Lýðræðið flækist fyrir

Í fréttum var um daginn greint frá nýafstöðnum kosningum í Norður-Kóreu. Þetta virtust hafa verið góðar og friðsamlegar kosningar og úrslitin ánægjuleg, alla vega var fólkið á sjónvarpsskjánum hið brosmildasta. Ekki er verið að flækja málin að óþörfu þarna austur frá, það er einn í kjöri í hverju kjördæmi og leiðtoginn sömuleiðis. Enda ríkir gríðarleg ánægja með hann, eins og sést á því að hann fékk glimrandi kosningu, 100%, og því engin ástæða til að hafa fleiri í kjöri. Það myndi bara auka kostnað og valda óþarfa argaþrasi. Nei, það er miklu skilvirkara, ódýrara og þægilegra að sem fæstir séu að vafstra í ákvarðanatöku fyrir fjöldann, sem venjulega hefur heldur ekki kynnt sér málin nægilega vel til að taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir.

Út af þessu fallega fordæmi Norður-Kóreumanna varð ég svo kátur þegar ég fór að kynna mér tillögur stjórnar FF að lagabreytingum sem liggja fyrir aðalfundi Félags framhaldsskólakennara 20.-21. mars nk. og tillögur um breytingar á lögum Kennarasambands Íslands og breytingar á vinnureglum Orlofssjóðs, Sjúkrasjóðs og Vinnudeilusjóðs sem lagðar eru fyrir KÍ-þingið í næsta mánuði: KÍ stefnir öruggum skrefum í rétta átt, frá þessu dýra, óhagkvæma þátttökulýðræði að einfaldara og skilvirkara fulltrúaræði.

Í fyrsta lagi er lagt til að aðalfundir FF og þing KÍ verði fjórða hvert ár í stað þriðja hvers eins og nú er. Þetta sparar töluverða fjármuni, heilt þing á 12 ára fresti, og minnkar líka allt ónæði, bæði fyrir skrifstofu KÍ sem getur þá einbeitt sér að brýnni verkefnum og losnar við heilmikla nauð af almennum félagsmönnum og misgáfulegum þingfulltrúum utan af landi sem borga þarf undir bíl eða flug og gistingu, en ekki síður sparar þetta félagsmönnum sjálfum mikla fyrirhöfn og tíma við að kynna sér leiðinleg og flókin mál sem þeir geta í staðinn nýtt til afslöppunar heima fyrir framan sjónvarpið.

Í öðru lagi er lagt til að fækka þingfulltrúum úr hópi almennra félagsmanna verulega en fjölga á móti þingfulltrúum úr yfirstjórn aðildarfélaganna. Allir sjá hve guðsþakkarverð þessi breyting yrði fyrir hinn almenna félagsmann og yfirstjórnin á heiður skilinn fyrir að bjóðast til að taka á sig allt ónæðið, leiðindin og erfiðið sem því fylgir að sitja slík þing.

Í þriðja lagi er lagt til að sjóðir (Vinnudeilusjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður) verði eign aðildarfélaga en ekki félagsmanna í kennarasambandinu. Þetta er löngu tímabær lagabreyting. Allir sjá það að félagsstjórnirnar eru miklu betur inni í málum og skilja betur þarfir og hagsmuni sjóðanna en óbreyttir félagsmenn, auk þess sem stjórnir aðildarfélaganna eiga hægara um vik að hafa samráð um hagsmuni sín í milli og greiðari aðgang að reikningum og réttum upplýsingum á skrifstofu sambandsins. Til enn frekara hagræðis er lagt til að stjórn KÍ velji sjálf endurskoðendur til að sinna eftirliti. Því eru sjóðirnir auðvitað miklu betur komnir í eigu félaganna en félagsmanna, sem gætu hugsanlega tekið upp á alls kyns vitleysum, eins og t.d. að leita úti í bæ að hagkvæmara rekstrarumhverfi en býðst í Kennarafélagshúsinu, eða að fara að spyrja undarlegra spurninga um reikninga og bókhald, sem þeir hafa náttúrulega takmarkað vit á.

Í beinu framhaldi af þessu er í fjórða lagi lagt til að stjórnir sjóða verði skipaðar beint af stjórnum aðildarfélaganna, í stað þess að stjórnarmenn séu kosnir á aðalfundum og þingum. Þetta er líka eðlileg breyting, því það er alltaf hætta á því að á þessi fjölmennu þing slæðist fulltrúar með undarlegar skoðanir, sem jafnvel skapa starfsfólki sambandsins óþarfa vinnu og fyrirhöfn, eða besserwisserar sem telja sig vita betur en okkar góða fólk sem hrærist í hagsmunagæslunni dags daglega. Gríðarlegt óhagræði yrði af því ef slíkt fólk hlyti kosningu í sjóðsstjórnirnar, sem alltaf getur þó gerst fyrir slysni, eins og dæmin sanna, í þessu ófullkomna skipulagi sem lýðræði óneitanlega er.

Í fimmta lagi er lagt til að stjórn KÍ velji formann sjóðsstjórna úr þeim hópi sem stjórnir aðildarfélaga tilnefna og að hinn handvaldi formaður hafi alræðisvald við þær núverandi en óheppilegu aðstæður sem upp geta komið að mál falli á jöfnum atkvæðum innan stjórna sjóðanna. Þetta er nauðsynleg baktrygging fyrir KÍ, ef stjórnum aðildarfélaganna verða á mistök við val á hæfum stjórnarmönnum.

Í sjötta lagi er lagt til að reikningar aðildarfélaga verði aðeins lagðir fram til kynningar á ársfundum milli aðalfunda og, eins og komið hefur fram, að stjórn KÍ skipi skoðunarmenn reikninga úr hópi fulltrúa sem aðildarfélög tilnefna, í stað þess að þeir séu kjörnir á aðalfundum. Það sama gildir vitaskuld um kjörstjórn, sem lagt er til að stjórn KÍ kjósi, og framboðsnefnd, sem stjórnir aðildarfélaganna skipi, í stað þess að setja á svið eitthvert kosningaleikrit á fundum.

Þetta er í allt fullu samræmi við þá tillögu að engar kosningar muni fara fram á aðalfundum aðildarfélaga og þingum KÍ í framtíðinni. Það felur í sér mikinn tímasparnað, sem hægt verður að nýta í ítarlegri og lengri glærusýningar og fyrirlestra formanna og yfirstjórna, auk þess sem allir vita að misvitrir þingfulltrúar eru þekktir að því að rétta bara upp hönd eins og næsti maður, en spyrja svo: „Hvað var aftur verið að kjósa um núna“? Með þessari breytingu yrði því traustri loku skotið fyrir vitlausar niðurstöður í kosningum.

Í sjöunda lagi er eftirfarandi lagt til: „Skrifstofa KÍ sér um þjónustu fyrir sjóði samkvæmt þjónustusamningi.“ Allir sjóðir skulu undantekningalaust þjónustaðir innanhúss, þar sem rétt þekking er til staðar og um leið trygging fyrir því að meginhagsmuna verði gætt, hagsmuna sem vafasamir aðilar á frjálsum markaði þekkja því miður ekki nógu vel. Og þó ódýrari þjónusta gæti fundist utanhúss, þá skiptir það ekki máli, því svo mikill sparnaður hefur verið lagður til með hinum fyrri tillögunum (um fækkun funda og þingfulltrúa, skilvirkar aðferðir við skipun stjórnarmanna og afnám kosninga) að kennarasambandið hefur vel efni á því að bæta vel í skrifstofukostnaðinn. Enda borga almennir félagsmenn hann með bros á vör, þó þeim sé meinilla við allan þennan óþarfa kostnað sem hlýst af þátttöku þeirra sjálfra í starfi stéttarfélagsins.

Í áttunda lagi er lagt til um örlög sjóðanna að verði sjóður lagður niður „færast eignir sjóðsins í félagssjóð KÍ“ í stað þess að þing ráðstafi eignunum, enda verða sjóðirnir ekki í eigu þingfulltrúa ef þessar breytingar ná fram að ganga, svo þeir hafa hvort eð er ekkert með það að gera að ráðstafa annarra líkum.

Fleira má tína til, en það er þó ein lagabreytingatillaga sem ég sakna, þess efnis að formanna- og stjórnarkjör í aðildarfélögunum og KÍ verði aflagt, en stjórnunum sjálfum falið að skipa nýjar stjórnir í stað sjálfra sín á fjögurra, helst fimm ára fresti. Það veldur óþarfa álagi á skrifstofu KÍ, er gríðarlega dýrt, seinlegt og óhagkvæmt að stemma af kjörskrána og senda út alla þessa kjörseðla, mikil vinna fyrir trúnaðarmenn að eltast við félagsmenn til að fá þá til að greiða atkvæði, auk þess hve tilbreytingalaust og ömurlega leiðinlegt það er að telja atkvæðin. Ákvarðanir um eftirmenn sína eru engir hæfari að taka en formennirnir sjálfir og stjórnirnar, eins og Norður-Kórea er lifandi fyrirmynd um.

Svo mörg voru þau orð og aðeins komið að lokaspurningunni, til væntanlegra fulltrúa á aðalfundi FF og fulltrúa á þingi KÍ: 

Verður þetta síðasta þingið ykkar með atkvæðisrétti?

Greinin birtist á heimasíðu KÍ 14. mars 2014

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *