Boðlegur málflutningur?

Formaður fjárlaganefndar Alþingis fer nú aftur mikinn í fjölmiðlum, eftir að þjóðin hafði fengið blessunarlegt nokkurra vikna hlé frá henni. í Morgunútvarpi Rásar 2 sl. mánudag sagði hún þetta í umræðu um niðurskurð barnabóta:

„Fjárlögin liggja fyrir og þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, hvað sem verður gert á næsta ári skal ég ekkert segja um, en nú er – þarf að afgreiða fjárlögin fyrir áramót.  Við er – Okkur er að takast að snúa skútunni við. Skila hallalausum fjárlögum og taka við slæmu búi frá vinstri flokkunum. Þetta er okkar leið til þess.  Árið 2014 liggur að sjálfsögðu allt undir í vinnu fyrir fjárlög 2015. Þetta er bara byrjunin sem koma skal hjá nýrri ríkisstjórn. Þetta stefnan og af þessari stefnu verður ekki vikið.“

Fjármálaráðherra hafði líka eytt mikilli orku helgina á undan til að verja umræddar áætlanir um niðurskurð barnabóta. Ekki leið samt langur tími þar til forsætisráðherra þvertók fyrir þessa stefnu ríkisstjórnarinnar „sem ekki verður af vikið“, þó hún hafi eitthvað verið rædd á einhverju stigi fjárlagavinnunnar. 

Svona getur blessað fólkið bullað.

Og formaður fjárlaganefndar getur ekki opnað munninn án þess að minnast á ógnarstjórn vinstri manna. Hún telur núverandi hægristjórn vinna þrekvirki með því að stefna að hallalausum fjárlögum eftir að hafa tekið við „slæmu búi frá vinstri flokkunum“. En hversu slæmt er það bú sem Vigdís Hauksdóttir tók við í vor? Mér skilst að hallinn sé um 30 milljarðar, ef eitthvað er að marka þær tölur sem stjórnarliðar setja fram í fjölmiðlum. Það er slæm staða.

Formaður fjárlaganefndar kemst upp með að tala um þennan halla eins og vinstri stjórnin hafi búið hann til á síðustu fjórum árum – og segir það eðli vinstrimanna að greiða fólki svo háar bætur að það verði að aumingjum sem vilji frekar þiggja bætur en vinna fyrir sér. Þetta var hluti af röksemdafærslu hennar fyrir því að ekki væri óieðlilegt að skera niður barna- og vaxtabætur.

Svona getur blessuð konan bullað.

Gott og vel. Ef búið sem hægristjórnin tók við var mínus 30 milljarðar, hvert var þá búið sem vinstri stjórnin tók við eftir áratuga valdatíma hægrimanna? Mig minnir að það hafi verið mínus 230 milljarðar. Hin hræðilega vinstristjórn, sem „gerði ekkert“, bjó sem sagt svo vel í haginn fyrir núverandi stjórnvöld að möguleiki er að skila hallalausum fjárlögum: minnkaði hallann um 200 milljarða. Það er auðvitað „ekkert“.

Og rétt í því að formaður fjárlaganefndar er búinn að geisa í fjölmiðlum um að það sé vond stefna, og sérstakt einkenni á vinstri mönnum, að greiða fólki of háar bætur, og þess vegna sé í lagi að lækka barnabætur, hvað gerist þá? Jú, einmitt. Þá kemur forsætisráðherrann og hælir sér og sínum af því að ætla að HÆKKA bætur. Til standi að greiða hærri bætur en gert var á síðasta kjörtímabili. Og formnaður fjárlaganefndar tekur undir málflutning hans. 

Í umræðum um „vanda Landspítalans“ hefur ítrekað komið fram hjá formanni fjárlaganefndar að núverandi stjórnvöld hafi fengið það verkefni í fangið að bjarga heilbrigðiskerfinu úr rústum vinstri manna. Þar hafi verið gengið allt of nærri beini í niðurskurði.

Augnablik. Nú þarf að hugsa.

Og niðurstaðan er þessi: 1. Fyrrverandi ríkisstjórn sem gerði ekkert, skar ekki nógu mikið niður og skilaði ríkissjóði í óásættanlegum halla. Það mun vera „eðli vinstri manna“ að gera svo. 2. Fyrrverandi ríkisstjórn sem gerði ekkert skar of mikið niður og skildi m.a. heilbrigðiskerfið eftir í rúst. 3. Fyrrverandi ríkisstjórn vinstrimanna sem gerði ekkert eyðilagði líf fólks og vilja til að bjarga sér með því að greiða því of háar bætur. Það mun vera „eðli vinstri manna“ að gera svo. 4. Núverandi ríkisstjórn hælir sér af því að ætla að hækka bótagreiðslur á næsta ári, barnabætur, elli- og örorkubætur. 5. Núverandi ríkisstjórn tók við „slæmu búi“ af vinstristjórninni, 30 milljarða halla. 6. Búið sem vinstristjórnin tók við var halli upp á 230 milljarða. Þá staðreynd á að þagga. Nú er ekki lengur rætt um „svokallað hrun“. „Hvaða hrun?“ Hrun hægrimanna er ekki rætt og allur sá fjármálavandi sem við blasir, bæði í ríkisfjármálum og fjármálum heimilanna er fráfarandi vinstristjórn að kenna. Þannig er orðræðan hjá formanni fjárlaganefndar, og hún kemst upp með þetta bull í fjölmiðlum, nánast án viðspyrnu.

Er þetta boðlegur málflutningur?

Sennilega er það rétt að of mikið hafi verið skorið niður í heilbrigðiskerfinu á valdatíma vinstristjórnarinnar. Það á að gagnrýna. Þá væri halli ríkissjóðs að vísu ekki 30 milljarðar, heldur eitthvað töluvert meiri. Vinstri stjórnina á líka að gagnrýna fyrir að hafa ekki haft í sér nægan manndóm til að koma raunverulegum yfirráðarétti yfir fiskimiðunum til eigenda sinna, svo auðlindin gæti staðið undir stærri hluta velferðarkerfisins og samfélagið allt gæti notið góðs af henni. Þar fara umtalsverðar tekjur í súginn. Það litla skref sem tókst þó að stíga í rétta átt, gerði hægristjórnin vitaskuld að sínu fyrsta viðbragði að stíga til baka, í öfuga átt, skv. niðurstöðum svokallaðra „leynifunda“ með LÍÚ sl. vor.

En hvað sem um þessi mistök vinstristjórnarinnar má segja, geta hægrimenn nú þakkað henni fyrir að minnka halla ríkissjóðs um 200 milljarða, svo nú hyllir undir að mögulegt sé að skila hallalausum fjárlögum? Nei, það geta þeir ekki. Til þeirra verka (sem einhverjir myndu jafnvel kalla töluvert afrek við erfiðar aðstæður) er vísað sem „hins slæma bús frá vinstri flokkunum“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *