Gamalkunn en glórulaus skólamálaumræða

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 13. september blasti við á forsíðu að Hagfræðideild Háskóla Íslands hygðist taka upp inntökupróf í deildina vegna þess að lítt mark væri takandi á stúdentsprófum „úr sumum skólum“. Drjúgur hópur fyrsta árs nemenda falli á jólaprófum í deildinni og að á bilinu 35%-50% nemenda sem skrái sig láti aldrei eða sjaldan sjá sig í tímum. Haft er eftir dósent við hagfræðideildina að svo mikill munur sé á getu nemenda eftir því hvar þeir stunduðu nám til stúdentsprófs að slíkt próf sé orðið gagnslaust viðmið. Því sjái deildin sér einskis annars úrkosta en að taka upp inntökupróf.

Í kjölfar þessarar fréttar skrifar ritstjóri blaðsins í leiðara daginn eftir að það hafi lengi verið opinbert leyndarmál að fólk sé „mjög misvel undirbúið fyrir akademískt nám eftir því hvaða framhaldsskóla það hefur sótt“. Ritstjórinn heldur áfram og segir að í einhverjum tilvikum sé stúdentsprófið svikin vara, því það feli ekki í sér nægan undirbúning undir háskólanám.

Lausnin sem ritstjórinn sér við þessu er að sundurgreina brottfall úr háskólanámi eftir því úr hvaða framhaldsskólum nemendurnir komu og birta niðurstöðurnar opinberlega, enda um að ræða „sjálfsagðar upplýsingar fyrir nemendur og foreldra þegar tekin er ákvörðun um hvar sótt er um skólavist“.

Nú er þetta ekki í fyrsta skipti sem umræða af þessu tagi fer af stað. Og það virðist engu máli skipta hve mikið rætt er og ritað um málið. Alltaf fer það í sama gamla, glórulausa farveginn. Niðurstaðan verður sú að MR sé besti skólinn, aðrir svipaðir skólar séu í lagi en hinir slæmir.

Skólar sem komast upp með það að hundsa landslög og menntastefnu stjórnvalda með því að taka bara inn „útvalda“ eru í raun óþarfar stofnanir. Krakkar sem koma inn í framhaldsskólana með hæstu einkunnirnar á grunnskólaprófi munu áfram standa sig vel í námi almennt séð, svo lengi sem þau kjósa að sitja á skólabekk. Skiptir þá engu hvaða framhaldsskóla þau sækja. Þessir krakkar munu brillera á jólaprófunum í hagfræðideildinni, burtséð frá því hvort þau voru í MR eða hvaða öðrum skóla sem er.

Það hefur ekkert að gera með svikið eða ósvikið stúdentspróf hvernig þessum krökkum kemur til með að vegna í akademísku námi. Mér er vel minnisstætt viðtal sem tekið var fyrir nokkrum árum við dúx úr MR, stúlku sem fékk svimandi háa meðaleinkunn á stúdentsprófi frá þeim skóla. Það þótti tíðindum sæta að hún hafði líka tekið virkan þátt í félagslífi og einhverju fleiru, sem ég man ekki lengur hvað var. En þegar hún var spurð hvernig hún færi að þessu öllu, hvernig hún hefði sem sagt tíma fyrir allt félagslífið og hvað það nú var annað sem hún hafði fyrir stafni, jafnframt því að lesa skólabækurnar, svaraði hún því til að þetta væri bara spurning um skipulagningu. Hún nýtti kennslustundirnar í skólanum til að klára heimanámið og gat því gert hvað annað sem hana lysti eftir skóla á daginn. Á meðan kennararnir þuldu sem sagt hátimbruð vísindi sín í fyrirlestrum, eins og gert var í Bessastaðaskóla, þá lokaði hún eyrunum og einbeitti sér að því lesa sér til í námsbókunum.

Það má rétt ímynda sér hvort þessi stúlka hefði ekki getað setið í hvaða skóla sem var, hvar sem var á landinu, og dúxað ÞRÁTT FYRIR skólann og kennarana.

Margir skólar taka við öllum sem sækja um skólavist, eins og kveðið er á um í framhaldsskólalögum að gera skuli. Þeir standa undir frasanum „framhaldsskóli fyrir alla“ og eru fyrir vikið þátttakendur í því verkefni sem margir eru sammála um að sé eitt það mikilvægasta fyrir þjóðina til framtíðar litið: að efla menntun og hækka menntunarstig almennt, svo lífskjör hér verði áfram a.m.k. sambærileg og helst betri en þekkist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Þetta markmið næst ekki með því að taka bara „útvalda“ inn í framhaldsskólana.

Vandi hagfræðideildarinnar felst í því að nú til dags koma mun fleiri, og hlutfall þeirra fer sífellt hækkandi, en bara þeir sem voru með ágætiseinkunnir á grunnskólaprófi inn í háskólana. Þessir „viðbótarnemendur“ eiga alemnnt erfiðara með nám en hinir „útvöldu“. Ég fullyrði það að þeir myndu ekki ná jafn góðum árangri og þeir þó gera ef þeir sætu á bekkjunum í svokölluðum „elítuskólum“. En þangað inn fyrir þröskuld eru þeir ekki velkomnir, svo þeir stunda sitt nám góðu heilli í fjölbrautaskólum og öðrum skólum sem gera ekki upp á milli nemenda.

Vandi hagfræðideildarinnar felst líka í því að 35-50 prósent innritaðra nemenda lætur ekki sjá sig í kennslustundum. Er nokkur furða að þeir falli á prófum? Þessi vandi sem þarna er lýst fer sennilega vaxandi í háskólunum en hefur verið gjörþekktur í framhaldsskólunum lengi. Undanfarin a.m.k. 30 ár hefur það verið aðalkeppikefli framhaldsskólakerfisins að minnka brottfall. Það hefur verið reynt að gera með því að auka fjölbreytni námsframboðs, fjölga styttri námsleiðum og „koma til móts við þarfir, áhuga og getu“ fleiri nemenda. Framhaldsskólakerfið hefur sem sagt reynt að koma til móts við nemendur, enda hafa áherslur og „þarfir samfélagsins“ gjörbreyst á þessum tíma. Ekki hafa þó allir framhaldsskólar tekið þátt í þessari þróun.

Markmið skólakerfisins og menntastefnu stjórnvalda hlýtur að vera, ætti a.m.k. að vera, að mennta sem flesta sem mest, til þátttöku í tækni- og upplýsingasamfélaginu, nýsköpun og þróunarvinnu. Ekki að mennta bara lítinn hluta en senda hina „á togara eða í húsmæðraskóla“, eins og ágætur kennari minn einn í menntaskóla sagði gjarnan ef svell stærðfræðinnar reyndist nemendum hans full hált.

Spurningin er hvort hagfræðideildin gæti tekið upp nýja kennsluhætti, reynt að þróast á einhvern hátt til móts við nýjan hóp nemenda? Í þeim hópi sem fellur, eða sér ekki tilgang í því að mæta í kennslustundir dósentanna í hagfræðinni, gætu leynst efni í afbragðshagfræðinga, ef betur væri að gáð. Alveg eins og í hópi nemenda sem fá menntun sína í „opnu framhaldsskólunum“ leynast efni í nýta þjóðfélagsþegna, jafnvel lækna, lögfræðinga og hagfræðinga! þó þeim sé úthýst úr fáeinum snobbskólum fyrir sunnan.

Spurningin er ekki sú hvort stúdentspróf sé svikin vara eða ósvikin. Það er afskaplega einföld og ódýr leið að skella skuldinni af brottfalli í háskólum á framhaldsskólana. Það er jafnódýrt og að skella skuldinni af brottfalli í framhaldsskólum á grunnskólana. Engum dettur það í hug í alvöru, vona ég, að greina brottfall í framhaldsskólum niður á einstaka grunnskóla.

Það mun engan vanda leysa að greina brottfall í háskólum niður á einstaka framhaldsskóla. Þær „sjálfsögðu“ upplýsingar, sem ritstjóri Fréttablaðsins kallar eftir, munu engu breyta. Hér eftir sem hingað til munu krakkar sem alltaf hafa staðið sig vel í námi halda áfram að gera það.

Skólar sem aðeins taka inn þannig krakka munu að sjálfsögðu skila frá sér fólki sem heldur áfram að standa sig vel í námi. Þeir skólar sem taka inn alla flóruna af nemendum munu á sama hátt skila af sér allri flórunni; bæði nemendum sem munu standa sig vel í akademísku námi og nemendum sem munu standa sig illa, eða ekki finna sig í slíku námi. Þetta ætti hvert mannsbarn að geta sagt sér sjálft, og þarf ekki vísindarannsóknir til.

Umræðan mun hins vegar, hér eftir sem hingað til fara í glórulausa farveginn um góðu og slæmu skólana, engum til gagns en flestum til ógagns. Leiðari ritstjóra Fréttablaðsins var skref í þá átt.

Kjarni málsins er sá að það fer ekki eftir því í hvaða framhaldsskóla nemendur hafa stundað nám hvort þeim gengur vel eða illa í akademísku námi. Því ráða margir aðrir, flóknari þættir. Nemendur sem ná góðum tökum á náminu fyrstu árin innan skólakerfisins munu að öllu óbreyttu standa sig vel uppfrá því. Yfirgnæfandi líkur eru á því að nemendur sem fá góðar einkunnir á grunnskólaprófi muni fá góðar einkunnir á stúdentsprófi og í framhaldinu standa sig vel í háskólanámi. Þá skiptir engu máli í hvaða framhaldsskóla þeir gengu.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *