Átök og hávaði

Á meðan Steingrímur bíður svara frá bankasýslunni vegna ráðningar Páls Magnússonar í forstjórastólinn skipar innanríkisráðherrann nefnd til að fara yfir Geirfinns- og Guðmundarmálin. Allflestir Íslendingar, held ég, fagna því að farið sé ofan í saumana á þessu máli sem legið hefur eins og mara á þjóðinni, ekki þó á aðra öld eins og ort var um Reynistaðarbræður, en samt á fjórða áratug, og sjálfsagt má teljast gott ef næst að hreinsa þetta mál upp áður en hálf öld verður liðin frá upphafi þess.

Einhvernveginn virðist það vera vægast sagt erfitt að stunda þau vinnubrögð við embættisveitingar innan stjórnsýslunnar sem, frá sjónarhóli almennra borgara, eru „hafin yfir grun“. Auðvitað beita stjórnmálaflokkar og önnur hagsmunaöfl í samfélaginu sínum þekktu aðferðum til að gera ráðningar og stjórnvaldsákvarðanir tortryggilegar ef þær beinast með einhverjum hætti gegn þeirra sérhagsmunum, eða ef hægt er að finna smugur til að snúa málum á haus. En stundum er ekki nein þörf fyrir svoleiðis loddarahátt og lýðskrum; sumir ráðherrrar virðast einfaldlega hafa einbeittan vilja til að vera skotspónn slíkrar gagnrýni.

Burtséð frá þessu öllu saman virðist stjórnsýslunni fyrirmunað að hefja sig yfir grun um að ekki hafi verið staðið faglega að málum.

Rifja má upp raunir forsætisráðherra, sem fékk til liðs við sig landsfrægan mannauðsstjóra og sérfræðing til að tryggja að allt væri nú „opið og faglegt“ við ráðningu í stöðu í eigin ráðuneyti. Það heppnaðist ekki betur en svo að ráðherrann fékk á sig jafnréttiskæru, gott ef ekki dóm líka.

Og skildi einhver vafningana og vandræðaganginn við ráðningu í forstjórastól Íbúðalánasjóðs fyrr á árinu?

Enginn botnar í því, svona utan frá séð, hvernig stjórn Bankasýslu ríkisins getur komist að þeirri niðurstöðu að Páll Magnússon sé hæfastur umsækjenda til að gegna stöðu forstjóra. Það er samt best að bíða, eins og Steingrímur, eftir rökstuðningi stjórnarinnar áður en meira er sagt um það. Óneitanlega kemur samt upp í hugann skipun í Héraðsdóm Norðulands-Vestra í tíð Björns Bjarnasonar, þar sem seta eins umsækjenda í dómnefnd um stílverðlaun Tómasar Guðmundssonar (ef ég man rétt) þótti ríða baggamuninn þegar hæfi umsækjenda var metið. Og líka skipun dómara í hæstarétt á sama tímaskeiði, þar sem sænskt námskeið í Evrópurétti gegndi sama hlutverki við ráðninguna og bókmenntanefndin, og var þá önnur menntun eða starfreynsla léttvæg fundin í samanburðinum. Að ekki sé talað um mat hæfisnefndar, enda ráðherrann ekki bundinn því mati lögum samkvæmt, eins og hann ítrekaði sjálfur þegar hann var krafinn skýringa.

Auðvitað verður að virða það þegar ríkisstofnanir eru það sem kallað er „sjálfstæðar“. Þó þær heyri undir ákveðinn ráðherra, og séu á ábyrgð hans, felst í þessari skipan mála að þær séu lausar undan beinum afskiptum stjórnmálamanna, að ráðherrar geti ekki vaðið þar um á skítugum skónum, rekið menn og ráðið eftir pólitískum línum. Markmiðið er að koma í veg fyrir pólitíska spillingu og tryggja fagleg vinnubrögð. Og þess vegna viljum við ekki að Steingrímur, í þessu tilfelli, skipti sér af því hvern stjórn bankasýslunnar ræður í forstjórastólinn. Eða hvað?

Á meðan þessu fer fram skipar sem sagt Ögmundur nefnd til að velta við steinum í gömlu saka- og dómsmáli. Það mál er ekki bara venjulegt sakamál, ekki bara spurning hvort einhverjir einstaklingar voru sekir eða saklausir, ekki bara spurning um það hvort einstaklingar voru ranglega dæmdir fyrir glæpi sem þeir aldrei frömdu, hvort íslenska dómskerfið framdi réttarmorð á saklausu fólki eða hvort lögreglan og fangaverðir hafi framið glæpi með því að níðast á sakborningum meðan þeir sátu í gæsluvarðhaldi. Nógu alvarlegt er allt þetta samt og tilefni til sérstakrar rannsóknar.

Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru líka hápólitísk mál sem rötuðu inn í Alþingishúsið, alla leið upp í ræðustól þar, með eftirminnilegum hætti. Við rannsókn á þessum málum verður farið alla leið inn að kviku íslensks valdakerfis. Það mun hreyfa við einhverjum sem enn hafa hagsmuna að gæta eða halda um þræði valdsins. Þetta er ekki mál sem varðar uppgjör við löngu gengnar kynslóðir. Það brennur enn á skinni.

Þess vegna er það óskiljanleg ákvörðun hjá innanríkisráðherra að skipa varaþingmann úr eigin liði til að fara ofan í saumana á þessu máli. Með því leggur hann vopnin upp í hendurnar á pólitískum andstæðingum sínum, og hverjum sem er ef út í það er farið. Þegar og ef hitna fer undir einstaklingum eða klíkum vegna rannsóknarinnar verða störf nefndarinnar kölluð pólitísk aðför ráðherrans og flokks hans. Það þarf ekki annað en að rifja upp frasana sem flogið hafa vegna skipunar landsdóms og málareksturs hans gegn Geir Haarde til að átta sig á þessu. Og ráðherrann er varla svo skyni skroppinn að sjá það ekki?

Í þessu samhengi skiptir hæfi Arndísar Soffíu ekki máli. Eins og einn kunningi minn orðaði það: „Er þetta ekki svolítið eins og ef Björn Bjarnason hefði skipað Sigurð Kára?“

Eina skynsamlega skýringin sem ég get grafið upp á þessari nefndarskipan er náttúrulegt eðli Ögmundar Jónassonar: Hann þrífst á átökum og hávaða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *