Í þykkum sveimi

Vigdís Hauksdóttir hefur oft glatt landsmenn með gjammi sínu. Nýjasta yfirlýsingin var um að daun legði af Samfylkingunni:

Vigdís í þykkum sveimi sést,
súrnar gamla brýnið.
Er finnur eigin fýlupest
hún fitjar upp á trýnið.

Viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðismanna við ráðningu Jóhanns Haukssonar í starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafa verið á þann veg að mætur maður sagði að halda mætti að þeir sjálfir væru „saklaus, krullhærð lömb“ að vori:

Íhald og Framsókn lömbin ljúf
sem leika frjáls um börðin.
Er saklaus dilla dindilstúf,
detta aldinspörðin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *