Af „réttri klukku“

Birt á Facebokk 8.11.2025
 
Hvorki er ég sérfræðingur né sérstakur áhugamaður um nokkrun skapaðan hlut. En tel mig þó hafa einhverja dómgreind. Á grunni hennar, og ríflega 6 áratuga eigin reynslu, hef ég ályktað sem svo að meiri birta sé betri en minni. Og að betra sé að njóta náttúrulegrar birtu þær stundir sem gefast til frjálsrar útiveru, heldur en þann hluta sólarhringsins sem fólk er alla jafna bundið inniveru, í raflýstum húsum.

Krakkar sem sagt vakna þegar ljósin eru kveikt í herberginu, þó almyrkt sé úti. Upp úr hádegi, þegar skóladeginum lýkur, er bjart í nokkrar klukkustundir og hægt að leika sér úti.
Væri betra fyrir ungdóminn að vakna í skímu og fara í skólann, og koma heim úr skólanum þegar fer senn að rökkva, heldur en að vakna í myrkri við rafljós og njóta hollrar útiveru lengur í birtu eftir skóla? Væri betra að fækka birtustundum um „13% á ársgrundvelli“? Að ekki sé talað um fullorðið fólk. Á að taka af því dagsbirtuna og útivistina eftir vinnudag, þannig að það sé allan sólarhringinn í rökkri og myrkri? Vakni í rökkri á morgnana og komi heim í rökkri síðdegis?
 
Því hefur verið haldið fram að nauðsynlegt sé að fullorðnir setji á sjálfa sig súrefnisgrímuna áður en þeir hjálpi börnunum. Ég held það eigi við í þessu samhengi líka. Og þó sérfræðingar ýmsir haldi því fram að vaxandi þunglyndi og kvíði meðal barna og ungmenna sé klukkunni að kenna, þá held ég að svo sé alls ekki, heldur beri aðrir þættir í samfélagsgerðinni mestu ábyrgðina. Of langt mál væri að telja þá alla upp hér, en nóg að nefna firringu og „eftirsókn eftir vindi“, samskiptafátækt eða -leysi, rof milli kynslóða, gegndarlausa sjálfmiðun, tillitsleysi og samúðarskort, rof milli manns og náttúru. Það mun ekki bæta geðheilsu þjóðarinnar að breyta klukkunni, ef samfélagið heldur áfram við fyrrnefnt heygarðshorn. Bann við snjallsímum mun ekki einu sinni duga gegn þeim hörmungum öllum, hvað þá blessuð klukkan.
 
Sem sagt; leggjum á það megináherslu að taka utan um börnin, kenna þeim að sýna tillitssemi, samúð, virðingu og vináttu hverjum sem er, jafnvel þeim sem ekki ganga í fatnaði nýjustu tísku dýrustu merkjanna og eiga ekki nýustu útgáfu tæknitólanna, eru upp runnin úr öðru þorpi, tala öðruvísi eða líta ekki eins út (hverjir tveir líta eins út?). Og leyfum þeim áfram að njóta dagsbirtunnar eftir skóladag.
 
„Vegur þar þyngst að neikvæð áhrif fækkunar birtustunda á vökutíma og skerðingar birtustunda í lok dags sem dregið gætu úr útivist og hreyfingu eru ekki nægilega vel þekkt, en birtustundum hefði fækkað um 13% á ársgrundvelli með breytingunni.“ (Erlendur S. Þorsteinsson. 2025. Rétt klukka síðan 1968: Höldum í síðdegisbirtuna. Visir.is, 7. nóvember. https://www.visir.is/g/20252800573d?fbclid=IwY2xjawOVRHhleHRuA2FlbQIxMQBzcnRjBmFwcF9pZBAyMjIwMzkxNzg4MjAwODkyAAEek2txINktgQ8Bsqk2aflwo31Fb_AmvOERuEqtVlnmEOXho3dO8er_bz-q2yQ_aem_1gi6gXB_W0JZpHmw178uzg)
 
 

Skildu eftir svar