikil og hana þyrfti að efla.

„Á Hólmsheiði er bara gert ráð fyrir fjarnámi og þangað fara aðeins námsráðgjafi og sérkennari. Nemendur þar þurfa meiri þjónustu, það er meira en að segja það að setjast fyrir framan tölvu og skrá sig inn í einhver kennsluumsjónarkerfi, ekki síst fyrir nemendur með fjölþættan námsvanda. Ég myndi gjarnan vilja fara þangað sjálfur líka, til að aðstoða nemendur við tæknileg atriði og styðja þá í náminu. En til þess þarf aukið stöðugildi, kennslustjórn í fangelsum á Íslandi er aðeins 50% starf. Við í FSu höfum langa reynslu af skolahaldi og þjónustu við nemendur í fangelsum og við viljum gjarnan víkka út starfsemina. Það þarf meira til en það sem er í boði núna, og það þarf ekki að kosta einhver ósköp að efla starfið verulega,“ segir Gylfi.

Þegar fangelsið á Hólmsheiði var tekið í notkun var ekki búið að hugsa til enda hvernig námi og kennslu yrði háttað þar. Það var þó ljóst strax í upphafi að ekki stóð til að reka þar hefðbundið skólastarf heldur bjóða upp á fjarnám.

„Sá böggull fylgir skammrifi að nemendur í fangelsum eiga margir erfitt með nám af ýmsum ástæðum. Það er bara gríðarleg hindrun að þurfa að setjast fyrir framan tölvu og fara í fjarnám í einhverjum skóla og hitta ekki kennara. Það er einfaldlega erfitt fyrir flesta og krefst mikils sjálfsaga. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að nemendur í fjarnámi ná miklu betri árangri og tolla betur í námi ef þeir geta hittst, haft félagsskap hver af öðrum og lært saman. Sá þáttur er oft vanmetinn í sambandi við fjarnám. Auk þess er á Hólmsheiði kvennafangelsið, langtímavistaðar konur sem hafa sama rétt til náms og aðrir fangar.“

Gylfi telur að ekki væri annað meira viðeigandi en að fagna fjörutíu ára afmæli skólahalds í íslenskum fangelsum með bættri aðstöðu og tækjakosti. „Við erum ekkert að tala um að eyða gríðarlegum fjármunum í arkitektúr og graníthallir, heldur aðeins lítilsháttar stækkun á verknámsaðstöðu, nokkur verkfæri til kennslunnar, viðunandi húsgögn í skólastofum og aðeins hlýlegra umhverfi. Þetta þarf ekki að vera flókið eða að fara fyrir ótal sérfræðinefndir, margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Gylfi að lokum.

 

Skóli í fangelsum 40 ára

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Við stofnun Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1981 var kennsla í fangelsinu á Litlahrauni eitt af því sem fylgdi með Iðnskólanum á Selfossi inn í hina nýju stofnun. Allt frá 1970 höfðu fangar notið leiðsagnar velviljaðra á Eyrarbakka í föndri og trésmíði en þegar Helgi Gunnarsson tók við sem forstöðumaður vinnuhælisins árið 1973 fóru hjólin að snúast. Árið eftir fékk hann kennara við barnaskólann á staðnum til kennslu en hafði samt háleitari áform; að fangar gætu lokið iðnnámi, og hugsanlega öðru námi, meðan þeir afplánuðu dóma.  Halda áfram að lesa

Áramótakveðja ’23 – ’24

Vélabrögð af verstu sort í veröldinni

vekja núna sorg í sinni,

sé ei von að þessu linni.

 

Áralöng er óöldin í Úkraínu.

Þrælahald, við þurft og pínu.

Þjóðarmorð í Palestínu.

 

Starað. Tekin staða gegnt og steyttir hnúar.

Hvergi skilningsbilið brúar

barnamorð, í nafni trúar.

 

Skinhelgin er skelfileg í skertum heimi.

Sem sig á asnaeyrum teymi

yfirvöld, og siðum gleymi.

 

Er þá bara ekkert fyrir oss til ráða?

Horfa upp á aðra smáða?

Undan líta? Hunsa þjáða?

 

Stórt er spurt! En stöndum upp, og staðföst munum:

Þessu líku aldrei unum!

Hið eina svar við spurningunum.

 

Heimsins lýður hamingju og heilsu njóti.

Mitt nýársheit: Að mæla móti

meinsemdum, þó skammir hljóti.

 

Jólakveðja 2023

Þó láti glatt, um greiðan veg í skjól,

þín gengin spor

er ferðalagið engum aðeins sól

og eilíft vor

en mörgum tamt að tefja lítið við,

að týna sér í fjöldans raddaklið.

 

Er unum sæl við stundarglys og glaum

við gleymum því

að ljósi, sem þarf að eins lágan straum,

ei lifir í;

því heimsins gæðum gjarnan rangt er skipt

svo gleði, von og lífi fólk er svipt.

 

Ég finn í hjarta sorg og sinnuskort,

já, sáran sting,

þó gæfan hafi margan óðinn ort

mig allt um kring.

Er borin von að trúin flytji fjöll,

að flærð sé eytt, í kærleik lifum öll?

 
(Lag: Lýs, milda ljós: Charles Henry Purday / Matthías Jochumsson)

 

 

Spillingarsaga V – Landssímasukkið hið síðara

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023: bls. 299-307).

Elítan í Sjálfstæðisflokknum gjörnýtti sannarlega ríkisfyrirtækið Landssímann til óhæfuverka á markaði. Segja má að frjálshyggjupostularnir hafi ríkisvætt hátæknigeirann og sukkað gróflega með opinbert fé til að koma einkafyrirtæki fyrir kattarnef og hindra samkeppni. Fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar var samið og lagt fram til að drepa Norðurljós og Stöð 2, enda í „óæskilegri eigu“. Þegar sú vegferð (sem væri fullt tilefni til að rekja hér, en einhvers staðar verður að setja mörkin) fór út um þúfur þurfti Davíð að beita öðrum meðulum en löggjafarvaldinu til að drepa samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Elítan hafði fulla stjórn á ríkismiðlunum og nú var Landssímanum beitt eins og hverju öðru stríðstóli gegn hinu voðalega fyrirbæri: „Frjálsri samkeppni“. Halda áfram að lesa