Tekið á hús

Áfram tíminn æðir þrátt,

árið næstum liðið

og andinn leitar ósjálfrátt

yfir gengið sviðið.

 

Í muna feta minn á veg

margar góðar stundir:

Hamingjuna hitti ég

er hesti reið um grundir.

 

Fylla mælinn kviku- korn,

kalla þessi undur

á að fljótt við hesthúshorn

hefjist næsti fundur.

 

Gríp þá tauma, múl og mél,

mylsnu brauðs í poka,

stytti leið um mó og mel,

má nú annað doka.

 

Aðeins þarf að hóa hátt,

í hagann taka miðið,

þá góðir vinir birtast brátt

og bíða mín við hliðið.

 

Hára, yfir færast frið

finn, og tengslin náin,

við taktinn er þeir taka við

að tyggja grænu stráin.

 

Næstu daga njóta má,

við nostur finna léttinn:

Járna, kemba, fiðring fá

og fara skeifnasprettinn.

 

„Jæja þá, í þetta sinn“,

þétt við hálsa bía. 

Það töfrar fram, að taka inn,

tilfinningu hlýja.

 

Útigangur

Í desember er dimmt á jörð,

dagar seint og illa.

Í haga standa hross við börð,

heldur er þar skýlla.

 

Glettinn lækur, grösug hlíð,

geislans morgunkossinn.

Útigangs í góðri tíð

gömlu njóta hrossin.

 

Láti bylur hátt við hól

og harðni mjög á dalnum

í haga þarf að hafa skjól

og hey í fóðurmalnum.

 

Í morgunroða rósafjöld,

á rúðu hörð er skelin.

Golan stingur stinningsköld,

þó startar dráttarvélin.

 

Í sömu andrá hefur hátt

háls og eyru stóðið,

horfir svo í eina átt,

eltir vélarhljóðið.

 

Að hirða skepnur léttir lund,

lífs er besti skólinn

og heimsins mesta helgistund

hey að gefa um jólin.

 

Helgi jóla í hjarta finn,

heilsa og berst við tárin

er kjassa gamla klárinn minn

með klökuð nasahárin.

 

Reiðleiðir

Það er ekki sjálfgefið nútildags að okkur hestamönnum séu greiðar leiðir um landið. Þegar ég var barn og unglingur man ég ekki annað en að á ferðalögum væri riðið nokkurn veginn þar sem hentast þótti, án athugasemda landeigenda eða leiðinda. Það þótti bara sjálfsagt að hrossarekstrar kæmust sína leið. Auðvitað voru þá eingöngu malarvegir um sveitir landsins og þeir stundum notaðir, umferðin margfalt minni og hægari og tillitssemi meiri hjá ökumönnum ef skaraðist.

Nú eru ökumenn á hraðskreiðari bílum og vegir með bundnu slitlagi. Bíla- og hestaumferð er löngu hætt að eiga minnstu samleið. Reiðvegir eru allt of margir meðfram blússandi þjóðvegum og fyrir vikið er slysahætta mikil og vaxandi. Það er nefnilega ekki bara slysahætta vegna gangandi, hlaupandi, hjólandi og mótorhjólandi á reiðvegum í kringum þéttbýlisstaði eins og fréttnæmt hefur, sem betur fer, þótt nýverið.

Við sem finnum helst lífsfyllingu á hestbaki uppi á öræfum þurfum að komast þangað. Þá er oftast eina leiðin að ríða úr byggð meðfram háhraða umferðaræðum, þar sem brunar bíll við bíl kílómetrum saman án þess að slá hið minnsta af.

Það er löngu séð að einskis árangurs er að vænta af því að biðla til ökumanna að sýna tillitssemi, hægja á sér, og jafnvel stoppa ef svo ber undir. Of fáir bregðast hið minnsta við því.

Eina leiðin er að leggja ásættanlega reiðvegi fjarri bílaumferð. Það hefur verið gert með sóma t.d. í Ölvesinu og hér í Flóanum þokast í rétta átt, smám saman. Þessi þróun er að öllu leyti undir landeigendum komin, þeirra vilja til að opna lendur sínar og haga og gefa eftir rönd á skurðbakka fyrir vegstæði. Það hafa Ölvesingar og Flóabændur gert innan sveitar, og vafalaust á þetta við víðar um landið, þó mér sé það ekki gjörkunnugt.

En til að komast milli héraða þarf að gera betur. Við Lágsveitamenn þurfum að komast upp að hálendisbrún án þess að ríða tímum og dögum saman meðfram þjóðvegi 1 eða öðrum meginumferðaræðum.

Besta leiðin til úrbóta er að Vegagerðin áætli jafnframt vegabótum og nýframkvæmdum lagningu ásættanlegra reiðvega fjarri bílaumferð. Bændur og heimamenn sjá um sitt innan sveitar, en „héraðsvegi“ að hálendisbrún ætti Vegagerð ríkisins að sjá um, hönnun fjármögnun og framkvæmd. Það er of dýrt og óhagkvæmt að gera þetta eftirá, grafa undirgöng og bjóða upp á skítareddingar í stað góðra lausna sem gátu legið fyrir ef hugsað hefði verið fyrir þeim frá upphafi.

Af því vek ég máls á þessu að ég hefi nú búið hér í Flóanum í þrjá áratugi næstum, og oft þurft að ferðast með líf mitt og hrossa minna í lúkunum héðan og upp á Kjöl, Fjallabak eða vestrí Borgarfjörð. Og af því í dag reið ég upp með Ölfusá að Stóra-Ármóti, dásamlega leið gegnum Laugardælur, en bændur þar hafa tryggt gott aðgengi hestamanna að þessari fallegu leið.

Til að komast þetta þarf þó að ríða tvær hættulegar umferðaræðar, fyrst Bæjarhreppsveg og síðan Hringveginn sjálfan, hættulegri en allar straumhörðustu jökulár landsins.

Skrifað 8.08.21

Hófaspil

Ef andinn dofnar, angrar flest,

þá alltaf hefur reynst mér best

að taka beisli, hnakk og hest

og hundsa daglegt streðið.

 

Því hófar spila ljúflingslag,

þeir léttan flytja gamanbrag:

„Já, hleyptu garpur, góðan dag!

Við getum ekki beðið!“

 

Þá fram á veginn fáknum sný,

svo flýg á skeiði, sæll á ný,

og faxið bylgjast fangið í.

Nú funar aftur geðið!

 

Í hlaðið ríð á rösku feti

svo róað jó og hugann geti.

 

 

Hrossanöfn í mótsskrá LM 2018

Sitjandi í brekkunni við kynbótavöllinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2018, blaðandi í mótsskránni og hlustandi á þulina þylja upp nöfn hrossanna sem fyrir augu bar, feðra þeirra, mæðra og stundum móðurforeldranna líka, kom stundum fyrir að mér væri sem strokið andhæris um málvitundina. Þessi tilfinning varðaði stafsetningu, beygingar og nafnaval. Ég ákvað því að skoða nánar nafngiftir hrossanna í mótsskránni og velta fyrir mér „frávikum“ m.v. eigin máltilfinningu. Ekki eru þessar vangaveltur á neinn hátt vísindalegar, til þess skortir mig dýpri málfræðiþekkingu og væri gaman ef vísindamenn á því sviði leiðréttu það sem missagt kann að vera.

Halda áfram að lesa

Hrímnir

Flestir hugsa margt við áramót,
minnast þess sem færði ást og gleði.
Kannski líka kemst á hugann rót
kvikni það, sem betur aldrei skeði.
Munum þá að gera bragarbót
og bera sig, því lífið er að veði.

Í mysu lífsins maðkur víða sést,
manninn, svik og pretti, oft skal reyna.
Það er sem blessuð skepnan skilji flest,
skynji hugann, engu má þar leyna.
Það veit sá sem eignast úrvalshest
að aldrei vin sinn svíkur lundin hreina.

Kæri vin! Ég kveð með hjartasting.
Þín kroppuð tótt nú himni móti starir
sem áður horfði frán um fjallahring.
Þó fram úr öðrum hinum megin skarir,
ég aldrei framar óð minn til þín syng
og engin von með hneggi þú mér svarir.

Ég man þinn langa, mjúka, sveigða háls
ég man, þitt skarpa auga knapann spurði:
„Viltu með mér núna, nýr og frjáls,
njóta listagangs, í fullum burði“?
Á gamlársdag finn grimmd. Mér varnar máls
að ganga að þér, dauðum oní skurði.

 

Þorkelsvöllur

Í gær, 31.07.14, var formlega vígður nýr keppnisvöllur Hestamannafélagsins Trausta við Stóragil í landi Laugarvatns. Jafnframt var haldin gæðingakeppni félagsins og sérstakt „vígslumót“ í tölti og 100 metra skeiði. Formaður Trausta, Guðmundur Birkir Þorkelsson, lýsti byggingu mannvirkisins og þakkaði þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu félagið dyggilega.

Bjarni bróðir hans fékk það hlutverk að afhjúpa skilti með nafni vallarins, sem stjórn

Skiltið afhjúpað

Skiltið afhjúpað

félagsins hafði samþykkt einróma á fundi skömmu áður. Svo skemmtilega „vildi til“ að vallarvígsluna bar upp á sextugsafmælisdag Bjarna á Þóroddsstöðum. Vígslubiskupinn í Skálholti blessaði síðan völlinn og bað almættið um velfarnað til handa notendum, mönnum og hestum, í leik og keppni. 

Völlur þessi heitir Þorkelsvöllur, til heiðurs minningu Þorkels Bjarnasonar fv. hrossaræktarráðunautar á Laugarvatni, hestamanns og eins aðalhvatamanns að stofnun félagsins – og fyrsta formanns þess.

Hönnuðurinn var mættur

Hönnuðurinn var mættur

Völlinn hannaði Oddur Hermannsson, arkitekt á Selfossi, inn í ólýsanlega náttúrufegurð. 

Hann stendur í birkirjóðri, Laugarvatns- og Snorrastaðafjall gnæfa yfir með sínar kjarri vöxnu hlíðar og hrikalegt Stóragilið sem sker fjöll þessi sundur og greinir að lönd Laugarvatns og Snorrastaða. Margir nemendur á Laugarvatni að fornu og nýju minnast gönguferða upp í Stóragil, ýmist að Trúlofunarhríslu þar sem ástfangin pör skáru upphafsstafi sína í börkinn, eða áhættusams klifurs í hellinn í gilinu, þar sem ýmsir hafa lent í erfiðleikum, jafnvel þurft að þola kalda og langa bið eftir björgun, sumir lemstur.

„Í þeim fagra fjallasal...“

„Í þeim fagra fjallasal…

Undir fjallahlíðunum hálfhring í kring, þar sem Gullkistu ber hæst, blasa við blómleg býli Laugardalsins og gegnt þeim speglar þorpið sig í sjálfu vatninu.

Gullkista gnæfir yfir

Gullkista gnæfir yfir.

 Þó miklu hafi verið áorkað er enn starf óunnið við lokafrágang nánasta umhverfis, s.s. aðstöðu fyrir keppnishross og fólk með fyrirferðarmikla bíla og aftanívagna. Einnig þarf að huga að frágangi slitlags á vellinum, sem á vígslumótinu reyndist of laust í sér og litla spyrnu að hafa til afkasta á gangi fyrir þá afburðagæðinga sem glöddu augu áhorfenda.

Innan félags var keppt í hefðbundnum greinum gæðingakeppni fullorðinna, þ.e. A- og B-flokki gæðinga. Ekki var fjöldi þátttakenda til að draga mótið um of á langinn og til að stytta áhorendum enn frekar biðina var riðið eitt úrslitaprógramm með öllum þátttakendum inni á í einu.  

Keppendur í B-flokki

Keppendur í B-flokki

Í B-flokkinn voru fjórir skráðir til leiks en þrír mættu. Sigurvegari varð Ópera frá Hurðarbaki, eigandi og knapi Halldór Þorbjörnsson í Miðengi en ræktandi Reynir Þór Jónsson. Ópera er dóttir Kráks frá Blesastöðum 1A og Ólínu frá Hábæ.

Í A-flokk gæðinga mættu allir skráðir, fjórir keppendur, og stóð efst Tinna frá Þóroddsstöðum, dóttir Glampa frá

A-flokkur gæðinga

A-flokkur gæðinga. Bjarni næst, þá Sólon Morthens, Halldór Þorbjörnsson og loks Arnór Snæbjörnsson frá Austurey.

Vatnsleysu og Klukku frá Þóroddsstöðum. Ræktandi Tinnu og eigandi er Bjarni Þorkelsson en knapinn Bjarni Bjarnason.

Í opið töltmót bárust fleiri skráningar og keppt í tveimur fjögurra keppenda riðlum, skv. hefðbundnu úrslitaprógrammi, og 5 efstu að lokinni þeirri forkeppni kepptu svo til úrslita. Hér voru mættar, auk heimamanna, stórkanónur hesta og knapa á landsvísu.  

Sigurbjörn og Jarl í flottum takti og jafnvægi

Sigurbjörn og Jarl í flottum takti og jafnvægi

Öruggir sigurvegarar í töltkeppninni urðu Sigurbjörn Bárðarson og Jarl frá Mið-Fossum, margreynt og glæsilegt keppnispar, með fáséna einkunn upp á 9,0. Er ekki ofsögum sagt að Diddi og Jarl hafi hrifið mótsgesti -klárinn með frábæru jafnvægi og takti í öllum hlutum keppninnar og knapinn með faglegri fyrirmyndarreiðmennsku.

Aðrir landsfrægir kappar, Sólon Morthens og Frægur frá Flekkudal, lentu í öðru sæti og Bjarni Bjarnason á hinum efnilega gæðingi móður sinnar, Hnokka frá Þóroddsstöðum, vann sig upp í þriðja sætið í úrslitunum á kostnað fyrrnefndra Halldórs og Óperu. Camilla Petra Sigurðardóttir varð svo fimmta á hryssu úr eigin ræktun.

Fimm efstu í tölti

Fimm efstu í tölti, sigurvegarinn lengst til hægri.

Þá var bara skeiðið eftir. Átta knapar mættu til leiks með 9 hross. Jói Vald. og Jónína Kristins. komu ekki aðeins með tímatökubúnaðinn, heldur einnig fulla kerru af vekringum sem dætur þeirra sáu að mestu um að taka til kostanna.

Sigurvegarar í skeiði. Hera hneigir sig fyrir áhorfendum

Sigurvegarar í skeiði. Hera hneigir sig fyrir áhorfendum.

Stelpurnar leyfðu þó pabba sínum náðarsamlegast að renna einum hesti. Þóroddsstaðabændur létu tækifærið heldur ekki sér úr greipum ganga og mættu með þrjár alræmdar skeiðmerar, þær Blikku, Dís og drottninguna sjálfa, Heru frá Þóroddsstöðum.  

Það kom fáum á óvart að Hera vann þetta örugglega við lipurt taumhald knapa síns, Bjarna Bjarnasonar, á hreint lygilega góðum tíma á lausum velli, sem fyrr var lýst, 7,87 sekúndum. Hera hefur, eins og áhugamönnum er kunnugt, átt frábært keppnistímabil í sumar, setti Íslands- og heimsmet í 250 metra skeiði á Landsmóti hestamanna fyrr í sumar og bætti svo Íslandsmetið enn frekar í sömu grein á nýliðnu Íslandsmóti í hestaíþróttum, auk þess að verja Íslandsmeistaratitil sinn í 100 m. skeiði.

Skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum og skeiðkóngurinn Bjarni Bjarnason

Skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum og skeiðkóngurinn Bjarni Bjarnason.

Það má til sanns vegar færa að mótssvæði Traustamanna sé eitt það fegursta sem um getur hér á landi og þegar framkvæmdum er lokið með nauðsynlegum endurbótum á keppnisvöllum og umhverfisfrágangi, þá má halda þar hvaða mót sem er með sóma.

Veður var hagstætt, sól og norðan gjóla og þegar mótinu lauk á níunda tímanum um kvöldið var sólin rétt nýsigin bak Snorrastaðafjalls. 

Góður reitingur af áhorfendum var mættur, þrátt fyrir langþráða þurrkatíð og miklar heyannir á flestum bæjum. 

Drjúgur hópur úr fjölskyldu Þorkels Bjarnasonar var mættur á svæðið.

Drjúgur hópur úr fjölskyldu Þorkels Bjarnasonar var mættur á svæðið.

Í hléi var gestum, starfsmönnum og keppendum boðið upp á ljúffengar súpur, bæði fiskisúpu og kjötsúpu, auk kaffisopa að vild. 

Þetta var ánægjulegur dagur. Takk fyrir mig.

Ketilvallabóndinn jós súpum á diska gesta. Hér tekur við skammtinum Ari Bergsteinsson frá Laugarvatni, sálfræðingur á Selfossi.

Ketilvallabóndinn jós súpum á diska gesta. Hér tekur við skammtinum Ari Bergsteinsson frá Laugarvatni, sálfræðingur á Selfossi.

 

Birgir Leó og Ragnheiður Bjarnadóttir afhentu verðlaun í gríð og erg.

Birgir Leó og Ragnheiður Bjarnadóttir afhentu verðlaun í gríð og erg.

 

 

 

 

 

 

 

Góður er volgur sopinn

Nú er sá tími þegar ungviðið skilar sér í heiminn. Sauðburður víðast langt kominn og hryssur margar kastaðar. Þó hér sunnan heiða hafi ekki gert áhlaupaveður með stórhríð hafa ekki verið nein hlýindi og gróður í biðstöðu, úthagi víðast sinugrár, enda hörku næturfrost undanfarna viku eða svo og himinn kuldablár. Hætt er við því að „fegurð himinsins“ megi sín lítils í lífi nýfædds folalds gagnvart napurri norðangjólunni. En alltaf má leita huggunar í volgan sopann!

Nýfædd Þóroddsdóttir. Móðirin Spurning u. Loga frá Skarði og Kotru, dóttur Galdurs og Eirar frá Laugarvatni

Himinn blár, en horfinn snjár,
hagans grár er feldur.
Nóttin ári nú er sár,
Norðan-Kári veldur.

Fagurt er á fjöllum

Mynd

Efst á Hellisheiði,Á Hellisheiði10.0811
við heillandi sólarglit,
sit ég glaður á Seiði
með svolítinn kinnalit!

Trausti vinurinn teygar,
taktfast við lækjarhjal,
dýrustu veraldarveigar
-vatnið í fjallasal.

Fagurt er jafnan á fjöllum,
finn þar hinn tæra hljóm.
Anda, með vitunum öllum,
að mér þeim helgidóm.

Mér best á öræfum uni,
andinn mig þangað ber.
Finnst þar eins og að funi
frelsið innan í mér.