In memoriam – gljúfur fullt af drullu

Ein af mínum allra sterkustu upplifunum á ríflega hálfrar aldar ævi er ferð á hestum um öræfin norðan Vatnajökuls, einmitt á þeim tíma sem framkvæmdir við Kárahnjúkastíflu voru að hefjast. Ég var leiðsögumaður fyrir hópi útlendinga á vegum Íshesta, en óskoraður ferðarforingi var Jón Þór, bóndi á Glúmsstöðum í Fljótsdal. Um þetta ferðalag hefi ég ort kvæði, sem birtist í ljóðabókinni Guðað á gluggann frá 2006.

Lagt var upp nærri Skriðuklaustri og riðið upp á Fljótsdalsheiði, í slóð Eyvindar, sem segir frá í Hrafnkelssögu, að Eyvindarfjöllum þar sem náttað var. Þá um Eyvindarskarð og niður í Hrafnkelsdal að Aðalbóli. Á þriðja degi var stefnan tekin á snarbrattar hlíðar dalsins, um fjöll og hálsa að Hafrahvammagljúfrum. Þaðan sem leið liggur um Desjarárdal meðfram Kárahnjúkum og suður Vesturöræfi að Sauðárkofa. Dýrðlegur staður og sumarnóttin ógleymanleg. Kofinn liggur nú í ómælisdjúpi, sjálfsagt líka á bólakafi í aur og leðju. Frá Sauðá var snúið til austurs; áfangastaðurinn Snæfellsskáli.

Fimmta dagleiðin lá suðurfyrir Snæfell, um Þjófagil ef mig misminnir ekki örnefnin, og fram á Eyjabakka. Hreindýrahjörð brokkaði í hæfilegri fjarlægð, útsýn yfir Eyjabakka er einhver sú fegursta sem hægt er að hugsa sér. Síðasta hluta ferðarinnar fylgdum við Jökulsá niður í Fljótsdal, með sinni ægifögru fossaröð, og enduðum á upphafspunkti ferðalagsins. Á þessu ferðalagi kom ég m.a. bæði í Sauðárkrók og að Laugarási!

Því rifja ég þetta upp að við hjónin nýttum verkalýðsdaginn til þess að renna „suður“, vestur yfir Hellisheiði, til þess að sjá mynd Ómars Ragnarssonar, In memoriam, án spurningarmerkis. Það var ánægjulegt og viðeigandi að Ómar kom í Bíó Paradís í eigin persónu og fylgdi mynd sinni úr hlaði af alkunnum eldmóði.

Starf Ómars verður aldrei metið til fjár. Myndirnar sem hann hefur tekið af hinni drekktu náttúru eru fegurstu eftirmæli sem hugsast getur og ekki þarf að orðlengja um áhrifamátt þeirra. Það sem mér þótti þó áhrifamest var niðurlag heimildamyndarinnar. Þar voru sýndar sumar afleiðingar virkjunarframkvæmdanna. Blindandi leirmökkur í lofti í sunnangjólu, ljót rofsár í þykkum jarðveginum þegar lægst er í Hálslóni og gljúfrið neðan við Kirkjufoss sem er orðið nánast fullt af framburði, yfir eitt hundrað metra þykkri uppfyllingu, jökulleir og fínsandi. Enda fer fossinn á bólakaf þegar vatnsstaðan er hæst í lóninu. Það er ekkert annað en lygilegt hve mikil jökuleðja hefur safnast fyrir á ekki lengri tíma en þessum 10 árum sem liðin eru.

Út frá þessu síðastnefnda eru leiddar að því líkur í myndinni að raunverulegur „líftími“ virkjunarinnar verði mun styttri en opinberar áætlanir kveða á um – að lónið fyllist af drullu á miklu skemmri tíma.

Ekki er ég sá reiknimeistari í framburði að geta lagt á þetta sjálfstætt, vísindalegt mat – en myndirnar af smekkfullu „fyrrverandi“ djúpu gljúfri voru óhuggulegar, sannast sagna.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *