… litast þessi tilvik nú rauð þegar vinnumat í dálkum Q og V fer upp fyrir starfshlutfall í dálki E

Eftir að verkfalli framhaldsskólakennara lauk fyrir bráðum einu og hálfu ári tók við smíð á fyrirbæri sem kallast „nýtt vinnumat“ – og var hluti af þeim kjarasamningi sem samþykktur var í apríl 2014. Kennararnir áttu svo að kjósa sérstaklega um þennan hluta kjarasamningsins í febrúar 2015. Þeir gerðu það – og kolfelldu bastarðinn. Hófst þá vinna við að „sníða af vinnumatinu gallana“ eins og það var látið heita.

Forysta Félags framhaldsskólakennara hóf síðan trúboð fyrir „endurbættu vinnumati“ í framhaldsskólum landsins og tókst að berja það í gegn. Í kjölfarið hafa kennarar þurft að leggja á sig ómælda vinnu, ólaunaða auðvitað, við að mylja vinnuna sína inn í exelskjal.

Einhverjir trúa því að þessi fánýta tímaeyðsla snúist um að greina „raunverulega vinnu kennara“, snúist jafnvel um réttlæti og að þeir kennarar sem vinni mikið og vel fái umbun í launum en laun hinna sem lítið gera og illa skerðist farsællega. Ekkert er fjær sanni.

Eini tilgangurinn með þessu fáránlega regluverki er að skerða rétttindi og laun kennara, vinda meiri og fjölbreyttari vinnu úr fólki sem margt er þegar úrvinda af síauknu álagi. Sú stefna heitir á ráðuneytismáli „að bæta skólastarf“.

Kennarar hafa hingað til haft nóg að gera og þeir hafa hingað til vitað hvað til síns friðar heyrir: að mæta vel undirbúnir í tíma, sinna nemendum sínum eftir fremsta megni, meta verk þeirra og halda sér við í sinni fræðigrein.

Í kennarastarfinu felast miklar andstæður: það býður annars vegar upp á sveigjanlegan vinnutíma og hins vegar er vinnutíminn fastbundnari og ósveigjanlegri en í flestum öðrum störfum. Það er sveigjanlegi hlutinn sem lengi hefur verið ríkisvaldinu og sveitarfélögunum þyrnir í augum – og jafnvel öllum almenningi – lífseig er mýtan um að kennarar vinni ekki nema í mesta lagi hálfan vinnudag hálft árið.

Nú er sem sagt komið til sögunnar nýtt vinnumat á kennarastarfið. Flestir þeirra botna hvorki upp né niður í því hvernig launin þeirra eru reiknuð. Auðvitað er það einn tilgangurinn í öllu saman. Margir eru reiðir, ekki síst list- og verkgreinakennarar og kennarar sérdeilda, þar sem nemendur eru færri í hverjum hópi en í „almennri kennslu“. Það er sjálfsagt farsælasta leiðin til að efla list- og verkgreinanám, eins og stefnt er að í orði kveðnu, að níðast á kennurum þessara greina og hrekja handverksfólkið út úr skólunum á vit betri kjara.

Meginkosturinn við nýja vinnumatið er samt sjálfsagt hve gegnsætt og einfalt það er, eins og sjá má af tilvitnun sem ég rakst á úr einhverju vinnumatsskjalinu:

„…hefur reikniverkið ranglega sýnt yfirvinnu í dálkum R og V á samantektarsíðunni þegar kennari í hlutastarfi vinnur umfram ráðningarhlutfall … litast þessi tilvik nú rauð þegar vinnumat í dálkum Q og V fer upp fyrir starfshlutfall í dálki E.“

Þessari snilld þarf að koma rækilega á framfæri opinberlega. Þá hljóta að hellast inn á Menntavísindasvið umsóknir um kennaranám.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *