Framtíðarsýn afturkallan(n)a

Á hinum erfiðu tímum við hrunið, þegar skuldir ríkissjóðs gerðust stjarnfræðilegar, varð nauðugur einn kostur að skera niður þjónustu, þ.á.m. ýmsa þjónustu sem við lítum á sem grunn velferðarkerfis okkar. Ríkisstjórn áranna 2009-2013 var kosin til þess að takast á við þjóðargjaldþrot, sem var afleiðing óstjórnar hægri flokkanna, sem nú mynda aftur ríkisstjórn, eins og kunnugt er. 

Í öllu niðurskurðarati ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur – sem var blóðugt – gagnrýndu málþófspostular Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hana harðlega fyrir niðurskurð í velferðarkerfinu. Nú blasir hins vegar við í fyrsta fjárlagafrumvarpi Bjarna Ben. að gengið er enn lengra í niðurskurði.

Eitt af því jákvæða sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms reyndi að gera í harðindunum og atvinnuleysinu var að efla menntunarmöguleika atvinnuleitenda, símenntun og ýmiskonar rannsóknar og fræðslustarfsemi. 

Mörg falleg dæmi má nefna um þetta, t.d. verkefni eins og „Nám er vinnandi vegur“, raunfærnimat og aukið fé til náms- og starfsráðgjafar í gegnum fræðslumiðstöðvarnar í tengslum við þessi verkefni. Einnig má nefna í þessu samhengi „sóknaráætlun“ landshlutanna, sem telja má einhverja gáfulegustu byggðastefnu sem rekin hefur verið hér á landi. Ekki er því haldið fram hér að hún sé sköpunarverk stjórnarinnar 2009-2013, en sú stjórn hélt henni á lofti á niðurskurðartímum, góðu heilli.

Nú eru aðrir tímar. Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í gær boðar slátrun margra uppbyggilegra fræðslu- og atvinnuskapandi nýsköpunarverkefna, ekki síst á landsbyggðinni. 

Gerð er aðför að átaksverkefninu „Nám er vinnandi vegur“. Annars vegar er framlag til raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar lækkað um 50% eða 30 milljónir og hins vegar er 300 milljóna króna framlag til eflingar á starfstengdu námi, sem var upphaflega veitt í fjárlögum 2012, skorið alveg niður. 

Verkefni sem tengjast þessum málaflokkum, og voru hluti af fjárfestingaráætlun 2013-2015 frá fyrri ríkisstjórn, eru skorin við trog. „Afturkölluð“ eru framlög úr fjárlögum 2013 upp á 400 milljónir til sóknaráætlunar landshluta en gert ráð fyrir því „á næstu árum að fjármagna hluta sóknaráætlana með fjármunum sem nú renna t.d. í vaxtarsamninga og menningarsamninga“ eins og það hljóðar í textanum. Enda á menningin ekki upp á pallborðið og sjálfsagt að færa annað peninga sem eyrnamerktir voru henni.

Fleiri verkefni úr fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar eru skorin, enda byggðust þau á tekjuöflun sem núverandi stjórnvöld kæra sig ekki um: sérstöku auðlindagjaldi af umframhagnaði útgerðarinnar. Hér má nefna verkefni upp á ríflega 480 milljónir, þau stærstu „bygging þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri og uppbygging innviða friðlýstra svæða.“

Hvernig líst fólki á landsbyggðinni á þessar áætlanir? Hvað varð um hækkað menntunarstigið? Á sama tíma og hoggið er að rótum menntunar, rannsókna og fræðslustarfsemi, sem er forsenda nýsköpunar og þróunar atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum, er sargað á raddböndum í hinum falska stóriðjukór.

Svei því. Svei þeirri hörmulegu framtíðarsýn sem nýja fjárlagafrumvarpið boðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *