Hagvöxtur á hæpnum grunni

Samráðsvettvangur forsætisráðuneytisins um leiðir til þess að auka hagsæld Íslendinga fram til ársins 2030 var settur á laggirnar í janúar á þessu ári og hefur nú skilað tillögum sínum. Samkvæmt frétt í Fréttatímanum frá 9. maí sl. miða tillögurnar við þau „metnaðarfullu markmið að meðalhagvöxtur nemi 3,5% á ári“ á þessu tímabili og við það muni Ísland færast „upp í 4. sæti í samanburði OECD ríkja hvað varðar verga landsframleiðslu á mann“ í stað þess að verma 15. sæti listans að óbreyttu, „í félagsskap þjóða eins og Grikkja, Ítala, Pólverja og Ungverja“.

Og auðvitað viljum við ekki vera í slíkum tossabekk!

Sjálfsagt er margt gáfulegt í þessari skýrslu og sjálfsagt er rétt að kynna sér hana í þaula, enda fjallar hún um „flesta þætti atvinnu- og efnahagslífsins“, en að svo stöddu hef ég bara við að styðjast frásögn Fréttatímans og umræðuþátt í sjónvarpinu. Og í þessum heimildum er einmitt sjónum beint að umfjöllun skýrslunnar um menntakerfið, sem vel að merkja er sérstakt áhugamál mitt og starfsvettvangur.

Ekki kemur á óvart að niðurstaðan sé að skólakerfið þurfi „róttækan uppskurð“ eins og segir í fyrirsögn Fréttatímans. Þegar það er haft í huga að „samráðsvettvangurinn er skipaður helstu stjórnmálaleiðtogum og forsvarsmönnum atvinnulífsins“ kemur heldur ekki á óvart hvað talið er þurfa að skera upp og hvernig það skuli gert.

Rétt er að minna á að meginmarkið hópsins var að finna leiðir til að ná fyrrnefndum meðalhagvexti næstu tæp 20 ár.

Þetta er ekki fyrsta skýrslan á Íslandi um menntakerfið. Hver skýrslan á fætur annarri, nánast árlega eða oftar síðustu áratugi, hefur verið unnin „af ábyrgð og festu“, að sögn til að finna leiðir til árangursríkara skólastarfs. Við höfum komið illa út úr árangurssamanburði í PISA könnunum, við höfum komið illa út úr OECD samanburði um brottfall úr framhaldsskólum og við komum illa út úr samanburði á rekstrarkostnaði grunnskóla. Til allrar hamingju á þetta síðasttalda þó hvorki við framhalds- og háskólana okkar, sem eru víst tiltölulega ódýrir!

Megináhyggjuefnið vegna framhaldsskólakerfisins hefur löngum verið brottfallið. Samráðsvettvangur stjórnmálaleiðtoga og atvinnulífsfrömuða hefur nú fundið í einni aðgerð lausn á brottfallsvandanum og leið til að auka hagvöxtinn. Skv. umfjöllun Fréttatímans felst lausnin í því „að stytta nám í grunnskóla og framhaldsskóla um samtals tvö ár og draga þannig að miklu leyti úr miklu brottfalli íslenskra framhaldsskólanema“. Við það myndi „landsframleiðsla aukast um 3-5%“. Svo er líka talið ráð að fækka skólum verulega og stækka þá.

Nú verður að hafa þann fyrirvara á að þetta er túlkun blaðamanns Fréttatímans á efni skýrslunnar, en hvort sem ofangreint orsakasamhengi er frá honum komið eða skýrsluhöfundum þá lýsir það alla vega algjörum skorti á ályktunarhæfni. Það er óskiljanlegt að nokkrum manni, „þeim er vitandi er vits“, detti það í hug í alvöru að stytting skólagöngu um tvö ár leiði til minnkandi brottfalls. Eða að birta slíkt í skýrslu sem væntanlega á að taka alvarlega í þjóðfélagsumræðu?

Vonandi sjá allir að hagvaxtarmarkmið samráðsvettvangsins á sviði menntamála eru á hæpnum grunni, svo ekki sé meira sagt. Og vonandi eru aðrar tillögur í skýrslunni ekki sama marki brenndar.

Aðrar niðurstöður skýrslunnar varðandi skólakerfið eru gamalkunnur söngur: auka kennsluskyldu, fjölga í bekkjum, sameina og stækka skóla („óhagkvæmar einingar“ heitir það á máli hagvaxtarfræðinganna).

Á sama tíma og forsætisráðuneytið hendir peningum í skýrslugerð af þessu tagi eru engir peningar tiltækir til þess að innleiða nýjustu framhaldsskólalögin, sem þó eiga að vera að fullu komin í gagnið árið 2015.

Og hverjar skyldu þá vera helstu áherslurnar í nýju lögunum? Hvernig skólakerfi er það sem stjórnmálaleiðtogarnir eru tiltölulega nýbúnir að samþykkja á Alþingi að íslensk börn og ungmenni skuli ganga í gegnum? Er það skólakerfi sem byggir á stærðarhagkvæmni, á „hagkvæmum einingum“ reiknilíkananna? Á einsleitni og fjöldaframleiðslu hagkvæmra atvinnulífseininga úr holdi og blóði?

Nei. Svoleiðis skólakerfi stendur ekki til, lögum samkvæmt, að byggja upp hér á landi.

Grunntónninn í núgildandi lögum um öll skólastigin, leik-, grunn-, og framhaldsskóla, er mannréttindi, lýðræði, -þarfir, réttindi og áhugasvið einstaklingsins-, nauðsynlegur sveigjanleiki til að undirbúa nemendur fyrir síbreytilegan heim. Grunntónninn í lögunum er mannúðlegur; að bera virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins, að efla hvern og einn svo honum geti liðið vel í eigin skinni.

Og er ekki skóli án aðgreiningar opinber stefna? Hvernig samræmist skóli án aðgreiningar stækkun skóla og fjölgun nemenda í bekkjardeildum?

Til að ná markmiðum laga þarf að auka sérfræðiaðstoð í skólunum svo hægt sé að taka vandamál, sem eru ærin, föstum tökum strax í upphafi. Eina færa leiðin til að auka kennsluskyldu íslenskra kennara byggist einmitt á þessu. Ráða inn í skólana skrifstofufólk og sérfræðinga á ýmsum sviðum og losa kennarana um leið við fjöldamörg verkefni sem þeim er nú ætlað að sinna meðfram kennslunni. Þeir yrðu manna fegnastir. Ekki hafa þeir beðið um öll „aukaverkin“ sem laumað hefur verið á borðin þeirra smám saman í gegn um tíðina og taka orðið allt of mikla orku frá sjálfri kennslunni. Þeir hafa hins vegar tekið við verkefnunum, að mestu möglunarlaust, af inngróinni samviskusemi og skyldurækni.

Þó margháttuð þróun hafi orðið á skólastarfi undanfarin 30 ár (tölvuvæðing, verkefnamiðað nám, fjarnám, „spegluð kennsla“, einstaklingsmiðað nám og svo frv.), þá er víða og á ýmsan hátt hægt að „skera upp“ í skólastarfi. Kennarar eru almennt tilbúnir til að taka þátt í alvöruvinnu við að bæta skólastarf.

En þessar hugmyndir, sem nú hefur verið kastað fram einu sinni enn, miða ekki að því að bæta skólastarf og efla fjölþætta menntun sem gagnast muni við lausn ófyrirséðra verkefna í þjóðfélagi framtíðarinnar. Þær miða einungis að því að spara peninga í skólakerfinu.

Best færi á því að þessi skýrsla færi sem hljóðlegast í ruslið.

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *