Íslensku hrægammarnir

Nú eru ódæmin komin fram í dagsljósið, með umfjöllun Kastljóss RÚV í gær, og koma svo sem ekki á óvart. Augljós en undirliggjandi meinin skriðin upp á yfirborðið, eins og graftarkýli sem brýst loks fram, þó roði á húð hafi löngu fyrr gefið ótvírætt í skyn hvers væri að vænta.

Siðferði þessa fólks er utan og neðan við þann samfélagsgrundvöll sem aðrir standa á, það skilur ekki líf og kjör þess „almennings“ sem þarf að vinna fyrir sér og hafa fyrir því sem það vill eignast eða áorka í lífinu. En mál forsætisráðherrahjónanna snýr ekki einungis að persónulegu siðrofi þeirra, eða firringu íslenskrar auðstéttar. Á því eru aðrar og alvarlegri hliðar.

Rétttrúnaðarsöfnuðurinn í kringum forsætisráðherrann hefur í heilögu varnarstríði sínu undanfarna daga tekið sér vígstöðu, annars vegar gegn „ómaklegum árásum á eiginkonu stjórnmálamanns“ og hins vegar „rógi og öfund út í fólk sem á peninga“. Ekkert er fjær sanni. Það snýst um að forsætisráðherrann er lygalaupur.

Að vísu má vel halda því til haga að það er bæði ósiðlegt og ljótt að eiga ofgnótt af peningum, því peningar verða ekki til í einhverri sápukúlu. Ef á einum stað er gnótt, þá er skortur annars staðar. Og ef einhvers staðar er ofgnótt þá er nauð annars staðar. Auðlindir jarðar eru nægar til að tryggja öllum mönnum næg gæði til að lifa sómasamlega, alveg burtséð frá hugmyndum um að allir skuli endilega eiga jafn mikið. Það er annar handleggur sem má liggja milli hluta.

En hvaðan kemur þá hinn stjarnfræðilegi auður sem safnast hefur í fang fjölskyldu forsætisráðherrans?

Annars vegar er um að ræða verðmæti í eigu ríkisins sem einstaklingur sölsaði undir sig í krafti flokkspólitískra tengsla og nýtir síðan til að mala gull í eigin þágu. Hins vegar er um að ræða peninga sem dregnir eru upp úr hafinu, úr okkar verðmætustu sameiginlegu auðlind, sem nýtt er til að mala gull í þágu einstaklinga í skjóli spilltra stjórnmálamanna.

Svona er nú farið með sameiginlegar eignir okkar og auðlindir. Þær eru muldar undir einstaklinga, lenda í klóm hinna eiginlegu hrægamma, sem fela þær svo í skattaskjólum til að geta þaðan, í friði fyrir „öfundsjúkum“, margfaldað stjarnfræðilega fjarlægð sína frá veruleika almennings.

Svona er þá farið með auðlindirnar okkar, sem annars gætu auðveldlega staðið undir velferð og ágætum lífsgæðum fyrir alla í samfélaginu.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *