Hér er heildarsafn hefðbundis kveðskapar undirritaðs á árinu 2025. Safnið telur rétt tæpar 300 tækifærisvísur og erindi lengri kvæða, alveg óritskoðað samkvæmt venju.
04.01.25
Ólga er meðal hestamanna á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirrar ráðstöfunar sveitarfélaga að banna dreifingu taðs sem gengur undan hrossunum á opin svæði og að nýta það þannig til uppgræðslu. Nú skal taðinu, sem margir kalla hrossaskít, skilað til Sorpu, sem af þessu innheimtir móttökugjald sem er nærri 26 kr. á kílóið.
Til að varast þau eru vítin
og víð er peningahítin.
Fyrir eyðslukló þrekna,
afla þarf tekna
og skattleggja hrossaskítinn.
…
Skarður máni
skín af himni.
Suðurstjarna
starir fangin
auga björtu.
Yfir bylgast
blæja nætur,
norðurljósin.
05.01.25
Sigurbjörn Bárðarson var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ:
FÓLK
Margt reikar um víðan völl,
vanhugsuð lífsstefnan öll.
En sumt ríður í hlað,
á hárréttum stað,
eins og Diddi í Heiðurshöll.
06.01.25
Bjarni Benediktsson tilkynnti að hann hygðist ekki bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á næsta landsfundi, né taka sæti á Alþingi, nú að loknum kosningum:
Saxaði niður fylgið, sá farni,
og flokks á þingi vægið.
Búast má við að blóðug harðni
baráttan um hræið.
07.01.25
Meira af Bjarnaben:
Hrappinum Bjarna hrósa má,
tókst hríð- á fylgi að -létta.
Jafnvel orðu fálka- fá
fyrir að afreka þetta?
15.01.25
Íslandskortið í veðurfregnum kvöldsins var ekki geðslegt á að líta:
Það gusast nú sem æla yfir landið,
með ógeðsfýlu, römmu, myrku bragði.
Sér inn að skinni þrengir þokuhlandið.
Þetta Veður-Kristín okkur sagði.
17.01.25
Ekki var sumar í sumar
með sólveður blíð
en það er vetur í vetur
og varúðartíð.
20.01.25
Fyrirsögn á visir.is: „Osafengin sjálfsrækt getur reynst stórskaðleg“
Bylur hávært glamurgort,
gleymd öll félagstengin.
Víst er mannlífs síðust sort
sjálfsrækt ofsafengin.
Frá handboltamóti. Leikið gegn Slóveníu:
Í Slóveníu fólkið fer
í fát útaf „drýsli“.
Martröð það vekur, sú versta er,
Viktor Gísli.
21.01.25
Góðan á í vetri vin,
með vætu, gljá og fjúki,
þoku gráa, þæfing, hvin,
þyt af bláum hnjúki.
23.01.25
Biskup nokkrum í Bandaríkjum Norður-Ameríku tókst með hófstilltri ræðu (predikun er slíkt víst kallað í kirkjum) um gildi mennsku og virðingar að snúa enn meira upp á skottið á forsetanum þar í landi:
Af hógværð tókst, og mildi með,
mannvonskuna’ að fiska’ upp
úr forsetanum, svo er séð,
hinum „svokallaða biskup“.
25.01.25
Foldin sínar fór í skrínur
og fötin hefur þvegið
en kári mjúkar kuldalínur
í hvíta tauið dregið.
26.01.25
Klukkan átta birtir brátt,
búinn þáttur grímu.
Erum sátt er opnast gátt,
eflir máttur skímu.
Norðanáttar napran drátt
nem við slátt á þiljum.
Sviðið grátt, þó sér í blátt,
syngur hátt í byljum.
27.01.25
Margir fóru á límingunum þegar Króatar unnu Íslendinga í handboltaleik og töldu þjálfara sigurliðsins þjóðníðing og föðurlandssvikara:
Sýnist ekki ver’ úr vegi
og varla nokkurt seinmelti
að þakki núna Dagur Degi
að draga frá sér einelti.
28.01.25
Viðurnefni í Íslendingasögunum eru mörg skemmtileg:
Krókinn fór kuggi að beygja,
krákunef lopann að teygja
og tréfótur hætti
er tittlingur mætti
en súr hafði ekkert að segja.
…
Í fagurskrýddum fannarserki fold sér hreykir.
Sólarglóðargalsaleikir.
Geisladýrðin sindur kveikir.
29.01.25
Á fáum stöðum er fegurra um að litast en í Laugardal. Var á ferðinni fyrri part dags og stöðvaði augnablik vestur á Hálsi til að njóta útsýnisins. Gerði mér svo ferðir þangað síðdegis til að njóta þess við aðra birtu:
Útsýn geislar yndisfríð,
ólga kenndir tærar.
Æskuslóðir, alla tíð,
eru mér svo kærar
01.02.25
Hilmir afastrákur er 6 ára í dag.
Þegar lífs við þrána teygum
og þræðum ævi streng
þá er sælt að saman eigum
svona góðan dreng.
…
Það er vert að vara sig
þó virðist tal að skapi
því skjall fer oft á annað stig
með ofurþunnu lapi.
05.02.25
Vísindi leiða ýmist í ljós svart eða hvítt. Nú er vitnað í vísindarannsóknir sem sýna að beitiland hemji meira kolefni en skógur. Skógræktarmenn vísa í rannsóknir sem sanna hið andstæða:
Skýrt að allt er afstæði háð
í Ænstæns kenningu mennta-
og „vísindin efla alla dáð“
-ef þau trúnni henta-
…
Lemjandi regnið á rúðum.
Með rosta nú veður á súðum.
Hvinur í lofti.
Kveðjur frá Hrofti?
Gatan öll fossar á flúðum.
06.02.25
Eins og argur gjalli,
út nú blæs, við Sogn,
en undir Ingólfsfjalli
er, að heita, logn.
Á Litlahrauni lognið var
læst, og þarf að dúsa,
en hönnuð voru vegleg þar
vindgöng, milli húsa.
07.02.25
Stjórnarandsatðan er strax byrjuð með andóf og málþóf:
Vefst fyrir meðalhófsvandinn
því að vitið rann út í sandinn.
Hjá amlóðum djes,
emmsins og bjes
„uppbyggilegur“ er andinn.
…
Einar borgarstjóri Framsóknarflokksins, rúinn trausti og fylgi, sleit starfandi meirihluta og hugðist leiða íhaldið til valda:
Enn fær Framsókn engan blekkt,
íhalds- broslegt daður.
Einar blaðrar, það er þekkt,
þriggjaprósentmaður.
08.02.25
Ég ákvað að skella í rímnaflokk um afrek Einars Þorsteinssonar, fyrrum borgarstjóra í Reykjavík. Flokkurinn er tíræður, þ.e. 100 erindi, og skiptist í 10 rímur, hver þeirra 10 erindi undir sínum bragarhætti, þannig:
EINARS RÍMA BORGARSTJÓRA
ríma ferskeytt
ríma freskeytt, hringhend
ríma ferskeytt, oddhend
ríma ferskeytt, sléttubönd
ríma stafhend
ríma samhend
ríma braghend
ríma afhending
ríma braghend, baksneydd
ríma gagaraljóð
ríma, ferskeytt
Telja skal nú afrek upp
Einars, borgarstjóra:
….
….
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
.
…
Ljós og skuggar í þjóðgarðinum. Fallegur þorrablótsdagur.
Fjöll í værð á vangann kysst
vetrarsólargeisla.
Andann nærir útivist,
augans þorraveisla.
14.02.25
Valentínus veðja á,
vert er líka’ að kaupa rós,
borða fisk á Kringlukrá
og kíkja’ í Brúðkaup Fígarós.
17.02.25
Sýndu hjarta, hug og ró,
hógværð, skilning, gleði
og vertu fær í flestan sjó,
úr fjötrum laus af streði
…
Stjórnendur Arionbanka trommuðu fram í fjölmiðla með þá skoðun að sameina bæri Íslandsbanka og Arionbanka, einkum til hagsbóta fyrir „neytendur“:
Í tjaldabakstrúnaðarráðum
var tekinn fram reiknistokkur
svo boðið að sameina bráðum
bankana, fyrir okkur.
18.02.25
Jón Gnarr mætti í vinnuna á gallabuxum, en var meinaður aðgangur að þingsal:
VIRÐULEGUR, HÁTTVIRTUR ÞINGMAÐUR:
„Eftir hrun að virðing við
verulega uxsum.
Þú setur okkar sæmd á hlið
að sjást í gallabuxum“.
Forseti þingsins fór á stjá,
af fyrirlitningu starði
á gallabuxur, sem einn var í,
mættu óbættar liggja hjá garði.
Skyldi hann beygður halda heim
eða hátta sig? Tönnum gnarrði,
gekk svo inn. Með hið gamla snobb
gantaðist, fyrr en varði.
21.02.25
Skarphéðinn Áki, afastrákur, er 16 ára í dag:
Til frjórra drauma, einn fagran dag,
þér fleytir lífsins bára.
Allt er nú með besta brag,
björt og falleg ára.
Stjórn SÍS hafnaði miðlunartillögu sáttasemjara í deilu hennar við kennarasambandið:
ÁSTRÁÐSBAKARÍ AUGLÝSIR!
„STÖKKAR OG BRAKANDI VÖFFLUR BEINT AF JÁRNINU“
Vont úr þeim vitið að mylja
er virði þess besta ei skilja.
Sér heimóttin borar
í hreppsnefndir vorar
fyrst vöfflurnar alls ekki vilja.
Nú ganga svo léttvíg í lundu
því lífsgleði sína þau fundu
er sanngirni gættu
og samningahættu
var afstýrt, á 11. stundu.
Kennarar í landinu brugðust allharkalega við ofangreindum tíðindum:
Kennarar góðir! Með kjarki’ er allt hægt!
Hvergi undan hopið!
Á hátíðisdögum heyrum við nægt
hástemmt ræðuskopið,
úr misjafnri átt höfum mótvind lægt,
og marga fjöruna sopið,
en ekki fyrir árásum vægt
og aldrei niður kropið.
Þingmenn stkjórnaranstöðunnar hafa næg málefnin að leysa:
Sé virðuleg þingmennin vappa
um vitsmunabrekkuna krappa.
Eitt á herðum þarf stóla
(fyrrum stjórnandi skóla)
á skröltandi, skrúfaðan tappa.
22.02.25
Heimir Pálsson „masaði“ um gervigreind og fleira:
Greindarlíki, Djúpleit, Kjaftakvörn
koma ofan úr skýjunum,
gleypa öll, þæg sem þversum, börn
og þæfa heilann í rýjunum.
Gólar fólk sem fullorðið telst,
flokkað í bergmálsstíunum,
sannleik, sem alveg í hendur helst
við handrit frá fyrrnefndu þýjunum.
25.02.25
HVENÆR?
Hvenær má lífsins ljómi
leika um kinn?
Hvenær má dagsins drómi
dvelja um sinn?
Hvenær mun berast frá blómi
blíðskapurinn?
Hvenær mun sannur sómi
síast inn?
04.03.25
Þorri ríður þjóð á slig
í þykkum mjallarfrökkum
en Góa kerling sveipar sig
síðum kápum, blökkum.
…..
Hart, þó hlúð að vonum,
í heimi nú til dags.
Brýnt að breyta honum
til betra háttalags.
05.03.25
„Jafngildir stríðsyfirlýsingu verði hætt að áminna opinbera starfsmenn“ – ruv.is
Undarleg er okkar tíð,
ekkert traust
og þess er gætt að geisi stríð
gegndarlaust.
11.03.25
FALLEGIR DAGAR
Þegar ei bylurinn bagar
en blíða um grundirnar kjagar,
víðsýnt er lands til og lagar,
litríkir, gróandi hagar,
tindrandi tindar og skagar,
tíbrá um sandana vagar,
ei þoka né þræsingur plagar:
Það eru fallegir dagar.
13.03.25
Er íslenskan örmagna, beygð?
Að enskunni meir og meir sveigð?
Telja samt má
að mest reyni á
þolrifin, þágufallshneigð.
18.03.25
Hjá síonistum vel er virt
vopnahlé, á lær sér slá,
að sleppa föngum (í blöðum birt),
bara til að sprengja þá.
19.03.25
Ungverska þingið bannaði skipulagningu og þátttöku í gleðigöngu:
Þegar ég um mig frá mér
til mín er enn að veði
þá er best að barma sér
og banna öðrum gleði.
20.03.25
Mannkyn þarf manndóm að virkja
og mannúð í heiminum styrkja
því „sannleikans kirkja“
er sannleik að kyrkja.
Um þetta skylt er að yrkja.
…
Margt þarft í fjölmiðlum minnst er á:
mengun, hve gengið er valt,
þjóðarmorð, blóðmerar, bensínverð. Já,
en barneignir toppa þó allt.
21.03.25
Lífið er aldeilis ekkert grín,
oft andstreymið svart, eins og bikið.
Í Hádegismóum skynsemin skín,
að skóla lífsins oft vikið,
og kennt þar að helst eigi’ að hefna sín
hrottalega, og mikið.
23.03.25
Máttur vetrar mótar
manna lund og annir.
Má við býsnum búast,
að bresti, með engum fresti,
á oss bráður boði
af brunni náttúrunnar.
Á milli dægidagar;
dormar undan stormi.
Værðin, þegar vorar,
vekur dug í huga
og von í brjósti um væna
vini, blóm úr dróma.
Svo fer allt í seltu.
Sumartíðar bíðum.
Bíðum langalengi.
Uns litir haustsins glita.
25.03.25
Þegar menntamálaráðherrann þurfti að segja af sér vegna barneignar fyrir áratugum:
Yfir hvílir engin dul áhyggjum af landsbyggðinni og alltaf verður Guggan gul.
27.03.25
Það mætti hugsa margt á ný,
meta gildin fornu,
fara „gömlu fötin“ í,
finna tengslin horfnu.
…..
Óréttlætið angrar mest
undir glansmynd falið.
Nú fólkið heyrir fyrir rest
fyrsta hanagalið.
30.03.25
Nú eru sk. „valkyrjur“ við pólitísk völd, og í öllum helstu opinberum embættum:
KÖLD ERU KVENNARÁÐ
Hart er sótt í hrönnum,
hræ- upp runnin öld,
að þjóðarsonum sönnum
sækir vargafjöld.
Títt er bitið tönnum
í tandurhreinan skjöld
svo skattagleiðum glönnum
gefi eftir völd.
Nú hanga þeir á hvönnum
í hamri, fram á kvöld,
þeim slyngum sláttumönnum
sliga þessi gjöld.
Kvennaráðin köld.
01.04.25
BREYTTIR TÍMAR
Úti er ógeðslegt slabb,
í útvarpi leiðindakvabb.
Læt því nú vera,
skv. venju, að gera
alminlegt aprílgabb.
09.04.25
Varúð á vegum:
Í vegkanti, bláeygur, býr um sig
blessaður tjaldurinn.
Setja varúð við akstur á efsta stig,
allur er galdurinn.
…..
Óvænta stefnu umræðan tók,
og öllum ráðum nú beitt
að þyrla upp miklum moldarstrók
um mestmegnis ekki neitt.
Ef almenn réttlætisvitund er ´woke´
með valdi hún ekki mun skreytt
því innsta kjarna í ágætri bók
geta’ ei umbúðir neinu breytt.
14.04.25
Íslenska vorið:
Vorið hreykið, hér um bil,
hreyfði frjálsan væng
en litla greyið lagt var til,
að lúlla undir sæng.
17.04.25
SVEITIN MÍN
Vísast að hreti, vonin samt er
að vetrarins hremmingum linni.
Gleði og væntingar vekur hjá mér
vorið í sveitinni minni.
Söngvinn um loftið fuglinn nú fer,
flögrar með ástinni sinni,
eins og hann vitii, innra með sér,
að öruggan hreiðurstað finni.
Náttúran ilmar, ávöxt svo ber
við atlot, hin nánustu kynni.
Ekkert er kærara heimi í hér
en höfugan þráðinn mér spinni
sumar í sveitinni minni.
…..
Vogaði mér að spyrja á Fjasinu hvers vegna konur komi nánast naktar fram. Það féll ekki í góðan farveg og keikti fjörlegar umræður um eitthvað allt annað en spurt var um, eins og gjarnast er í athugasemdadálkum:
Að kjarna máls er albest að
athyglinni beinir.
Eflaust getur alveg það
ef þú bara reynir.
18.04.25
Sveitin mín II
Ljómar heiður himinn,
hlær við fjöllum kærum,
glitrar fægður flötur,
fagurblár, svo gárar
gjóla hann, og gælir
góða stund við lundinn
áður lúin læðist
loks með sól í bólið.
20.04.25
Út um víðan vanginn fer,
vitund lesta alla.
Einn á hesti uni mér
undir hlíðum fjalla.
Iðar geð af gáska.
Gleðilega páska!
23.04.25
Örn Bárður Jónsson skrifaði á visir.is grein sem hefst á þessum orðum: „Erfitt reynst mér að þegja undir rándýrum áróðri kvótaþega í fjölmiðlum þessa dagana með nytsama sakleysingja sem aðalleikara, auðsveipa undirmenn.
Að nota fjármuni á þann hátt sem þið gerið um þessar mundir, er í raun að beita „auðbeldi“. Ég sendi þetta nýyrði hér með til Árnastofnunar.“
AUÐBELDIÐ
Enn svo dafni auðbeldið
engum hafnar ráðum.
Eins og hrafnar hræið við,
hroðið jafnan dáðum.
Aurum safnar útvegslið,
ætli’ það kafni bráðum?
…..
Halla Tómasdóttir gerði þann óskunda að senda kveðju á útlensku:
Nú er páfinn fallinn frá,
fer þá margur í að spá:
Á hvaða tungumáli má
mrs. Tomas samúð ljá?
…..
Allt er upp í loft hjá Sósíalistaflokknum:
Úrvalsfólk þar ekki vantar;
einsýnt lið og kverúlantar
sem fagna’ að Smára foknum.
Eiturpillur, undirróður.
Enginn sér í leik á bróður.
Friður sé með flokknum.
Berast menn á banaspjótum
bíta inn að hjartarótum.
Sólveig steig af stokknum.
01.05.25
Margt er hægt að miða við,
margan sveig að taka,
svo að blessað siðferðið
sé rétt kveðin staka.
05.05.25
Netið ólgar allt af þrá
og ótal fögrum meldingum
um logn og blíðu. En lítt sagt frá
lambadauða og geldingum.
09.05.25
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggja óhemju fjármagn í leiknar auglýsingar gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld og ganga svo fram af fólki að stuðningur meðal kjósenda við frumvarpið stóreykst með hverri auglýsingu:
Sjávarútvegsauðvaldið
fer ekki hluti kringum
og ríkisstjórn nú leggur lið
með leiknum auglýsingum.
25.05.25
Ekki treysti ég mér til að svara persónulega öllum þeim fjölda sem hefur ómakað sig að senda mér afmæliskveðjur. En geri það hér og nú: Kærar þakkir fyrir kveðjurnar.
Um mig blessuð auðnan snýst,
eilíft sólarvor.
Þetta fyrir veit ég víst
venn æm sixtí for.
26.05.25
Útskriftardagur ML hitti þetta árið á afmælisdaginn minn, 24. maí. Þá voru einmitt 45 ár frá útskrift okkar bekkjarsystkinanna. Góður hópur júbílanta gerði sér ferð á laugarvatn og heimsótti m.a. okkur hjónin í Skólatúnið. Einlægar þakkir fyrir skemmtilegan afmælisdag:
Þá undan hallar, að ósi ber,
andans- förlast skyni.
En mikil huggun alltaf er
að eiga góða vini.
…..
Við „milljarðana“ má ég til
að meta lífsins gæði:
Aðeins hér í veröld vil
vini, ást og næði.
28.05.25
Soffía Sif Árnadóttir ólst upp í Noregi til 14 ára aldurs og hefur þurft að hafa fyrir því að komast inn í íslenska skólakerfið, en lætur ekkert stoppa sig. Stúdentsprófsskírteinið, sem hún tók við í dag, ber þess fagurt vitni. Til hamingju elsku stelpan okkar ömmu:
Áfram heldur, engin bið,
ekki líkar þófið,
óðar rær á önnur mið
eftir stúdentsprófið.
29.05.25
Örlög sín vita enginn má,
né að ætla sér lán að voga.
Allir misjafnt eitthvað fá
af allra handa toga.
En þeir sem reyna, sig átta á
og inn í hjartað soga,
að góðri konu geislar frá
glóð af heitum loga.
01.06.25
Þjóðarmorð í Palestínu:
Enn ein týrannísk törnin!
Þetta’ er tortíming. Hvar er nú vörnin?
Er mennskan að hverfa?
Hvað munu erfa
okkar ungu og óbornu börnin?
02.06.25
Skoðanakannanir sýna stuðning við ríkisstjórnina. Í gær var haldinn fundur hræddra Íslendinga á túnblettinum fyrir framan Alþingishúsið. Þangað mætti Binni tónlistarmaður til leiks í fótboltatreyju með númerinu 18 aftan á:
Í FRÉTTUM
Formenn tala fólkið við,
flokksins stefnu sverfa:
Samfó fer á feikna skrið
en Framsókn er að hverfa.
Sósía-listar leika sig grátt,
logar allt milli stafna.
Og þó „tittlingurinn“ tali hátt,
ei tekst í sig blóði að safna.
Sjálfstæðisflokkurinn er á ís,
ekkert þaðan að frétta.
Fámenn útför er Vg vís,
eftir veislu eitraðra rétta.
Píratar núna sem puntstrá eitt,
pískar það kudabloti,
en þó Inga hafi á steinum steytt,
við stýrið er enn á floti.
Hjá Viðreisn: logn og ládauður sjór,
liggur á firði miðjum.
Við Alþingi rymja aular í kór,
„nr. 18“ losa úr viðjum.
05.06.25
„Hlýðum Víði“, var slagorð í Covid. Nú er hann kominn í pólitík:
Ólund núna íhald sker,
allir brúnasíðir,
en látlaus sýnir að alltaf er
ágætur, hann Víðir.
…..
Kristín S. Bjarnadóttir er ódeigur baráttumaður fyrir börn á Gasa og frelsun Palestínu. Hún hefur stofnað almannaheillafélagið „Vonarbrú“ til styrktar málstaðnum:
Geisar fár, og fölnuð trú
á fulltrúana kjörnu.
Í villu mannkyn vantar nú
Vonarbrú, og -stjörnu.
…..
Mökkur brúnn um byggðir fer,
brotnar á strönd og landi.
Blessuð norðanáttin er
„eilífur stormbeljandi“.
06.06.25
MEÐVIRKNI
Margt er vert að meta ef
manninn þarf að reyna,
gjarnan heyrast gömul stef
um góða sál og hreina,
aðrir finna fúlan þef,
fulla þörf að skeina.
Litlu skilar þykkjuþref,
í þoku fátt að greina,
og list að spinna lygavef,
langt frá kjarna beina
ljósinu. Þó lengist nef
vart löngun skapar neina
að lækna sálrænt, krónískt kvef
eða kynda logann eina.
Þungt er mörgum þetta skref.
Þú veist hvað ég meina.
08.06.25
Brynjar Karl Sigurðsson hefur undanfarin ár staðið í harðri baráttu fyrir félagi sínu, Aþenu, sem heldur úti körfuboltastarfi fyrir börn í Efra-Breiðholti, hverfi með mjög háu hlutfalli innflytjenda, sem eru jaðarsettir í æskulýðsstarfi:
Gott að vita, þegar þarf
að þæfast móti vindi,
ef fer ei æskustuðningsstarf
að stjórnmálanna lyndi.
09.06.25
Vigdís Ragnarsdóttir, ömmu og afastúlka, hélt upp á 9 ára afmælið sitt í dag og fékk pabba sinn til að „halda ræðuna“.
Orðin 9 ára,
með opin sálarhlið.
Sér ætlar, yndið klára,
út á gjöful mið,
þar sem lífsins létta bára
leikur kinnung við.
Hana orkan áfram rekur,
samt aumu veitir lið
og dreymin þiggja dekur,
dýrin, hennar svið.
Já, hryssan töltið tekur
við tíðan hófanið!
Gleði Vigdís vekur,
vel fyrir henni bið.
10.06.25
Það var ferlegt að sjá hana Fjólu
með fílapensla og bólu.
Svo hætti’ ‘ún að kreista
með kámugum leista
og gengur nú allt að sólu.
14.06.25
ALÞINGISLIMRUR
I
Heimskingjar tunguna teygja,
með tuði og þófi sig reigja.
Fyrir þingheim með horn
gef heilræði forn:
að „mæla þarft, eða þegja“.
II
Þingmennin vita það vart
að vaðall er heimskingjans skart.
Þau hækka ei rána
(og ekki ræðurnar skána)
þó ítrekað „mæli til margt“.
III
Þingmaður veginn sinn velur
Virðingu ódýrt nú selur
Með argasta blaðri.
Í auðmannaflaðri
„oft sér ógott um gelur“.
IV
Að í málæði felist þinn frami
er hinn fáheyrði skilningur, tami,
þeirra Alþingismanna
sem ei melta hið sanna:
að þeir „með grömum glami“.
V
Á þinginu sýnast nú sumir
‘smáir’ og vitsmunahrumir.
Hver lénsvaldsins vörður
úr vanefnum gjörður,
„þylst hann um eða þrumir“.
VI
Að þingmaður sannleikann sveigi
og sérhagsmunir hann eigi
með hári og húð,
setji tíkall í trúð:
„Það er best að hann þegi“.
15.06.25
SUNNUDAGSMESSA
Hér á landi ekki þolum þetta!
Þingfundi á helgidaga setta!
Engum blöðum er um það að fletta
að á Alþingi nú skyri munu sletta
framleiðendur Miðflokks fögru rétta
sem finna kraft af himnum ofan detta
því „kristilegu kærleiksblókin spretta“
ef ‘kuntu rétta’ tittlingur fær metta.
17.06.25
JÚNÍ
Hvað er það sem metum mest,
og magnar hversdagsbraginn?
Um sálu eflaust finnum flest
fara hlýjan blæinn
er einlægt bros á börnum sést
ef búum þeim í haginn.
Þó hann rigni, það er best
við þjóðhátíðardaginn.
24.06.25
UNDIRMÁL(S)ÞÓF
Þingmenn, votir í vöngum,
veifandi sverðum röngum
fremur en öngum
í andsvörum löngum:
„Á síðasta hálmstrái höngum“!
08.07.25
Er þingmennska draumur í dós
fyrir djarfmæli, ei undir rós?
En nú í ræðustól hrannast
þeir sem raunar á sannast
að eymdin er öllum ljós.
…..
Fréttir bárust af því að þingkona Sjálfstæðisflokksins og fyrrum ráðherra væri á fullu þingfararkaupi í námsleyfi í Bandaríkjunum:
Mörgum er námið hin mesta raun,
svo mikils er þeim af ætlast
að mörinn af þeim tætlast.
Og prinsessur látum ei liggja á baun
þó leiti úr hafi ballar,
langt utan múrs Valhallar.
Í námsleyfi þessvegna þiggi laun
þingkonur eðalgena
að þreyja á ríkisspena.
12.07.25
Upphlaup varð í stjórnarandstöðunni vegna þess að stuðst hafði verið við upplýsingar í „minnisblaði“:
Ef að viltu vita það með vissu, hvað er réttast, er mikill glæpur minnisblað.
14.07.25
Tjaldið fallið, við kurr og klið,
klappað dræmt, af fáum.
Með þannig leikrit sett á svið
senn hér botni náum.
15.07.25
Fyrirsögn í blaði: „Áslaug Arna aftur komin á þingfararkaup“:
Áslaug er kjarnorkukona,
kappsöm og námfús, og svona
við alþýðuskap.
Fær skyrhræringslap
úr sameignarsjóðum, má vona.
16.07.25
Heimsóttum Hrefnu Clausen. Við brottför hnoðaði ég í gestabók Lambavatns þessari vísu:
Þökkum veglegt veisluborð,
vinskap, hlýju, natni.
Um Hrefnu, duga engin orð,
yndið á Lambavatni.
25.07.25
ÞAÐ RIGNIR
Vill einhver leynast inni’ í skel,
þar ylja sálarhrakinu
og arka beint í Ísrahel,
með afmennsku á bakinu?
Himinn allur öskugrár
út af vopnaskakinu.
Hin þungu dauðans, döpru tár
dynja nú á þakinu.
28.07.25
ÞÖGN
Þjóðir heimsins þegja eilíft þunnu hljóði
þó að aðrar barnablóði
beint í andlit þeirra rjóði.
30.07.25
Nú er svo komið að Guðrún Mikaelsdóttir, tengdadóttir okkar Önnu Maríu, hefur í dag fyllt fjórða tuginn. Eins og þeir vita sem hana þekkja er Guðrún á margan hátt einstök kona. Hún er léttlyndari en flestir, þolinmóðari en flestir, vinakærari en flestir, meiri barnagæla en flestir og hefur hlýrri faðm en flestir. Við erum alsæl að Jónas okkar fái svo gott atlæti, sem raun ber vitni, og óskum henni margfaldlega til hamingju með daginn.
GUÐRÚN MIKAELSDÓTTIR FERTUG
Þó að gerist strembin stund
í streði við kerfishjalla,
alltaf er samt létt í lund,
ei lætur undan halla.
Með liti oft á ljúfan fund
við listagyðju snjalla
sem sálu gefur gull í mund
og glæðir vitund alla.
Þolinmæði þrýtur seint,
það má undur kalla,
því Jónas, bæði ljóst og leynt,
er löngum margt að bralla.
Guðrún mun hjá börnum beint
í „besta sætið“ falla
og í fjölskyldunni, svo frá er greint,
með fáa, ef nokkra, galla.
08.08.25
Skemmtilegur frídagur í Toronto, á heimleið úr kórferðalagi á Íslendingaslóðir í USA og Kanada, hófst á rútuferð að Niagarafossum, á tveimur rútum, þeirri hvítu og þeirri svörtu. Þegar skammt var liðið á ferð sprakk loftpípa undir ekilssæti á hvítu „góðu rútunni. Þá hlógu ferðafélagar og til urðu nokkrar vísur, m.a. þessar undirritaðs:
Af krafti loftið hvissast út,
er karlinn ekur, slyngur.
Er hér gat á einum kút
eða Þingeyingur?
Við nánari umhugsun komu þessar vangaveltur:
Er nú hérna enn á ferð
hrausti bassi?
Eða loft af æðri gerð
úr ekils magra rassi?
Viðgerðarmaður kom á vettvang eftir hálftíma og eftir skamma skoðun reyndist loftslanga undir ekilssæti hafa rofnað. Með dúkahníf og tengistykki að vopni kippti hann öllu í liðinn og ferð hélt fram sem horfði. Rútan var þó ekki rásföst og grunur um hlaup í stýri:
Ei á vagnsins vaggi hlé,
veit ei hvert við rötum,
eins og riðið alltaf sé
eftir kindagötum.
Við þessar fréttir allar komu skilaboð frá Arinbirni, fararstjóra Bændaferða, að á heimleiðinni fengju þeir sem hættu sér með hvítu rútunni til baka ómældan bjór en hinn hópurinn, sá í þeirri svörtu, ekkert. Ekki fækkaði í áhættuhópum við þessi tilmæli. „Rúta“ getur merkt fleira en „langferðabíll“, eins og fram kemur í eftirfarandi vísu:
Á bílstjóra ekki er asinn
enda er bifreiðin lasin,
þessi aflóga bredda.
Í dag er ei dansað á rósum
svo Arinbjörn reynir að redda
rútu, með fimmtíu dósum.
Eftir þetta hökt í upphafi gekk allt eins og í sögu, nema að mikill og sterkur „mannaþefur“ af kamri okkar hvítu rútu var óneitanlega ekki til unaðsauka og fær hvíti liturinn á henni því vart sömu táknrænu merkingu og felst í viðurnefnum Gissurar, Baldurs og Krists.
Svo má vel geta þess að þrátt fyrir öll hin löngu ferðalög og rútusetur voru kynnin glöð og gleymast ei, og margir áttu ráð undir rifjum að létta sér seturnar eins og getið er um hér:
Af setunum sár í rassi,
en samveran fyrsti klassi.
Nú skrælnar úr þurrki
af langferðaskurki
allt – nema blauti bassi.
Hvað um það. Heimsóknin á slóðir Vestur-Íslendinga var stórmögnuð í alla staði. Móttökurnar ofar skýjum, sem og kynnin af stolti fólksins af uppruna sínum. Sérstaklega var sú tilfinning sterk á Nýja-Íslandi í Gimli og enn frekar í Árborg og á Heklueyju. Það er ekki aðeins deyjandi kynslóð sem talar enn og skilur íslensku, eins og myndbönd hér á síðunni minni sanna rækilega og um var ort:
Þó íslenskt mál sé æ að dala
það enn mun tóra.
Lyfta anda, svo tært nú tala,
tveggja kóra,
mæðgurnar, þær Signý, Svala
og Sigrún Þóra.
12.08.25
Sif, dóttir þeirra Ara og Rebekku, á afmæli í dag og fékk smá pakka frá ömmu og afa, með meðfylgjandi kveðju:
Okkur stöðugt uppi ber,
og áfram, tímans bára.
Sólarkveðju sendi þér
Sif, nú fjögra ára.
…..
UNDUR NÁTTÚRUNNAR
Rymur jarðar reginafl,
rammur tröllaglaumur,
er kastast ofan klettagafl
hvítur ógnarflaumur.
Stend ég við sem steinrunninn,
starir dáleidd öndin
og sálin lyftist, sogast inn
í svarrans undralöndin.
Gleði tæra gefur mér
glettin lækjarspræna
sem ljúf í dansi leikur sér
létt við bakka græna.
Sálin lyftist, fer á flug,
fyllast orkubrunnar
og lífsins nýt af heilum hug
í heimi náttúrunnar.
13.08.25
SÓL TÉR SORTNA
Margur maðurinn fórnar
mennskunni fyrir völd.
Auðrónum illskan stjórnar,
með úthugsuð svikagjöld.
Siðferði samhygðar þrotið,
samviskan jökulköld.
Löngum á lýðum brotið
og lyganna svörtu tjöld
fyrir dygðirnar dregin,
dagsbirtan myrkvað kvöld.
Múraður veggur á veginn,
sem varðhunda gætir fjöld,
þeim fyrir liggja í leyni
er lýðfrelsis bera skjöld.
Margt verður oss að meini
á Mammons grimmu öld.
14.08.25
Anna María á afmæli í dag:
Hún er bæði ljúf og létt,
en lætur hlut sinn ekki!
Í bláum augum blikið glett,
sú besta sem ég þekki.
19.08.25
Ekki er allt sem sýnist. Fyrirsögn á fjölmiðli:
„Lúlli er látinn af störfum“
í laxeldisgeiranum djörfum.
Þar var áreiti mikið
um megn, fyrir vikið,
að standa’ undir stórlaxaþörfum.
…..
HEILRÆÐI
Orð þín haltu, hóf er snjallt
og hafa skalt til ferða.
Þar sem valtar yfir allt
æran gjalt mun verða.
…..
Fyrir baldinn galdur, gjald
er greitt, í valdaskaki,
og í skvaldri aldrei hald
er að tjaldabaki.
23.08.25
Anton Helgi Jónsson skrifaði á Fjasið pistil sem vakti eftirfarandi hugrenningatengsl:
„Bæði munu menn þetta kalla stórvirki og illvirki.“
„Öðru munum vér hælast heldur en því, er Njáll hefur inni brunnið, því það er enginn frami.“
Þó undan þeim illvirkjum skoli,
hér ofar er fróðleiksmoli
þegar sett er á svið
(þá sýnd engin grið)
brennan á Bergþórshvoli.
MEST KONUR, BÖRN OG GAMALMENNI
Viskunnar vegur er háll
og viljinn í taumi oft þjáll.
Við bælum í minni
að brennd voru inni
Bergþóra, Þórður og Njáll.
Er nú hver Pétur og Páll
í prinsppi sleipur sem áll
þegar enn einu sinni
brennd eru inni
Bergþóra, Þórður og Njáll?
Skrautreið í skemmtunarfasa.
Skálræður, klinginn við glasa
er blóðið nú bogar
og bálið, það logar
um blessuð börnin á Gaza.
…..
Reykjavíkurmaraþonið var haldið í dag:
SJÁLFSMYND
Oft mig dreymir Facebookfrægð,
að fægja matta sjálfsins þægð.
En nú er úti öll mín von
því ekki hljóp ég maraþon.
02.09.25
Þingmaður Miðflokksins tjáir sig um hinseginleikann:
Tunguvöðvinn er virkur
og víst er í kjálkunum styrkur.
Skömm feðra vorra
nú vellur úr Snorra,
alveg biksvart miðaldamyrkur.
10.09.25
Ég dreif mig í „karlaþrek“ hjá Umf. Laugdæla síðdegis í gær, og hafði þá ekki stundað aðra líkamsrækt í þrjú ár, síðan við hjónin vorum saman í „einkaþjálfun“ á Selfossi. Nema auðvitað útreiðar og fáeina göngutúra, sem ekki teljast með.
Þrátt fyrir rifbeinsbrot fyrr í sumar, og almenna, persónulega vesalmennsku og aumingjaskap, komst ég í gegn um klukkutímann og gat gengið óstuddur út í bíl og komist heim. Harðsperrurnar í dag voru hóflegar. Til að undirbúa æfingu morgundagsins „skall ég mér“ í pottinn í kvöld og linaðist allur upp, og spái því að með áframhaldandi skynsemi í átökum muni ég brátt verða kallaður „Fjallgarðurinn“, til samanburðar vð vin minn Hafþór Júlíus Björnsson, sem mun ganga undir viðurnefninu „Fjallið“:
Þó að gamlist, eg nú er
ofan hvergi dottinn.
Fráleitt á mér elli sér
ef að fer í pottinn.
13.09.25
Fréttir bárust af því að Hjalti Jón Sveinsson væri með í pípunum bókina „Frelsi í faxins hvin: Riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni“ Ekki þarf ég að skrifa langa ritgerð um Hermann, hann þekkja allir landsmenn, sem og afrek hans á hestum langs- og þvers um landið, og því dugar mér lítil vísa:
Heyrast glaðleg hlátrasköll,
hófaspilið undir,
er vaskur ríður vatnaföll
eða vakran teygir grundir,
og í öræfanna háu höll
á Hermann góðar stundir.
14.09.25
Skuggamyndir
Sólin gægist á glugga,
sú gula, forvitna dugga.
Áður skýst bak við fjall
finnur sköllóttan kall
og varpar á skápana skugga.
15.09.25
Alltaf er gaman að eiga við dróttkvæðan hátt. Prjónaði saman vísu sem getur vel siglt í kjölfar annarrar, áður birtrar, svo úr verði heild:
Ljómar heiður himinn,
hlær við fjallið kæra.
Glitrar fægður flötur,
fagurblár, svo gárar
gjóla hann, og gælir
góða stund við lundinn
áður lúin læðist
loks með sól í bólið.
Fjallið brýnir brúnir,
brattir stallar gjalla,
leiti bregða litum,
ljós og skuggar ósa.
Kvöld, með fingur kalda,
kembir mosaþembur.
Þykkum lopa þokkann
þræðir dalalæða.
…..
HEIMSÓSÓMINN
Fer um heiminn fárið,
fasískt dómsdagsmasið
er vekur reiðiviðhorf,
veröld hatri atar.
List og menntun lostin
lygafalsi stiga-
manna, er bræðra brenna
brýr, með djöflasýrum.
20.09.25
Það er ekki leiðinlegt að njóta haustdaganna, sem eru nú með fegursta móti. Og þegar sonardóttirin heldur afa sínum við efnið, með áhuga sínum og gleði, þá lifnar í gömlum glæðum. Það er orðið mjög langt síðan hross hafa hér verið á járnum eftir að skóli hefst á haustin, hvað þá langt fram í september.
Himnageisla sindrar svið,
sól er þar að bauka.
Nú í fangið fengum við
fagran sumarauka.
Hrossin opna sálarsjóð,
er sækjum út í haga.
Vigdís afans gömlu glóð
glæðir þessa daga.
25.09.25
Ef lífið ei logn er og blíða
er létt í holu að skríða,
brynja sig skel
og bera sig vel.
En við vitum að „Kleppur er víða“.
…..
Áfram togar tíminn mig,
hans taugar loga’ í krafli.
Af enni bogar, er brýnir sig,
beitir vogarafli.
01.10.25
Lygabulla, lyndið kalt,
löstum fullur, galinn.
Blóði sullar út um allt,
armur drulluhalinn.
02.10.25
Árleg „umræða“ er hafin um listamannalaun, og nú hefur viðskiptaráð reiknað út verðmæti einstakra höfunda sem hlutfall milli úthlutaðra listamannalauna og blaðsíðufjölda. Blaðsíðufjöldinn reyndar stórlega vanreiknaður í mörgum tilvikum, þó það skipti ekki meginmáli í samhenginu, enda helgar tilgangurinn meðalið. Mogginn var ekki lengi að stökkva á vagninn:
Fáráðarnir fara’ á stjá,
fremstir Moggahölda.
Nú bókarvirðið ætla á
útfrá síðufjölda!
03.10.25
Einn hef ég áunninn kæk
sem engin á lýsing er tæk
svo best er að þegja,
þ.e.a.s.
„svona er lífið á Læk“.
10.10.25
Flest væri fátæklegra og fánýtara ef kvenna nyti ekki við. Því eins og haft er fyrir satt, þá eru það „litlu hlutirnir“ sem ráða úrslitum þegar lokaflautið gellur: Eitt augnatillit hér, handarstorka þar, lampi hér, málverk þar, blómavasi hér, órætt, seiðandi bros þar, nærgætin spurning hér, hlýr andblær þar, þolinmóð bið hér, uppörvandi hvatning þar. Eða eins og máltækið hljóðar, sem hér hefur verið prjónað framan við fjórum hendingum:
Ef sólir lífs eru sestar,
sorgirnar virðast mestar
og hrjáir andleg skita,
eitt er gott að vita:
Konur eru körlum bestar.
…..
Eitt af því sem við hjónin höfum loks komið okkur upp, til sálarbótar og skrokks, með dyggri aðstoð okkar einkasmiðs og -pípara, er heitur pottur á palli, og um þá ráðstöfun má hafa hið forna máltæki: „Enginn nýtur ráðs fyrr en reynir“:
Þó ekki gagnist okkur neitt
upp á sálarþvottinn,
skrokksins getur skjóðum eytt
að skella sér í pottinn.
17.10.25
STAKA
Föstudagur.
Með dvínandi birtu
er drunginn ríkjandi
þoku í tóninum.
Ef hugur er opinn,
að öllu virtu,
yndis má njóta
með „Bossinn“ á fóninum.
…..
MINNING
Það var fyrir átta árum
í Alpanna djúpu kyrrð
á glitrandi bergvatnsins bárum
undir bláhimins sindrandi firrð,
þá flaug af fjallseggjum dynur,
í fögnuði vorum stödd.
Minn besti bróðir og vinur,
þín bergmálar hljómfagra rödd.
…..
Í POTTINUM
Eftir þéttan þokusudda,
þrálátan um vikna tíð,
úr stífum limum strengi nudda
við stjörnubjarta himnasmíð.
…..
AÐ „TAKA SPJALLIГ
Að ósekju víst mætti mér
minnka hatursgjallið.
Ef væri bara í heimi hér
„hægt að taka spjallið“.
19.10.25
Logi Arason hélt mikla afmælisveislu í dag, og dundaði sér m.a. við að skera sér gráðostssneið á kexkökur.
Glókollurinn góði,
þér gæfan vaki hjá.
Líkt og mynd í ljóði
sem ljóma stafar frá,
nú tveggja ára orðinn,
orða- ríkur forðinn,
rær á bæði borðin
og bestu systur á.
20.10.25
Breyta fjöll um búning skjótt.
Úr blúndum dalalæðu
á sig heklað hafa’ í nótt
hvíta, þunna slæðu.
…..
Er lífið sem lindvatn að drekka?
Laust við barlóm og ekka?
Þó úr því ei dragi
að allt sé í lagi
þá bíður samt næsta brekka.
…..
FEGURÐ HIMINSINS
Er upp í himin stari, á stjarnafjöld,
og strýkur vanga gola, rök og köld,
daglegt streðið týnist bak við tjöld
tilfinninga, sem fara þá með völd
og skelfast tímans grimmdaræðisöld
sem ekki reisir þjáðum varnarskjöld.
Skilur hún svo fánýt fórnargjöld
fegurðin, um heiðskírt vetrarkvöld?
21.10.25
Nýverið hef ég því gefið gaum
að gátum lífsins fækkar
og baks við tímans stríða straum
stöðugt flug vort lækkar.
Í fánýti elti ei glys og glaum,
til gæfu held frekar kjósi
að þó við verðum af nesti naum
skuli njóta ferðar að ósi.
22.10.25
Lítur út sem liðnir séu logns og blíðu
þokukaflar, þeir kuflasíðu,
sem klæddu hamrabeltin fríðu.
Haustið gerist heldur kalt, svo hroll að setur.
Um næstu helgi hefst svo vetur,
hætt við frosti, og snjóað getur.
Alltaf virðist öllum koma’ á óvart tíðin.
Einn sést fara út með skíðin,
við öðrum blasir gróðurprýðin.
26.10.25
Í BLÁSKÓGAHEIÐINNI
Yfir sviðið Ármannsfell rýnir,
einnig Súlur og Hrafnabjörg,
ofar Skjaldbreiður augun brýnir;
er einhver á ferli um hraunin körg?
Senda kveðju, kunningjar mínir,
kollinum lyfta himni mót
og mistrið dulrænar magnar sýnir,
mosinn hlær, og sig ygglir grjót.
Laumast um skóginn rjúpa og refur,
rekur þau áfram fæðuleit.
Muggan sinn hvíta möttul vefur
og mátar á okkar þjóðarreit.
Undir klæðinu kalstráið sefur
en kjarrið vakir, það geymir allt,
sem gerst í Bláskógaheiðinni hefur,
hamingju þjóðar og lánið valt.
…..
ÞAÐ SEM BETUR MÆTTI FARA
Það er margt sem mætti fara miklu betur.
Þó ekki á það giskað getur,
það gæti kannski Svarti-Pétur?
„Skólakerfið skelfing slappt, þar skeikar flestu“:
„Skáldin okkar, allra bestu,
ekki framar, nemi, lestu!“
Námskráin er nokkuð flókin. Nær að segja:
Lærðir mjög svo lopann teygja.
Lítið marktækt þar má eygja.
Það má kalla þunna súpu þennan bræðing.
Já, þetta’ er bölvuð vesalvæðing.
Verst að hlýst af þjóðarblæðing.
Atli Harðar hefur þar um heilmargt ritað.
Lengi hef hans visku vitað,
von, og mína skoðun, litað.
Sannast nú að svakaleg er smán að falla!
Þó lesi’ ei neminn næstum alla
námsbókina’, hann bera að skjalla!
Aðeins skólinn aurinn fær, ef eining staðin.
Undir þá er útskrift hlaðinn
einskisverður léttahraðinn.
Varla skólar vilja það að veskið tæmist?
Í embætti þá enginn kæmist.
Ekki þvílíkt frómum sæmist.
Frjálshyggjunnar „fögru“ heit og „fimu blístur“
reyndust ljótust lygaklístur,
löngum reynist Hannes sístur.
Hvað er betra börnum okkar, á brattri göngu
um berangur, á lífsins löngu
leið, en mæta fljóti ströngu?
Allir þurfa umhyggju og ástar njóta.
En ekki finnst mér enn til bóta
yfir léleg verk að róta.
Nú er ráð að neyta allra nýtra bragða:
Okkar geyma sögu sagða,
og saman tína ullarlagða.
27.10.25
Margt ég hefi seyðið sopið,
sést það, þegar að er gáð.
Minn í kjarna inn er opið,
að öllu því er til var sáð.
Hef marga, finnst mér, fjöru sopið,
fengið mitt þó besta’ í arf.
Bljúgur því á knjám hef kropið.
Kannski betur gera þarf?
28.10.25
Salli fagur fellur
fiðurléttur niður,
svífur í logni ljúfu
langan veg, í fangið
jarðar, sem býr um börðin,
bláhvít eru verin,
þvöl og létt úr þvotti,
þekja freðinn beðinn.
Kóf, og allt á kafi,
hvítt er á að líta!
Á landi enginn endir,
eins er rimi og himinn.
Förum út að ýta,
því ökutólin spóla.
Horfinn glansinn gjörvi,
öll gleði af falli mjallar.
…..
HELST Í FRÉTTUM
Útaf verksmiðju’ er vælandi kórinn.
Gegn venju hve mikill er snjórinn.
En allt vesen út slær,
og verðlaunin fær,
Ríkislögreglustjórinn.
29.10.25
Það snjóaði drjúgt í nótt. Talað um metúrkomu í október víða um land, allt að 40 sm jafnfallinn snjór.
Á almættinu enn hef trú,
það alltaf reynist betra.
Og mér var ekki neitað nú
um nokkra sentimetra.
31.10.25
Fréttir af vinavæðingu ríkislögreglustjóra:
„Fjárhagsstaðan alvarleg og tímabundin ráðning ráðgjafans ekki endurnýjuð“ – Vísir.is
Um „heiðarleg mistök“ ei hafði grun,
harmurinn þungur sem blý.
Eins og jafnan íhaldið mun
ætla að læra af því.
01.11.25
Gormánuður heilsaði með miklahvelli og allt fór á bólakaf, með met fannfergi. Nú er glaðasólskin og 10° hiti, allan snjó hefur tekið upp.
VETUR EÐA VOR?
Mikil mánuður gor-
markaði fannaspor.
En allir við kannast,
og enn hefur sannast:
Eftir vetur kemur vor.
05.11.25
Fréttir bárust af því að einhver hefði látið opinberlega í ljós efasemdir um Trump Bandaríkjaforseta:
Ansi margt nú miður fer,
að mati okkar flestra,
en ljóst að sumum ekki er
allsvarnað, þar vestra.
06.11.25
Snorri Másson, varaformaður Miðflokksins, hefur verið áberandi í fjölmiðlum:
Á hugarauðgi heldur nísk
við heimaalið barnið,
fyrst gæðin telur genetísk,
greyið, Miðflokksskarnið.
08.11.25
Í vinarfaðmi vel er skýlt
þó vonir fjúki brott
og fátt er svo með öllu illt
að ekkert boði gott.
…..
„Að þjóta“ er nútímans þema;
um þumbast, svo nær ei að hema
pollur og tjörn.
Á taktleysið gjörn.
En stundum má staðar nema.
09.11.25
Sýnd er um þessar mundir á RÚV þáttaröðin „Felix og Klara“
Felix lipur léttavagn,
ljúfur, hress og kátur.
Á heimilinu gerir gagn
og getur tekið slátur.
12.11.25
Án ástar sem að æ má treysta
engin blómstrar sál.
Án vinarþels og vonarneista
verður ekkert bál.
…..
Upp við morguns roða rís,
raunheim dorga’ úr muna.
Gjaldið borga draumadís,
á dagsins torg svo bruna.
14.11.25
Á ráðstefnu:
Eins og drangur, svo orða má,
eftir langar setur.
Lífsins gangur, það líður hjá,
líkt og strangur vetur.
…..
Sitt í letur margur má
meitla betur svarið.
Ef það getur giskað á
gæti betur farið.
…..
Þegar gaman gerist dátt
ef gengisframa hljótið,
ekki hamast, hefja mátt,
í hófi saman njótið.
15.11.25
Að bíða í flugstöð er feiknaleg kvöl,
fáu mun þar til að jafna,
reyna að gleyma raunum við öl,
af reykingum óbeinum kafna.
Eftir námsstefnu rembast að klífa á kjöl,
kröftum og geðheilsu safna.
Í töskunni liggja skýrslur og skjöl
skráð með sparkinu hrafna
sem ættu í ruslið, rifin í mjöl,
rottur á þeim myndu dafna.
En heima ljúfan mín ljómar svo svöl,
eins og logi allt milli stafna.
Bara ef á því ætti ég völ
í eldi þeim nú vildi hafna.
17.11.25
Í andans glasi einhver lögg,
svo ætla’ að megi heita,
en festu sýna forlög glögg
er fjaðrir af mér reita!
18.11.25
Katrín Jakobsdóttir var í fjölmiðlaviðtali: „Sé ekki eftir neinu“.
Lengi ók fyrir utan veg;
þó enga fengi af skeinu
flokknum bjó sitt banaleg,
bara svo það sé á hreinu.
Er Bessastöðum tapaði, treg
í tárum, fór öll í kleinu:
„Af þessu lærdóm engan dreg
í orsakasamhengi beinu,
og sannleikurinn sá að ég
sé ekki’ eftir neinu“.
19.11.25
Hjá mörgum lífið þung er þraut
og það er margt að varast,
víðast hál og hlykkjótt braut
því hagsmunirnir skarast.
…..
Undirritaður var sakaður um skapvonsku fyrir að taka undir gagnrýni á laumuspilið við lokun Heilsugæslu uppsveita í Laugarási og opnun heilsugæslu á Flúðum:
Hagsmunapot við heimaþil
hleypir öllu‘ í kekki.
Leyndarhyggjulaumuspil
líða megum ekki.
20.11.25
Framsóknaríhöld allra landa sameinist í Trumpismanum!
„Guðrún líkir Evrópusambandinu við glæpamann“
„Vill svara ESB með tollahækkun“
Eggjum vopnin, ekkert droll,
upp nú mögnum stríðin!
Setjum strax á tröllatoll
og tyftum glæpalýðinn!
26.11.25
Þorbjörg systir mín á afmæli. Hún er fjórða í röð systkinanna, fagnar í dag sjö tugum. Hún er alnafna föðurömmu okkar, Þorbjargar Þorkelsdóttur, en frá fyrstu tíð man ég ekki eftir öðru en hún hafi gengið undir gælunafninu Obba. Obba systir.
Þorbjörg er fallegt nafn, bæði sterkt og hljómmikið og ber í sér djúpa merkingu; fyrri liðurinn þor og dug, en sá seinni fórnfýsi, góðvild og hjálpsemi. Það er alveg ótrúlegt hve vel nafnið lýsir persónueinkennum hjúkrunarfræðingsins, móðurinnnar og ömmunnar – systur minnar. Innilega til hamingju með daginn!
OBBA SYSTIR
Ber er hver að baki vel
bróður nema eigi
og sælla daga sakna tel
að systurlausir megi;
þig passa, eins og perlu’ í skel,
og að pund þitt meira vegi.
Gjarn í æskudraumi dvel,
þar daglangt sólin skín.
Svo ljómar næturhiminhvel,
allt hugarangur dvín,
er birtist, með sitt þýða þel,
Þorbjörg, systir mín.
01.12.25
Þegar situr súpu í,
sár og bitur kálfur,
sýndu lit, og þrífðu því
þína skitu sjálfur.
…..
Kólgurímu kveður okkur Kári strangur.
Tónar eins og til er langur.
Tíðar ársins vanagangur.
Fönnum lausum feykir undan furðu byrstur.
Eins og sé í átök þyrstur
og í valinn hnígi fyrstur.
Á aðventunni út í fer hann aðra sálma.
Jólalög um loftið mjálma
og ljósin út í myrkrið fálma.
…..
Eru töggur enn í þér?
Eða glöggur treginn?
Leystu’ úr kröggum, löngum er
litlu Vöggur feginn.
…..
Tár mun tvístra steini
og tónninn silfurhreini.
En þeim sem svíkur,
frá sannleik víkur,
verður margt að meini.
…..
Skoðanakannanir sýna uppgang Miðflokksins, sem rífur fylgið af gömlu helmingaskiptaflokkunum:
Þetta brátt nær engri átt,
utangátta vitnar:
Áður hátt, nú ærið smátt
undir dátt þar hitnar;
fylgið blátt er fölt og grátt,
framsókn máttlaus svitnar.
Við verkið flátt og vængjaslátt,
Wintris fátt á bitnar.
Með kjötið hrátt og klúran þátt,
Klausturdráttur fitnar.
03.12.25
Fréttamiðlar hleyptu auknu vatni á myllu Miðflokksins:
Íslendingar þyngstir Norðurlandaþjóða.
Æðri rækt um úrval snýst,
nú ofurgení fundið:
Af öllum þjóðum, þá er víst
þyngst í okkur pundið.
Úr ræðu á flokksfundi Miðflokksins:
„Vont og bölvað, að verður séð,
vigtartölur blekkja,
því innflytjendur, mörinn með,
meðaltalið skekkja.“
…..
Mig grunar, ef að því er gáð,
það grói, sem vel er til sáð
en trúi og hinu
að hrörni í sinu
ef allt er hentugu háð.
05.12.25
Skartið ljómar byggt um ból
í birtu, þegar kveldar.
Þá í vestri sígur sól
og silfrið gráa eldar.
06.12.25
Myrkrið orðið ansi svart,
öllu vill það leyna.
Sé nú út úr augum vart,
enga jólasveina.
Þingforseti baðst afsökunar á orðum sínum, sem eyru námu utan ræðustóls:
BIÐST AFSÖKUNAR Á AÐ SEGJA SATT
Bulluna siðferðið brestur
og bullið er ósiður mestur
en Alþingi tamt.
Alltaf er samt
sannleikur sagna bestur.
09.12.25
Heilsufréttir:
Kemst með herkjum hænuspor,
höfuðverkur bítur!
Rorra berkjur, rennur hor,
rammur kverkaskítur.
Röngu megin fram úr fór,
fánýt vegin grindin.
Niðurdreginn neyðarkór,
nærir spegilmyndin.
10.12.25
Þingmenn Miðflokks undirrita ekki siðareglur þingsins:
„Við undirgöngumst ekki hér
ykkar siðareglur;
meirihlutans kuklað kver,
kvalahjól og steglur.
Skyldur? Bara’ að skemmta sér,
skrópa oft á fundum,
úr ræðustólnum remmusmér
renni löngum stundum.
Sem lítil börn, í lundu þver,
„lengi þar við undum“. “
Varla get ímyndað mér
meiri framhjáneglur.
11.12.25
BURÐARÞOL
Ef hlustar á eilíft víl og vol,
vaðal af froðusnakki,
hvert er þá búaliðs burðarþol
gegn bölvuðu, andskotans pakki?
15.12.25
Jón Pétur Ziemsen: „Krafði Kristrúnu svara um fjölda andláta á valdatíma ríkisstjórnarinnar – RÚV.is“
Heyrist, líkt og klofinn málmur klingi,
kallað tómri ámu frá:
„Hvar mun nú hinn slóttugi og slyngi
sláttumaður brýna ljá?“
Fjölgar stöðugt fáráðum á þingi.
16.12.25
Guðlaugur ÞórÞórðarson:
„Hæstvirtur yfirlætisráðherra, nei fyrirgefðu, hæstvirtur forsætisráðherra“ – Vísir
Gulli sekkur dýpra, dýpra,
dregur með sér flokksins hræ
og alltaf verður píp-ra, píp-ra,
pípið formanns þar á bæ.
20.12.25
Snilldarhendingar úr kvæðum þjóðskáldanna urðu mér tilefni eftirfarandi samsetnings. Vonandi fyrirgefst mér þessi meðferð á perlum íslenskra hestakvæða:
HEYRI HÓFASLÖGIN
Syngja ljúfu lögin
löngum huga í,
titrar gleðitaugin,
tendrar von á ný
er heyri hófaslögin.
Sæll í sólar skini
sollinn dagsins flý.
Mann, á vökrum vini,
vekur gola hlý
og frelsi‘ í faxins hvini.
Ljós í lund er falið,
lengi að því bý,
ljúft við lækjarhjalið
á leið er hesti sný
sem hefi ungan alið.
Við tauminn talar kelinn,
tiplar urð og dý.
Úrg í augum élin,
orkan sýður, því
nú bryður marinn mélin.
Í svita gammur glóir,
úr gómi froðuslý.
Skynja hæst þá hóir,
úr hófi aldrei kný.
Um bóga faxið flóir.
Heyri hófum stappa
háum meður gný.
Slíkum kostakappa
er kært að gefa frí.
Um hálsinn klárnum klappa.
Er eygi, augum gráum,
op úr jarðlífskví,
þá, á himni háum,
helst vil raga ský
á stjörnufáki fráum.
21.12.25
JÓLAKVEÐJA 2025
I
Finnurðu dálítinn dofa?
Einn daginn mun eflust til rofa
ef safnar þú kröftum
gegn kvölum og höftum.
Gott er sjúkum að sofa.
II
Væntingar eru út vatnaðar
ef verðmiða snúast um fatnaðar.
Að eltast við „drasl“
er innantómt basl.
Bíða má sér til batnaðar.
III
Erfiði öllum er gott
enda ber það um vott
stefnumið mýlt.
En streðinu illt
að láta í lekan pott.
IV
Um það er ekki að fárast
að ævigangan mun klárast.
En oft svo til hagar
að eftirsjá nagar.
Fjör er flestum sárast.
V
Vinátta sterkur er strengur.
Að stuðningi mikill er fengur
ef allt fer í kekki.
Vantar þó ekki
vini þá vel gengur.
VI
Ef að til efstu stundar
æviveg keikur skundar
þá öruggast er
að hafa augun hjá sér
því hart bíta konungs hundar.
VII
Sést ef brugðið er Bleik!
Ef böðlast er áfram í reyk!
Í augnabliksfuna
þarf alltaf að muna:
Hóf er best í hverjum leik.
VIII
Hollt er halla að styðja,
hindrun úr götu að ryðja.
Ef þú ert nær
og um það ert fær,
betra er að iðja en biðja.
IX
Götur ætíð gangið keik,
Glöð og hnuggin, sterk og veik.
Þó að vel sjáist
um það ekki fáist:
Ellin hallar öllum leik.
X
Oft sýnist bólsturinn blakkastur,
bjargráðaturninn hvað skakkastur,
og straumröstin hærri,
ef stendur of nærri.
Heima er hundurinn frakkastur.
XI
Einstök engin tár
eða brostnar þrár
í heimi hér.
Hefur hver
sín að binda sár.
XII
Margt er mannanna mein.
Til bóta er brautin þó bein.
Fyrst: Það þarf
að fá í arf
fleira en auðæfi ein.
XIII
Bratt er á líf að læra.
Það ljós þarf ungum að færa
að ljósmynda kóðann:
Lengi skal góðan
graut á gólfi hræra.
XIV
Sértu valtur og veill
vittu, þinn er ei feill
ofan að detta
heldur örlagagletta,
því fall er fararheill.
XV
Ef að þú efast um sinn
axlaðu frekar þín skinn
og harkaðu‘ af þér,
hér ekkert er
fullreynt í fyrsta sinn.
XVI
Er höndin við hjarta þitt köld?
Hífðu frá birtunni tjöld
og allt verður gjallra
því ekki‘ er allra
daga komið kvöld.
XVII
Þó heiminn sé heilmargt að plaga,
með hugsun margt má laga.
Ég gefið mér gat
mikinn mat
og marga helgidaga.
XVIII
Þó einhver á anda þinn skyggi
undir skín ljóminn þinn dyggi.
Í myrkur flýr bull,
og mundu, að gull
skín, þó á skarni liggi.
XIX
Við eigum vandratað flest
og á vegunum oft hefur hvesst.
Þó einhver ei bogni
fer hér enginn í logni.
Af misjöfnu börn þrífast best.
XX
Ágirndin áfram keyrir.
Fyrir eyðslu flestir meyrir.
En staldrið nú við
vítt markaðshlið.
Græddur er geymdur eyrir.
XXI
Fávisku fátt er til varna
og fljótfærnin, bölvuð a‘tarna.
Þannig heimur er gerður
að höfuðið verður
fótum falli að varna.
XXII
Gagnast lítt skyr í skeið
eða skrautleg, ljúffeng sneið
ef þarft ekkert geri,
þó að mig beri
hugurinn hálfa leið.
XXIII
Ljóma af lífi stafar
og lítt hefur orðið til tafar.
Oft má svo vera.
Allir þó bera
eitthvert mein til grafar.
XXIV
Vítt hlaupa sumir um vengin,
vonglaðir, réttu með tengin.
Ef opnum skápinn,
sést í skrápinn.
Amalaus er enginn.
XXV
Eins og úr helju heimt,
úr huga minningu streymt.
Þegar ljósgeislar fara
leitum við svara.
Betra er geymt en gleymt.
XXVI
Mannskepnan háir hildi.
Hver eru lífsins gildi
og siðferðisþrá
þegar að sá
heggur er hlífa skyldi?
XXVII
Hress og háttvís mér smeygi
í hárauðar buxur, mig teygi
í bolinn minn víða.
Já, best er að kvíða
ekki ókomnum degi.
XVIII
Daglegir flokkadrættir,
drýldnir ruddarnir mættir.
Á flestum má finna
að falsi má linna.
Garður er granna sættir.
XXIX
Á mál skal af sanngirni sæst.
Síður ef einn lætur hæst.
Stattu við þitt.
Þekktu og hitt
að flótti er falli næst.
XXX
Þekkt er af veraldarveirunum
í vísindarannsóknargeirunum
og alþjóð það sér
að asninn, hann er
auðkenndur á eyrunum.
XXXI
Hver sá er kökuna sker
fær kipring í augun á sér.
Einnig vill deila
og eiga það heila
því gleymt er þá gleypt er.
XXXII
Heyrist oft grobb gjálfur
gumar um sjálfan sig kálfur.
Sá kappi er enginn
sem klippir á strenginn
né gefur sér gæfuna sjálfur. .
XXXIII
Margir til metorða teygjast,
að Mammoni líka hneigjast.
En samt, allar stundir,
er siðferðið undir.
Sér lætur hygginn segjast.
XXXIV
Ef einhver rakar öllu að sér
ekkert úr býtum annar ber.
Við reisn að lifa,
í lög þarf skrifa:
Jöfnuður góður allur er.
XXXV
Ei kennir ef kulnað er tárið
né kembir, ef visnað er hárið.
Að því gáir:
Ekki tjáir
að búa um banasárið.
XXXVI
Dæma orðin dulin.
Dýr eru loforð mulin.
Í sann og veru
sárin eru
hættulegust hulin.
XXXVII
Vor mun fylgja vetri,
varlegt fet, svo metri.
Barnið sér
að biðin er
bráðræðinu betri.
XXXVIII
Að vera góður og glaður
er gæfa, ef laus við blaður.
Stöðugt að æpa,
er orðhengilsræpa.
Hljóður er hygginn maður.
XXXIX
Ef blaut og húmskyggð er heiðin
verður háskaleg fantareiðin
ef aldrei er vægt.
Svo farðu þér hægt.
Greiðfær er glötunarleiðin.
XXXX
Ekkert liggi í leynum,
leitum, veltum við steinum.
Sannleika tryggjum
er samfélag byggjum.
Fátt segir af einum.
XXXXI
Andúð upp vilja keyra,
útlenska niður reyra.
Það fólsku lýsir
því löngum fýsir
eyrun illt að heyra.
XXXXII
Í dóm nú af drengskap ég legg
deilur um keisarans skegg.
En leikur er patt
ef logið er satt.
Blað skilur bakka og egg.
XXXXIII
Kannski má stinga á kýlin?
Með kennslu leiðrétta stílinn?
Í Grímsnesi, Súdan
sama er skútan
og jöfn eru bræðra býlin.
XXXXIV
Tíminn strýkur um strengi, styrkum höndum – og lengi órar mann síst það eitt sem er víst: -Valt er veraldar gengi-
XXXXV
Heyrið mig! Höfum við rödd?
Hvar erum við stödd?
Svo er máldaginn gerður
að í manninum verður
aldrei ágirndin södd.
XXXXVI
Þó undan framanum fjari
og fram í gráðið ég stari
þá vonin er heit
og í hjarta mér veit
að kemst þótt hægt fari.
XXXXVII
Þó aðdráttaraðferðir þróir
og engu í framhaldi sóir,
eignast vilt allt.
Vita þú skalt:
Ekk’ er allt gull sem glóir.
XXXXVIII
Margt hefur mannvonskan hrakið
og margur er stunginn í bakið.
En það boðorð ei efað
að betra er sefað
en illt sem upp er vakið.
XXXXIX
Sjaldan er sannleikur skýrari,
sókn eftir vindi rýrari
en við hækkandi sól
og hátíðleg jól
því dyggð er gulli dýari.
L
Fástu því ekki um amann
við auðævin, völdin og framann.
Veittu gæfuríkt skjól
og gleðileg jól
því maður er manns gaman.
28.12.25
Friðsæld mannsins margs er þrá
milli jóla’ og nýárs
en samkvæmt vondri venju má
vænta mikils gnýfárs.
…..
Afmælisdagur yngsta sonarins:
Gæfa hvers er sonur sæll,
sannur, hlýr og laginn,
hógvær, réttsýnn, hollur, dæll;
til hamingju með daginn.
29.12.25
Mér sýnist að dimman nú dökkni,
af depurð himinninn klökkni.
Rósemdin blíð
í rigningartíð
en enginn er verri þó vökni.
Á hólnum gras hækkar af skarninu
og húfan stækkar með garninu,
ístran með áti,
ólán með fáti
en brókin vex ekki með barninu.
Grímur er talsgroddi.
Er gremja hals loddi
söguburð við
hann sást fara’ á ið
og leika á als oddi.
Vart duga vettlingatök
á vanhugsuð gasprarans rök.
Hækkar ei dáðin
við heimskuleg ráðin
því sjaldan er ein báran stök.
Í firðinum allt var í freak-outi
er fréttist af morði og líkáti.
Meiri geðshræring spannst
er gerandinn fannst:
Það var sjóarinn síkáti.
30.12.25
Öfgahægrið tönnlast á að „hin kristnu gildi“ séu nú í stórhættu hér á landi og þurfi að verja með öllum ráðum, aðallega fyrir „innrás“ fólks úr öðrum menningarhefðum og er með því, þvert á hástemmdar yfirlýsingar, að boða andkristilega stefnu, að gera strandhögg á eilífðarlandið og róa „lastafleyi andskotans“ til hafnar, svo gripið sé til orðfæris rétttrúnaðarins: