HEYRI HÓFASLÖGIN

Syngja ljúfu lögin

löngum huga í,

titrar gleðitaugin,

tendrar von á ný

er heyri hófaslögin.

 

Sæll í sólar skini

sollinn dagsins flý.

Mann, á vökrum vini,

vekur gola hlý

og frelsi‘ í faxins hvini.

 

Ljós í lund er falið,

lengi að því bý,

ljúft við lækjarhjalið

á leið er hesti sný

sem hefi ungan alið.

 

Við tauminn talar kelinn,

tiplar urð og dý.

Úrg í augum élin,

orkan sýður, því

nú bryður marinn mélin.

 

Í svita gammur glóir,

úr gómi froðuslý.

Skynja hæst þá hóir,

úr hófi aldrei kný.

Um bóga faxið flóir.

 

Heyri hófum stappa

háum meður gný.

Slíkum kostakappa

er kært að gefa frí.

Um hálsinn klárnum klappa.

 

Er eygi, augum gráum,

op úr jarðlífskví,

þá, á himni háum,

helst vil raga ský

á stjörnufáki fráum.

 

 

Skildu eftir svar