Spillingarsaga V – Landssímasukkið hið síðara

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023: bls. 299-307).

Elítan í Sjálfstæðisflokknum gjörnýtti sannarlega ríkisfyrirtækið Landssímann til óhæfuverka á markaði. Segja má að frjálshyggjupostularnir hafi ríkisvætt hátæknigeirann og sukkað gróflega með opinbert fé til að koma einkafyrirtæki fyrir kattarnef og hindra samkeppni. Fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar var samið og lagt fram til að drepa Norðurljós og Stöð 2, enda í „óæskilegri eigu“. Þegar sú vegferð (sem væri fullt tilefni til að rekja hér, en einhvers staðar verður að setja mörkin) fór út um þúfur þurfti Davíð að beita öðrum meðulum en löggjafarvaldinu til að drepa samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Elítan hafði fulla stjórn á ríkismiðlunum og nú var Landssímanum beitt eins og hverju öðru stríðstóli gegn hinu voðalega fyrirbæri: „Frjálsri samkeppni“.

Elítan lét ríkisbankana fjármagna Íslandssíma í samkeppni við Landssímann. Á sama tíma var Landssíminn látinn fara hamförum á fjarskiptamarkaði með uppkaupum á fyrirtækjum. Elítan var á öllum póstum, bæði í Íslandssíma og Landssímanum, Páll Kr. Pálsson í Íslandssíma og Þórarinn V. Þórarinsson, fv. forkólfur í samtökum atvinnurekenda (sem klíkan var vel að merkja með fulla stjórn á líka) forstjóri Landssímans um þessar mundir.

Þá kemur aftur til sögunnar sjónvarpsfyrirtækið Skjár einn, sem naut vaxandi vinsælda með „ferskri, íslenskri dagskrárgerð og opinni dagskrá“. Meðal annars var á dagskránni vinsælasti umræðuþátturinn í íslensku sjónvarpi þau misserin, Silfur Egils. Þessar vinsældir og vöxtur fullnægði samt ekki valdaþörf elítunnar, sem vildi allsherjaryfirráð, og byrjaði á því að reka Egil Helgason, sem hefur væntanlega ekki verið nógu talhlýðinn „leigupenni“ fyrir smekk elítunnar.

Á yfirborðinu fóru með Skjá einn ungir sjálfstæðismenn í Kópavogi, Árni Þór Vigfússon og bræðurnir Kristján Ra og Sveinbjörn Kristjánssynir. Enginn utanaðkomandi botnaði í hvaðan þetta sjónvarpsfélag sótti peninga til að standa undir dýrri íslenskri dagskrárgerð.

Síðar (2005), þegar þeir félagar voru dæmdir fyrir stórfelld skattsvik, kom í ljós „hvernig viðskiptanet ungu mannanna úr Kópavogi var samofið viðskiptum Eyþórs Arnalds og aðilum í innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Eyþór var stjórnarmaður og viðskiptafélagi dæmdu mannanna í fjölmörgum fyrirtækjum þangað sem vafasamt fé streymdi inn“ (301), og hafði m.a. komið að kaupum á Skjá einum strax árið 1999.

En sem sagt: Hvaðan komu peningarnir sem héldu Skjá einum á floti?

Auðvitað úr vasa einstaklinga úti í bæ, sem notuðu eigin peninga og áhættu til að stunda heiðarleg viðskipti á frjálsum markaði, eins og frjálshyggjufólk er óþreytandi að lýsa hugsjónum sínum?

Nei, hárrétt hjá þér, lesandi góður. Þetta var illa fengið fé, skafið innan úr fyrirtæki í opinberri eigu, peningar í eigu almennings, sem voru hér misnotaðir í þágu elítubræðra, eins og fyrri daginn – og hinn síðari líka. Og, rétt til getið aftur, úr Landssímanum, þar sem aðalgjaldkerinn reyndist bróðir forsvarsmanns Skjás eins og hafði með fölsun bókhaldsins borað aðrennslisgöng fyrir peninga, hundruð milljóna árum saman, inn í Skjá einn, út úr Landssímanum.

Þessi svikamál (bókhaldssvik og skattsvik) voru fyrir dómstólum 2004 og 2005, og það var ekki fyrr en að þeim loknum sem Eyþór færði sig opinberlega yfir í pólitík, tók við sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Árborg fyrir kosningar 2006 (bls. 300-301).

Spillingarsagan fram að Hruni einkennist af yfirráðum fámennrar klíku yfir fjármunum annarra. „Nokkrir aðaleigenda Skjás eins sem einnig tengdust Japis, Íslandsneti, Íslandssíma og fleiri fyrirtækjum voru samábyrgir fyrir viðtöku stolins fjár úr Landssímanum, hvort sem þeir stóðu fyrir fjárdrættinum eða ekki“ (301) og á sama hátt samábyrgir fyrir stuldi úr ríkissjóði með skattsvikum, að sækja stórfé gegnum vafasöm hlutafjárútboð í OZ og Íslandssíma og að sjúga fé út úr ríkisbönkunum, með stórundarlegum samningum og viðskiptavild (eins og rakið var í fyrri pistlum).

„Til að skilja framhaldið í öllum þessum pólitíska ósóma þurfa lesendur að átta sig á að aðalviðskiptavinur Íslandssíma og Skjás eins var Landssími Íslands! Síminn átti grunnnetið, aðaldreifikerfið og seldi báðum aðilum aðgang og þjónustu sem var stór hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækjanna. Skjár einn lifði því ekki aðeins á stolnu fé frá Landssímanum, fölskum reikningum og óleyfilega keyptum víxlum. Hann lifði á viðskiptavild Landssímans, frestun á greiðslu reikninga, afsláttum og fyrirgreiðslu og samt var Skár einn í stöðugum og viðvarandi fjármagnsvandræðum“ (301-302).

Eimreiðarelítan var samt ekkert af baki dottin. Mjólkurkýr og gullgæs Stöðvar 2 var enski boltinn, en sýningarrétturinn var boðinn út reglulega. Klíkan á bak við Skjá einn stofnaði félag, kallað „Fjörnir“, sem yfirbauð Stöð 2 og hreppti hnossið. Í fyrstu var það háleynilegt hverjir voru þar að baki en síðar kom í ljós að meðal „fjárfestanna“ var enginn annar en Björgólfur Guðmundsson, sem var sannarlega upp risinn eftir Hafskipshneykslið og fangelsisdóm, eftir áfengisævintýri og bjórverksmiðjurekstur í Rússlandi, og þeir feðgar orðnir moldríkir, sonurinn ríkasti maður Íslands og þó víðar væri leitað (það setti lítinn sem engan blett á „gamla“ hér heima að tapa réttindamáli sem samverkamaður í bjórævintýrinu höfðaði, peningarnir og ríkidæmið heillaði landann meira). Björgólfur eldri var þegar hér er komið sögu búinn að koma sér aftur í mjúkinn hjá Eimreiðarelítunni með því að endurreisa Almenna bókafélagið, sem hafði farið á hausinn í höndum Óla Björns Kárasonar nokkru áður, undir nafninu „Nýja bókafélagið“, sem m.a. dældi út áróðursritum fyrir klíkuna, t.d. eftir Hannes Hólmstein, Björn Bjarnason og Ólaf Teit.

Það er lýsandi fyrir óskammfeilni elítunnar að endurvinna nafnið „Fjörnir“, en það var einmitt nafnið á skólablaði Eimreiðarelítunnar sem Kjartan Gunnarsson gaf út í MR á sínum tíma, og birti m.a. umdeilda grein Geirs H. Haarde um „svarta kynþáttinn“ (302). En hvað um það, Davíð, Kjartan Gunnarsson og Brynjólfur Bjarnason keyptu sem sagt ekki enska boltann í eigin nafni, heldur settu Fjörni á svið til hátíðabrigða og til að búa í leiðinni til ágóða fyrir klíkuna.

Og nú hittir þú enn naglann á höfuðið, lesandi góður: „Kaup Landssímans á Fjörni voru tilkynnt 3. september 2004“ (302) og stuttu síðar var Landssíminn búinn að kaupa ráðandi hlut í Skjá einum. Engar upplýsingar voru gefnar um viðskiptin – Landssíminn var jú hlutafélag og undanþeginn upplýsingalögum. Forstjórinn, Brynjólfur Bjarnason, taldi sér á engan hátt skylt að upplýsa um kaupverð, þrátt fyrir að ríkið ætti 98% hlut í Landssímanum, og handhafi þessa hlutabréfs ríkisins, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, taldi að honum bæri engin skylda til að afla þeirra upplýsinga, enda væri þetta hlutafélag. Aðspurður um það hvort hann, sem 98% eigandi hlutafjár, gæti ekki boðað til hluthafafundar til að afla upplýsinga um kaupin, svaraði Geir að Símanum væri ekki heimilt að veita honum upplýsingar umfram aðra hluthafa (305). Hvort var Landssíminn ríkisfyrirtæki eða hlutafélag? Eða hvorugt?

Öllum var auðvitað ljóst að tilgangurinn með þessum snúningum á Landssímanum var pólitísk herför frjálshyggjupostula Eimreiðarelítunnar gegn Norðurljósum og Stöð 2 og meðalið var gerræðisleg „ríkisvæðing“ gegn hinum „frjálsum markaði“.

„Sjónvarpsstöð fjölmiðlaklíku Sjálfstæðisflokksins, Skjár einn, sem áður lifði á stolnu fé frá ríkisfyrirtækinu Landssímanum var keypt af Landssímanum í leynimakki og með yfirhylmingu fjármálaráðherra“ (306), sem er ekta dæmisaga um „að fara vel með fé annarra“, ekki satt?

Hvað um það. Með þessum gjörningi voru öll prinsipp (ef prinsipp skyldi kalla) fjölmiðlafrumvarps Davíðs Oddssonar hrunin til grunna. Takmarkað eignarhald fyrirtækja á fjölmiðlamarkaði var krafan sem sett var fram í frumvarpinu, auðvitað beinlínis til höfuðs Norðurljósum, en ef Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar stjórnaði ráðandi fyrirtækjunum á sama markaði var takmarkað eignarhald ástæðulaust með öllu. Það sér hver maður. Þetta er sem sagt ógeðslegt þjóðfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir …

Þegar þessi flétta var um garð gengin, Skjárinn orðinn hluti af Símanum, var þess ekki lengi að bíða að tilgangurinn kæmi í ljós: Brynjólfur Bjarnason og Orri Hauksson ýttu á flot nýjum pólitískum umræðuþætti, sem beint var gegn Silfri Egils, og þáttarstjórnendurnir auðvitað úr réttu klíkunni: Illugi Gunnarsson og Ólafur Teitur Guðnason.

Það sem er þó „skemmtilegast“ fyrir okkur nú á dögum að vita er að Katrín nokkur Jakobsdóttir var meðstjórnandi þáttarins, til að „ljá þáttunum yfirbragð hlutleysis“ (307).

Katrín, núverandi forsætisráðherra, var sem sagt strax árið 2005 „komin í bland við tröllin“ og farin að láta Eimreiðarelítuna nota sig til að ljá elítuspillingunni yfirbragð heiðarleika og hlutleysis, hlutverk sem hún hefur síðan látið nota sig í eins og gólftusku.

Spillingarsaga IV – Landssíminn  spillingarvæddur

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Landssími Íslands, síðar Landssíminn, réði um miðjan 10. áratug 20. aldar yfir miklum auði og þekkingu í skjóli einokunar á símaþjónustu, m.a. ljósleiðaranetinu. Að honum sneri Eimreiðarelítan græðgisglyrnum sínum, eftir stöðugar ófarir við að koma á fót einkarekinni sjónvarpsstöð (Stöð 3), í valdafíkn sinni yfir fjölmiðlun í landinu.

Fyrsta skrefið var að h/f – væða ríkisfyrirtækið til að komast undan upplýsingalögum, opinberu aðhaldi og lýðræðislega nauðsynlegu gegnsæi.  Pósti og síma, sem réð yfir Breiðbandinu, var skipt upp og Landssíminn síðan h/f – væddur 1997. Davíð setti kosningastjóra sinn og fyrrum framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Friðrik Friðriksson, auðvitað yfir fyrirtækið. Spurður um ráðninguna sagði Friðrik efnislega að það kæmi engum við, hann væri að taka við stjórnun einkafyrirtækis. Skipti þá víst engu máli að fjármálaráðherra íslenska ríkisins færi með eina hlutabréfið. Reyndar vildi svo „heppilega“ til að sá var Friðrik Sophusson, og stuttu síðar Geir H. Haarde, sem fyrir tilviljun voru báðir í Sjálfstæðisflokknum. Þetta var einmitt ráðandi viðhorf fram að hruni (og er víst enn). H/f – uð ríkisfyrirtæki kæmu almenningi ekkert við, jafnvel þó ekki væri búið að selja þau á markaði, heldur væru að öllu leyti enn í eigu ríkisins, almennings.

Eimreiðarelítan ætlaði sem sagt að bjóða, í gegn um Breiðbandið, heimilum landsins upp á fjöldann allan af erlendum sjónvarpsstöðvum, nota einokunarríkisfyrirtækið í beina samkeppni við einkafyrirtæki sem þurftu að byggja sjálf á eigin kostnað upp sitt dreifingarkerfi, koma þeim fyrir kattarnef og sitja síðan ein að veislukostunum (sem reyndust vera peningahirslur ríkisbankanna). Segja má að þetta komi ekki á óvart því það var við Jón Ólafsson að etja, manninn sem hélt vöku fyrir Davíð Oddssyni næturnar langar árum saman, og gerir kannski enn.

Frjáls samkeppni er hér í sinni fegurstu mynd!!! Sannkallaðir hugsjónamenn á ferð!!!

Eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar kærðu þetta umsvifalaust og málið fór fyrir Útvarpsréttarnefnd, sem hafnaði kærunni. Hverjir skyldu hafa setið í útvarpsréttarnefnd? Jú, rétt til getið lesandi góður: Næstaðal úr Eimreiðarhópnum, Kjartan Gunnarsson, var formaður og myndaði ósigrandi meirihluta í þriggja manna nefnd með Bessý Jóhannesdóttur, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins um skeið (bls. 221-224).

En það var ekki nóg að hlutafélagavæða Landssímann. Stefnan var að einka(vina)væða hann, koma eina hlutabréfinu úr eigu almennings, búta það eitthvað upp, og í hendur (réttra) einstaklinga, enda fyrirtækið með yfirburðastöðu á símkerfum, gagna- og efnisveitum sem voru að taka yfir hlutverk gervihnattamiðlunar.

Nýja ríkissjónvarpið, Breiðbandið, var undir dyggri stjórn fyrnefnds Friðriks Friðrikssonar, en lenti enn í vandræðum með Jón Ólafsson sem stofnaði Tal hf. og rakaði til sín viðskiptavinum á farsímamarkaði, m.a. með slagorðinu heilaga: „frelsi“, „Tal-frelsi“, sem hefur sviðið. Því lá á að einkavæða Landssímann, ekki seinna en strax. Það gat tafist af ýmsum ástæðum, m.a. vegna landsbyggðarþingmanna sem voru með væl um jafnan aðgang allra landsmanna að neti og síma og óttuðust að einkaaðilar myndu þjónusta illa fámenn og ógróðavænleg svæði.

Nú voru góð ráð dýr, og Halldór Blöndal, samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem hafði með fjarskiptamál að gera, stofnaði nefnd! Þeir eru nefnilega alveg æstir í nefndir og nefndastörf, félagarnir í þeim flokki. Nefndin átti að skoða framtíðarfjarskipti og meðal útvalinna nefndarmanna var Eyþór nokkur Arnalds.

Þetta var vel til fundið því Eyþór var þá starfsmaður hátæknifyrirtækisins OZ, sem komst á flug skömmu fyrir aldamót, í gegnum ævintýralegt hlutabréfabrask, var kjaftað upp í hæstu hæðir með hjálp fjölmiðla, forsætisráðherrans Davíðs Oddssonar og forsetans Ólafs Ragnars. Landsbankinn og fleiri ríkisfyrirtæki keyptu hlutabréf fyrir háar fjárhæðir í OZ, sem engin innistæða var fyrir, fyrirtækið fór aldrei á alþjóðlegan hlutabréfamarkað eins og logið var að þjóðinni að gerast myndi, ef ekki í gær þá í dag. OZ hrundi á hausinn 2003 og skildi eftir sig stórtjón m.a. í Landsbankanum, sem afskrifaði allt saman. Formaður bankaráðs Landsbankans, sem stjórnaði fjárfestingum banka í eigu almennings, hver var hann eiginlega? Jú, rétt til getið, lesandi góður: Næstaðal í Eimreiðarhópnum, Kjartan Gunnarsson.

Þrátt fyrir allt þetta skipbrot OZ gat eigandinn, Skúli Mogensen, haldið eftir fyrirtækjum í útlöndum, sem hann seldi svo seinna með miklum gróða, keypti fyrir hagnaðinn m.a. hlut í banka á Íslandi, MP banka Margeirs Péturssonar elítumeðlims, og stofnaði WOW Air „til að sigra heiminn – aftur“ (259). Allir vita hvernig það ævintýri endaði.

En þetta var útúrdúr. Eyþór Arnalds, innanbúðarmaður í OZ, hátæknifyrirtækis á einkamarkaði, var sem sagt settur í nefnd til að skoða framtíðarfjarskipti, og gera úttekt á Landssímanum fyrir einkavæðingu. Stjórnvöld skipuðu sem sagt innanbúðarmenn einkafyrirtækja í hátæknigeiranum í nefnd til að rannsaka innviði ríkisfyrirtækis á sama markaði áður en það var einkavætt! Einhverjum gæti dottið í hug að þar yrðu til innherjaupplýsingar. En slíkar hugrenningar væru auðvitað bara öfund í garð snillinga.

Hvað gerðist enda í framhaldinu? Jú, rétt til getið, lesandi góður: Eyþór Arnalds stofnaði með félögum sínum símafyrirtækið Íslandssíma. Það var mikil tilviljun að fyrirtækið var stofnað mánuði áður en skýrsla Eyþórs og félaga í rannsóknarnefndinni á Landssímanum átti að birtast. Eyþór vísaði aðspurður hagsmunaárekstrum á bug, enda myndi hann alls ekki starfa hjá nýja fyrirtækinu. Hann var að vísu orðinn forstjóri Íslandssíma skömmu síðar, en það flokkast víst ekki undir að starfa hjá fyrirtæki að vera forstjóri þess, heldur að vera í forstjóraleik.

Um miðjan 2. áratug líðandi aldar var Eyþór svo orðinn formaður stjórnar Þjóðleikhússins, stofnunar sem Eimreiðarelítan vildi ráða yfir í sínu „menningarstríði“, og 2017 formaður starfshóps um ítarlega rannsókn á innri starfsemi RÚV „og tók þá svipaðan snúning; fór og keypti vænan hluta af hlutabréfum í útgáfufélagi Morgunblaðsins sem einmitt stóð í sjónvarps- og útvarpsþáttagerð í samkeppni við RÚV, allt með undarlegu eyjafléttuláni frá stórútgerðarfélaginu Samherja“ (268). Láni sem var svo afskrifað stuttu áður en Eyþór var dubbaður upp í borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. En þetta er nú „framtíðarmúsík“. Við erum enn stödd við árþúsundamótin.

Haustið 1999 fór Íslandssími formlega í loftið með því að Davíð Oddsson hringdi í félaga sinn í flokknum, Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra. En fyrirtækið var í basli og Orkuveita Reykjavíkur var látin fjármagna ljósleiðaravæðingu í borginni í samkeppni við Landssímann. Tvö fyrirtæki í almannaeigu látin bítast um sama bitann og sóa óhemju af opinberu fé, til þess að einkavinir gætu leikið sér í fyrirtækjarekstri og reynt að efla völd elítunnar á fjarskiptamarkaði. Undirfyrirtæki Íslandssíma, t.d. strik.is, voru í stórvandræðum og fóru á hausinn í stórum gjaldþrotum. Skjár einn var látinn taka á sig hluta af tapinu, annað kom beint úr ríkisbönkunum, m.a. í gegn um samstarfssamning sem gerður var við Landsbankann, sem var þar með orðinn næstum því fjórðungshlutseigandi í Íslandssíma. Búnaðarbankinn átti líka stóran hlut.

Landsbankasamningurinn gerði ráð fyrir margföldu raunverulegu virði Íslandssíma, eins árs gömlu símafyrirtæki sem var ekki enn farið að reka farsímaþjónustu. Íslandssími var þannig í raun gerður að ríkisfyrirtæki bak við tjöldin. Alþingi kom það víst ekkert við. Fjárþörf og rekstraráhætta Íslandssíma var færð yfir á skattborgarana, sem voru auðvitað ekki spurðir um álit á gjörningnum.

„Hlutabréfaútgáfa Íslandssíma snemmsumars 2001 var sú illræmdasta á síðari tímum. Umsjónaraðilar hlutabréfaútgáfu á opinberum hlutabréfamarkaði eiga ekki að vera  stórir hluthafar í viðkomandi fyrirtæki en voru það samt (og eru enn, sbr. einkavæðingu Íslandsbanka 2022), aðstöðumisnotkun og hagsmunaárekstrar voru frekar reglan en undantekningin á valdatíma Eimreiðarelítunnar“ (273).

Það fór því eins og auðvitað var, alveg eins og í OZ hrundu hlutabréf í Íslandssíma eins og spilaborg um leið og þau fóru á markað og viðskipti með þau hófust, enda virðið falsað stórkostlega með fjölmiðlakjaftæði, óheftu fjárstreymi úr Lands- og Búnaðarbönkum, hlutabréfakaupum, lánum á sérkjörum og ómældum þjónustukaupum.

„Í Landsbankanum sat Kjartan Gunnarsson og í Búnaðarbankanum Magnús Gunnarsson“ og saman áttu bankarnir tveir a.m.k. ríflega 30% í Íslandssíma. „Hin margboðaða frjálsa samkeppni á nýja hátæknimarkaðnum reyndist öll á vegum ríkisins, sem keppti við sjálft sig í boði Eimreiðarelítunnar“ (274) í tveimur fyrirtækjum, Landssímanum og Íslandssíma. Báðum auðvitað stjórnað af elítunni.

Það má segja að hin margumtalaða „góða meðferð á fé annarra“ sem hrýtur af munni Sjálfstæðismanna í tíma og ótíma eigi alla vega örugglega ekki við þá sjálfa. Hins vegar má taka undir það með Sjálfstæðismönnum að ríkisrekstur sé til mikillar bölvunar, sé hann í  höndum flokkselítunnar, því þar er sannarlega fólk sem hvorki vill né kann að fara vel með annarra fé, almannafé.

Í ljósi sögunnar af OZ, Landssímanum og Íslandssíma er skiljanlegt að Sjálfstæðismenn í Árborg hafi kallað til sín Eyþór Arnalds til að setjast yfir sjóði sveitarfélagsins. Þeir munu ekki hafa haft yfir að ráða neinum öðrum sem átti sér jafn litríka sögu í því að „fara vel með annarra fé“.

Sagan af spillingunni á fjölmiðla- og hátæknimarkaðnum er bæði löng og flókin, sannarlega ógeðsleg. Hér hefur einungis verið tæpt á nokkrum atriðum og eru lesendur þessara lína hvattir til að kynna sér málið nánar með því að lesa bók Þorvaldar.

Í næsta pistli, og þeim síðasta, verður reynt að ná utan um einkavæðingu ríkisbankanna, helmingaskiptaspillingu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins með Landsbankann og Búnaðarbankann.

Sú saga er engin vögguvísa.

 

Spillingarsaga III – BÚR í Hvalskjaft

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Áður en kemur að Landssíma Íslands, einhverju hroðalegasta dæminu um einkavæðingarspillingu í Íslandssögunni, er gott að skoða upphaf spillvæðingarinnar.

Eitt fyrsta verk Davíðs Oddssonar, eftir að hann tók við embætti Borgarstjóra í Reykjavík 1983, var að hefja einkavæðingarferli Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ferlið hófst með því að Davíð „rak umsvifalaust tvo framkvæmdastjóra BÚR og réð stórvin sinn og félaga úr Eimreiðarhópnum, Brynjólf Bjarnason, sem framkvæmdastjóra, án auglýsingar. Mann sem aldrei hafði stýrt útgerð en hafði góða reynslu af bókaútgáfu Sjálfstæðisflokksins í Almenna bókafélaginu“ (bls. 103).

Næsta skref var að sameina BÚR og Ísbjörninn, í leynimakki Davíðs og elítunnar, að baki borgarstjórnar og starfsfólks. Fyrst voru þó tveir togarar BÚR seldir á undirverði og peningum dælt úr borgarsjóði inn í fyrirtækið til að hreinsa upp skuldir. Ísbjörninn var fyrirtæki á vonarvöl, í eigu Kolkrabbans og valdamanna í Sjálfstæðisflokknum. Eignir Ísbjarnarins voru gróflega ofmetnar en eignir BÚR gróflega vanmetnar, kvótinn metinn nánast verðlaus við sameininguna, en varð auðvitað verðmætasta eignin þegar nýtt fyrirtæki, Grandi, tók til starfa á grunni BÚR og Ísbjarnarins. 180 manns var sagt upp. Síðar voru 90 endurráðnir.

Opinberlega var því haldið á lofti að selja ætti Granda einstaklingum sem kaupa vildu í „opnu útboði“ svo fyrirtækið yrði í „dreifðu eignarhaldi“ (hafið þið heyrt þennan áður?) í anda „hugsjóna nýfrjálshyggjunnar“.

Raunin varð auðvitað allt önnur. Áður en kom að almennu hlutafjárútboði barst skyndilega „óvænt tilboð“ af himnum ofan, tilboð sem var svo hagstætt að það varð bara að taka því undir eins, svo það rynni ekki úr greipum! Og hverjir skyldu  svo hafa sent inn þetta tilboð sem var of gott til að hægt væri að hafna því?

Jú, rétt til getið, lesandi góður: Fyrirtæki innmúraðra klíkubræðra úr Sjálfstæðisflokknum: Hvalur hf., Venus hf. og Hampiðjan, í samstarfi við Sjóvá, „höfuðvígi Engeyjarættarinnar“.

Verð hlutarins í Granda var svo hagstætt (fyrir kaupendurna, vel að merkja) að borgin fékk sama og ekkert í sinn hlut fyrir BÚR, eitt stærsta útvegsfyrirtæki landsins, en innvígðir „auðmenn í Sjálfstæðisflokknum högnuðust gríðarlega“ (104-105).

Þetta er í stórum dráttum aðferðafræðin við einkavæðingu almannafyrirtækja allar götur síðan: Koma einkavinum fyrir í stjórnunarstöðum, dæla fé í eigu almennings inn í fyrirtækin og selja þau síðan einkavinum (og fjölskyldumeðlimum) á undirverði. Hinir pólitísku vildarvinir ganga svo frá borði með digra sjóði, peninga sem áður voru í eigu almennings. Aðferð sem Eimreiðarelítan lærði m.a. af  Tatcher og Reagan, helstu hershöfðingjum nýfrjálshyggjunnar gegn almannahagsmunum úti í hinum stóra heimi.

Þetta var bara upphafið að þeirri valdasamþjöppun í sjávarútvegi sem framundan var, og unnið var að í langan tíma á bak við tjöldin. Grandi sameinaðist þegar tímar liðu stórútgerð HB á Akranesi og til var orðinn sannkallaður risi.

Á sama tíma og BÚR var einkavædd unnu helmingaskiptaflokkarnir meðfram að einkavæðingu auðlindanna, skref fyrir skref, m.a. með lagabreytingum í helmingaskiptasamráði, til að koma veiðiréttinum á Íslandsmiðum í einkaeigu: Kvótakerfið illræmda.

Spillingarsaga II – að „fara vel með annarra manna fé“

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar, Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf., Reykjavík 2023).

Í síðasta pistli var rakin árásin á Ríkisútvarpið. Það er fróðlegt að skoða þá umfjöllun í samhengi við viðtal við Auðun Georg Ólafsson í Heimildinni #26 (26. tbl., 1. árg. 20.-26. okt. 2023, bls. 24-28). Þar kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði, auðvitað í samkrulli með Framsóknarflokknum í helmingaskiptaspillingunni, að munstra í fréttastjórastólinn hjá fréttastofu sjónvarpsins einstakling sem ekki var metinn faglega hæfastur, en klíkan taldi að yrði sér leiðitamari en aðrir umsækjendur. Ráðningunni var harðlega mótmælt.

Reyndar hafði starfsfólk áður samþykkt vantraust á útvarpsstjóra Eimreiðarklíkunnar, Markús Örn Antonsson, vegna annarra embættisfærslna hans, svo þessi pólitíska ráðning olli enn meira uppnámi fyrir vikið. Auðun rekur það í viðtalinu að hann hafi ekki verið sá pólitíski dindill sem talið var, en að hann hefði haft skilning á því að ráðningu hans hafi verið mótmælt af starfsfólki, sem krafðist faglegra vinnubragða við mannaráðningar.

Athyglisverðara úr viðtalinu er þó að Auðun upplýsir að fulltrúi valdaelítunnar hefði hringt í hann og hótað honum, þegar þefaðist upp að hann hygðist hætta við að þiggja starfið vegna innanhússmótmæla á fréttastofunni. Hann myndi súpa seyðið af því – m.a. með hindrunum sem lagðar yrðu fyrir hann á vinnumarkaði í framtíðinni. Eftir hroðalegar móttökur á vinnustaðafundi gekk hann samt sem áður út úr Útvarpshúsinu og koma þangað ekki aftur.

Í bókinni er rakið ítarlega hvernig Eimreiðarelítan gerði ítrekaðar tilraunir til að koma á fót eigin fjölmiðlaveldi með útsmognum fléttum, annars vegar yfirtökum á þegar starfandi „fyrirtækjum á markaði“ og hins vegar með stofnun eigin fyrirtækja. Þetta er flókin og löng saga sem m.a. tekur til stríðs við Jón Ólafsson og Jón Ásgeir um yfirráð yfir ráðandi fjölmiðlun, þar sem við sögu koma Íslenska útvarpsfélagið, Stöð 2, Stöð 3, Skjár einnn, Bylgjan, Sýn, Ísfilm, Landssíminn, Íslandssími o.fl. o.fl. o.fl. fyrirtæki, sem flestir eru búnir að gleyma að nokkurn tíma hafi verið til.

Allar þessar tilraunir klíkunnar runnu út í sandinn, allt fór á húrrandi hausinn trekk í trekk, þrátt fyrir að ólgandi stórfljót peninga hafi runnið í þetta sukk af opinberu fé, úr Landssímanum og Landsbankanum, Orkuveitu Reykjavíkur hinum stóru bönkunum og úr fleiri áttum.

Eimreiðarelítan og stjórnmálaarmur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, er nefnilega með sérþekkingu á því, og langa sögu um að nota annarra fé í eigin þágu, að misnota ríkisfyrirtæki og dæla úr þeim peningum í valdabrölti sínu. Þess vegna var það hrollvekjandi að eitt það fyrsta sem haft var eftir nýjum fjármálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu, að hún hygðist leggja áherslu á að „fara vel með peninga annarra“.

Fyrst verkið verður framhald á misnotkun á hlut ríkisins í Íslandsbanka, því sem eftir er, síðan hvert ríkisfyrirtækið af öðru og almannaþjónustustofnanir. Eina leiðin til að stöðva þetta einkasukk helmingaskiptanna er að kjósa spillinguna burt.

Í næsta pistli verður upphaf nútíma spillingarvæðingar, einkavæðing  BÚR, og upphaf auðlindaránsins, rakin í stuttu máli.

Spillingarsaga I – Glæpur skekur ríkisútvarpið (skrifað 15.10.2023)

Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar: Eimreiðarelítan – Spillingarsaga  (Steinason ehf. Reykjavík, 2023, bls. 111-116).

Hinn víðfemi forarpyttur Kolkrabbans sem hefur seitlað úr um allt þjóðfélagið, a.m.k. allan lýðveldistímann fram á okkar daga, er illþefjandi. Eimreiðarelítan komst til valda í borginni, og Sjálfstæðisflokknum með kjöri Davíðs Oddssonar upp úr 1980, og hóf þegar gegndarlausa valdasókn á öllum sviðum samfélagsins. En löngu fyrr var hafið „menningarstríð“, með stofnun Almenna bókafélagsins 1955.

Tveimur áratugum síðar, 1974, skrifar Hrafn Gunnlaugsson Matta J, ritstjóra Morgunblaðsins, bréf þar sem hann skorar á MJ að hjálpa sér við að yfirtaka RÚV og fleiri menningarstofnanir, t.d. Þjóðleikhúsið, fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nefnir hann nokkra heppilega menn í þessa hernaðaráætlun, m.a. Davíð Oddson auðvitað, Baldur Hermannsson og Rúnar Gunnarsson.

Í framhaldinu, 1979, gaf Kjartan Gunnarsson út ritið „Uppreisn frjálshyggjunnar“ þar sem Eimreiðarelítan lýsti „nauðsyn þess að sækja fram til hugmyndafræðilegra valda á öllum sviðum“ (bls. 112) í fjölmiðlum, útgáfu, meningu og skólakerfinu. Þáttur í því voru mccarthyísk skrif Hannesar Hólmsteins um háskólakennara, m.a. Pál Skúlasom heitinn, í tilraun til að bola þeim burt með níðskrifum.

Síðar, „fyrir tilviljun“, var Hrafn Gunnlaugsson kominn í öll sæti, hringinn í kringum borðið. Hann þáði háa styrki úr Kvikmyndasjóði og var á sama tíma í stjórn sjóðsins, naut fordæmalausrar fyrirgreiðslu innan RÚV á meðan hann var þar dagskrárstjóri og framkvæmdastjóri. Hann var framkvæmdastjóri Listahátíðar, stjórnarformaður Kvikmyndasjóðs, Menningarsjóðs útvarpsstöðva, kvikmyndaframleiðenda, framleiddi fjöldann allan af sjónvarpsmyndum og -þáttum fyrir RÚV eftir eigin handriti, seldi stofnuninni sýningarrétti á eigin kvikmyndum í fyrir fram sölu. Hann var skipaður í nefnd til að endurskoða lög um kvikmyndasjóð og settist í stjórn sjóðsins eftir lagabreytingarnar, sótti um styrki og fékk auðvitað úthlutað hærri styrkjum úr sjóðnum en allir aðrir. Hann var í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva, á sama tíma og hann var dagskrárstjóri RÚV, og afgreiddi þar eigin umsóknir fyrir verkefni sín og elítunnar.

Hrafn lét RÚV að auki kosta eigin myndir eftir smásögum Davíðs: Mynd Hrafns Gunnlaugssonar, kvikmyndagerðarmanns, Opinberun Hannesar, eftir smásögu Davíðs Oddssonar, Glæpur skekur húsnæðisstofnun, lét Hrafn Gunnlaugsson dagskrárstjóri RÚV Ríkisútvarpið kaupa óséða, veitti framleiðslustyrk og frumsýndi á nýársdag 2004.

Sannkallaður snillingur. Svo heldur fólk að nokkrir útrásarvíkingar síðustu árin fyrir Hrun hafi verið einu „djöfulsins snillingarnir“ hér á landi.

Innan við 20 árum eftir bréf Hrafns til Matthíasar var Eimreiðarklíkan komin með öll völd yfir Ríkisútvarpinu. Markús Örn var tvívegis gerður að útvarpsstjóra, og borgarstjóra í millitíðinni. Hrafn sjálfur dagskrár- og framkvæmdastjóri og Baldur Hermannsson dagskrárstjóri í afleysingum fyrir Hrafn, Rúnar Gunnarsson aðstoðarframkvæmdastjóri og síðar framkvæmdastjóri, Hannes Hólmsteinn og Baldur fengu kostun á þætti fyrir pólitíska endurritun sögunnar, Ingvi Hrafn Jónsson var gerður að fréttastjóra, Elín Hrist, góðvinkona Kjartans og þá gift kosningastjóra Davíðs, orðin fréttamaður og síðar fréttastjóri.

Eins og þetta sé ekki nóg, þá var Gísli Marteinn, úr ungliðahreyfingu flokksins og „Hannesaræskunni“, látinn stjórna Kastljósi, eina pólitíska umræðuþættinum í „sjónvarpi allra landsmanna“, og tók m.a. fræg drottningarviðtöl við leiðtogann mikla, Davíð Oddsson.

Og ekki er allt upp talið. Á þessum tíma voru Kjartan Gunnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formenn útvarpsráðs hvert á fætur öðru, eins konar Lykla-Pétrar að yfirtökunni.

Svo tala íhaldsmenn samtímans um „vinstri slagsíðu“ á fréttastofu RÚV.

Það sem að ofan er rakið er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum um hið „maðkaða mjöl“ sem þjóðinni hefur verið boðið til áts síðustu 40-50 árin, á valdaskeiði Davíðs Oddssonar og Eimreiðarelítunnar.

Fleiri dæmi verða rakin hér, svona smám saman.

Er Reykjavík verst rekna sveitarfélagið?

Mikið hefur verið rætt og ritað um slaka fjárhagsstöðu sveitarfélaganna undanfarið – og sú umræða hefur svo sem verið viðvarandi í áratugi, a.m.k. allar götur sína ég hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum fyrir kosningarnar 2002. Nýlega var t.d. staða Árborgar í fréttum, og í kjölfarið uppsagnir hátt í 60 manns, auðvitað mest láglaunafólks sem síður má við skakkaföllum skv. yfirlýsingum stéttarfélaga á svæðinu.
 
En hvað mest áberandi hefur verið stöðugur „fréttaflutningur“ (set þetta orð innan gæsalappa, því „söguburður“ væri meira viðeigandi í ljósi þess sem síðar kemur fram) af stöðu Reykjavíkurborgar, sem skv. „bestu og traustustu miðlum“ (set þetta innan gæsalappa því vísað er í Morgunblaðið og miðla þess) er að þrotum komin og að því er virðist af sögunum eina sveitarfélagið sem á í vanda.
Því var það upplýsandi að lesa samantekt í Heimild dagsins um stöðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur skýrt fram að Reykjavíkurborg stendur fjárhagslega hvað best allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og MUN BETUR en flest nágrannasveitarfélögin sem samt verja hlutfallslega MUN MINNA fé af skatttekjum til félagslegra úrræða. Þetta hafði Þorvarður Hjaltason líka bent á fyrir ekki löngu síðan í ágætri úttekt á Facebook, með því að rýna í tölur í Árbók sveitarfélaganna, ef ég man rétt.
 
Skuldahlutfall A-hluta reksturs Reykjavíkur, þess hluta sem fjármagnaður er með skatttekjum, var 112% um síðustu áramót, sem vissulega er neikvæð staða, skuldir eru meiri en tekjur. Kópavogsbær er á pari við Rvk. með 111% en Hafnarfjörður 136%, Mosfellsbær 133% og einka- og erfðasvæði Sjálfstæðisflokksins, Garðabær (125%) og Seltjarnarnes (130%) skulda bæði mun meira umfram tekjur en Reykjavík, þrátt fyrir að nota miklu minna af skatttekjum til félagslegra úrræða. Hvers lags fjármálaóreiða og óstjórn er þar á ferðinni?
 
Ef litið er til skulda á hvern íbúa þá er staða Reykvíkinga líka mun betri en annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hver Reykvíkingur þyrfti að reiða fram kr. 1.247.000,- ef gera ætti upp skuldirnar, Hafnfirðingurinn 1.695.000, Mosfellingurinn 1.502.000, Garðbæingurinn 1.530.000 og Seltirningurinn 1.455.000. Aðeins Kópavogsbúinn slyppi með lægri greiðslu en Reykvíkingurinn, eða 1.209.000.
 
Þriðja atriðið er sk. veltufjárhlutfall, sem segir til um peningalega stöðu um áramót, lausafjárstöðu sveitarsjóðs, og hvort sveitarfélagið eigi fyrir launagreiðslum, afborgunum og öðrum útgjöldum á komandin ári. Ef veltufjárhlutfallið er 1,0 eða hærra sleppur það til en ef það er undir 1,0 þarf að taka lán fyrir nauðsynlegum útgjöldum, spara með því t.d. að segja upp fólki, selja eignir eða grípa til viðlíka aðgerða.
 
Þó undarlegt megi virðast miðað við Moggann, þá er veltufjárhlutfall Reykjavíkur betra en allra nágrannasveitarfélaganna, eða 1,1. Hafnfirðingar áttu líka lausafé fyrir útgjöldum með hlutfallið 1,0 en öll hin voru í mínus: Kópavogur 0,4, Garðabær 0,6, Mosfellsbær 0,6 og Seltjarnarnes 0,4.
Ofan á þetta bætist að rekstur Reykjavíkur er þyngri en allra hinna sveitarfélaganna vegna yfirburða höfuðborgarinnar þegar kemur að félagslegri þjónustu við íbúana, skv. tölum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2021.
 
-74% allra félagslegra íbúða á þessu svæði eru í Reykjavík.
-Hver íbúi í Rvk. greiddi 269.877 kr vegna veittrar félagsþjónustu, hver Kópavogsbúi 142.701, hver Garðbæingur 145.349, hver Seltirningur 155.326.
-30% af skatttekjum Reykvíkinga fóru í félagsþjónustu en 16% í Garðabæ og 18% á Seltjarnarnesi.
-Reykvíkingar greiða líka mest allra per íbúa í fjárhagsaðstoð og þjónustu við aldraða.
 
Í B-hluta rekstrar sveitarfélaga eru fyrirtæki í fullri eða hlutaeigu þeirra, t.d. Orkuveitan og Félagsbústaðir í Rvk. en einnig fyrirtæki sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga og reka sameiginlega. Þessi fyrirtæki geta skuldað háar upphæðir og því er freistnivandi að bæta þeim skuldum inn í heildarskuldastöðuna til að dæmið líti verr út, jafnvel þó fyrirtækin skili miklum arði og séu fullfær um að borga skuldir sínar án þess þurfi að nota beinar skatttekjur til þess.
 
Af þessu má ráða að umræðan um skuldavanda og óstjórn við rekstur Reykjavíkurborgar er ekki aðeins byggð á sandi, heldur er um beinar blekkingar að ræða og pólitískan áróður, því það er náttúrulega óþolandi að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni ekki borginni, og mun vænlegra að koma henni í flokk með þeim nágrannasveitarfélögunum sem Flokkurinn stjórnar, sveitarfélögum sem skulda meira per íbúa og hafa bæði verra skuldahlutfall og veltufjárhlutfall en höfuðborgin, undir stjórn hins voðalega Dags B. Eggertssonar og félaga hans.
 
Þegar allt kemur til alls eru sveitarfélögin í rekstrarvanda. Ríkisvaldið hefur velt yfir á þau hverju vanfjármagnaða verkefninu af öðru undanfarna áratugi, grunnskólunum, öldrunarþjónustu, málefnum fatlaðra o.s.frv.
 
Upphrópanir íhaldsins í Reykjavík og áróðurssnepils þess og auðstéttarinnar í landinu um óstjórn Reykjavíkurborgar, en æpandi þögn um VERRI STÖÐU nágrannasveitarfélaganna sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar og hefur gert lengur en elstu menn muna, standast enga skoðun.
Það ættu þeir sem bergmála áróðurinn að hafa í huga.
 
Gæti verið mynd af texti
 
,

Það er þessi dagur í dag

Það er þessi dagur í dag. Og þetta er fertugasti og fyrsti 19. apríllinn okkar!. Þau eru því orðin fjörutíu árin sem við Anna María höfum stigið sporin saman, oftast í góðum takti, þó auðvitað hafi komið fyrir að ég stigi á tærnar á henni, klunninn sem ég er. Ekki þarf að orðlengja það, en gæfan hefur slegist í för, barnalánið er mikið – og vonandi nokkur góð ár eftir til að njóta samvista við hópinn okkar, sem brátt telur 24 fallega og góða einstaklinga.

Af þessu tilefni fékk ég Labba í Mánum til að syngja fyrir mig kvæðisbút sem ég samdi við þekkt lag sem okkur er kært, og tengill er á hér efst á síðunni:

Ástin mín

Lífs míns á vegi
vakir enn minningin,
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.
 
Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.
 
Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina’ og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá skil – þar duga skammt
skilningarvitin.
 
Dásemdir hreinar,
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.

 

 

Af menningarnámi, rasisma og kvenfyrirlitningu

Margt er miður fallegt í menningarsögunni. Nýlendukúgun, arðrán, þjóðarmorð, þrældómur, kynhneigðarkúgun, lista- og menningarrán. O.s.frv. Grundvöllur velsældar „hins vestræna heims“ er ekki falleg saga. 

Nú er mjög til umræðu hvað má og hvað má ekki. Gamlar „barnagælur“ eru bannaðar vegna rasisma í orðfæri og viðhorfum til blökkumanna. Gömul málverk í stofnunum mega ekki lengur hanga þar á veggjum því þær minna á aldalanga kúgun og hlutgervingu kvenna. Ófatlaður maður má ekki leika fatlaðan á sviði Þjóðleikhússins af því það er niðurlægjandi og dæmigert fyrir jaðarsetningu og útskúfun fatlaðra. Ekki má dubba fólk af hinum hvíta kynstofni upp í asískt gervi í óperu sem gerast á í Japan, því það er menningarnám, niðurlægjandi tákn um ofríki og menningarlega nauðgun hins vestræna heims. Deilt er um hvort breyta megi bókmenntaverkum fyrri tíma til að þau falli að smekk nútímans – að „rétthugsun“ hins upplýsta og frjálslynda nútímamanns, þar sem ekkert ER lengur, enginn sameiginlegur grundvöllur að standa á, heldur einungis þær tilfinningar og „upplifanir“ sem hrærast innan þess sólkerfis sem hver og einn einstaklingur er. Kynin eru ekki lengur tvö heldur jafnmörg þeim lífverum sem teljast til tegundarinnar homo sapiens. 

Við hjónin fórum á sýningu Íslensku óperunnar, Madama Butterfly e. Puccini. Sýningin komst í fréttirnar þegar hljóðfæraleikari í Synfóníunni kvartaði undan því menningarnámi sem felst í því að hvítir voru farðaðir sem asískir. Þátttakandi í sýningunni „kom fram“ og lýsti óhugnaði sínum yfir því að hafa tekið þátt í þessari aðför að japanskri menningu og lýsti því yfir að hann myndi ekki taka þátt í þessu framar – þ.e. að láta farða sig. Fólk skiptist óðar í tvær fylkingar um þetta málefni. 

Sýningin var ljómandi. Söngurinn var framúrskarandi, svona eins og vit mitt gagnast til að dæma um það. Hye-Youn Lee söng aðalhlutverkið og heillaði óperugesti. Stórkostleg söngkona. Sjálfsagt er það heppilegt í ljósi umræðunnar að hún er einmitt japönsk sjálf. Arnheiði Eiríksdóttur, sem syngur líka afbragðsvel, þurfti hins vegar að farða og klæða í japanska þjónustu, og fleiri lentu í þeim menningarfasisma. Egill Árni Pálsson söng hitt aðalhlutverkið og þessi gamli nemandi minn úr Reykholtsskóla gerði það listavel. Og allir söngarvar stóðu sig vel, þannig að tónlistin naut sín og hreyfði við áheyrendum, jafnvel gömlum þverhaus eins og undirrituðum.

Ekki verður því neitað að sagan í óperunni er alveg dæmigerð óperusaga fyrri tíðar. Þetta er hefðbundin karlrembusaga; konan er saklaust og viðkvæmt blóm, í erfiðri félagslegri og efnahagslegri stöðu, sem er „bjargað“ af forríkum karli, sem svíkur hana auðvitað við fyrsta tækifæri, og hún, með öllu ósjálfbjarga þegar karlsins nýtur ekki við, drepur sig í örvæntingu ástarsorgar í lok leiksins. Um þetta eru nánast allar klassískar óperur.

Og sagan endurspeglar líka ofríki hins vestræna, hvíta heims. Bandaríska herveldið veður yfir japanska þjóð. Hvítur herforingi veður yfir japönsku kvenþjóðina. Forríkur, hvítur, miðaldra karl veður yfir fátæka alþýðu.

Það er margt ógeðfellt í þessari sögu, sem „gerist snemma á síðustu öld“ eins og óperustjórinn skrifar í aðfararorðum sýningarskrár. Þar segir Steinunn Ragnardóttir líka að umfjöllunarefnið sé „tímalaust því tilfinningar okkar breytast ekki og mennskan verður alltaf söm við sig“ og að óperan fjalli „um ódauðlega ást og vonina sem veitir tilgang í ömurlegum aðstæðum.“ Vonin sé „eitt sterkasta aflið sem við eigum og svo lengi sem hún lifir getum við umborið næstum allt.“

Það stakk mig ekki að hvítir leikarar og söngvarar hafi verið farðaðir og dubbaðir upp í japönsk klæði. Það er einmitt það sem leikarar gera; þeir setja sig í gervi annarra, „leika“. Þess vegna köllum við svona gjörning „leikrit“. Og ekkert við það að athuga.

Hins vegar gætu alvöru baráttumenn fyrir frelsi, jafnrétti og efnahagslegum jöfnuði hafið upp raust sína með fullum rétti. Því ef  sagan sem óperan segir er dæmi um þær tilfinningar og þá mennsku sem við viljum að verði alltaf söm við sig, lýsi þeirri ást sem við viljum að sé ódauðleg og þá von sem við viljum bera í brjósti til að umbera næstum allt – ja, þá er illa komið fyrir mannkyninu. Viljum við að konur séu valdalausar gólfmottur fyrir ríka karla? Viljum við að eina von fólks í „fjarlægum“ heimsálfum sé að forríkur karl úr velsældarheimi bjargi því úr tilgangsleysi og vonleysi eigin lífs og menningar? Viljum við að hugmyndin um hina sönnu, ódauðlegu ást byggist á því að konan sé undirlægja, sem á hvorki framtíð né von án karls? Forríks auðvitað.

Mín tillaga er að Íslenska óperan hætti að birta þýðingar á texta verkanna á sjónvarpsskjám í salnum. Þá gæti fólk notið tónlistarinnar og söngsins, óvitandi um og ótruflað af allri þessari kvenfyrirlitningu, nýlendufasisma, kúgun og menningarnámi sem frásögnin er uppfull af og er matreidd ofan í það á skjáum. 

Fyrir utan það hve mikill endemis leirburður textinn er.

Tímamót

Eftir langan tíma, sennilega of langan, hef ég ákveðið að hætta sem formaður Körfuknattleiksfélags Selfoss og segja mig frá ábyrgðarstörfum fyrir félagið. Þetta hef ég nýverið tilkynnt félagsmönnum. Ég hef nú verið formaður þess undanfarin 8 ár, samfellt frá 2015, og virkur þátttakandi „ofan, neðan og allt um kring“ frá stofnun þess árið 2005.

En þessi saga teygir sig lengra aftur í tímann, til ársins 1993 þegar ég kom á Selfoss sem nýráðinn þjálfari hjá Körfuknattleiksdeild Umf. Selfoss. Fáum árum seinna tók ég við sem formaður deildarinnar, og gegndi því embætti, jafnframt þjálfun m.fl. og yngri flokka, til 2002, þegar bæjarstjórn Árborgar og sveitarstjórnarpólitíkin kom til.

Þetta eru því orðin 30 ár. Heil þrjátíu ár, eða hálf ævin, sem ég hef lagt líf og sál í uppbyggingu körfubolta á Selfossi. Og þrettán ár helgaðar íþróttinni má telja til viðbótar, allt frá 1980, þegar ég fór að heiman til náms í Reykjavík og byrjaði að æfa og spila með Val í úrvalsdeild, síðan ÍR, Reyni Sandgerði sem spilandi þjálfari, og loks Keflavík, áður en meiðsli enduðu ferilinn í efstu deild og landsliðinu árið 1987.

Við tók þjálfun Laugdæla í 1. deild og síðan Selfoss 1993, sem þá var í 2. deild, en fór upp í 1. deild vorið 1994 og þar hefur karlalið Selfoss verið síðan, að þremur árum undanskildum, þegar félagið lék í Úrvalsdeild, 2008-2010 og aftur 2015-2016.

Grunnurinn var auðvitað lagður mun fyrr, við barnsaldur, þegar körfubolti var „þjóðaríþrótt“ á Laugarvatni og margar ógleymanlegar stundir lifa í minninu úr gamla íþróttasalnum heima við Héraðsskólann, og úr félagsheimilum vítt og breitt um Suðurland, fyrst að fylgjast með eldri bræðrum mínum í liði UMFL og HSK og síðan sem virkur þátttakandi í skólaliðum Héraðsskólans og Menntaskólans, og liði UMFL í HSK-mótinu. Við fengum, nokkrir guttar á fermingaraldri, að stofna C-lið Umf. Laugdæla til að geta verið með í HSK mótinu, sem var mikið ævintýri, og síðan lá leiðin framar í stafrófið.

Sko, þetta átti nú ekki að verða ævisaga! Körfubolti er hins vegar svo fyrirferðarmikill að hann fléttast við líf mitt allar götur frá því ég man eftir mér.

En hvað hefur þá áunnist? „Hvað hefur orðið okkar starf í sexhundruð sumur? Höfum við gengið til góðs ….“?

Auðvitað er allt fólkið efst á blaði. Óteljandi vinir og kunningjar um allt land, þjálfarar, leikmenn, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar, dómarar, og síðast en ekki síst velviljaðir forsvarsmenn fyrirtækja.

Það hefur verið meira en að segja það að koma körfubolta, „móður allra íþrótta“, á legg á Selfossi. Það hefur lengst af verið harðdrægt verkefni, í knattspyrnu- og handboltabæ, að ætla sér eitthvað með körfuboltalið, annað en að gutla að gamni sínu frá 21.30-23.00 tvisvar í viku, eins og úthlutaðir æfingatímar í íþróttahúsi bæjarins voru fyrstu árin. Það eru ósambærilegar aðstæður við bæjarfélög þar sem körfubolti er aðal boltagreinin innanhúss, eða jafnvel sú eina marktæka.

Það hjálpaði okkur að á 10. áratug 20. aldar reið yfir heiminn „Jordan-æði“, og smitaði meira að segja nokkra krakka á Selfossi, sem voru upphafið að skipulögðu yngriflokkastarfi með reglulegri þátttöku á opinberum mótum körfuboltasambandsins. „Fyrsta bylgjan“ reis hæst með tveimur Íslandsmeistaratitlum 1985 árgangsins, í 7. flokki drengja árið 1998 og 10. flokki drengja árið 2001, og nokkrum leikmönnum sem voru valdir í yngri landslið og spiluðu landsleiki. Bæði ´84 og ´85 árgangarnir spiluðu á efsta stigi, í A-riðli Íslandsmóts yngri flokka, og ungir menn af Jordan-kynslóðinni, fæddir á árunum kringum 1980, urðu kjarninn í meistaraflokksliðinu. Sá sem náði lengst af þeim var Marvin Valdimarsson sem átti langan og glæsilegan feril í efstu deild, fyrst með Hamri og síðar Stjörnunni. Fleiri mætti nefna, sem glatt hafa félagsmenn með frammistöðu sinni í Iðu og Gjánni, og gert sig gildandi í deildakeppninni hérlendis, en það verður ekki gert hér.

Árið 2005 urðu umskipti í sögu körfuboltans á Selfossi þegar Brynjar Karl Sigurðsson stofnaði körfuboltaakademíu við Fjölbrautaskólann. Umskiptin urðu fyrst og fremst á afrekssviði, og höfðu ekki bara áhrif á körfubolta, heldur umbyltu algerlega öllu afreksstarfi og -hugsun í íþróttahreyfingunni á Selfossi. Stofnað var nýtt íþróttafélag, körfuknattleiksfélag utan ungmennafélagsins, og hefur sú skipan haldist síðan: Körfuknattleiksfélag Selfoss blómstrar sjálfstætt og óháð.

Megináherslan í nýja félaginu, sem fyrstu árin var kennt við FSu, var á akademíuna og afreksstarf, sem var mikilvægt og nauðsynlegt, en minni áhersla var á barna- og unglingastarfið. Því trosnaði þráðurinn á tímabili og félagið saup seyðið af því, þegar leikmenn sem tóku sín fyrstu skref fyrir og upp úr aldamótum fóru smám saman að draga sig í hlé, en engir komu í staðinn.

Síðasta áratuginn eða svo hefur þessu verið kippt í liðinn og nú er mjög stór hópur afar efnilegra leikmanna úr „annarri bylgjunni“ að tínast inn í meistaraflokksliðið, að stærstum hluta f. 2006, „strákarnir hans Kalla“, og óslitinn þráður þaðan niður í leikskólaaldur. Úr þessum hópi hafa bæst við nokkrir landsliðsmenn yngri landsliða, leikmenn aldir upp hjá félaginu.

Félagið stendur því styrkum fótum, bíður eins og efnilegt tryppi að „grípa gangsins flug“. Innra starfið er að stórum hluta komið í fastar og traustar skorður, reksturinn er í jafnvægi réttum megin við núllið, yngriflokkastarfið, mikilvægasta auðlindin, er í öruggum höndum öflugs barna- og unglingaráðs og vel mannaðs þjálfarateymis, akademían aldrei verið eftirsóttari. Góður grunnur hefur verið lagður sem gefur fyrirheit um glæsta framtíð, ef rétt er á spilunum haldið.

Næstu skref eru að styrkja umgjörð um meistaraflokkslið karla og að stofna kvennaráð til að undirbúa og byggja upp kvennalið hjá félaginu. Of fáar stúlkur á unglingsaldri eru virkar en vaxandi fjöldi áhugasamra stelpna í minnibolta sem eru efnilegar íþróttakonur og nauðsynlegt að halda vel utan um þær.

Við þessar aðstæður finnst mér tímabært og rétt að stíga frá borði. Enginn er eilífur í sjálfboðaliðastarfi af þessu tagi, getur ekki verið það og á ekki að vera það. Ég treysti því að nýtt fólk með nýjar áherslur taki við og lyfti félaginu upp á næsta stall (annars er mér að mæta!!!).

Öllum sem blásið hafa í seglin undanfarin 30 ár þakka ég af heilum hug fyrir stuðninginn og samstarfið. Ekki síst fyrirtækjum sem lagt hafa til, sveitarfélaginu og fjölbrautaskólanum. Að ekki sé minnst á konu mína og fjölskyldu, sem hafa þurft að búa við það í 40 ár að skipuleggja frí og viðburði út frá leikjadagskrá og æfingaplani.

Síðasta embættisverkið bíður handan við hornið, að slíta aðalfundi þann 29. mars næstkomandi.

ÁFRAM SELFOSS-KARFA!!!

Takk fyrir mig.

Úr dagbókinni 2022

Hér er saman komið safn tækifæriskveðskapar á árinu 2022. Safnið er alveg óritskoðað og í því eru u.þ.b. 210 vísur af ýmsu tagi, misjafnar að gæðum, en vonandi einhverjar birtingarhæfar.

03.01.22

 
Endi stakan enn mér hjá
utan hrakin vega,
innra kvakar eftirsjá
alveg svakalega.
 
05.01.22

 

Úr ljótu trýni lægðin hrín

langa píningsþulu.

Yfir gín nú allófrýn

í appelsínugulu.

 

09.01.22

 

Haldin eru títt um vetur veðramót,

vill mörg lægðin á þau, sem og þorrablót.

Roggnar koma þær og reka oss

rennblautan koss.

 

Það er lítið gaman mest er gengur á,

gusast yfir brimgarðana sjónum frá.

Hviður eflast og þá flettist við

allt malbikið.

 

Nú fýkur mold og grús og falla gripahús,

og fólkið úti, það er illa statt.

Ef tekst, þá er það plús, að bjarga manni’ og mús

en mikið getur lognið farið hratt!!!

 

Eftir djúpar lægðir gjarnan léttir til,

lífið kemst í skorður, svona hér um bil.

En ekki boða veðurfréttir vægð;

VÁ! Nýja lægð!

Æ, nýja lægð!

Hyldjúpa lægð!

 

11.01.22

 

Ef mig hrjáir amstur dags,

öskugráir skuggar,

af mér bráir alveg strax,

illu frá þú stuggar.

 

13.01.22

 

Blakkir kólgubakkar.

Brokkur ólgu strokkar.

Frakkur dólgur flakkar.

Flokkur bólginn skokkar.

 

19.01.22

Kjartan bóndi í Haga laumar að mér fyrripörtum þegar við bræður og frændur komum þar í hrossaragi. Ég skulda honum nú tvo botna og set þessa upp í skuldina:

 

Kjartan:

Heldur var ég höggvagjarn

hníflum títt að ota,

 

Ég:

sálin köld og hrjúf sem hjarn,

hæf til engra nota.

…..

Kjartan:

Bjarni hestum einkum ann,

á honum sést þó skína

 

Ég:

að hann meira meta kann

Möggu, konu sína

 

21.01.22

Við Ari áttum góðan dag í hesthúsinu. Þrjú hross komin á járn og fleiri bíða; eitt á dag kemur skapinu í lag! Hann gekk á með dimmum hryðjum og við fengum eina í andlitið á heimstíminu:

 

Á bóndadag kom „þorraþeyr“,

þá er helsta fréttin

að kátir fríðleiksfeðgar tveir

fóru skeifnasprettinn.

 

24.01.22

 

Íslensk þjóð að aldagömlum vana

í augun komin var með glýju

svo landsliðinu láðist, fyrir hana,

að leggja’ að velli Króatíu

 

26.01.22

Nu slår man om sig på Molboernes sprog!!!

 

En velkendt floj på mig flense,

så frihed er nødt til at grense.

Om Kóvíð, er klart,

men helvede hart,

må ej af gåløse glense.

 

27.01.22

 

Margur er æstur af ölinu

og ólgandi þjóðernisbölinu.

Á sjálfa þá fellur

öll froðan sem vellur.

Það er maðkur í íslenska mjölinu

 

Stefnuskrá þjóðrembingsins:

 

Fyrst yfir danskinn ég drulla.

Það er dyggð að ragna og bulla.

Næst Morgan Kane,

hinn norska svein,

mun svívirðingum á sulla

 

31.01.22

 

Ef andleysið er orðið bert,

efahyggjan lúmsk og sterk

traustur vinur getur gert,

gott betur en kraftaverk.

 

Traustur vinur stoð er sterk,

stendur uppi, þó sé svert,

tekur viljann fyrir verk,

varast gaspur opinbert.

 

03.02.22

 

Ríkir vetur, róminn fretur brýnir,

einskis metur ýlustrá,

úlpan betur duga má.

 

Skefur fönn í skafla, mönnum leiða.

Nem í önnum napran gný,

nístir tönnum kinnar í.

 

Vetrarhindurvitni, sindur mjallar

við leiða myndar lokasvar.

Logann kynda útreiðar.

 

Undir gnestur, ísinn hestur skeiðar.

Lífsins bestar lausnir finn

er legg ég mesta gæðinginn

 

06.02.22

 

Það er von á vetrarlægð,

verstu í langan tíma

sem mun enga sýna vægð,

svæðið best að rýma.

 

Most popular prices,

then public crisis.

When morning rises

Rogan apologizes

 

08.02.22

 

Bylur óf í blindukóf,

bóndann gróf að nafla.

Ákaft skóf, sér ei kann hóf

upp að hrófa’ í skafla

 

09.02.22

 

Ekki er þorrinn brúnablíður,

byrstir sig gramur og snýtir hríð.

Þó snæþakinn vangur sé fádæma fríður

má fara að koma betri tíð

því dag er að lengja og lekur mér úr

löngun að komast í útreiðartúr.

 

Þó láti mig annars ýmislegt hafa

ekki er staðan björguleg,

fer út þegar dúrar, ei velkist í vafa

að veðrið er rysjótt og færðin treg,

óruddir stígar, það hleðst í hóf

og hellist svo yfir blindakóf.

 

Upp til fjalla hugurinn heldur,

þá hverfur úr vitund daglegt streð,

öræfakyrrðinni ofurseldur,

uni þar sáttur reiðhesti með,

nýt þess að æja í lítilli laut

og leggja höfuð í móðurskaut.

 

Alltaf er ljúft að láta sig dreyma,

landshorna milli að komast á flakk,

margar perlur úr minninu streyma:

maður og drösull með beisli og hnakk.

Við þetta löngum má stytta sér stund

er stórviðrabálið þýtur um grund

 

 

Út um ljóra friður fór,

flaug öll glóra héðan.

Að bíða rór er blessun stór,

blunda órar meðan

 

13.02.22

 

Hvergi yfir drögum dul

dýrleik fiskislóðar

en áfram verður Guggan gul

og gullið sameign þjóðar

 

15.02.22

 

Ákaft ég samgleðst að svon-

a sigraði baráttukon-

an. Efling mun senn

sýna að enn

á verkalýðshreyfingin von

 

19.02.22

 

Þorrinn víst er þræsinn mjög,

þyrlar lögum snjóa.

Að lægðagangi leggur drög,

með látum kemur góa

 

22.02.22

 

Nú er úti veður vont,

vart út hund’ að siga

(skynsamlegt að skipt’ um font

og skrifa innan sviga)

 

 

Finnst í skjól nú fokið öll,

ferðast gjólan víða.

Til Angóla Hamarshöll

held’r en sólar bíða

 

01.03.22

 

Mælir fullur fyrir rest,

fantabullan galin.

Drepist, með sull, úr píningspest

Pútín, drulluhalinn

 

02.03.22

 

Finnst mér rétt að flagga strax

og fagna öllum saman

18 bræðrum öskudags.

En hvað það er gaman!

 

19.03.22

 

Í rigningu og roki

ríð ég út.

Eins og ullarpoki

með uppblásinn kút

 

29.03.22

 

Heldur en leggja vandann á vog

þó vísnaharðæri geisi

yrkir skáldið af skilningi og

skorti á úrræðaleysi

 

30.03.22

 

Við inniseturnar iða mér,

úti í huganum þeysi.

Svikalaus gleði, því gamanið er

gert í óleyfisleysi.

 

01.04.22

 

Fólk er af ilminum ölvað,

andar að vorinu sér.

Allt er samt illt og bölvað

ástand í veröldu hér

 

04.04.22

 

Virðing þingsins fer vítt um svið

þó verði því oft á í messu.

Það eru hefðbundin viðbrögð að við

(hin) verðum að læra af þessu

 

05.04.22

 

Ástand hjá bændum er helvíti hart,

heldur er faðmurinn kaldur

og innyflaráðherrann sér bara svart

svo snúinn er framsóknar galdur

 

 

Lagið hið fegursta flutt,

fuglum af greinum svo rutt.

Ilmur og ylur

svo öskrandi bylur.

Verst hvað vorið er stutt

 

 

Þó vélin vilji ei starta

og vorið snjókögri skarta,

mannheimur molni í parta

maður á aldrei að kvarta“.

 

07.04.22

 

Vini og ættingja arta

svo ekki þeir þurfi að kvarta,

bankann því búta í parta,

í bita þeim leyfi að narta.

Gagnsæisgleraugum skarta,

Guð, hvað það yljar um hjarta

 

 

Ef flokkinn skal fiðra og tjarga

í fenjum spillingardíkisins,

Bjarna af sundi mun bjarga

Bankasýsla ríkisins.

 

12.04.22

 

Vindsalur víður og fagur,

á vorið loks kominn er bragur.

Klárinn af kæti

kann sér vart læti.

Mikill dásemdardagur.

 

15.04.22

 

Fjölskyldunnar föst er stoð.

Á föstudaginn langa

19 manna matarboð.

Merlar tár á vanga

 

18.04.22

 

Heldur fer batnandi hagurinn,

hærri og glaðlegri bragurinn

fuglunum hjá,

fagnaðarþrá.

Enn einn dásemdardagurinn

 

19.04.22

 

Skal oss senda skilaboð,

skýr, en ekki þvælin

þó landinn get’ ei lært það hnoð

að lesa fyrirmælin.

 

 

Árin síðan alfyrst leit

augun björtu, hlýju,

þau eru orðin, það ég veit,

39.

 

21.04.22

 

Fjalladýrðin fangar mig,

í ferðir tekur þyrsta,

þegar harpa sýnir sig

sumardaginn fyrsta

 

22.04.22

 

Birtan nærir, lifnar lund,

léttist kæra sporið.

Liti hrærir, ljómar grund,

leiðir blærinn vorið

 

25.04.22

 

Þegar heyri hófaglaum,

heiðargötu duna

og hrossið leikur létt við taum,

lifi hamingjuna

 

26.04.22

 

Þegar halla í heimi fer

heldur undan fæti

er alltaf gott að ylja sér

við eld af fornri kæti.

 

01.05.22

 

Tekið hefur þjóð í þurrt,

því ei getum unað.

Drekkum saman bjarnaburt,

bragðið vekur munað.

 

06.05.22

 

Engan heyri þrastaþyt,

þagnað blessað vorið.

Á þessu er ég alveg bit,

aftur þyngist sporið

 

09.05.22

 

Vor af svefni vaknar stillt,

velgir morgunsopa,

grundu svo, í geði milt,

gefur tíu dropa,

spóinn vellur, vængjum fer,

vagar gæs í móa,

hrossagaukur hraðar sér,

hreiðrar um sig lóa

 

 

Um hagann gola himinblíð,

þar haldin listaþingin.

Legg því á og alsæll ríð

Arnarstaðahringinn

 

24.05.22

Kærar þakkir fyrir fjölmargar afmæliskveðjur. Deginum ver ég í skólaheimsóknir á Ítalíu.

 

Enn skal þakka að ég fæ

að iðka lífsins glímuna.

Ef fullorðnast, þá fyrst ég næ

að fella niður grímuna.

 

29.05.22

 

Lestin brunar hraðar, hraðar,

heldur viljug suður á.

Sveitir landsins baðar, baðar

birta gullin sólu frá

 

07.06.22

 

Ég nýt mín í regni og roki“,

sagði Runólfur stórfýlupoki

en skreið svo í skjól

þegar ský huldi sól

og lá þar í væli og voki

 

10.06.22

 

Nagar rótina naðurinn.

Níðingalundur er staðurinn.

Viltu gleymskunnar suð?

Gas eða stuð?

Margur er siðblindur maðurinn

 

 

Mikið djöfull er magnað

að mylja undir sig hagnað

af sameignarlind

og lauma fyr’ vind.

Í fjölskyldum nokkrum er fagnað.

 

13.06.22

 

Svo ei á kerfið komi rót

og karlinn freki sitt fái dót

sýna verður viðbrögð skjót.

Veisla fyrir hal og snót,

í Valhöll, er alþekkt bragarbót

ef blessun streymir eins og fljót.

Vítt um hreppa sér mæla mót,

og maddömunni drekka blót.

En þetta dugar ei hætishót,

húsbóndinn kaldur eins og grjót.

Hringar sig þá við hægri fót

Hreyfingin-framboð – til að blíðka þrjót

 

21.06.22

 

Hvert ferðalag gefur skin og skúr

og skiptingin alla vega

en félagar góðir í teymingatúr

taka því mátulega

 

13.07.22

 

Líkt og Verbúð undin úr

almenn þjóðarsáttin.

Einhver núna ansi múr-

aður fer í háttinn.

 

14.07.22

 

Að vakna í kofa víst er sælt

og volgan eta grautinn.

Og það er sem í draumi dælt

er dynur undir brautin

 

 

Prúður o’ní pokann skríð,

paradís í kofa,

og á morgun meira ríð,

mín ef örlög lofa

 

16.07.22

 

Kaldur og hrakinn lengi ég lá

sem lík undir rofabarði,

rúst eina brennda reisn mína sá,

rýr orðinn hluturinn skarði,

en núna í beðin mín blómstur vil fá,

svo blikni ei skúfurinn harði,

af frjósamri mold, svona milljarða þrjá,

moka úr nágrannans garði

 

17.07.22

Hún Margrét Stefánsdóttir á afmæli í dag og er orðin tvítug, hvorki meira né minna. Við amma Anna María sendum þessari dásamlegu alnöfnu föðurmóðurlangömmu sinnar kveðju með loftstraumunum:

 

Liðnir eru tugir tveir,

tíminn burtu æðir.

Þó árin hverfi, alltaf meir

okkar hjörtu bræðir.

Þú ert yndi, Margrét mín,

men úr kærleiks baugum,

Gleði tær og gæfa skín,

glóð í þínum augum

 

20.07.22

Við Anna María fórum á Ingjaldssand og lentum þar í þoku á Sandsheiði. Gróðursælt er þar í dalnum en eyðilegt í mannabústöðum. Þar sem vegurinn út Dýrafjörð norðanverðan beygir inn Gerðhamradal eygðum við vegarslóða og ákváðum að leggja land undir fót, gengum fram á eyðibýlið Arnarnes. Falleg ganga og þægileg. Enduðum daginn ofar skýjum á Bolafjalli, Djúpið fullt af lopa.

 

Svalt er á Ingjaldssandi,

sígur lopi af egg,

grænljóma gróðurbandi

girt, undir klettavegg.

Býlin í eyði, en andi

ennþá frá meyju og segg,

landsins hinn forni fjandi

færði þeim vetrarhregg.

 

Skælt, undir Skagafjalli,

skýlir sér Arnarnes,

allt komið alveg að falli,

útkjálkasöguna les.

Hvað varð af bústangsins bralli?

Bændur sig drógu til hlés

svo allt er nú orðið að gjalli.

Alveg er þetta spes.

 

24.07.22

 

Viltu ekki vera bráð

vanans sára leiða?

Við því best það reynist ráð

að ríða upp til heiða

 

26.07.22

 

Fjöllin allan efla mátt,

andans glóð að báli.

Á stóru sviði stendur hátt

Stöngukvíslarskáli.

 

 

Alveg draumur, fljót í för,

fótaglaumur tíður.

Létt við taum og ör er Ör,

eins og flaumur stríður.

 

Þvalan næðing þéttast finn,

þokuslæðum hnýttar

forarhæðir, Funi minn,

fimur þræðir grýttar.

 

Einhver kann sér una best

í ógnar stórum höllum

en gamla skálans munað mest

ég met á Hveravöllum.

 

28.07.22

 

Afi minn varð, alls ófús,

að eigra milli bæja.

Hent var í ‘ann hungurlús

sem hann varð láta nægja.

 

04.08.22

 

Blessað veðrið Íslands er

á alla vegu.

Því ekki breyti, og samt fer

í útilegu.

 

05.08.22

Það þykir voða sniðugt (og sjálfsagt um aldir alda) að kenna einhverju, sem m.a. kallast skrattinn sjálfur, um útbrot á yfirborði jarðar. Að „hann“ sé að hita undir pottunum eða eitthvað í þá áttina. Þessi hlægilega hugmynd um djöfulinn í iðrum jarðar (og þarafleiðandi eitthvert guð í himinhvolfinum) bergmálar nú í kveðskap hagyrðinga sem aldrei fyrr. En þeir skuli athuga þetta …

 

Niðrí möttli eldheitt er,

ólga spýjur harðar,

út og suður allt þá fer,

iðar skorpa jarðar.

 

Og himni koma ofan af

ógnir miklar þegar

sólin kyndir svörð og haf

sífellt hræðilegar.

 

07.08.22

Anna María er á ferðalagi um landið.

 

Illt um heiminn út- er lit,

ei um slíkt þó hirði

þegar ástarsæll ég sit

í sól, í Mjóafirði.

 

14.08.22

Stúlkan mín á afmæli í dag.

 

Vakin, sofin, veitir mest,

um-vefur fólkið þitt.

Þú ert yndið allra best,

elsku hjartað mitt.

 

16.08.22

Þetta er óttalegur ræfill“.

 

Um grýtta mela móður fer,

svo máist af mér brosið

er vesæll ræfill mætir mér;

Meradalagosið.

 

Það voru blendnar tilfinningar meðal starfsfólks fangelsisins þegar ég mætti til vinnu minnar í skólanum á Litlahrauni í morgun. Órækt vitni um að sumarið sé liðið:

 

Haustboðinn hrjúfi

um Hraunið nú fer.

Sem grámyglan grúfi

er Gylfa að ber.

 

Í lífsins arga ólgusjó,

sem á mér stundum brjóta lætur,

alltaf veit að á ég þó

yndislegar tengdadætur.

 

Sjálfsagt er mikils meta

máttinn að lina krísu.

Þó væri gott að geta

gengið að því sem vísu

 

18.08.22

 

Í hægindastólinn mér hlamma,

hef svo upp raust mína’ og skamma

konur og karla

sem kunna sig varla

en syngja og dansa og djamma

 

21.08.22

 

Ansi margt er á oss lagt,

ekki finnum réttan takt,

gæðin eru gefin skakkt,

af gróðafíkn, svo það sé sagt.

 

26.08.22

 

Eftir viku iðjutörn

undir kötlum velgi.

Ei leggst í neina nauðarvörn,

nú er komin helgi

 

 

Legg að vanga votan klút

og vikna annað slagið,

munda símann, mæli út

og mynda sólarlagið.

 

27.08.22

Sá á Netinu að sala á „rúnkmúffum“ væri í sögulegu hámarki og kvíði því þess vegna að allt verði uppselt eftir helgi

 

Draum um múffueign ég el,

ef með fylgir sleipigel.

Nafnið þó ei þjóðlegt tel:

þetta kallist mjaltavél.

 

28.08.22

Finnst mjög óheillandi þegar ég er ekki dýrkuð og dáð“

 

Ég er fögur og fjáð,

fótsporin rósblöðum stráð,

við hjartarót innst

mér heillandi finnst

ef ég er dýrkuðu og dáð.

 

Tengdadóttir mín á afmæli í dag. Af fordæminu sem ég setti við síðasta sambærilegt tilefni um daginn verð ég að reyna að standa mig í stykkinu. Og geri það vitaskuld með gleði í hjarta.

 

Stendur í stafni og skut,

í stórsjó ei gefur sinn hlut.

Heillandi, fríð,

hógvær og blíð.

Til hamingju, Rebekka Rut.

 

29.08.22

Það mætti nú einhver kunnugur hnippa í Lilju og útskýra fyrir henni hvað auglýsing er. Svo hún gæti hugsanlega litið á þennan „menningargeira ríkisstofnana“ í aðeins „stærra samhengi“. Þó alls ekki væri gerð krafa um hið ómögulega – að koma henni í skilning um að líf gæti hugsanlega fundist utan framsóknarflokksins, þó vísindamenn leiti þess nú vongóðir í öðrum sólkerfum.

 

Hornrétt er hugsun og skýr,

heimurinn flokksær og kýr.

Svo blessunin Lilja

á bágt með að skilja

hvað í orðinu „auglýsing“ býr.

 

 

Alltaf er ögrun að þramma

utan hins viðtekna ramma.

En ótvírætt er;

aðeins fær hver

eina ævi og skamma“.

 

30.08.22

Núna haustið kom með hvell,

kalda raust og spýju.

Um það braust með org og rell,

alveg laust við hlýju.

 

13.09.22

 

Á oss dynur auðvaldsbreim,

ógn við mannúð sanna.

Skrapar innan, holar heim

harðstjórn verðleikanna.

 

 

Logn að kalla, læðist blær

ljúft um fjallavanga.

Ljóma stallar, lautin hlær,

liljur vallar anga.

 

15.09.22

Enn tefst Íslandsbankaskýrsla“

 

Margt sagt sem alls ekki meinum

og margt sem við ekki frá greinum.

Þó nefnd marga skipum

og niður margt hripum

skýrsla mörg liggur í leynum

 

Auglýsing: „Tjónamtasfulltrúi eignatjóna“

 

Ljónatemjari ljóna

og tjónamatsfulltrúi tjóna

tóku æðiskast æðis

við sæðisgjöf sæðis

á hjónanámskeiði hjóna.

 

17.09.22

 

Jafnt þó fólk glamri og grínist,

grafið í sjálfu sér týnist,

lifi í draumi

eða líði með straumi:

ekki er allt sem sýnist.

 

25.09.22

 

Allir hugsa’ um sjálfa sig,

við sitthvað að bralla.

Afsakið á meðan mig,

 ef mig skyldi kalla.

 

 

Víða foktjón varð um land,

í verstu rokuhviðum.

Stærihroki storms í bland

við storðar lok á griðum.

 

 

Sóley er orðin 19 ára, segi og skrifa! Afi og amma Anna María senda bestu afmæliskveðjur.

 

Er Sóley heldur samkvæmið

svignar af kræsingum hlaðborðið

og að gömlum, góðum sið

gestum býður í afmælið.

 

Hún er yndi, sem elskum við,

áform háleit, skýr stefnumið,

kona ung sem kemst á skrið

með kærleikann ávallt sér við hlið.

 

25.09.22

 

Lífsins er langbesta gjöf,

og lítil mun verð’ á því töf,

í freistni að falla

og í ferskeytlum svalla

út yfir andlát og gröf.

 

 

Gegningamaðurinn gagnfúsi

var gómaður óvart í vagnhúsi.

Um það skal ei fást.

En fljótlega sást

að mæddi töluvert á Magnúsi.

 

04.10.22

 

Nú er kyrrt um lög og láð,

í leynum firrtur kraftur.

Að hausti syrtir, svalt er gráð,

seinna birtir aftur.

 

 

Er máninn skein yfir skarður

urðu skuggarnir þjóðsagnaarður.

Skaust draugur við hól?

Undir dalanna sól

er fallegur, grjóthlaðinn garður.

 

Er máninn skín yfir skarður

eru skuggarnir stórbokkaarður

því við sjóndeildarhring

allar sveitir um kring

er geggjaður vindorkugarður.

 

 

Boldangs er Brynleifur kall

með bjargsneyptan haus, eins og hnall,

og granstæðið vítt.

En hann gagnaðist lítt

við meira en drullu og mall.

 

 

Alltaf í boltanum, Bessi,

af bræðrunum talinn „sá hressi“

en svo brotnaði tá

og trúðurinn lá

lengi í líónel messi.

 

 

Gleði og von skein af Guggu,

hún kom gul eins og sól inn úr muggu.

En blánaði öll

þegar bað hennar tröll

tyggjandi margþvælda tuggu.

 

07.10.22

 

Ef þau, skjálút, öskugrá

oní klofið hímdu

afrita vísu þessa þá

og þinn á vegginn límdu.

 

08.10.22

 

Fátt hér gleður fyrirséð,

forlög kveða, hæðin.

Allt er skeður óvíst með,

eins og veðurfræðin.

 

– – – – – – –

 

Sumri vísa veröld frá,

vetrar nýsi drögin

en fresta kýs að falli á

fyrstu ísalögin.

 

09.10.212

 

Andinn rís og ólgar þrá

eða frýs í horni

og því lýsa alltaf má

í einu vísukorni.

 

– – – – – –

 

Ef ég mætti upp á dekk,

og mér þætti skipta,

myndi’ ei hætta’ í miðjum flekk

mín svo rættist gifta.

 

13.10.22

 

Finnst að vetur færist nær,

foldu setur hljóða.

Haust á fleti fyrir rær

frost og hret að bjóða.

 

– – – – –

 

Sagt var frá því í fjölmiðlum að við borðiðum „fjórfalt of mikið af kjöti viðað við danskar ráðleggingar“

 

Einokun var ástarkoss

atlot sem fram þvingar.

Dável hafa dugað oss

danskar ráðleggingar.

 

15.10.22

 

Nú er ég engu að nenna“

enda niður minn kveikur að brenna.

Alls hlakka til

enda ég skil

að eigi má sköpum renna.

 

18.10.22

 

Fögur sýnir foldin nekt.

Friðsæld gleður.

Það er alveg þolanlegt,

þetta veður.

 

Í flokkum sveigja fuglar grein,

fjaðrir ýfa,

og mig lokkar löngun hrein

um loft að svífa.

 

20.10.22

 

Katla skelfur, kannski gýs,

kolsvört móðan rís.

Jökulelfur, gneistar gnýs,

gríðarflóð með ís.

 

21.10.22

 

Þó ei líki veröld við

vísur mínar bjagaðar,

andleg fró er megin mið

og mér til dundurs lagaðar.

 

22.10.22

Elsku Soffía Sif átti afmæli í fyrradag og bauð til veislu í dag. Orðin 17 ára, segi og skrifa, framhaldsskólastúlka semtekur námið með trompi eins og allt annað og fær bílprófið á næstu dögum! Já, þannig týnist tíminn. Afi og amma Anna María geta vart á heilum sér tekið yfir blessuðu barnabarnaláninu og senda meðfylgjandi kveðju:

 

Hæglát stúlka og hugljúf er,

í hjarta mild og kærleiksrík

en skýrt úr augum skín að hér

er skörungskona, engri lík,

sem arka mun á efsta tind,

í öllu besta fyrirmynd.

 

23.10.22

 

Sumar metið sóun stór,

á sunnu letibragur.

Sat á fleti fyrir rór

fyrsti vetrardagur.

 

24.10.22

 

Brátt mun sarga ellin á

okkar bjargarstrengi.

Verður margs að minnast þá,

mikið þvargað lengi.

 

– – – – –

 

Marga þvælu heyrt ég hef,

hryggðarskælur sárar,

hatursbrælu, hefndarstef,

heimur stælur párar.

 

Fagurt sælan syngur mér,

sorgir fælir héðan.

Við mig gælir gæfan hér,

gleði dælir meðan.

 

– – – – –

 

Hið háa Alþingi kvað fyrirhuga að ráða „framtíðarfræðing“ sem helst mun eiga að draga upp sviðsmyndir á nefndasviði.

 

Ef ráða á framtíðarfræðing

er fullkomin sviðsmyndavæðing

til flótta frá efndum

í aldauðum nefndum

að finna sér framsóknargæðing.

 

26.10.22

Hugsa gott til glóðar mér,

gleði mottó ragsins,

og einhvern vott af sumri sér

í sólarglotti dagsins.

 

28.10.22

 

Blíðu meður heillar haust,

huga gleður krangan.

Dýrðarveður, dæmalaust,

daginn kveður langan.

 

– – – – –

 

Máske veitir Bjarna ben

og bjarnargreiða mikinn

Gulli honum gerir, en

gæti verið svikinn.

 

29.10.22

Fólk sem er vel birgt af góðum tengdadætrum þarf ekki að örvænta. Við Anna María erum, að því er talið er, í fremstu röð hvað þessi lífsgæði varðar. Ég hef áður haft orð á þessu en endurtek hér og nú, enda aldrei fullþakkað. Tilefnið er enda ærið því ein tengdadóttirin á afmæli í dag. Hún er yndisleg í alla staði, og hefur komið með sitt fólk eins og engill inn í fjölskylduna, hispurslaus, hlý og skemmtileg og er líka „svo dæmalaust góð við manninn sinn“ og börnin hans. Það er sannarlega betra en ekki að hafa þessa eldkláru og ákveðnu konu í horninu hjá sér í róti lífsins.

 

Þegar um þetta ég ræði,

þá finnst mér rétt að ég fræði

um einkunnarorðið,

set allt upp á borðið:

Jóhanna Guðrún á „GÆÐI“.

 

– – – – –

 

HJÁLPUM ÞEIM

 

Gleymd´ ekki þínum besta bróður

sem brauðmola færir að.

Hann er svo gríðarlega góður,

gullslegin mynt í hjarta stað.

 

Í von og trú á vin, er styrkur,

sem veiðiskipin gerir út,

upp lýsir slíkur maður myrkur,

burt mokar slor og grút.

 

Á skjánum magnast myndir

og mörlandinn þannig fréttir

að hjálpi mútur margri þjóð,

menn, konur og börn merki dauðann,

án máans eigi litla von.

 

Búum til betri heim,

með bómull nú strjúkum þeim

sem eiga undir sér,

auðmenn ei skatta ber.

 

Eflum því eignarhald,

af auðlind ei tökum gjald.

Hjálpum þeim!

 

31.10.22

 

Logi rígur lífs á stíg,

lánið hnígur, brunnið.

Tíminn flýgur, fyrir gýg

flest, ef lýgur, unnið.

 

02.11.22

Grána öll hin gömlu fjöll,

gljá í hjöllum sjáum,

höfuð sköllótt, visinn völl,

vang með föllnum stráum.

 

– – – – –

 

Birgir Ármannson er sannarlega haukur í horni fyrir íhaldsöflin í forsetastól Alþingis. Vísir.is: „Birgir neitar að afhenda skýrslu um félag Fjármálaráðuneytisins“. Lindarhvoll ehf. og skýrsla ríkisendurskoðunar um sölu Íslandsbanka til vildarvina og fjölskyldumeðlima.

 

Allt til vinnur, ekki syrgir

oft þó ginni lýðinn.

Skýrslur inni Birgir byrgir,

Bjarna sinnir hlýðinn.

 

03.11.22

Guðlaugur Þór tilkynnti framboð gegn Bjarnaben:

 

Hjá Gulla og Bjarna byrjað er

í bakið hinn að stinga

en tunglið bara tyllir sér

á tippinn Selfyssinga.

 

– – – – –

 

Stöðugt er níðst á flóttamönnum, og þeir sendir öfugir úr landi á vit örbirgðar, vonleysis og jafnvel dauða:

 

Megi verða áhrínsorð,

þið illu stjórnarfjandar,

að þið fallið fyrir borð,

af fólsku eigin handar.

 

– – – – –

 

Mörg er ást í meinum

og morgunljóst nú að

oft er ljúft úr leynum

lag í hjartastað.

 

04.11.22

 

Upp á skaftið mjaka mér,

mikið kjaftinn belgi.

Þegar kraftinn kenni er

komin aftur helgi.

 

Heitur pottur gerir gott,

gjarnan dotta’ í honum.

Við saklaust spott og sæluþvott,

sér í glott, að vonum.

 

05.11.22

 

Hvað er nýjast? Hvernig fer?

Hvert skal núna halda?

Tækifærin taka ber.

Ei tjóni öðrum valda.

 

– – – – –

 

Jóhanna Vigdís, fréttamaður Sjálfstæðisfokksins á RÚV, spyr einn landsþingsfulltrúa flokksins í sjónvarpsfréttunum:

 

Gengdu, hvernig getum við

gengið sterk af þessum fundi,

andstæðingnum gefið grið

og greyið Bjarna dregið upp af sundi?

 

– – – – –

 

Haustið á í hjarta stað,

þá hugarró má finna.

Samt ég verð að segja að

ég sakna hesta minna.

 

07.11.22

 

Gegn flóttamönnum fer á kreik,

færa heim skal sanninn

að íhald spilar ljótan leik,

leggur beint í manninn.

 

Kafna brátt í römmum reyk

ráðherrar að tjá sig.

Mannréttindavaktin veik,

vaffgé skítur á sig.

 

Engin prinsipp, enn á ný,

í öllum vanda gatar.

Framsókn hylur skolgrátt ský,

og skríður undir radar.

 

– – – – –

 

Þegar brestur þrekið mig,

þagnað flest í höllu,

þá er best að bæla sig,

bara fresta öllu.

 

09.11.22

Stjórnvöld æiggja undir ámæli vegna mðeferðar á flóttamönnum og harðræði við „brottflutning“:

 

Muldra vegna mannorðsglæpa,

meðvirk, samkvæmt vana,

en kannski eitthvað telja tæpa

„tilhögun brottvísana“.

 

Mörgu snara má í lag,

mannúð fjarar undan.

Eldinn skara’ að allra hag,

vort eina svar, og stundan.

 

– – – – –

 

Nú styttist í hið árlega og landsfræga karlakvöld Karlakórs Hreppamanna, bara rúm vika í föstudaginn 18. nóvember. Því er vissara að fara að þefa uppi kórfélaga til að grátbiðja um að skrá sig á þátttökulistann góða til að tryggja sér sæti við veisluborðið. Og athugið að …

 

Verðið er gjafir, ei gjöld,

grínið fer sögu- á spjöld.

Þétt verður setið,

þjórað og etið,

afburða karla- er kvöld.

 

12.11.22

 

Á Akureyri: Landnemar. Jónas Jakobsson, 1957.

Standa uppi’ á stalli,

stara suður fjörð.

Allt frá fjöru að fjalli

við frjósöm blasir jörð.

 

– – – – –

 

Út að borða, ástin mín,

okkar bönd að styrkja.

Yfir vakir, upplýst skín,

Akureyrarkirkja.

 

15.11.22

 

Við (og á þá við „okkur Íslendinga“ en ekki „okkur í ríkisstjórninni“) þurfum að læra af þessu“, sagði forsætisráðherra í þúsundasta sinn ….

 

Öllu sínu eyðir púðri

í yfirklórið þreytt.

Læra vill af hverju klúðri

en kveikir ekki neitt.

 

Það er margt í þeirri framkvæmd

sem þjóðin skoða mætti,

viðbrögð gjarnan veri samræmd

og með viðeigandi hætti.

 

– – – – –

 

Bara smá spökuleringar. Skiptir armslengdin nokkru máli ef menn eru nógu fingralangir. Segi nú bara svona!

Er þetta ekki tilvalið fyrir góða ferskeytlu?“ spyr Lárus Ástmar Hannesson. Svaraði honum þannig:

 

Dyggðabrautin býsna hál,

Bjarna valtur gangur.

Armslengd telur einsýnt mál,

enda fingralangur.

 

19.11.22

HM ó fótbolta var haldið í Katar, frægu kvennakúgunar- samkynhneigðarhaturs- og einvaldsríki:

 

Blaðið gróða ekki autt,

okaðs róður fitar.

HM-blóðið, heitt og rautt,

heimsins þjóðir litar.

 

22.11.22

 

Allir fá pestir öðru hverju:

Tilþrif eru ansi megn,

ekki stundarfriður,

þegar fæðan, góð og gegn,

gengur upp og niður.

 

– – – – –

 

Fær samþykkt í ríkisstjórn frumvarp um breytingar á lögreglulögum, m.a. um sk. forvirkar rannsóknarheimildir og skotvopnavæðingu, og boðar samdægurs í fjölmiðlum „stríð“. Þá þarf nú enginn, sem ekki áttaði sig strax á tilgangi frumvarpsins, að efast um til hvers refirnir voru skornir.

 

Kalt er jafnan um kveldin

við kórbak, ef mígur á feldinn.

Svo nótt verði blíð

boðar hann hríð

og olíu hellir á eldinn.

 

Er daprast um allar varnirnar von

og veglausir flæða að landi

gott er að eiga Jón Gunnarsson

sem er grímulaus, forvirkur vandi.

 

23.11.22

Seðlabankastjóri er iðinn við kolann:

 

Hjá Ásgeiri hljómar í alkunnum stefjum

auðvaldsins biblíutexti:

„Horuðum múgi höldum í skefjum,

hækkum nú stýrivexti“.

 

24.11.22

Reistar bárur rennir sér,

rammlegt áratogið.

Geisar dárinn, ekki er

upp á Kára logið.

 

– – – – –

 

Ganga má um lífið létt,

við leik að stráum grænum.

Hvergi á mér auman blett

er að sjá í blænum.

 

Lífs í straumi gusa grunnt,

geng í draumi þjálum,

því er gaum að gefa unnt

að gæfunaumum sálum.

 

26..11.22

Nóvember hefur verið með allra mildasta móti:

 

Hvorki þarf útrásarorgun

né andlega skammdegissorgun

því nóttin er af

og nóvember gaf

mildan rigningarmorgun.

 

– – – – – –

 

Stundum þarf sjálfið að styrkja,

stoltið og lífskraftinn virkja.

Nei“-ið má velja,

í núinu dvelja.

Oftast samt best er að yrkja.

 

27.11.22

 

Orku sparar dagsins drós,

dökku fari stýrir.

Ekki varir vetrarljós,

veikt á skari tírir.

 

– – – – –

 

Kannski þarftu að kvarta?

Eða kveikja vonina bjarta?

Gleðja og styrkja?

Stríðsæsing virkja?

Hvað liggur þér á hjarta?

 

29.11.22

 

Ef að fæðist ‘utan garðs’,

illum klæðist lörfum,

varla glæðast vonir arðs

af vondum mæðustörfum.

 

– – – – –

 

Svalur og óræður svipur,

svífur um, brosmild og pipur,

öxlunum yppir,

eðalmálm klippir,

alltaf svo lævís og lipur.

 

30.11.22

Fimm ár við völd“

 

Með einkavinum finnst alveg rakið

almenning að pína

og ekki stingur hún Bjarna í bakið,

bara kjósendur sína.

 

– – – – –

 

Katrín forsætis sagði það hafa verið „óheppilegt“ að einkavinur hennar Bjarniben hefði selt pabba sínum Íslandsbanka:

 

Það gerist oft, og það er vel þekkt

að þrúgan liggi við eikina.

En það er ansi óheppilegt“

að ættingjar laumist í steikina.

 

01.12.22

 

Máttur tungu mikill er;

magn í drungans þvargi,

veitir stungur, vonir ber,

veltir þungu fargi.

 

02.12.22

 

Langar rætur liggja djúpt,

lyndi vætu gefa,

með sólarglætu leika ljúft,

lífið kæti vefa.

 

03.12.22

 

Við heimsósómann hætt er við

að heldur daprist andans fimin.

En hugarflugið finnur grið

við fjólubláan vesturhimin.

 

04.12.22

Lærdómur ráðherranna:

 

Margt höfum blessað milljónaplott

og möndlað á bak við ský.

Að hylja slóð og hafa það gott

höfum við lært af því.

 

– – – – –

 

Ljósin braga leifturskýr,

lund fram draga þína:

Ástarsaga, ævintýr,

alla daga mína.

 

06.12.22

Anna María fór út að viðra mig í þjóðgarðinum í dag:

 

Svo Hrafnabjörgum ég hrósi,

hrífandi, líkt og þau ‘pósi’

silki- með klút.

Slá þó vart út

Botnssúlur, baðaðar ljósi.

 

07.12.22

 

Löngum hafa lífsins gæði

látið eftir sér bíða.

Þó að kosti þolinmæði,

þá mun tíminn líða.

 

08.12.22

Eygló

 

Lítur upp, en höfði sínu hallar

og höfug undan rekkjuvoðum kallar:

Mánann fátt hemur

en minn tími kemur!

Þolinmæði þrautir vinnur allar“.

 

Jörðu til að komast kring

kröftum öllum beiti,

síðan, yst við himinhring,

höfuð legg í bleyti“.

 

10.12.22

 

Nú er ris á nóni lágt,

nú er allt að frjósa.

Nú er ástand nöturbágt,

nú má fara að kjósa.

 

14.12.22

Leigufélagið Alma: „Bist afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari“:

 

Fátækum er feigðin týnd,

fögnuð veitir hokur,

því nærgætni þeim næst mun sýnd

við níðingshátt og okur.

 

15.12.22

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Skagfirðinga og Framsóknarflokksins, afgreiddi úr fjárlaganefnd 100.000.000 til mágkonu sinnar hjá sjónvarpsmiðlinum N4, sem sent hafði honum bónbréf þess efnis. Bjarkey Olsen þingmaður Ólafsfirðinga taldi þetta mjög eðlilega afgreiðslu, framhjá öllum „verkferlum“ um stuðning við einkarekna fjölmiðla:

 

Ráðið, ef gera þarf gagn

er góðvinir leggja út agn,

að stökkva þá bara

(og stuðning ei spara)

með Olsen á almenningsVagn.

 

17.12.22

Hann skall skyndileaga á með vitlausu veðri:

 

Ekkert getum gert. Og þó.

Glugga má í bækur.

Og mæðist við að moka snjó

margur ansi sprækur.

 

19.12.22

 

Enn var gefin út veðurviðvörun:

Viðvörun, því von er á

vetrar snarpri þulu.

Öræfingar aftur fá

þá appelsínugulu.

 

20.12.22

Margir urðu sjóðandi vitlausir yfir því að ekki var búið að hreinsa snjó af götum undireins eftir stórhríðina:

 

Landinn mas og mikið þref

með sér hefur þróað.

Nú er látið eins og ef

aldrei hafi snjóað.

 

– – – – –

 

Kári æstur, einn gang til,

er í blásturkeppnunum.

Eftir harðan hríðarbyl

huga þarf að skepnunum.

 

Nú oss hefnist nóvember,

nú við þurfum „sorgun“

því að veðurútlit er

ekki betra’ á morgun.

 

Meira Kári æsist enn,

ýlir, grár í framan.

Sauður þrár sem þreytir menn,

þumbast árum saman.

 

21.12.22

Einhvers staðar verða augun að vera, ekki síst þegar inniverur eru langar vegna veðurs:

 

Sköpun úrvalseinkunn gef,

engu þar var sóað.

Að frúnni ansi oft ég hef

augum mínum gjóað.

 

– – – – –

 

Bjartur er dimmasti dagurinn,

dýrðlegur himinblámi.

Ef þetta’ er á þrautunum bragurinn,

þá er sem mér nú dámi.

 

22.12.22

Reykjanesbraut lokað í nánast tvo sólarhringa og Leifsstöð stöppuð af fólki, svöngu og hröktu. Innviðaráðherra vill skoða verkferla, gott ef ekki til að „læra af þessu“:

 

Við þurfum að læra af þessu,

af þekkingu framvegis plana

að skeina burt skítaklessu

og skoða svo verkferlana.

 

– – – – –

 

Jólakveðja 2022

 

Tekið hefur vetur völd,

vill, án refja, píningsgjöld.

Leggur yfir landið skjöld,

lúkan bláhvít, nístingsköld,

og blóðgar dagsins birtuspjöld

bak við hnausþykk rökkurtjöld.

 

En máninn feiminn fer á stjá,

fullur efa hvort hann má

heiminn nokkuð horfa á?

Hikar við, svo opnar brá,

glennir upp sinn gula skjá,

geislum baðar land og sjá.

 

Myrkrið smýgur inn um allt,

anda breytir snöggt í gjalt.

Heimsins lánið vagar valt,

varðar auðs er handtak kalt.

Ef þér, maður, flest er falt

fyrir aur, þá hinkra skalt.

 

Enn er von, því lítið ljós

logar yfir hal og drós,

tákn um mannkyns „draum í dós“.

Dýrt er orðið. Hvað með hrós?

Í þröngum dal, við ysta ós

umhygð vökvar lífsins rós.

 

Fyrir vini vermum ból,

veitum græðgi hvergi skjól.

Í litríkan og léttan kjól

landið klæðum, dal og hól.

Á himni núna hækkar sól,

höldum gleði og friðar jól.

 

24.12.22

 

Til himins gjarnan horfa má

í hljóðu ljósatrafi

élin falla jörðu á,

jólin öll í kafi.

Trúa því og treysta ber

að takið innilegunum

af þolinmæði, þegar er

þæfinur á vegunum.

 

25.12.22

 

Gott er að eiga góða að,

gengur þá margt að vonum.

Sé hjá mörgum sannast það,

sérstaklega konum.

 

26.12.22

 

Á stefnu víst oft virðist að

vegir liggi þverir.

Áfram gakk, á endastað,

eins og fara gerir.

 

28.12.22

Í fréttum var það helst að rússneskir olígarkar færust hver af öðrum með dularfullum hætti. Það annað en ríkidæmið eiga þeir helst sameiginlegt að hafa opinberlega gagnrýnt innrásarstríð Pútíns í Ukraínu:

 

Út um glugga ana tveir

af efstu hæð, með slætti.

Olígarki enn einn deyr,

óljóst hverju sætti

en víst að allir andast þeir

með ósaknæmum hætti.

 

…..

 

Þó sé vetrarfimbulfrost

af funa gnótt er heima.

Enginn getur átt þess kost

úti í nótt að sveima.

 

31.12.22

Áramótakveðja 2022-2023

 

Nú er liðið enn eitt ár,

alltaf fortíð lengist.

Lífið að mér dregur dár,

að draumum stöðugt þrengist,

þó mínar helstu heillaþrár

hafi eftir gengist.

Brestir, dáðir, bros og tár

í brjósti og huga tengist

svo að verði sálin klár

er svarið yfir dengist.

 

Að þægindunum þýfð er slóð,

þröngt að gæðum hliðið.

Klærnar sýnir klíkustóð

í kvótavafning riðið.

Frá mér áfram heyrist hljóð

úr horni, er lít um sviðið.

Óska að verði ártíð góð,

ærlegt stefnumiðið

og vakni af blundi þessi þjóð.

Ég þakka fyrir liðið.