Slumpum bara í þá uppbótum …

Ég var að kíkja í nýgerðan kjarasamning FF og FS við Ríkið. Ekki er þar, fremur en vant er, að sjá kennimörk tiltölulega nýs menntamálaráðherra sem lýst hafði yfir bráðri nauðsyn þess að stórbæta kjör kennara. Bjóst svo sem varla neinn við því að nokkur innistæða væri fyrir þeim orðum. En staðfestist svart á hvítu í þessari samningsnefnu.

Halda áfram að lesa

Að lesa og skrifa list er góð

Einn er sá grundvallarmisskilningur sem tröllríður samfélaginu frá æðstu stöðum í ráðuneytum, niður um allt sérfræðingaveldi ríkis og sveitarfélaga, þingmenn, sveitarstjórnir, skólakerfið, stéttarfélög, vinnuveitendasamtök og út í þjóðfélagið:

LESTRARÁTAK.

Læsi verður aldrei tryggt með átaki. Skólarnir þurfa að hafa lestur, venjulegan bóklestur í gamaldags skilningi, hreinan yndislestur, á stundatöflu nemenda langt fram eftir aldri, meira og minna allan grunnskólann að minnsta kosti. Þáttur foreldra verður auðvitað aldrei metinn til álna, en ábyrgð kennara og skólakerfisins er að gefa börnunum nægt rúm og næði til að lesa í stað þess að einblína á allt of fjölbreytt „val“ og aðskiljanlegustu námsgreinar þegar á unga aldri. LESA, SKRIFA, REIKNA. Þessum grunnþáttum VERÐUR AÐ TRYGGJA að öll börn nái góðum tökum á. Ef það tekst þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru. Ef það tekst ekki er voðinn vís. Svo einfalt er það.

Stöðugur lestur, fyrir börn og barnanna sjálfra, alveg fram á unglingsaldur er mikilvægasta námsgrein grunnskólans og ætti að vera á stundatöflunni daglega fyrstu10 árin. Við höfum of mörg átakanleg dæmi um misheppnað átak til að bæta læsi íslenskra barna til að hunsa lærdóm af þeirri reynslu.

EKKERT LESTRARÁTAK FRAMAR, TAKK FYRIR.

Er ekkert að gera í fangelsum?

Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.

Halda áfram að lesa

Menntun fanga

Líklega er óhætt að slá fram þeirri alhæfingu að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og möguleikum þeirra á að feta sig aftur inn í samfélagið. „Nám er besta betrunin“ er frasi sem oft er gripið til á tyllidögum – og margir hafa líka fyrir satt hversdagslega. Í skýrslu nefndar frá 2008, á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands og dóms- og menntamálaráðuneyta, um stefnumótun í menntunarmálum fanga, var þetta ein meginniðurstaðan. Og líklega eru flestir í okkar samfélagi sammála því að mikilvægast sé að í fangelsum fái einstaklingar tækifæri til að bæta sig en séu þar ekki eingöngu til að taka út refsingu.

Halda áfram að lesa

Hernaðurinn gegn kennarastéttinni

Anna Lára Pálsdóttir fór vel yfir það í pistli á visir.is hvernig veist hefur verið að kennarastéttinni frá því rekstur grunnskólanna var færður yfir til sveitarfélaganna. Nánast allt sem hún tínir til á við um framhaldsskólana líka, en þeir eru á ábyrgð ríkisins eins og flestir munu vita og því sama hvorum megin hryggjar kennarstéttin liggur hvað yfirstjórn varðar.

Ég ætla að leyfa mér að draga hér út úr grein Önnu Láru þá punkta er varða vinnutíma og vinnuskyldu kennara og hvernig meintir tilburðir yfirvalda til að bæta og þróa skólastarf hafa í raun brotið það niður og eru á góðri leið með að eyðileggja íslenska skólakerfið, ef ekki verður kúvending nú þegar.

Tilvitnanir í grein Önnu Láru eru innan gæsalappa:

… þegar sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna árið 1995 var varað við því að yfirfærslunni fylgdi ekki nægilegt fé. Sá snjóbolti hefur nú rúllað í tuttugu ár með víðtækum og afar neikvæðum afleiðingum …“

… búið er að smætta allt starf kennarans niður í tímamældar stimpilklukkueiningar og skólastarfið allt er rígbundið í einhverju leiðinda excelskjali …“

Árið 2006 er hugtakið Skóli án aðgreiningar skrifað inn í nýja aðalnámskrá og hugmyndafræðin verður að lögum árið 2008. […] Það þarf ekkert að taka það fram að við innleiðingu á Íslandi fylgdi lítið fé og einhvernveginn var kennurum bara ætlað að finna út úr þessu.

Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt og sú ábyrgð hvílir að sjálfsögðu aðallega á kennaranum…

… íslensku börnin voru ekki að koma nógu vel út í alþjóðlegum samanburðarkönnunum, læsi var á undanhaldi og allskyns merki um að ekki væri allt með felldu. Þá er brugðið á það ráð að veita kennurum meira aðhald …“

Skrifuð er ný og ákaflega metnaðarfull aðalnámsskrá sem kennurum er ætlað að innleiða […] Kennarar hafa lagt á sig ómælda vinnu og fundarsetur til þess að aðlaga hana að því skólastarfi sem fer fram í raunveruleikanum á Íslandi.“

Þá var einnig ákveðið að innleiða nýjan námsmatskvarða, nú eru bókstafir málið. Kennarar fá að glíma við hvernig því skal komið við …“

Allt innan vinnuramma kennarans engu að síður og kostar sveitarfélögin ekki krónu aukalega. Einhvernveginn virðist endalaust hægt að bæta verkefnum inn í vinnurammann án þess að á móti komi meiri tími eða jafnvel yfirvinnulaun …“

Kennurum er meira að segja stundum ætlað að ganga inn á verksvið annarra sérfræðinga s.s. sálfræðinga og geðlækna.“

Fólk talar kennara og störf þeirra niður meðan skömmin á í rauninni heima hjá rekstraraðilum skólanna. Sveitarfélögin eru vanhæf til þess að reka skóla svo sómi sé að …“

Menntamálaráðherra hefur líka áhyggjur af blessuðu læsinu og hrindir af stað Þjóðarsáttmála um læsi, flugeldasýningu sem að mínu mati er enn eitt dæmið um hvernig fagmennska kennara er töluð niður.

Kennarar kunna alveg að setja af stað lestrarátök, þeir gera það árlega. Kennarar vita alveg hvernig á að kenna börnum að lesa og kennarar vita alveg hvaða börn ná ekki tökum á lestri. Við þurfum ekkert að finna þessi börn enda hafa þau aldrei verið týnd.“

Kennara skortir úrræði fyrir þau börn sem þurfa aukinn stuðning. Það gefur auga leið að einn kennari lætur ekki 29 börn lesa fyrir sig daglega.“

Kennara skortir tíma til að sinna kennslunni, kennarar þurfa frið fyrir gæluverkefnum menntamálaráðherra sem skella á af fullum þunga á fjögurra ára fresti.“

Í stað þess að demba sífellt fleiri verkefnum yfir kennara mætti beina sjónum að því hvernig styrkja mætti þá í starfi og veita fjármagni og mannauð í að standa undir því metnaðarfulla skólastarfi sem er svo fallega orðað á pappírum.“

Við þetta má bæta að kennarar þurfa frið fyrir því niðurlægjandi ofbeldi sem forysta þeirra stundar fullum fetum með rekstraraðilum skólanna: að láta þá eyða dýrmætum vinnutíma sínum í að telja saman allar mínúturnar sem þeir verja til starfsins.

Öllum þessum tíma og vinnu, sem hér hefur verið tiltekið, og bætt hefur verið við vinnuskylduna, væri betur varið með því að láta kennara í friði og leyfa þeim að sinna starfi sínu:

AÐ KENNA

en ráða til þess menntaða sérfræðinga að sinna hverskyns sérþörfum.

Af menntun og skólahaldi í fangelsum

Árið 2008 skilaði nefnd skipuð fulltrúum frá mennta- og dómsmálaráðuneytum, Fangelsismálastofnun og Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) tillögum að stefnumótun í menntunarmálum fanga. Nefndinni var falið að huga sérstaklega að fjarkennslu gegnum Netið, verkmenntun, menntun erlendra fanga og þeim sem fallið hafa út úr skyldunámi.

Helstu niðurstöður nefndarinnar voru að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu. Leggja bæri áherslu á að kynna fyrir föngum námsmöguleika, meta fyrra nám og raunfærni, bjóða öfluga sérkennslu og einstaklingsmiðaða ráðgjöf. Lykilatriði til árangurs væri góð aðstaða til náms í öllum fangelsum, ekki síst aðstaða til verknáms og starfsþjálfunar, föngum verði tryggður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, tölvum, bókasafni og nettengingu þar sem það á við og heimild til netnotkunar verði rýmkuð í lögum. Þá lagði nefndi það til að áratuga reynsla FSu af kennslu í fangelsum verði nýtt áfram, og þannig að föngum almennt standi til boða að stunda nám, þ.e. að skólinn verði „móðurskóli“ fyrir menntun fanga á Íslandi.

Sumum tillögunum var þegar komið á koppinn. Af þeim er mest um vert stöðugildi náms- og starfsráðgjafa við FSu sem eingöngu vinnur að málefnum fanga. Að stærstum hluta er það nýtt á Litlahrauni og Sogni. Þar hefur starfsmaður fasta viðveru en sinnir einnig föngum í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Hluti stöðugildisins nýtist föngum á Kvíabryggju og Akureyri. Ráðning náms- og starfsráðgjafa er stærsta framfaraskrefið í menntunarmálum fanga í langan tíma.

Fleira mætti segja í viðunandi farvegi. Það sem enn hefur þó lítt eða ekki verið brugðist við lýtur að aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar, og hæpið er að halda því fram að öflug sérkennsla sé í boði fyrir fanga, þó mikilvæg sé.

Engin sérstök aðstaða til náms er á Kvíabryggju og mjög takmörkuð á Akureyri en í skólanum  á Litlahrauni og Sogni er aðstaðan að mörgu leyti góð hvað bóknám varðar. Þar er bæði námsver fyrir háskólanema og tölvuver sem nýtist vel til fjarnáms við ýmsa skóla.

Við FSu er hálft stöðugildi fyrir kennslustjóra í fangelsum sem sér um skipulagningu náms og kennslu á Litlahrauni og Sogni. Auk hans sinna sex kennarar staðnámi á Litlahrauni og þrír á Sogni. Fimm aðrir kennarar við FSu voru með fanga í fjarnámi á síðustu önn og fangar stunda einnig fjarnám við Tækniskólann og FÁ.

Alls innritaðist í nám á Litlahrauni og Sogni 71 nemandi á haustönn 2015. Þar af voru fimm í háskólanámi, en hinir 66 voru skráðir í 43 mismunandi námsáfanga. Nemendur koma og fara á önninni, en þegar mest var taldi kladdinn 53 nemendur, þar af 42 á Litlahrauni, en þess má geta að skólastofan þar rúmar 15 nemendur og tvísetja varð því skólann í þremur grunngreinunum.

Af þessari litlu tölfræðisamantekt má sjá að töluvert er umleikis í menntamálum fanga. Margir hafa líka náð góðum námsárangri, sumir afburðaárangri. Hefðbundið bóknám hefur verið í fyrirrúmi, en brýnast til framtíðar litið er að fylgja ráðum fyrrgreindrar nefndar og bæta aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar og að koma á öflugri sérkennslu.

Tiltölulega einfalt ætti að vera að nýta húsakost á Litlahrauni betur til að bjóða upp á fjölbreyttari verkmenntun. Það þyrfti ekki að kosta mikið. Ef alvara fylgir umræðu um betrunarvist í fangelsum í stað refsivistar, og að menntun sé besta betrunarúrræðið, þá er lag að auka fjölbreytni og bæta verulega aðstöðu fanga til náms, án óhóflegs tilkostnaðar.

Að lokum má minna á að innan skamms verður tekið í notkun nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Þau tímamót er upplagt að nýta til allsherjar stefnumótunar í fangelsismálum, þar sem menntun fanga yrði í forgrunni.

Greinin birtist á bls. 20 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 11. febrúar 2016

 

… litast þessi tilvik nú rauð þegar vinnumat í dálkum Q og V fer upp fyrir starfshlutfall í dálki E

Eftir að verkfalli framhaldsskólakennara lauk fyrir bráðum einu og hálfu ári tók við smíð á fyrirbæri sem kallast „nýtt vinnumat“ – og var hluti af þeim kjarasamningi sem samþykktur var í apríl 2014. Kennararnir áttu svo að kjósa sérstaklega um þennan hluta kjarasamningsins í febrúar 2015. Þeir gerðu það – og kolfelldu bastarðinn. Hófst þá vinna við að „sníða af vinnumatinu gallana“ eins og það var látið heita.

Forysta Félags framhaldsskólakennara hóf síðan trúboð fyrir „endurbættu vinnumati“ í framhaldsskólum landsins og tókst að berja það í gegn. Í kjölfarið hafa kennarar þurft að leggja á sig ómælda vinnu, ólaunaða auðvitað, við að mylja vinnuna sína inn í exelskjal.

Einhverjir trúa því að þessi fánýta tímaeyðsla snúist um að greina „raunverulega vinnu kennara“, snúist jafnvel um réttlæti og að þeir kennarar sem vinni mikið og vel fái umbun í launum en laun hinna sem lítið gera og illa skerðist farsællega. Ekkert er fjær sanni.

Eini tilgangurinn með þessu fáránlega regluverki er að skerða rétttindi og laun kennara, vinda meiri og fjölbreyttari vinnu úr fólki sem margt er þegar úrvinda af síauknu álagi. Sú stefna heitir á ráðuneytismáli „að bæta skólastarf“.

Kennarar hafa hingað til haft nóg að gera og þeir hafa hingað til vitað hvað til síns friðar heyrir: að mæta vel undirbúnir í tíma, sinna nemendum sínum eftir fremsta megni, meta verk þeirra og halda sér við í sinni fræðigrein.

Í kennarastarfinu felast miklar andstæður: það býður annars vegar upp á sveigjanlegan vinnutíma og hins vegar er vinnutíminn fastbundnari og ósveigjanlegri en í flestum öðrum störfum. Það er sveigjanlegi hlutinn sem lengi hefur verið ríkisvaldinu og sveitarfélögunum þyrnir í augum – og jafnvel öllum almenningi – lífseig er mýtan um að kennarar vinni ekki nema í mesta lagi hálfan vinnudag hálft árið.

Nú er sem sagt komið til sögunnar nýtt vinnumat á kennarastarfið. Flestir þeirra botna hvorki upp né niður í því hvernig launin þeirra eru reiknuð. Auðvitað er það einn tilgangurinn í öllu saman. Margir eru reiðir, ekki síst list- og verkgreinakennarar og kennarar sérdeilda, þar sem nemendur eru færri í hverjum hópi en í „almennri kennslu“. Það er sjálfsagt farsælasta leiðin til að efla list- og verkgreinanám, eins og stefnt er að í orði kveðnu, að níðast á kennurum þessara greina og hrekja handverksfólkið út úr skólunum á vit betri kjara.

Meginkosturinn við nýja vinnumatið er samt sjálfsagt hve gegnsætt og einfalt það er, eins og sjá má af tilvitnun sem ég rakst á úr einhverju vinnumatsskjalinu:

„…hefur reikniverkið ranglega sýnt yfirvinnu í dálkum R og V á samantektarsíðunni þegar kennari í hlutastarfi vinnur umfram ráðningarhlutfall … litast þessi tilvik nú rauð þegar vinnumat í dálkum Q og V fer upp fyrir starfshlutfall í dálki E.“

Þessari snilld þarf að koma rækilega á framfæri opinberlega. Þá hljóta að hellast inn á Menntavísindasvið umsóknir um kennaranám.

 

Sameining, hagræðing og flutningur stofnana

Nú hefur heyrst að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, vilji sameina þrjá skóla á Norðurlandi, Menntaskólann á Akureyri, Menntaskólann á Tröllaskaga og Framhaldsskólann á Húsavík. Þá hefur kvisast út að hann hyggist sameina Menntaskólann á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Það hlýtur að vera augljóst að eðlilegt er að flytja MÍ með manni og mús á Sauðárkrók til að  renna styrkari stoðum undir skagfirska efnahagssvæðið – og síðan jafnvel til Rússlands með landbúnaðar og sjávarafurðum héraðsins enda þarf nauðsynlega að bæta menntun í dreifðum byggðum þar eystra.

Varðandi skólana á Akureyri, Tröllaskaga og Húsavík hlýtur að liggja beinast við að flytja þá sameinaða til Hafnarfjarðar – í skiptum fyrir Fiskistofu.

Af almennum félagsfundi

Í gær var haldinn almennur félagsfundur í Félagi framhaldsskólakennara. Fundurinn var haldinn að kröfu um 200 félagsmanna sem undirrituðu skjal þess efnis en skv. lögum FF (11. grein) skal halda slíkan fund tafarlaust ef 10% félagsmanna biðja skriflega um það. Fundurinn var haldinn á sal MH og sendur út á Netinu fyrir þá sem ekki áttu heimangengt.

Raunar má segja að þetta sé gott en ákaflega vannýtt samskiptaform. Bæði fyrir forystu félagsins, sem ætti að öllu eðlilegu að vera það kappsmál að heyra sem flest sjónarmið umbjóðenda sinna og sem oftast, til að móta stefnu og vinnulag, og um leið að komast í nánari tengsl við þá, augliti til auglitis. Það segir sig eiginlega sjálft að samskipti af þessu tagi eru eðlilegri og hollari en endalausir tölvupóstar eða kjaftamiðlaglósur. Fulltrúafundirnir, þó þeir séu góðir fyrir sinn hatt, takmarkast við fáa útvalda, formenn félagsdeilda, og trúnaðarmenn þegar vel er í lagt.

Og fundir af þessu tagi eru auðvitað bráðnauðsynlegir fyrir hinn almenna félagsmann sem þar fær tækifæri til að ávarpa forystuna og félaga sín beint og milliliðalaust um sín hjartans mál.

En gildi opinna félagsfunda takmarkast ekki við það sem hér hefur verið nefnt. Það skiptir ekki síður máli að þeir eru góð æfing í og, þegar vel tekst til, mikilvægur hluti af raunverulegu lýðræði.

Í janúar 2013 var haldinn almennur félagsfundur í FF að kröfu grasrótar félagsmanna, eftir undirskriftasöfnun í skólunum. Tilefnið þá var tvíþætt, annars vegar höfðu félagsmenn þá nýverið fellt samkomulag um vinnumat og hins vegar var „Vísindasjóðsmálið“ í hámæli (sjá um fjöllun um það hér) og forysta FF lá undir ámæli fyrir skammarlega framgöngu í því. Ekki er mér kunnugt um fleiri slíka fundi.

Fundurinn í gær stóð fyrir sínu að því leyti að félagsmenn gátu þar tjáð sig. Ágæt mæting var í MH og þónokkrir höfðu látið setja sig á mælendaskrá fyrirfram. Auk þess gat hver og einn fundarmanna beðið um orðið og ávarpað fundinn. Þó ræðumönnum væru sett tímamörk voru fundarstjórar hæfilega sveigjanlegir á klukkunni; allir héldu sig svo sem líka við hóflegar framsögur. Reyndar vakti athygli að til að stjórna fundinum höfðu tryggilega verið valdir fundarstjórar með réttar skoðanir. Skipun ritara virtist ætlað að vega á móti þeim halla en þegar fundarritari tók til máls og lýsti yfir sinnaskiptum í vinnumatsmálinu var komin trúverðug skýring á vegtyllunni.

Tilefni fundarins var auðvitað vinnumatið alræmda sem fellt var í kosningu í lok febrúar sl. Skoðanaskipti voru eins og við mátti búast. Einhverjir töluðu gegn vinnumatinu en aðrir með. Bæði formaður og varaformaður félagsins héldu sínar hefðbundnu lofræður. Formaðurinn áfram með tugguna um að allir hækki jafnt í launum: „Því þurfa kennarar sem kenna fámennari hópum að taka að sér fleiri verkefni til að [ná] sama tímafjölda og þeir sem kenna fjölmennari hópum. Þannig munu allir framhaldsskólakennarar fá sömu launahækkun“, er haft eftir henni á mbl.is. og virðist engu máli skipta þó bent sé á að hærri greiðslur vegna aukinnar vinnu sé ekki launahækkun.

Sérstaka athygli vakti líka þröng lagahyggja varaformannsins; sett hefðu verið lög um framhaldsskóla árið 2008 og fyrir vikið væru kennarar ofurseldir örlögum sínum. Aðrir bentu á að ekki tíðkaðist á almennum vinnumarkaði að setja lög og reglur er vörðuðu kjör og vinnutíma án þess að semja við verkalýðshreyfinguna um útfærslu þeirra – og það sama hlyti að gilda um samninga hins opinbera.

Það merkasta sem kom fram á fundinum, og samræmist veruleikanum, var ágæt ræða með útlistun á því hvers vegna ríkið leggur ofurkapp á að þröngva þessu vinnumati upp á kennarastéttina: til að spara peninga og ná valdi á vinnutíma þeirra, svo innan skamms verði það í valdi stjórnenda að ákveða hvað kennarar geri, hvernig, hvar og hvenær – og þar með verði útrýmt helstu kostunum við þetta starf, sjálfstæðinu og sveigjanleikanum, sem er mikilvægur grundvöllur starfsánægju, frumkvæðis og sköpunarkrafts. 11,3% launahækkun er aum greiðsla fyrir slíkt grundvallarafsal.

Formaður skólameistarafélagsins segir á ruv.is að stytting náms í framhaldsskólunum „muni örugglega spara umtalsverða fjármuni“, eins og allir geta svo sem sagt sér sjálfir. Nýtt vinnumat fyrir kennara er í beinu sparnaðarsamhengi við styttinguna. Allt snýst þetta um sparnað.

Þrátt fyrir ágæta frammistöðu fundarstjórnenda í tímavörslu kolféllu þeir á prófinu þegar kom að einhverju sem máli skipti. Þegar einn fundarmanna las upp fyrir fundinn tillögu að ályktun fundarins og afhenti hana svo fundarstjóra til meðferðar, ákvað fundarstjóri að leggja ályktunina ekki fram, heldur vísa henni frá fundinum og til stjórnar. Rökstuddi hann gerræði sitt eitthvað á þá leið að þessi fundur væri ekki nein sérstök stofnun innan félagsins, hefði enga formlega stöðu og væri ekki ályktunarhæfur. Allt þetta er út í hött. Í fyrsta lagi geta allir fundir samþykkt ályktanir ef fundarmenn samþykkja að gera það. Í öðru lagi hefur þessi fundur lögformlega stöðu í lögum félagsins. Í þriðja lagi var löglega til hans boðað og því gat hann samþykkt hvaða ályktun sem var, með fullri heimild og gildi. Þessi uppákoma setti svartan blett á framkvæmdina.

Og burtséð frá lögformlegu gildi hefði stjórn og samninganefnd auðvitað átt að fagna því að fá ályktun frá fundinum. En nú skyldi knébeygja alla mögulega gagnrýni og eftir situr meirihluti félagsmanna með óbragð í munni. Sú tilfinning að forysta FF og samninganefnd ætli að keyra þetta vinnumat í gegn með öllum ráðum styrktist. Með vali á fundarstjórum átti að tryggja að forysta félagsins þyrfti ekki að rogast heim af þessum fundi með „óþægilegar samþykktir“ á herðum sér. Ályktunartillöguna getur stjórn nú meðhöndlað sem hverja aðra sérvisku eins fundarmanns. Þessi vinnubrögð voru óþörf og til þess eins fallin að grafa enn frekar undan trausti. Samt var ekki betur að heyra en ályktunartillagan væri með öllu skaðlaus og raunar hin þarfasta; brýning til samninganefndar að láta ekki plata sig til að semja um einhverja vitleysu.

Stundum er talað um kúgun minnihlutans. Það er ekki til eftirbreytni. Í samningamálum FF er orðið til eitthvað sem mætti kalla hinn kúgaða meirihluta. „Við hlustum á alla“ segir formaðurinn, en hlustar ekki á neitt nema það sem hún vill heyra. Það er búið að ákveða að það skuli samið við ríkið um nýtt vinnumat, burtséð frá því hvað félagsmenn vilja.

Enda voru sett ný lög um framhaldsskóla árið 2008. Þá þarf ekki frekari vitna við. Kennarastéttin sér sæng sína útbreidda.

 

Af skurðgreftri

Ég heyrði einu sinni af flokki manna (konur eru líka menn) sem hafði verið ráðinn til þess að grafa skurði, eða rásir, í gegnum mikinn malarkamb svo hægt væri að veita vatni á frjóan, en þurran jarðveg handan kambsins. Til verksins höfðu verkmenn skóflur, ágætar malarskóflur.

Ekki fylgir sögunni hvar á jarðarkringlunni sagan gerðist, en verkið mun hafa verið á vegum hins opinbera þar í landi og um samdist að það teldist fullt dagsverk að grafa 100 metra langan skurð á mánuði, u.þ.b. metersdjúpan og hálfsmetersbreiðan.

Svo hófu menn gröftinn. Eitthvað voru afköstin misjöfn, eins og gengur, og dæmi um að sumir væru lengur að fram á kvöldið. Skipti og sjáanlega miklu máli hvernig jarðvegurinn var. Stórgrýti og klappir töfðu verkið á köflum en þess á milli var þetta gljúpur sandur og auðmokaður. Ýmis frávik fylgdu og störfum þessum, leggja þurfti skóflublaðið á reglulega, skipta um brotið skaft o.s.frv.

Að nokkrum tíma liðnum fór að sneiðast um þolinmæði beggja aðila, verkamanna og verkkaupa. Verkamenn kröfðust hærri launa, enda verkið erfitt og vandasamt, og jafnframt ákaflega mikilvægt, enda áveitan lykillinn að bættum framtíðarhag ríkisins. Ríkið taldi á móti að afköstin væru ekki næg, og benti m.a. á meiri afköst í öðrum löndum máli sínu til stuðnings (þó þar væri að vísu víðast grafið með vélskóflum).

Samkomulag varð um að ríkið myndi hækka launin ef vinnan yrði endurmetin og hætt að miða við lengdareininguna. Var þá verkafólkið látið telja alla steina og sandkorn sem þeir mokuðu dag hvern. Þessari talningu skyldu þeir sinna til viðbótar sínum daglega mokstri. Launin yrðu svo miðuð við fjölda mokaðra sandkorna en ekki lengd mokaðrar rásar eins og áður hafði verið. Nýtt reiknilíkan var smíðað: Fjöldi sandkorna/100m –  á mánuði fyrir fullt starf.

Við talningu kom í ljós að þegar allir höfðu mokað sína 100 metra vantaði upp á fjölda sandkorna hjá sumum, mismikið eins og gengur. Nú var þeim boðið að bæta upp þennan sandkornafjöldaskort með öðrum störfum, t.d. við brýnslu, skófluskeftingu o.s.frv. eftir þörfum hverju sinni, svo hægt væri að greiða þeim full og umsamin laun – á nýjum og hærri taxta.

Aðrir náðu að fylla upp í umsaminn sandkornafjölda og þurftu ekki að taka að sér aukastörf. En allir … „undu glaðir við sitt / færandi mölina til“…, eins og eitt góðskáldið komst svo snilldarlega að orði á þeirri hátíðarstundu þegar nýja samkomulagið var undirritað.

Nú voru allir sáttir, enda framfarirnar í skurðgreftri ríkisins augljósar.