Sorpmafían

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Árborg hefur ákveðið að framlengja samning við Íslenska gámafélagið um sorphirðu í sveitarfélaginu. Eftir japl, jaml og fuður mánuðum saman var sorphirðan loks boðin út fyrr á árinu, enda gildandi samningur löngu útrunninn. Liðið er nú heilt ár síðan bæjarstjórn samþykkti útboðið og kemur á óvart að Sjálfstæðismenn í Árborg, sem kvörtuðu hástöfum á síðasta kjörtímabili yfir hægagangi í stjórnsýslunni, skuli vera svo verkkvíðnir og svifaseinir í jafn mikilvægu máli, sem hefði getað sparað sveitarfélaginu mikið fé, ef eðlilega hefði verið á málum haldið.

Eftir að tilboð voru opnuð, og fyrir lá að Gámaþjónustan átti lægsta tilboðið, varð enn „óskiljanlegur“ dráttur á framgangi málsins, nú á því að það væri tekið til afgreiðslu í bæjarráði. Það var loksins gert á fundi í morgun, 15. desember, og ákvað íhaldsmeirihlutinn þar að ógilda útboðið, framlengja sem sagt samninginn við vildarvini sína og fjölskyldufyrirtækið Íslenska gámafélagið til 15. júlí 2012, og fela tækni- og veitustjóra sveitarfélagsins „að vinna að nýju útboði“.

Sjálfstæðismenn hafa auðvitað nýtt biðtímann til að reyna að klastara saman rökum fyrir gjörningi sínum og segja m.a. í bókun með afgreiðslu sinni „að færa megi rök fyrir því að gallar kunni að vera á framkvæmd útboðsins“ og velta vöngum um það að hugsanlega kunni sorpmagn að aukast á samnigstímanum. Já, rýrt er það í roðinu.

Í bókun minnihlutafulltrúanna með tillögu sinni á fundinum um að ganga til samninga við lægstbjóðanda segir m.a.:

Tilboð Gámaþjónustunnar reyndist mun hagstæðara fyrir sveitarfélagið. Ef miðað er við kostnað undanfarinna ára er tilboð Gámaþjónustunnar mjög hagkvæmt fyrir sveitarfélagið og þýðir í raun sparnað sem nemur um það bil 25 milljónum kr. á samningstímanum. Fyrir liggur einkunnargjöf unnin af fagaðilum vegna tilboðanna og skorar lægstbjóðandi hærra í þeirri einkunnargjöf.“

Því miður koma þessi vinnubrögð Arnalds og co engum á óvart.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *