Af getuskiptingu

Vanda Sigurgeirsdóttir olli nokkru uppnámi innan hreyfingarinnar um daginn með því að ræða getuskiptingu barna í íþróttum. Hún benti á að mörgum börnum liði illa, eða þau fengju alls ekki það út úr öllum þessum æfingum sem æskilegt væri.

Óðar var tekið til varna fyrir getustkiptingarkerfið og hefur Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, farið þar fremstur í flokki. Helstu rök Sigurðar eru þau að börnum líði mun betur með þeim sem eru á svipuðu róli hvað þroska og færni varðar. Í „ógetuskiptu“ kerfi (kallað „án aðgreiningar“ í skólakerfinu) myndu þeir færustu einoka boltann og sumir hreinlega aldrei fá tækifæri til að sparka í tuðruna. Því væri heillavænlegra að þeir sem hefðu minni færni í fótbolta lékju sér saman og þeir flinkustu kepptu hver við aðra á jafnréttisgrundvelli.

Allt er þetta gott og blessað og ber að þakka Vöndu fyrir að koma þessari umræðu af stað. Sjálfsagt hafa bæði sjónarmiðin sinn tilverurétt. Vanda benti líka á að keppnishyggja væri allt of ráðandi, og allt of snemma, á íþróttaferli barnanna.

Þar liggur sennilega hundurinn grafinn.

Grunnurinn að réttlætingu getuskiptingar hjá ungum börnum liggur nefnilega í keppnishugsuninni. Það er til lítils fyrir pasturslítinn krakka með lítinn hreyfiþroska að keppa við einhverja „Mini-Messia“ á fótboltavellinum.

Þá er spurningin hvort markmiðið með opinberum stuðningi við íþróttahreyfinguna er að framleiða slíka framtíðarafreksmenn eða að tryggja, að því marki sem slíkt er mögulegt, að hver og einn fái tækifæri til að hámarka getu sína, þroska og lífshamingju?

Ætli svarið sé ekki „sitt lítið af hvoru“?

Kannski að hluti vandans liggi í því að foreldrarnir píni börnin sín í fótbolta, þó þau hafi enga hæfileika á því sviði? Það eru nefnilega fleiri kostir í stöðunni fyrir börnin en fótbolti.

Og ekki get ég gert að því, þegar upp blossar umræðan um getuskiptingu barna innan íþróttahreyfingarinnar, að skólakerfið komi mér í hug. Í því kerfi er núna í tísku það sem kallað er „skóli án aðgreiningar“ og er andstæðan við getuskiptingarkerfið sem kvennaknattspyrnulandsliðsþjálfarinn talar fyrir af eldheitri sannfæringu.

Í skólakerfinu er líka uppi þessi tvíhyggja. Fyrir ekki löngu síðan mátti sjá í fjölmiðlum viðtöl við foreldra sem voru ósátt við það að sonur þeirra þyrfti að ganga í „almennan grunnskóla“, skóla án aðgreiningar, en fengi ekki inni í sérskóla þar sem hann myndi njóta sín mun betur með jafningjum, að áliti foreldranna.

Og framhaldsskólarnir eiga, skv. vilja löggjafans, að vera „fyrir alla“. Þar er hinsvegar getuskiptingarkerfið praktíserað þannig að nokkrir skólar komast upp með það að handvelja inn til sín nemendur eftir einkunnum á grunnskólaprófi. Það eru í umræðunni kallaðir „góðir skólar“. Þeim má þá jafna við A-liðin í getuskiptu starfinu hjá fótboltafélögunum. Og, eins og í skólakerfinu, eru félög og þjálfarar metin eftir því hvað yngriflokkarnir vinna marga titla – hvað þeir fá á prófinu. Þjálfari sem ekkert vinnur, er hann ekki rekinn? Skiptir þá litlu máli þó honum hafi tekist að auka hreyfiþroska, almennt heilbrigði og hamingju þeirra barna sem hann hefur á sínum snærum.

Þó kennarar séu ekki enn reknir ef nemendur þeirra falla á prófum eða meðaleinkunn hópsins er lægri en í „góðu skólunum“ (líka kallaðir elítuskólar), þá eru þeir, og skólarnir sem þeir starfa við, að engu metnir í opinberri umræðu fyrir það ef nemendum þeirra tekst að bæta árangur sinn stórkostlega, kannski um marga heila í meðaleinkunn.

„Hvaða rugl er þetta, íþróttir eru ekki það sama og skóli“, gæti nú einhver sagt.

Vissulega er það rétt. En hvort eru íþróttahreyfingin og skólakerfið fyrir börnin eða börnin fyrir íþróttahreyfinguna og skólakerfið? Snýst þetta ekki allt um það sama? Börnin okkar, þroska þeirra, líf og hamningu?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *