Heilbrigðiskerfi á heljarþröm: Tíminn er búinn

Ég var hjá lækni áðan, á heilsugæslunni á Selfossi, held ég. Allavega á einhverju sem heitir Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Ég var reyndar búinn að lenda í basli með tímapöntunina, en eins og fólk veit er það ekki heiglum hent að fá tíma hjá lækni – og alls ekki heimilislækninum þess. Þegar ég hringdi var mér tjáð að ekki væri hægt að pantan tíma nema milli kl. 8 og 9 á föstudögum. Væntanlega vegna þess að þeim sem þurfa að komast undir læknishendur er hollast að flækjustigið sé sem allra, allra mest.

Þetta var á þriðjudegi, minnir mig: „Það er allt fullt í þessari viku“, sagði kvenmannsrödd í símann. „Það er allt í lagi þó ég komist ekki að fyrr en í næstu viku“, sagði ég, „þetta er ekki spurning um líf eða dauða“. „Við tökum ekki við tímapöntunum fyrir næstu viku fyrr en á föstudaginn. Hringdu milli 8 og 9“, sagði konan. Ég, sem er vanur að taka mark á því sem fólk segir og hvorki nenni né kæri m ig um að standa í málalengingum, kvaddi.

Og þar sem ég er að kenna milli 8 og 9 á föstudögum, og hef það ekki fyrir sið að hlaupa úr kennslu til að tala í símann, liðu næstu tveir, þrír föstudagar milli 8 og 9 án þess ég væri nokkru nær því að komast til læknis. Þá bauð kona mín mér að hringja fyrir mig og reyna að fá tíma. Hún er sættir sig ekki við lélega þjónustu, er sjálf landsfræg af störfum sínum við afgreiðslu í apótekum, gleraugnaverslunum, íþróttavörubúðum og víðar fyrir afburða þjónustu. „Þú átt tíma á miðvikudaginn kl. 13.40“, sagði hún þegar hún kom heim úr vinnunni einn daginn. 

Og ég var mættur tímanlega. Borgaði minn 1200 kall með bros á vör og settist í biðstofunni. Svo var kallað á mig. Nokkurn veginn á réttum tíma. Læknirinn tjáði mér að læknanemi á 6. ári væri inni hjá sér að fylgjast með, spurði hvort það væri í lagi mín vegna. Ég hélt nú það, heilsaði nemanum, ungri stúlku sem sýnilega var komin nokkra mánuði á leið. Ég spurði hana hvort hún þekkti nokkuð tengdadóttur mína, hana Bryndísi? „Ert þú pabbi hans Ragnars“, spurði hún strax og brosti sínu blíðasta. „Við Bryndís erum saman í bekk“. 

Svo settist ég á móti lækninum við skrifborðið og hóf upptalningu á því sem hrjáði mig. Ég hafði dottið af baki í sumar, sagði ég, og viðbeinið skagar síðan upp úr vinstri öxlinni, „en fyrir nokkrum vikum fór ég að finna til í þessu, ekki endilega við átak, heldur við ákveðna hreyfingu. Getur verið að beinendinn sé farinn að skemma eitthvað vöðvann eða vefinn þarna í kring?“ spurði ég. Það taldi læknirinn útilokað, og þar með virtist málið dautt. „Ég er líka enn að drepast í hálsinum eftir byltuna“, sagði ég, „á erfitt með að snúa hausnum, t.d. þegar ég er að keyra og þarf að athuga hvort nokkuð er að koma bíll“. Doktorinn lét mig snúa hausnum til að sýna hvar og hvernig ég fyndi til. Svo settist hann við tölvuna og fór að skrifa beiðnir, annars vegar um myndatöku á hálsliðunum og hinsvegar um sjúkraþjálfun. „Sjúkraþjálfarinn getur hugsanlega eitthvað gert varðandi öxlina,“ sagði hann uppörvandi.

Nú ætlaði ég að impra á næsta krankleika – hægra hnéð tvöfalt af bólgu eftir gömul íþróttameiðsli svo ég kemst ekki upp eða niður stiga nema skáskjóta mér, hvað þá að geta farið í göngutúra, eins og sagt er að hollt sé að gera. „Væri kannski hægt að mynda hnéð í leiðinni, eða þarf kannski frekar að tappa af því?“ 

En ekki aldeilis: „Nú er tíminn búinn. Næsti sjúklingur kemur klukkan tvö“, sagði hann og benti máli sínu til stuðnings á klukku ofan við dyrnar. Og það breytti engu þó ég maldaði í móinn og spyrði hvort ég þyrfti virkilega að panta annan tíma og borga annað komugjald til þess að fá þjónustu við hnénu og því öðru sem ég hafði ætlað að láta tékka á, „hvers lags þjónusta er þetta eiginlega?“ og farið að síga aðeins í mig. „Já, þú býrð á Selfossi, svo það er ekki langt að keyra“, sagði hann kotroskinn, og bætti við: „Svo hringir þú bara og pantar tíma í röntgen þegar þér hentar. Já, og þú þarft að borga í afgreiðslunni þegar þú ferð út – fyrir beiðnina“. 

Svo þykist fólk vera hissa á því að karlmenn séu almennt tregir að leita sér lækningar áður en það er of seint.

Ég er samt alveg viss um að læknaneminn lærði sína mikilvægu lexíu: Svona á ekki að gera.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *