
Er Reykjavík verst rekna sveitarfélagið?

Það er þessi dagur í dag. Og þetta er fertugasti og fyrsti 19. apríllinn okkar!. Þau eru því orðin fjörutíu árin sem við Anna María höfum stigið sporin saman, oftast í góðum takti, þó auðvitað hafi komið fyrir að ég stigi á tærnar á henni, klunninn sem ég er. Ekki þarf að orðlengja það, en gæfan hefur slegist í för, barnalánið er mikið – og vonandi nokkur góð ár eftir til að njóta samvista við hópinn okkar, sem brátt telur 24 fallega og góða einstaklinga.
Af þessu tilefni fékk ég Labba í Mánum til að syngja fyrir mig kvæðisbút sem ég samdi við þekkt lag sem okkur er kært, og tengill er á hér efst á síðunni:
Ástin mín
Margt er miður fallegt í menningarsögunni. Nýlendukúgun, arðrán, þjóðarmorð, þrældómur, kynhneigðarkúgun, lista- og menningarrán. O.s.frv. Grundvöllur velsældar „hins vestræna heims“ er ekki falleg saga.
Nú er mjög til umræðu hvað má og hvað má ekki. Gamlar „barnagælur“ eru bannaðar vegna rasisma í orðfæri og viðhorfum til blökkumanna. Gömul málverk í stofnunum mega ekki lengur hanga þar á veggjum því þær minna á aldalanga kúgun og hlutgervingu kvenna. Ófatlaður maður má ekki leika fatlaðan á sviði Þjóðleikhússins af því það er niðurlægjandi og dæmigert fyrir jaðarsetningu og útskúfun fatlaðra. Ekki má dubba fólk af hinum hvíta kynstofni upp í asískt gervi í óperu sem gerast á í Japan, því það er menningarnám, niðurlægjandi tákn um ofríki og menningarlega nauðgun hins vestræna heims. Deilt er um hvort breyta megi bókmenntaverkum fyrri tíma til að þau falli að smekk nútímans – að „rétthugsun“ hins upplýsta og frjálslynda nútímamanns, þar sem ekkert ER lengur, enginn sameiginlegur grundvöllur að standa á, heldur einungis þær tilfinningar og „upplifanir“ sem hrærast innan þess sólkerfis sem hver og einn einstaklingur er. Kynin eru ekki lengur tvö heldur jafnmörg þeim lífverum sem teljast til tegundarinnar homo sapiens.
Við hjónin fórum á sýningu Íslensku óperunnar, Madama Butterfly e. Puccini. Sýningin komst í fréttirnar þegar hljóðfæraleikari í Synfóníunni kvartaði undan því menningarnámi sem felst í því að hvítir voru farðaðir sem asískir. Þátttakandi í sýningunni „kom fram“ og lýsti óhugnaði sínum yfir því að hafa tekið þátt í þessari aðför að japanskri menningu og lýsti því yfir að hann myndi ekki taka þátt í þessu framar – þ.e. að láta farða sig. Fólk skiptist óðar í tvær fylkingar um þetta málefni.
Sýningin var ljómandi. Söngurinn var framúrskarandi, svona eins og vit mitt gagnast til að dæma um það. Hye-Youn Lee söng aðalhlutverkið og heillaði óperugesti. Stórkostleg söngkona. Sjálfsagt er það heppilegt í ljósi umræðunnar að hún er einmitt japönsk sjálf. Arnheiði Eiríksdóttur, sem syngur líka afbragðsvel, þurfti hins vegar að farða og klæða í japanska þjónustu, og fleiri lentu í þeim menningarfasisma. Egill Árni Pálsson söng hitt aðalhlutverkið og þessi gamli nemandi minn úr Reykholtsskóla gerði það listavel. Og allir söngarvar stóðu sig vel, þannig að tónlistin naut sín og hreyfði við áheyrendum, jafnvel gömlum þverhaus eins og undirrituðum.
Ekki verður því neitað að sagan í óperunni er alveg dæmigerð óperusaga fyrri tíðar. Þetta er hefðbundin karlrembusaga; konan er saklaust og viðkvæmt blóm, í erfiðri félagslegri og efnahagslegri stöðu, sem er „bjargað“ af forríkum karli, sem svíkur hana auðvitað við fyrsta tækifæri, og hún, með öllu ósjálfbjarga þegar karlsins nýtur ekki við, drepur sig í örvæntingu ástarsorgar í lok leiksins. Um þetta eru nánast allar klassískar óperur.
Og sagan endurspeglar líka ofríki hins vestræna, hvíta heims. Bandaríska herveldið veður yfir japanska þjóð. Hvítur herforingi veður yfir japönsku kvenþjóðina. Forríkur, hvítur, miðaldra karl veður yfir fátæka alþýðu.
Það er margt ógeðfellt í þessari sögu, sem „gerist snemma á síðustu öld“ eins og óperustjórinn skrifar í aðfararorðum sýningarskrár. Þar segir Steinunn Ragnardóttir líka að umfjöllunarefnið sé „tímalaust því tilfinningar okkar breytast ekki og mennskan verður alltaf söm við sig“ og að óperan fjalli „um ódauðlega ást og vonina sem veitir tilgang í ömurlegum aðstæðum.“ Vonin sé „eitt sterkasta aflið sem við eigum og svo lengi sem hún lifir getum við umborið næstum allt.“
Það stakk mig ekki að hvítir leikarar og söngvarar hafi verið farðaðir og dubbaðir upp í japönsk klæði. Það er einmitt það sem leikarar gera; þeir setja sig í gervi annarra, „leika“. Þess vegna köllum við svona gjörning „leikrit“. Og ekkert við það að athuga.
Hins vegar gætu alvöru baráttumenn fyrir frelsi, jafnrétti og efnahagslegum jöfnuði hafið upp raust sína með fullum rétti. Því ef sagan sem óperan segir er dæmi um þær tilfinningar og þá mennsku sem við viljum að verði alltaf söm við sig, lýsi þeirri ást sem við viljum að sé ódauðleg og þá von sem við viljum bera í brjósti til að umbera næstum allt – ja, þá er illa komið fyrir mannkyninu. Viljum við að konur séu valdalausar gólfmottur fyrir ríka karla? Viljum við að eina von fólks í „fjarlægum“ heimsálfum sé að forríkur karl úr velsældarheimi bjargi því úr tilgangsleysi og vonleysi eigin lífs og menningar? Viljum við að hugmyndin um hina sönnu, ódauðlegu ást byggist á því að konan sé undirlægja, sem á hvorki framtíð né von án karls? Forríks auðvitað.
Mín tillaga er að Íslenska óperan hætti að birta þýðingar á texta verkanna á sjónvarpsskjám í salnum. Þá gæti fólk notið tónlistarinnar og söngsins, óvitandi um og ótruflað af allri þessari kvenfyrirlitningu, nýlendufasisma, kúgun og menningarnámi sem frásögnin er uppfull af og er matreidd ofan í það á skjáum.
Fyrir utan það hve mikill endemis leirburður textinn er.
Eftir langan tíma, sennilega of langan, hef ég ákveðið að hætta sem formaður Körfuknattleiksfélags Selfoss og segja mig frá ábyrgðarstörfum fyrir félagið. Þetta hef ég nýverið tilkynnt félagsmönnum. Ég hef nú verið formaður þess undanfarin 8 ár, samfellt frá 2015, og virkur þátttakandi „ofan, neðan og allt um kring“ frá stofnun þess árið 2005.
En þessi saga teygir sig lengra aftur í tímann, til ársins 1993 þegar ég kom á Selfoss sem nýráðinn þjálfari hjá Körfuknattleiksdeild Umf. Selfoss. Fáum árum seinna tók ég við sem formaður deildarinnar, og gegndi því embætti, jafnframt þjálfun m.fl. og yngri flokka, til 2002, þegar bæjarstjórn Árborgar og sveitarstjórnarpólitíkin kom til.
Þetta eru því orðin 30 ár. Heil þrjátíu ár, eða hálf ævin, sem ég hef lagt líf og sál í uppbyggingu körfubolta á Selfossi. Og þrettán ár helgaðar íþróttinni má telja til viðbótar, allt frá 1980, þegar ég fór að heiman til náms í Reykjavík og byrjaði að æfa og spila með Val í úrvalsdeild, síðan ÍR, Reyni Sandgerði sem spilandi þjálfari, og loks Keflavík, áður en meiðsli enduðu ferilinn í efstu deild og landsliðinu árið 1987.
Við tók þjálfun Laugdæla í 1. deild og síðan Selfoss 1993, sem þá var í 2. deild, en fór upp í 1. deild vorið 1994 og þar hefur karlalið Selfoss verið síðan, að þremur árum undanskildum, þegar félagið lék í Úrvalsdeild, 2008-2010 og aftur 2015-2016.
Grunnurinn var auðvitað lagður mun fyrr, við barnsaldur, þegar körfubolti var „þjóðaríþrótt“ á Laugarvatni og margar ógleymanlegar stundir lifa í minninu úr gamla íþróttasalnum heima við Héraðsskólann, og úr félagsheimilum vítt og breitt um Suðurland, fyrst að fylgjast með eldri bræðrum mínum í liði UMFL og HSK og síðan sem virkur þátttakandi í skólaliðum Héraðsskólans og Menntaskólans, og liði UMFL í HSK-mótinu. Við fengum, nokkrir guttar á fermingaraldri, að stofna C-lið Umf. Laugdæla til að geta verið með í HSK mótinu, sem var mikið ævintýri, og síðan lá leiðin framar í stafrófið.
Sko, þetta átti nú ekki að verða ævisaga! Körfubolti er hins vegar svo fyrirferðarmikill að hann fléttast við líf mitt allar götur frá því ég man eftir mér.
En hvað hefur þá áunnist? „Hvað hefur orðið okkar starf í sexhundruð sumur? Höfum við gengið til góðs ….“?
Auðvitað er allt fólkið efst á blaði. Óteljandi vinir og kunningjar um allt land, þjálfarar, leikmenn, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar, dómarar, og síðast en ekki síst velviljaðir forsvarsmenn fyrirtækja.
Það hefur verið meira en að segja það að koma körfubolta, „móður allra íþrótta“, á legg á Selfossi. Það hefur lengst af verið harðdrægt verkefni, í knattspyrnu- og handboltabæ, að ætla sér eitthvað með körfuboltalið, annað en að gutla að gamni sínu frá 21.30-23.00 tvisvar í viku, eins og úthlutaðir æfingatímar í íþróttahúsi bæjarins voru fyrstu árin. Það eru ósambærilegar aðstæður við bæjarfélög þar sem körfubolti er aðal boltagreinin innanhúss, eða jafnvel sú eina marktæka.
Það hjálpaði okkur að á 10. áratug 20. aldar reið yfir heiminn „Jordan-æði“, og smitaði meira að segja nokkra krakka á Selfossi, sem voru upphafið að skipulögðu yngriflokkastarfi með reglulegri þátttöku á opinberum mótum körfuboltasambandsins. „Fyrsta bylgjan“ reis hæst með tveimur Íslandsmeistaratitlum 1985 árgangsins, í 7. flokki drengja árið 1998 og 10. flokki drengja árið 2001, og nokkrum leikmönnum sem voru valdir í yngri landslið og spiluðu landsleiki. Bæði ´84 og ´85 árgangarnir spiluðu á efsta stigi, í A-riðli Íslandsmóts yngri flokka, og ungir menn af Jordan-kynslóðinni, fæddir á árunum kringum 1980, urðu kjarninn í meistaraflokksliðinu. Sá sem náði lengst af þeim var Marvin Valdimarsson sem átti langan og glæsilegan feril í efstu deild, fyrst með Hamri og síðar Stjörnunni. Fleiri mætti nefna, sem glatt hafa félagsmenn með frammistöðu sinni í Iðu og Gjánni, og gert sig gildandi í deildakeppninni hérlendis, en það verður ekki gert hér.
Árið 2005 urðu umskipti í sögu körfuboltans á Selfossi þegar Brynjar Karl Sigurðsson stofnaði körfuboltaakademíu við Fjölbrautaskólann. Umskiptin urðu fyrst og fremst á afrekssviði, og höfðu ekki bara áhrif á körfubolta, heldur umbyltu algerlega öllu afreksstarfi og -hugsun í íþróttahreyfingunni á Selfossi. Stofnað var nýtt íþróttafélag, körfuknattleiksfélag utan ungmennafélagsins, og hefur sú skipan haldist síðan: Körfuknattleiksfélag Selfoss blómstrar sjálfstætt og óháð.
Megináherslan í nýja félaginu, sem fyrstu árin var kennt við FSu, var á akademíuna og afreksstarf, sem var mikilvægt og nauðsynlegt, en minni áhersla var á barna- og unglingastarfið. Því trosnaði þráðurinn á tímabili og félagið saup seyðið af því, þegar leikmenn sem tóku sín fyrstu skref fyrir og upp úr aldamótum fóru smám saman að draga sig í hlé, en engir komu í staðinn.
Síðasta áratuginn eða svo hefur þessu verið kippt í liðinn og nú er mjög stór hópur afar efnilegra leikmanna úr „annarri bylgjunni“ að tínast inn í meistaraflokksliðið, að stærstum hluta f. 2006, „strákarnir hans Kalla“, og óslitinn þráður þaðan niður í leikskólaaldur. Úr þessum hópi hafa bæst við nokkrir landsliðsmenn yngri landsliða, leikmenn aldir upp hjá félaginu.
Félagið stendur því styrkum fótum, bíður eins og efnilegt tryppi að „grípa gangsins flug“. Innra starfið er að stórum hluta komið í fastar og traustar skorður, reksturinn er í jafnvægi réttum megin við núllið, yngriflokkastarfið, mikilvægasta auðlindin, er í öruggum höndum öflugs barna- og unglingaráðs og vel mannaðs þjálfarateymis, akademían aldrei verið eftirsóttari. Góður grunnur hefur verið lagður sem gefur fyrirheit um glæsta framtíð, ef rétt er á spilunum haldið.
Næstu skref eru að styrkja umgjörð um meistaraflokkslið karla og að stofna kvennaráð til að undirbúa og byggja upp kvennalið hjá félaginu. Of fáar stúlkur á unglingsaldri eru virkar en vaxandi fjöldi áhugasamra stelpna í minnibolta sem eru efnilegar íþróttakonur og nauðsynlegt að halda vel utan um þær.
Við þessar aðstæður finnst mér tímabært og rétt að stíga frá borði. Enginn er eilífur í sjálfboðaliðastarfi af þessu tagi, getur ekki verið það og á ekki að vera það. Ég treysti því að nýtt fólk með nýjar áherslur taki við og lyfti félaginu upp á næsta stall (annars er mér að mæta!!!).
Öllum sem blásið hafa í seglin undanfarin 30 ár þakka ég af heilum hug fyrir stuðninginn og samstarfið. Ekki síst fyrirtækjum sem lagt hafa til, sveitarfélaginu og fjölbrautaskólanum. Að ekki sé minnst á konu mína og fjölskyldu, sem hafa þurft að búa við það í 40 ár að skipuleggja frí og viðburði út frá leikjadagskrá og æfingaplani.
Síðasta embættisverkið bíður handan við hornið, að slíta aðalfundi þann 29. mars næstkomandi.
ÁFRAM SELFOSS-KARFA!!!
Takk fyrir mig.
Hér er saman komið safn tækifæriskveðskapar á árinu 2022. Safnið er alveg óritskoðað og í því eru u.þ.b. 210 vísur af ýmsu tagi, misjafnar að gæðum, en vonandi einhverjar birtingarhæfar.
Tveir góðkunningjar mínir gáfu út ljóðabækur í haust, Jón Hjartarson og Pétur Önundur Andrésson. Um þær hefur verið heldur hljótt, enda ekki náð eyrum þeirrar elítu sem stjórnar bókmenntaumfjöllun í þessu landi og talar við sjálfa sig á víxl í fjölmiðlum. Þær eru þó þess verðar að séu lesnar, og hafðar á náttborðum til að grípa í í framhaldinu.
Náttúran skipar stóran sess í þessari bók, landið, gróðurinn, dýralífið, og fléttast saman við minningar höfundarins.
Ljóðin eru hápólitísk en hvergi að finna boðunartón, stríðsrekstur, jafnt úti í hinum stóra heimi sem gegn náttúrunni, er afgreiddur með sömu stóisku rónni og bernskuminningar.
Eins og nafnið bendir til, „Lifað með landi og sjó“, er bók Jóns Hjartarsonar óður til náttúrunnar. Hún fjallar um heimahaga höfundarins, Strandir æskunnar og fullorðinsár „milli sanda“. Ljóðin einkennast af næmri tilfinningu fyrir undrum náttúrunnar og umhyggju fyrir
Bergsveinn Birgisson og Þormóður Torfason fylgdu mér í gegn um jólahátíðina. Það verður að segjast að þeir voru góðir fylgdarmenn. Bergsveinn skrifar góðan texta og saga Þormóðar er forvitnileg, svo ekki sé meira sagt. Þormóður mun hafa verið nánast þagaður í hel af seinni tíma mönnum, sem héldu á móti Árna Magnússyni vel og skilmerkilega á lofti.
Ekki eru til ítarlegar heimildir um alla þætti í sögu Þormóðar og leyfir Bergsveinn sér að skálda í eyðurnar, m.a. samtöl og líklega atburðarás þegar þannig stendur á. Þeim innleggjum sínum gerir höfundur skilmerkilega grein fyrir.
Hvað sem öðru líður eru heimildir nægar til að halda því fram að Þormóður var frumkvöðull í handritarannsóknum og söfnun. Hann er nefndur í framhjáhlaupi í bókmenntasögu, sem hálfgerður svikari við málstaðinn, sennilega af því hann vann fyrir erlent konungsvald, sem ekki var upp á pallborðið á tímum þjóðernisrómantíkur.
En þetta er sem sagt sannkallað gúmelaði.