Klausturbænir íslenskrar stjórnmálamenningar

Stórviðrið sem geisar í dag í fjölmiðlum og netheimum mun vonandi hafa afleiðingar. Vonandi verður dreginn af því lærdómur. Engu breyta þó viðbrögð viðkomandi einstaklinga; þeim er ekki við bjargandi. Það sem skiptir raunverulegu máli er annars vegar hvort þingheimur allur og hins vegar þjóðin læri sína lexíu.

Annars vegar hvort þingheimur horfi í eigin barm og geri gangskör að því að breyta grundvelli íslenskrar stjórnmálamenningar og byggi hana héðan í frá á almennu, ásættanlegu siðferði. Hins vegar hvort þjóðin horfi í eigin barm og hætti að láta bjóða sér stjórnmálamenningu sem ekki byggir á almennu, ásættanlegu siðferði.

Mannfyrirlitningin í Klausturbænum viðkomandi einstaklinga liggur fyrir og hún mun ekkert breytast þó þeir biðjist opinberlega afsökunar. Mannfyrirlitningin varðar ekki Alþingi sem slíkt, heldur lýsir fyrst og fremst viðhorfum og innræti viðkomandi.

Hvað Alþingi varðar er annað stærra í sniðum: Spillingin sem opinberaðist og skjalfestist í bænasöngnum á Klaustri og varðar skipun sendiherra. Spilling er ekkert ný af nálinni og allir vita, bæði þeir sem það vilja og þeir sem kjósa að líta undan, hvernig kerfið virkar. Kerfið sem kalla má „íslenska stjórnmálamenningu“. Kerfi sem Styrmir Gunnarsson kallaði með réttu „ógeðslegt, prinsipplaust“. Kerfi sem m.a. er lýst ágætlega í ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson. Kerfi sem er siðlaust og rotið inn að beini.

Stóra málið er annars vegar hvort þingheimur taki sig saman í andlitinu og breyti eigin ómenningu – og þar með kerfinu sem hún er grunnurinn að. Kerfi þar sem lögbrjótur situr eins og ekkert sé í stóli dómsmálaráðherra. Kerfi þar sem innherjasvikari og fjárglæframaður situr eins og ekkert sé sjálfsagðara í stóli fjármálaráðherra. Kerfi þar sem forsætisráðherrann telur vegna hefða „íslenskrar stjórnmálamenningar“ ásættanlegt að ráðherrar í eigin ríkisstjórn séu lögbrjótar og fjárglæframenn, í stað þess að gera eitthvað til þess að breyta ómenningunni, leggjast á árarnar til að uppræta siðleysið og spillinguna; endurvinna langþráða virðingu Alþingis í stað þess að líta undan, viðhalda ógeðinu og styrkja það; í stað þess að ‘gjöra órétt en þola ei rétt’. Nú reynir á þingheim allan og ekki síst á æðsta yfirmann íslenskrar stjórnmálamenningar, forsætisráðherrann.

Hin lykilspurningin er hvort þjóðin læri eitthvað. Mun hún láta sig siðferðileg gildi varða í næstu kosningum eða bara flokkshollustuna eins og hingað til? Mun hún áfram sætta sig við stjórnmálaflokka með aflandsskattsvikara í brúnni? Mun hún sætta sig við stjórnmálamenningu sjálftöku og auðráns? Mun hún sætta sig við arðsognar þjóðarauðlindir og mergsogið velferðarkerfi? Eða mun hún „gjöra rétt en þola ei órétt“?

Mun hún kannski áfram, skv. hefð, sætta sig við spillta stjórnmálamenningu og rotið kerfi en láta sér nægja að velta sér upp úr orðbragði og mannfyrirlitningu nokkurra einstaklinga næstu daga?

Þar liggur efinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *