NÝTT STJÓRNSÝSLUSTIG:
Svæðisskrifstofur sérfræðinga fyrir framhaldsskólana
Í gær tilkynnti barna- og menntamálaráðuneytið að væntanlegar væru kerfisbreytingar á rekstri opinberra framhaldsskóla. Stefnt væri að því að stofna fjórar til sex svæðisskrifstofur sem tækju við „stjórnsýsluhluta stjórnunar“ skólanna, og einhverju fleiru.
Hvað þýðir þetta? Hver er stjórnsýsluhluti stjórnunar?
Það mun vera reksturinn og mannaráðningar, eða mannauðsmál, á fínu máli.
Sem sagt: Stofna á nýtt stjórnsýslustig fyrir framhaldsskólakerfið, 4-6 sk. svæðisskrifstofur, út um land, til að möndla með peninga og ráða fólk eða reka.
Það er erfitt að sjá kosti við þessar breytingar. Að taka reksturinn, þann sveigjanleika sem hverri stofnun er nauðsynlegur til að ákveða hvernig fjárveitingum til hennar er best varið miðað við aðstæður á hverjum stað hverju sinni, en færa ákvörðunarvaldið til miðlægs apparats með enga tilfinningu fyrir sérstöðu hvers skóla fyrir sig, er vandéður ábati, þó hugsanlega sé hægt að sýna fram á sparnað í excelskjali til skamms tíma.
Það sama gildir um „mannauðsmál“. Hvernig á miðlæg svæðisskrifstofa að hafa tilfinningu fyrir „mannauði“ í hverri stofnun, vítt og breytt um sveitir landsins, vinnustaðamenningu, starfsanda, hefðum og venjum? til að geta af einhverju viti haft með mannaráðningar að gera, eða annað það sem lýtur að velferð starfsfólks? Ofan á þetta kemur yfirlýsing um „endurskoðun stofnanasamninga“ sem eru einmitt tæki hverrar stofnunar til að haga mannauðsseglum eftir vindáttum, að nýta byrinn á hverjum stað sem best.
Það sem við blasir er þetta:
Þó ráðuneytið masi nú um „ítarlegt samráð við kennarasambandið, stjórnendur, kennara, nemendur og annað starfsfólk skólanna“ og að breytingarnar „muni ekki hafa bein áhrif á heildarkjarasamning framhaldsskólakennara“, þá er því miður lítið fyrir slíkar yfirlýsingar að gefa, eins og fjölmörg dæmi sanna, t.d. margsvikin loforð stjórnvalda um að bæta skerðingar á lífeyrisréttindum með hækkun grunnlauna til jafns við „almennan vinnumarkað“ og mörg fleiri dæmi í gegn um tíðina um afnám og skerðingar réttinda kennara, bótalaust.
Og þau orð ráðherra, að það væri „alveg skýrt að hér yrði um aukið fjármagn að ræða“ eru vitaskuld jafn marklaus, því hingað til hefur ekki verið staðið við slíkar yfirlýsingar vegna skipulagsbreytinga og ákaflega einfalt fyrir stjórnvöld að láta svona loforð gufa upp í verðbólgu og dýrtíð, benda svo á fjármálaráðuneytið þegar kvartað er yfir fjárskorti, því þegar allt kemur til alls eru það ekki fagráðuneytin heldur fjármálaráðherra sem skammtar úr hnefa. Þjónustu- og réttindaskerðingar gufa hinsvegar ekki upp.
Er þá ekkert jákvætt í þessum tillögum? Jú, það er jákvætt að færa verkefni frá menntamálaráðuneytinu og út til svæðisskrifstofa í landshlutunum. Það gæti minnkað þann pólitíska glundroða sem oft fylgir ráðherrraskiptum, stytt boðleiðir og afgreiðslu mála. Einnig er göfugt það markmið að auka aðgengi að sérfræðiþjónustu, t.d. heilbrigðisstarfsfólki, s.s. sálfræðingum, hjúkrunarfræðingum o.fl. sem hefur verið sjaldséð í skólakerfinu hingað til.
En sporin hræða.
Orðalag eins og að „gengið sé út frá því að halda í mannauð en viðbúið að tilfærsla verði á verkefnum“ þýða einfaldlega á klofinni tungu íslenskra stjórnmála að fólki verði sagt upp í sparnaðarskyni, og að verið sé „að létta á verkefnum“ svo „kennarar, skólastjórnendur og annað starfsfólk geti einbeitt sér að faglega þættinum“ segir mér fátt annað en það að skólastjórnendur verði án fjárráða og muni því eiga á hættu að geta ekkert sinnt „faglega þættinum“.
Því miður eru líka of mörg dæmi um axarsköft „miðlægrar stjórnsýslu“ á skólaskrifstofum hringinn í kringum landið, t.d. varðandi sérfræðiráð um sameiningar skóla á grunnskólastigi, til að trúboð um svæðisskrifstofur sérfræðinga fyrir framhaldsskólana kristni undirritaðan.
Þessu var sem sagt kastað framan í skólasamfélagið rétt sisvona.