PISA – Stóridómur er fallinn!

Nú er hafið enn eitt upphlaupið í skólamálaumræðunni á Íslandi. Niðurstöður úr PISA-könnun komu í dagsljósið og það var eins og við manninn mælt: Allir fjölmiðlar voru uppfullir af niðurstöðunum og viðbrögðum við þeim. Mikil speki víða, satt að segja!

Það sem olli mestum áhyggjum voru viðbrögð menntamálaráðherrans. Hann fór nánast með himinskautum í yfirlýsingum sínum. Annars kemur lítið á óvart lengur í skóla- og menntamálaumræðu hér á landi. Það sem nær í gegn í fjölmiðlunum eru mest þröngsýnar, frasakenndar upphrópanir, þar sem staglast er um hríð af töluverðum eldmóði á einni hlið mála. „Verðið vel við og mælið eigi æðru, því að él eitt mun vera, en þó skyldi langt til annars slíks“, sagði Njáll við heimilsfólk í brennunni forðum. Það sama á við um íslenska skólamálaumræðu. Hún gengur yfir eins og hver annar hríðarbylur sem skellur á, og svo fara menn að ræða eitthvað annað (og brýnna).

Menntamálaráðherra hefði farið það betur að sýna yfirvegun og stillingu, sýna það að æðsti yfirmaður menntamála í landinu áttaði sig á því að í jafn flóknu ferli og menntunin er, væru engin próf og engin svör einhlít, að engar töfralausnir væru til, að viðhlítandi skýringar yrðu ekki gripnar á lofti heldur þyrfti að kafa djúpt eftir þeim og í mörgum vötnum.

Það má þó segja ráðherranum til hróss að hann áttar sig á mikilvægi læsis og vinnur að sögn að lestrarkennsluátaki. Eina áhyggjuefnið varðandi þetta frumkvæði er síðasti liður orðsins „lestrarkennsluátak“. Það er nefnilega komið nóg í íslensku samfélagi af „átaksverkefnum“ þar sem markmiðin gleymast um leið og verkefninu lýkur. En það er samt ánægjulegt að læsið er á dagskrá. Ráðherrann (og fleiri) hefðu gjarnan mátt lesa pistilinn um það hér á síðunni – og taka mark á því sem þar stendur, með fleiru sem hér hefur verið ritað um þennan málaflokk.

En aftur að PISA-könnuninni. Það er sjálfast ekki gott að íslenskum skólabörnum fari aftur á þessu prófi. Þó verður að hafa í huga að í upphafi komu þau afleitlega út í samanburði, síðan lagaðist ástandið á tímabili, eitthvað mismunandi eftir greinum, en nú er sem sagt staðan orðin grafalvarleg aftur. Fleiri þjóðir í nágrenninu eru áhyggjufullar, t.d. Danir, en ekki síður Svíar. Það verður sem sé að hafa í huga að árangur í PISA-könnunum hefur verið sveiflukenndur, hvaða skýringar sem eru á því.

Áður en hraðniðurstaða fæst í það hvers vegna börnin okkar eru svo aftarlega á merinni, áður en hannaðar eru skyndilausnir til að bjarga málunum og áður en menn geta farið að tala um eitthvað annað (og brýnna) málefni í fjölmiðlunum, væri ráðlegt að skoða sjálfan „Stóradóm“ – prófið sjálft. Hvernig er það upp byggt? Hvað mælir það? Er það í samræmi við annað námsmat í íslenskum grunnskólum? Eru börn í öðrum löndum vanari en íslensk börn að taka sambærileg próf? Hefur PISA-prófið þróast í sömu átt og námskrá og skólastarf á Íslandi undanfarin ár – heldur í áttina frá þekkingu að hæfni?

Er ekki allt í lagi að velta fyrir sér ýmsum svona spurningum um þetta blessaða próf, og koma slíkum vangaveltum á framfæri við þjóðina, áður en byrjað er að hrópa á torgum um ástandið hjá íslenskum skólabörnum og í íslenskum skólum?

Það var ágætt að hlusta á Kastljósið í gærkvöldi. Þar höfðu bæði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Ásgeir Beinteinsson margt gott til málanna að leggja – meðal annars um ábyrgð foreldra á námi og viðhorfum barna sinna til skólans og kennaranna – alveg þar til í blálokin að Þorbjörg Helga datt í frasa þeirra Sjálfstæðismanna í anda Kató gamla um kjarasamninga kennara. Ásgeir náði sem betur fer að svara því að þeir hefðu aldrei truflað skólastarfið hjá honum.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu máli í skóla- og menntamálaumræðu að halda ró sinni, hugsa til langs tíma og gera sér ekki þá grillu að hægt sé að grípa í leiðinni tilbúinn skyndibita til að næra menntakefið.

Það er góðs viti að nýjustu lögin um bæði grunn- og framhaldsskóla hafa lifað tvo menntamálaráðherra, hvorn af andstæðum væng stjórnmálanna. Vonandi fer sá sem nú situr ekki á taugum og skiptir um hest í miðri á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *