Af rafrænu samfélagi, lýðræði og hindrunum

Lýðræði byggist á virkri þátttöku borgaranna í samfélaginu. Þátttaka í samfélagi grundvallast á læsi í víðasta skilningi þess orðs, málfrelsi, tjáningu, frjálsri fjölmiðlun, jöfnuði, almennum kosningarétti og mannréttindum. Tómt mál er að tala um virkt lýðræði ef hluti borgaranna er ólæs eða þegir, nýtir ekki málfrelsið til að tjá skoðanir sínar. Hvers kyns þöggun, hvort sem er gegn einstaklingum, hópum eða fjölmiðlum, misrétti eða takmörkun á kosningarétti er skerðing á lýðræði. Lýðræðisleg ákvörðun er upplýst samþykki meirihluta borgaranna. Halda áfram að lesa

Af skattasniðgöngu og „velferð sérhagsmunanna“

Á síðustu tveimur árum hafa 14 einstaklingar haft tæpar fjörutíuþúsund milljónir í samanlagðar tekjur en aðeins greitt 18,8 milljónir í útsvar til sveitarfélaga sinna, sem standa undir milljarða árlegum kostnaði við „innviði“; skólastarf, samgöngumannvirki, veitukerfi, félagsþjónustu o.s.frv. – fyrir m.a. þessa fjórtán. Efsta fólkið á hátekjulista ársins hafði þrettánþúsund milljónir í tekjur en greiddi þrjár og hálfa milljón í útsvar til heimabæjarins. Halda áfram að lesa

Bjarni á Laugarvatni

„ótrauður baráttumaður fyrir hugsjónum sínum“
 
 
 
Gylfi Þorkelsson
(Skrifað sem lokaverkefni í námskeiðinu „Forystuhlutverk stjórnenda í opinberum rekstri“
við Háskóla Íslands, félagsvísindadeild – Opinber stjórnsýsla, MPA, vor 2010)
 

 

Inngangur                       

Um aldamótin 1900 fór bylgja framfarahugsjóna og bjartsýni um íslenskar byggðir. Sjálfstæðisbaráttan var í fullum gangi og ýmsar tækni- og atvinnuframfarir gáfu fyrirheit um betri tíð. Fólk sem var þá á hátindi ævi sinnar, eða ólst í blóma lífsins upp við þessar hugsjónir, er kallað einu nafni „aldamótakynslóðin“. Í þeim hópi var árið 1900 ellefu ára gamall strákur austan úr Landeyjum, Bjarni Bjarnason, síðar jafnan kenndur við Laugarvatn. Þrátt fyrir föðurmissi á unga aldri, flutninga og kröpp kjör í æsku, komst strákur til manns, sótti sér menntun og tók stóran þátt í baráttunni fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu, ekki síst bændafólks, með því að tryggja því aðgang, fyrst að almennri grunnmenntun, en síðar framhaldsmenntun. Halda áfram að lesa

Til Önnu Maríu – 14.08.2024

I

Orð

geta með engu móti

náð

utan um allt

 

II

Engin orð

fá lýst fegurðinni

þegar sólin

skríður upp

á himininn

og speglast

í vatninu heima

 

III

Engin orð

fá lýst fullkomnuninni

í tærri fjallalind

eða bliki

í djúpbláum

augum

 

IV

Engin orð

fá lýst

brumandi

blómknappi

eða brosi

blíðra vara

 

V

Engin orð

fá lýst

fjallasýn

undir heiðum himni

eða hlýjunni

í ástföngnu hjarta

 

VI

Það er gaman

og gott

að vera ungur

og ástfanginn,

leiðast á veg

vitandi

að veröldin

hefur býsnin öll

upp á að bjóða

sem bergja má

endalaust af

með opnum huga,

gjörvri hönd

og hlýju hjarta

 

VII

Þannig ert þú

í pottinn búin

og að þér safnast því

býsnin öll

af heimsins gæðum;

gleði

og góðum stundum

í minningamalinn

 

VIII

Það er gott

og gaman

að vera ástfanginn

og eldast saman,

sitja í innsta hring

og ástvinir

allt um kring

 

IX

„Sól rís,

sól sest“

 

Og þó enginn sé efi

hvort

-aðeins hvenær-

 

fegursta blómið

í beðinu

fölnar og deyr,

 

fagna ber því

 

-hverju sem framtíðin

finna kann upp á-

 

að ferðin hingað

var farsæl

og förunautunum

líklega best

 

„Hvar?“

„Sum skáld fylla margar ljóðabækur, og öldin gerir orð þeirra og hugmyndir að sínum; en svo getur alteins farið að fáar einar línur úr æviverki þeirra lifi þá, og í mörgu falli ekki ein. Ágætur bókmentafrömuður hefur komist svo að orði útaf Söknuði Jóhanns: „Jóhann er eins kvæðis maður og það er honum nóg, margur má una við minna.“ Ég held næstum að óhætt væri að taka meira af: flest skáld verða að láta sér nægja ekki einusinni það. Því þótt þeir hafi ritað þúsund kvæða á þolinmóðan pappírinn, hafa þeir ekki fundið í brjósti þjóðarinnar hið endíngargóða efni er geyma kunni um aldur letur þeirra. Fæst skáld ná því nokkru sinni að skrá letur kvæða sinna í þann stað einn þar sem kvæði eiga heima. Halda áfram að lesa

Er Gunnar Þórðarson ekki nógu fínn fyrir elítuna?

Það var loksins gott efni í sjónvarpinu, þegar sýndir voru tveir heimildaþættir um Gunnar Þórðarson.
 
Flestir hafa áttað sig á snilli hans í gegn um langa, fjölbreytta og farsæla tónlistarsögu.
Það sem hreyfði þó hvað mest við mér var upprifjunin á því hvernig hann var með öllu hunsaður af tónlistarelítunni, óskólagenginn og sjálfmenntaður snillingur, þegar hún neitaði að taka óperuna Ragnheiði til sýninga, svo hann varð að sjá um og standa straum af því sjálfur að setja hana á svið í Skálholti.
 

Halda áfram að lesa

Að kunna ekki að bíta gras

„ … hví ættum vér, sem erum heil þjóð, að horfa í kostnað af fyrirtæki sem eflir fegurðarskyn vort og hefur oss til æðra lífs; alt sem horfir til menníngarauka fyrir þjóðina er ódýrt, hvort sem það kostar mikið eða lítið. Ég veit þeir menn eru til sem fortelja okkur að það sé ódýrast og hagkvæmast að lifa eins og skynlaus skepna og hafa aungva tónlist og aungva leiklist, þeir telja að sá einn ljóður sé á ráði mannkynsins að það kunni ekki að bíta gras.“

(HKL. 1955. Ræða á listamannaþíngi 1950. Dagur í senn (bls. 12). Helgafell, Rvk).

Tilefni ummæla: opnun þjóðleikhúss og stofnun sinfónískrar hljómsveitar.

Sér er nú hver „armslengdin“

Stefán Ólafsson skrifaði á visir.is ágæta grein um afskipti ráðherra af Landsbankanum (14. apríl 2024, sjá hér): „Bankasýslan var sett á stofn til að tryggja aðskilnað stjórnmála frá rekstrarákvörðunum banka í eigu ríkisins í kjölfar bankahrunsins 2008 (svokallað „armslengdar-fyrirkomulag“). Þetta var hugsað þannig að bankar í eigu ríkisins væru einfaldlega reknir á sömu forsendum og einkabankar og ættu að standa sig í samkeppninni á bankamarkaðinum – án afskipta stjórnmálamanna. Halda áfram að lesa

Fátæk þjóð

Fátæk þjóð 1944 – og 2024

Hér að neðan eru birtir bútar úr grein sem Halldór Kiljan laxness skrifaði árið 1944, „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Fátt virðist hafa breyst síðan. Greinin talar beint inn í samtíma okkar árið 2024: þrugl afturhaldsins um listamannalaun, um „ræningjalýðinn“, sem nú er að vísu innlend elíta en ekki útlendingar fyrr á tímum, „sem áttu hlut að Íslandsversluninni“, og í staðinn fyrir þáverandi skort á  nauðsynlegum innviðum; snæri til að hengja sig, spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, er nú langt komið með að eyðileggja velferðarkerfið sem alþýða þessa lands byggði upp á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir einarða andstöðu auðvaldsins. Halda áfram að lesa

Menntun fanga ósáinn akur

Fréttablaðið 4. okt. 2018, bls. 14

Skólahald í fangelsum á Íslandi verður 40 ára í nóvember. Kennslustjóri í fangelsum vill af því tilefni hvetja til skýrari framtíðarsýnar um skólahaldið, og menntun sem besta mögulega betrunarúrræði fyrir fanga, eins og rannsóknir hafa undirstrikað og flestir eru sammála um. 

 

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Fyrsta haustið innrituðust 14 nemendur í iðnskóladeildina á Litlahrauni og tíu árum síðar voru þeir orðnir 20. Árin á eftir var nemendafjöldi svipaður, milli 20-30, en tók síðan kipp árið 2010 þegar námsráðgjafi var ráðinn til starfa. Síðan þá hafa að jafnaði um og yfir 60 nemendur innritað sig til náms. Námsárangur í fangelsum hefur eðli málsins samkvæmt verið upp og ofan. Til að koma til móts við nemendur er skólinn sveigjanlegri en almennt gerist og nemendur fá lengri tíma til að ljúka einstökum áföngum. Enn er margt sem má bæta í fangelsunum til þess að hvetja fanga og gefa þeim tækifæri til menntunar. Það er margtuggin staðreynd að menntun sé lykilþáttur í betrun. Halda áfram að lesa