Af félagshyggju og pólitísku ati

Það hefur lengi verið ljóst að helstu valdaflokkarnir í íslenskum stjórnmálum, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa verið mér þyrnir í augum. Fyrir því eru einfaldar og augljósar ástæður, sem vikið verður að síðar.

En þegar nánar er skoðað finn ég góðan málefnalegan hljómgrunn með þessum flokkum, og ýmsum öðrum dregnum úr sama sauðakofa. Mín pólitík er einföld. Hún er félagslegs eðlis.

Og þar eru einmitt snertifletirnir við fyrrnefnd stjórnmálaöfl. Framsóknarflokkurinn hefur samvinnuhugsjónir opinberlega í sínum grundvallarplöggum og, a.m.k. fyrrum, skilgreindur sem „félagshyggjuflokkur“. Og þó í stefnuplöggum Sjálfstæðisflokksins fari lítið fyrir orðinu „félagshyggja“ en meira fyrir tali um „frelsi einstaklingsins“ er þar að finna frasa eins og „gjör rétt – þol ei órétt“, sem er prýðilegur frasi til að flagga og flestir ættu að geta sungið glaðhlakkalega, með sínu nefi. Þetta einkennilega „bann“ við notkun orðsins „félagshyggja“ í ræðu og riti innan Sjálfstæðisflokksins er einmitt það: einkennilegt. Vegna þess að flokkurinn, og fulltrúar hans, eru blessunarlega alveg sannfærðir í sinni félagshyggju; sennilega er flokkurinn „harðsvíraðasti“ félagshyggjuflokkur landsins, og jafnvel þó víðar væri leitað.

Frá upphafi vega, a.m.k. allan lýðveldistímann, hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið iðnastur allra stjórnmálaflokka við að úthluta samfélagslegum gæðum með félagslegum hætti, og Framsóknarflokkurinn fylgir þar fast á hæla. Skiptir þá engu máli hvers kyns gæði um er að ræða: aðgengi að auðlindum þjóðarinnar, góðum byggingalóðum, bankastjórastöðum, kennara og skólastjórastöðum, embættum dómara, sýslumanna, lögreglustjóra, háskólaprófessora, ráðuneytisstjóra og forstjóra ríkisstofnana, ásamt almennum störfum í ráðuneytum og ríkisstofnunum. Við þetta má bæta félagslegri úthlutun bankalána, varnarliðseigna, heildsöluleyfa, ríkisfyrirtækja stórra og smárra o.s.frv. o.s.frv. Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll hin félagslegu góðverk þessara flokka.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn aldrei reynt að þvo af sér hinn „félagslega“ samvinnustimpil, svo mér sé kunnugt, og hann því í góðri trú að framfylgja sínum hugsjónum. En Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar hefur aldrei viljað, í hógværð sinni og feimni, kannast við það opinberlega að vera félagshyggjuflokkur, heldur lagt á það áherslu í ræðu og riti að frjálsir einstaklingar keppi um gæðin á eigin forsendum til að tryggja að hinir hæfustu njóti ávaxtanna. Segja má að eina félagshyggjan sem flokkurinn er tilbúinn að viðurkenna sé sú að hinir vanhæfari muni ævinlega og náðarsamlegast njóta góðs af iðju hinna hæfari, hvort sem er „með eða án leyfis“ eða hvort þeir verðskulda það eður ei. Þessi félagshyggja hefur verið kölluð „brauðmolakenning“ og er vissulega göfug félagshyggja, þó hún sé fremur afleidd en sjálfsprottin. Slík félagshyggja er líka í algerri mótsögn við raunverulegt markmið og hjartalag flokksmanna, þar sem logar hin einlæga og gefandi félagshyggja.

Ég, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn erum sem sagt sammála um að það sé bæði eðlilegt og sjálfsagt að úthluta ýmsum samfélagsgæðum á félagslegum grunni, en ekki einvörðungu eftir hörðum samkeppnissjónarmiðum þar sem fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl óhjákvæmilega skekkja samkeppnisstöðuna umtalsvert með tilheyrandi auknum ójöfnuði og óréttlæti.

Í gegnum tíðina hefur það komið æ betur í ljós að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum finnst eðlilegt og sjálfsagt að fjárhagslegur styrkur, „réttu samböndin“, fjölskyldu- og vinatengsl ráði líka við hina félagslegu úthlutun gæðanna og að réttu samböndin og tengslin séu staðfest með flokksskírteinum. Í hinu „pólitíska ati“ við félagslega úthlutun gæða hefur frasinn „gjör rétt – þol ei órétt“ alveg gleymst!

Slík aðferð við félagslega úthlutun samfélagsgæða heitir spilling. Henni ber alltaf og alls staðar að hafna og berjast gegn með oddi og eggju, samkvæmt mínum skilningi. Þess vegna get ég ekki stutt þessa flokka, þrátt fyrir okkar sameiginlegu almennu hugmynd um félagslega úthlutun samfélagsgæða, og á bágt með að skilja að aðrir geti fremur gert það en ég.

Af sömu ástæðu get ég ekki heldur stutt stjórnmálamenn og flokka sem horfa gegnum fingur sér á „félagshyggju“ Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, taka þátt, snúa að henni blinda auganu, eða hvítþvo hana með sáttmála.

Félagshyggju fylgi jöfnuður, réttlæti og frelsi. Það er ekki flókið.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *