Hvað er að vera „útlitsgallaður“?

Lengi hafa ýmsar vörur verið auglýstar á afslætti vegna þessa. Merkingin er þá sú að varan sé heil og nothæf, virki eins og til er ætlast, en líti ekki nákvæmlega eins út og framleiðslustaðlar gera ráð fyrir. Þvottavél gæti t.d. hafa rispast í flutningum o.s.frv. Fólk fær þá fullnýtanlegan grip á góðu verði, ef það lætur rispuna eða beygluna ekki trufla sig. Enda hlutverk hans þá ekki að vera stofustáss til fegurðarauka.

Síðan færist þessi hugtakanotkun yfir í lífríkið. „Útlitsgallaðar“ rófur og kartöflur eru á niðursettu verði. Bragðið og næringargildið er auðvitað hið sama. En blessuð rófan er ekki svona fagurlega dropalaga og það truflar hið haþróaða formskyn nútímamannsins.

Ég viðurkenni að mér hnykkti nokkuð við þegar ég las í fjölmiðlum um „útlitsgallaða“ laxa í sjókvíum.

Erum við ekki farin að seilast nokkuð langt í yfirlætinu gagnvart lífríkinu og náttúrunni? Er lífríkið fyrir okkur bara staðlaðir nytjahlutir og öllum frávikum fleygt?

Hvað er næst? Eru þeir sem hafa skaðast í slysum þar með „útlitsgallaðir“? Og fatlaðir? Hvar endar þessi vitleysa?

Ekki er ég nógu fróður til að vita hvort efnanotkun í garðyrkju veldur því að sumar rófur verða „útlitsgallaðar“, eða hvort það er „náttúrulegur fjölbreytileiki“. Mannskepnan fæðist allskonar, sem betur fer, og hví ekki aðrar lífverur líka? Og allir hafa heyrt talað um stökkbreytingar …

En þrátt fyrir náttúrulegan fjölbreytileika lífríkisins (sem ætti að útiloka allar hugmyndir um „útlitsgalla“) þykist ég vita að margháttuð „frávik“ í náttúrunni eru af mannavöldum. Eiturefna- og hormónanotkun í landbúnaði, og verksmiðjubúskapur með dýr, hefur margháttaðar afleiðingar, vansköpun og dauða.

Þetta hefur maðurinn reynt með eftirtektarverðum árangri á sjálfum sér. Afleiðingar kjarnorkusprenginga og -slysa er nærtækasta dæmið. Út úr því komu „útlitsgallaðir einstaklingar“, svo farið sé alla leið með hina normalíseruðu og ógeðfelldu hugsun að náttúran sé hannaður hlutur á valdi mannsins og lúti fegurðarskyni hans, eins og það birtist á hverjum tíma.

Ég eftirlæt það siðfræðingum að meta hvort dauðar flugur á framrúðu og „útlitsgallaðir“ og dauðir laxar í sjókvíum séu sambærileg dæmi um inngrip mannskepnunnar í gang náttúrunnar.

En „útlitsgallað“ lífríki? Nei takk.

Skrifað 12.08.21

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *