Áramótakveðja ’23 – ’24

Vélabrögð af verstu sort í veröldinni

vekja núna sorg í sinni,

sé ei von að þessu linni.

 

Áralöng er óöldin í Úkraínu.

Þrælahald, við þurft og pínu.

Þjóðarmorð í Palestínu.

 

Starað. Tekin staða gegnt og steyttir hnúar.

Hvergi skilningsbilið brúar

barnamorð, í nafni trúar.

 

Skinhelgin er skelfileg í skertum heimi.

Sem sig á asnaeyrum teymi

yfirvöld, og siðum gleymi.

 

Er þá bara ekkert fyrir oss til ráða?

Horfa upp á aðra smáða?

Undan líta? Hunsa þjáða?

 

Stórt er spurt! En stöndum upp, og staðföst munum:

Þessu líku aldrei unum!

Hið eina svar við spurningunum.

 

Heimsins lýður hamingju og heilsu njóti.

Mitt nýársheit: Að mæla móti

meinsemdum, þó skammir hljóti.

 

Jólakveðja 2023

Þó láti glatt, um greiðan veg í skjól,

þín gengin spor

er ferðalagið engum aðeins sól

og eilíft vor

en mörgum tamt að tefja lítið við,

að týna sér í fjöldans raddaklið.

 

Er unum sæl við stundarglys og glaum

við gleymum því

að ljósi, sem þarf að eins lágan straum,

ei lifir í;

því heimsins gæðum gjarnan rangt er skipt

svo gleði, von og lífi fólk er svipt.

 

Ég finn í hjarta sorg og sinnuskort,

já, sáran sting,

þó gæfan hafi margan óðinn ort

mig allt um kring.

Er borin von að trúin flytji fjöll,

að flærð sé eytt, í kærleik lifum öll?

 
(Lag: Lýs, milda ljós: Charles Henry Purday / Matthías Jochumsson)

 

 

Úr dagbókinni 2022

Hér er saman komið safn tækifæriskveðskapar á árinu 2022. Safnið er alveg óritskoðað og í því eru u.þ.b. 210 vísur af ýmsu tagi, misjafnar að gæðum, en vonandi einhverjar birtingarhæfar.

03.01.22

 
Endi stakan enn mér hjá
utan hrakin vega,
innra kvakar eftirsjá
alveg svakalega.
 

Halda áfram að lesa

Hér er saman komið safn tækifæriskveðskapar á árinu 2022. Safnið er alveg óritskoðað og í því eru u.þ.b. 210 vísur af ýmsu tagi, misjafnar að gæðum, en vonandi einhverjar birtingarhæfar.

03.01.22

 
Endi stakan enn mér hjá
utan hrakin vega,
innra kvakar eftirsjá
alveg svakalega.
 

Halda áfram að lesa

Áramótakveðja

Áramótakveðja 2022-2023
 
Nú er liðið enn eitt ár,
alltaf fortíð lengist.
Lífið að mér dregur dár,
að draumum stöðugt þrengist,
þó mínar helstu heillaþrár
hafi eftir gengist.
Brestir, dáðir, bros og tár
í brjósti og huga tengist
svo að verði sálin klár
er svarið yfir dengist.
 
Að þægindunum þýfð er slóð,   
þröngt að gæðum hliðið.
Klærnar sýnir klíkustóð
í kvótavafning riðið.
Frá mér áfram heyrist hljóð
úr horni, er lít um sviðið.
Óska að verði ártíð góð,
ærlegt stefnumiðið
og vakni af blundi þessi þjóð.
Ég þakka fyrir liðið.

Jólakveðja 2022

 

Tekið hefur vetur völd,

vill, án refja, píningsgjöld.

Leggur yfir landið skjöld,

lúkan bláhvít, nístingsköld,

og blóðgar dagsins birtuspjöld

bak við hnausþykk rökkurtjöld.

 

En máninn feiminn fer á stjá,

fullur efa hvort hann má

heiminn nokkuð horfa á?

Hikar við, svo opnar brá,

glennir upp sinn gula skjá,

geislum baðar land og sjá.

 

Myrkrið smýgur inn um allt,

anda breytir snöggt í gjalt.

Heimsins lánið vagar valt,

varðar auðs er handtak kalt.

Ef þér, maður, flest er falt

fyrir aur, þá hinkra skalt.

 

Enn er von, því lítið ljós

logar yfir hal og drós,

tákn um mannkyns „draum í dós“.

Dýrt er orðið. Hvað með hrós?

Í þröngum dal, við ysta ós

umhygð vökvar lífsins rós.

 

Fyrir vini vermum ból,

veitum græðgi hvergi skjól.

Í litríkan og léttan kjól

landið klæðum, dal og hól.

Á himni núna hækkar sól,

höldum gleði og friðar jól.

 

 

Nokkrar hestavísur

Fer í bítið ferskur út,

flest eg hlýt að megna!

Mér frá ýtir morgunsút

að moka skít og gegna.

 

………………………………………………….

 

Syngur blærinn sæll við kinn,

sólin nærir, bjarta.

Legg við kæra ljúflinginn,

logi skær í hjarta.

 

………………………………………………….

 

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár,

kannar leiðir nýjar.

 

………………………………………………….

 

Þyl ég blíða þakkargjörð,

þá til prýði bestur

er fram líður yfir jörð

undurþýður hestur.

 

………………………………………………….

 

Af mélum freiðir, augu ör,

andann seiðir þorið.

Dunar heiðin, funar fjör,

fákar greiða sporið.

 

………………………………………………….

 

Ör við léttan leikur taum,

lífs mér glettu vekur.

Sporin þéttir gangs við glaum,

góðan sprettinn tekur.

 

………………………………………………….

 

Lífs- á vorin vekur þrá,

og von á forarslettu,

að finna þorið flugi á

fáks í spori léttu.

 

………………………………………………….

 

Ferðir inn til fjalla spinn

frjáls í sinni.

Í hjarta finn ég fögnuðinn

er fáknum brynni.

 

………………………………………………….

 

Ei við skrautið sómdi sér

á snúrubrautarmóti.

Mýrar flaut, og fótasver

fyrir laut ei grjóti.

 

………………………………………………….

 

Þegar árum fjölgar, flest

færi skár að nýta.

Hærugrár, enn heillar mest

að heyra klárinn bíta.

 

 

Hrútur eða graðhestur?

Eiríkur Jónsson bað nokkra menn að svara því í bundnu máli hvort þeir vildu heldur vera hrútur eða graðhestur, ef þeir endurfæddust. Svo birti hann herlegheitin á síðunni Hestar og reiðmenn. Mitt svar var svona:

Játa það að glaður geng

með graðhestinn í maganum

og blómarós með reynslu fleng-

ríði mér í haganum.

 

Kjartan í Haga botnaður

Kjartan bóndi í Haga laumar að mér fyrripörtum þegar við bræður og frændur komum þar í hrossaragi. Ég skulda honum nú tvo botna og set þessa upp í skuldina:

Kjartan:

Heldur var ég höggvagjarn,

hníflum títt að ota,

Ég:

sálin köld og hrjúf sem hjarn,

hæf til engra nota.

 

Kjartan:

Bjarni hestum einkum ann,

á honum sést þó skína

Ég:

að hann meira meta kann

Möggu, konu sína.

 

 

Tekið á hús

Áfram tíminn æðir þrátt,

árið næstum liðið

og andinn leitar ósjálfrátt

yfir gengið sviðið.

 

Í muna feta minn á veg

margar góðar stundir:

Hamingjuna hitti ég

er hesti reið um grundir.

 

Fylla mælinn kviku- korn,

kalla þessi undur

á að fljótt við hesthúshorn

hefjist næsti fundur.

 

Gríp þá tauma, múl og mél,

mylsnu brauðs í poka,

stytti leið um mó og mel,

má nú annað doka.

 

Aðeins þarf að hóa hátt,

í hagann taka miðið,

þá góðir vinir birtast brátt

og bíða mín við hliðið.

 

Hára, yfir færast frið

finn, og tengslin náin,

við taktinn er þeir taka við

að tyggja grænu stráin.

 

Næstu daga njóta má,

við nostur finna léttinn:

Járna, kemba, fiðring fá

og fara skeifnasprettinn.

 

„Jæja þá, í þetta sinn“,

þétt við hálsa bía. 

Það töfrar fram, að taka inn,

tilfinningu hlýja.