Er ekkert að gera í fangelsum?

Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.

Halda áfram að lesa

Menntun fanga

Líklega er óhætt að slá fram þeirri alhæfingu að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og möguleikum þeirra á að feta sig aftur inn í samfélagið. „Nám er besta betrunin“ er frasi sem oft er gripið til á tyllidögum – og margir hafa líka fyrir satt hversdagslega. Í skýrslu nefndar frá 2008, á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands og dóms- og menntamálaráðuneyta, um stefnumótun í menntunarmálum fanga, var þetta ein meginniðurstaðan. Og líklega eru flestir í okkar samfélagi sammála því að mikilvægast sé að í fangelsum fái einstaklingar tækifæri til að bæta sig en séu þar ekki eingöngu til að taka út refsingu.

Halda áfram að lesa

Af menntun og skólahaldi í fangelsum

Árið 2008 skilaði nefnd skipuð fulltrúum frá mennta- og dómsmálaráðuneytum, Fangelsismálastofnun og Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) tillögum að stefnumótun í menntunarmálum fanga. Nefndinni var falið að huga sérstaklega að fjarkennslu gegnum Netið, verkmenntun, menntun erlendra fanga og þeim sem fallið hafa út úr skyldunámi.

Helstu niðurstöður nefndarinnar voru að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu. Leggja bæri áherslu á að kynna fyrir föngum námsmöguleika, meta fyrra nám og raunfærni, bjóða öfluga sérkennslu og einstaklingsmiðaða ráðgjöf. Lykilatriði til árangurs væri góð aðstaða til náms í öllum fangelsum, ekki síst aðstaða til verknáms og starfsþjálfunar, föngum verði tryggður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, tölvum, bókasafni og nettengingu þar sem það á við og heimild til netnotkunar verði rýmkuð í lögum. Þá lagði nefndi það til að áratuga reynsla FSu af kennslu í fangelsum verði nýtt áfram, og þannig að föngum almennt standi til boða að stunda nám, þ.e. að skólinn verði „móðurskóli“ fyrir menntun fanga á Íslandi.

Sumum tillögunum var þegar komið á koppinn. Af þeim er mest um vert stöðugildi náms- og starfsráðgjafa við FSu sem eingöngu vinnur að málefnum fanga. Að stærstum hluta er það nýtt á Litlahrauni og Sogni. Þar hefur starfsmaður fasta viðveru en sinnir einnig föngum í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Hluti stöðugildisins nýtist föngum á Kvíabryggju og Akureyri. Ráðning náms- og starfsráðgjafa er stærsta framfaraskrefið í menntunarmálum fanga í langan tíma.

Fleira mætti segja í viðunandi farvegi. Það sem enn hefur þó lítt eða ekki verið brugðist við lýtur að aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar, og hæpið er að halda því fram að öflug sérkennsla sé í boði fyrir fanga, þó mikilvæg sé.

Engin sérstök aðstaða til náms er á Kvíabryggju og mjög takmörkuð á Akureyri en í skólanum  á Litlahrauni og Sogni er aðstaðan að mörgu leyti góð hvað bóknám varðar. Þar er bæði námsver fyrir háskólanema og tölvuver sem nýtist vel til fjarnáms við ýmsa skóla.

Við FSu er hálft stöðugildi fyrir kennslustjóra í fangelsum sem sér um skipulagningu náms og kennslu á Litlahrauni og Sogni. Auk hans sinna sex kennarar staðnámi á Litlahrauni og þrír á Sogni. Fimm aðrir kennarar við FSu voru með fanga í fjarnámi á síðustu önn og fangar stunda einnig fjarnám við Tækniskólann og FÁ.

Alls innritaðist í nám á Litlahrauni og Sogni 71 nemandi á haustönn 2015. Þar af voru fimm í háskólanámi, en hinir 66 voru skráðir í 43 mismunandi námsáfanga. Nemendur koma og fara á önninni, en þegar mest var taldi kladdinn 53 nemendur, þar af 42 á Litlahrauni, en þess má geta að skólastofan þar rúmar 15 nemendur og tvísetja varð því skólann í þremur grunngreinunum.

Af þessari litlu tölfræðisamantekt má sjá að töluvert er umleikis í menntamálum fanga. Margir hafa líka náð góðum námsárangri, sumir afburðaárangri. Hefðbundið bóknám hefur verið í fyrirrúmi, en brýnast til framtíðar litið er að fylgja ráðum fyrrgreindrar nefndar og bæta aðstöðu til verknáms og starfsþjálfunar og að koma á öflugri sérkennslu.

Tiltölulega einfalt ætti að vera að nýta húsakost á Litlahrauni betur til að bjóða upp á fjölbreyttari verkmenntun. Það þyrfti ekki að kosta mikið. Ef alvara fylgir umræðu um betrunarvist í fangelsum í stað refsivistar, og að menntun sé besta betrunarúrræðið, þá er lag að auka fjölbreytni og bæta verulega aðstöðu fanga til náms, án óhóflegs tilkostnaðar.

Að lokum má minna á að innan skamms verður tekið í notkun nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Þau tímamót er upplagt að nýta til allsherjar stefnumótunar í fangelsismálum, þar sem menntun fanga yrði í forgrunni.

Greinin birtist á bls. 20 í Fréttablaðinu fimmtudaginn 11. febrúar 2016

 

Lýðræðið flækist fyrir

Í fréttum var um daginn greint frá nýafstöðnum kosningum í Norður-Kóreu. Þetta virtust hafa verið góðar og friðsamlegar kosningar og úrslitin ánægjuleg, alla vega var fólkið á sjónvarpsskjánum hið brosmildasta. Ekki er verið að flækja málin að óþörfu þarna austur frá, það er einn í kjöri í hverju kjördæmi og leiðtoginn sömuleiðis. Enda ríkir gríðarleg ánægja með hann, eins og sést á því að hann fékk glimrandi kosningu, 100%, og því engin ástæða til að hafa fleiri í kjöri. Það myndi bara auka kostnað og valda óþarfa argaþrasi. Nei, það er miklu skilvirkara, ódýrara og þægilegra að sem fæstir séu að vafstra í ákvarðanatöku fyrir fjöldann, sem venjulega hefur heldur ekki kynnt sér málin nægilega vel til að taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir.

Út af þessu fallega fordæmi Norður-Kóreumanna varð ég svo kátur þegar ég fór að kynna mér tillögur stjórnar FF að lagabreytingum sem liggja fyrir aðalfundi Félags framhaldsskólakennara 20.-21. mars nk. og tillögur um breytingar á lögum Kennarasambands Íslands og breytingar á vinnureglum Orlofssjóðs, Sjúkrasjóðs og Vinnudeilusjóðs sem lagðar eru fyrir KÍ-þingið í næsta mánuði: KÍ stefnir öruggum skrefum í rétta átt, frá þessu dýra, óhagkvæma þátttökulýðræði að einfaldara og skilvirkara fulltrúaræði.

Í fyrsta lagi er lagt til að aðalfundir FF og þing KÍ verði fjórða hvert ár í stað þriðja hvers eins og nú er. Þetta sparar töluverða fjármuni, heilt þing á 12 ára fresti, og minnkar líka allt ónæði, bæði fyrir skrifstofu KÍ sem getur þá einbeitt sér að brýnni verkefnum og losnar við heilmikla nauð af almennum félagsmönnum og misgáfulegum þingfulltrúum utan af landi sem borga þarf undir bíl eða flug og gistingu, en ekki síður sparar þetta félagsmönnum sjálfum mikla fyrirhöfn og tíma við að kynna sér leiðinleg og flókin mál sem þeir geta í staðinn nýtt til afslöppunar heima fyrir framan sjónvarpið.

Í öðru lagi er lagt til að fækka þingfulltrúum úr hópi almennra félagsmanna verulega en fjölga á móti þingfulltrúum úr yfirstjórn aðildarfélaganna. Allir sjá hve guðsþakkarverð þessi breyting yrði fyrir hinn almenna félagsmann og yfirstjórnin á heiður skilinn fyrir að bjóðast til að taka á sig allt ónæðið, leiðindin og erfiðið sem því fylgir að sitja slík þing.

Í þriðja lagi er lagt til að sjóðir (Vinnudeilusjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður) verði eign aðildarfélaga en ekki félagsmanna í kennarasambandinu. Þetta er löngu tímabær lagabreyting. Allir sjá það að félagsstjórnirnar eru miklu betur inni í málum og skilja betur þarfir og hagsmuni sjóðanna en óbreyttir félagsmenn, auk þess sem stjórnir aðildarfélaganna eiga hægara um vik að hafa samráð um hagsmuni sín í milli og greiðari aðgang að reikningum og réttum upplýsingum á skrifstofu sambandsins. Til enn frekara hagræðis er lagt til að stjórn KÍ velji sjálf endurskoðendur til að sinna eftirliti. Því eru sjóðirnir auðvitað miklu betur komnir í eigu félaganna en félagsmanna, sem gætu hugsanlega tekið upp á alls kyns vitleysum, eins og t.d. að leita úti í bæ að hagkvæmara rekstrarumhverfi en býðst í Kennarafélagshúsinu, eða að fara að spyrja undarlegra spurninga um reikninga og bókhald, sem þeir hafa náttúrulega takmarkað vit á.

Í beinu framhaldi af þessu er í fjórða lagi lagt til að stjórnir sjóða verði skipaðar beint af stjórnum aðildarfélaganna, í stað þess að stjórnarmenn séu kosnir á aðalfundum og þingum. Þetta er líka eðlileg breyting, því það er alltaf hætta á því að á þessi fjölmennu þing slæðist fulltrúar með undarlegar skoðanir, sem jafnvel skapa starfsfólki sambandsins óþarfa vinnu og fyrirhöfn, eða besserwisserar sem telja sig vita betur en okkar góða fólk sem hrærist í hagsmunagæslunni dags daglega. Gríðarlegt óhagræði yrði af því ef slíkt fólk hlyti kosningu í sjóðsstjórnirnar, sem alltaf getur þó gerst fyrir slysni, eins og dæmin sanna, í þessu ófullkomna skipulagi sem lýðræði óneitanlega er.

Í fimmta lagi er lagt til að stjórn KÍ velji formann sjóðsstjórna úr þeim hópi sem stjórnir aðildarfélaga tilnefna og að hinn handvaldi formaður hafi alræðisvald við þær núverandi en óheppilegu aðstæður sem upp geta komið að mál falli á jöfnum atkvæðum innan stjórna sjóðanna. Þetta er nauðsynleg baktrygging fyrir KÍ, ef stjórnum aðildarfélaganna verða á mistök við val á hæfum stjórnarmönnum.

Í sjötta lagi er lagt til að reikningar aðildarfélaga verði aðeins lagðir fram til kynningar á ársfundum milli aðalfunda og, eins og komið hefur fram, að stjórn KÍ skipi skoðunarmenn reikninga úr hópi fulltrúa sem aðildarfélög tilnefna, í stað þess að þeir séu kjörnir á aðalfundum. Það sama gildir vitaskuld um kjörstjórn, sem lagt er til að stjórn KÍ kjósi, og framboðsnefnd, sem stjórnir aðildarfélaganna skipi, í stað þess að setja á svið eitthvert kosningaleikrit á fundum.

Þetta er í allt fullu samræmi við þá tillögu að engar kosningar muni fara fram á aðalfundum aðildarfélaga og þingum KÍ í framtíðinni. Það felur í sér mikinn tímasparnað, sem hægt verður að nýta í ítarlegri og lengri glærusýningar og fyrirlestra formanna og yfirstjórna, auk þess sem allir vita að misvitrir þingfulltrúar eru þekktir að því að rétta bara upp hönd eins og næsti maður, en spyrja svo: „Hvað var aftur verið að kjósa um núna“? Með þessari breytingu yrði því traustri loku skotið fyrir vitlausar niðurstöður í kosningum.

Í sjöunda lagi er eftirfarandi lagt til: „Skrifstofa KÍ sér um þjónustu fyrir sjóði samkvæmt þjónustusamningi.“ Allir sjóðir skulu undantekningalaust þjónustaðir innanhúss, þar sem rétt þekking er til staðar og um leið trygging fyrir því að meginhagsmuna verði gætt, hagsmuna sem vafasamir aðilar á frjálsum markaði þekkja því miður ekki nógu vel. Og þó ódýrari þjónusta gæti fundist utanhúss, þá skiptir það ekki máli, því svo mikill sparnaður hefur verið lagður til með hinum fyrri tillögunum (um fækkun funda og þingfulltrúa, skilvirkar aðferðir við skipun stjórnarmanna og afnám kosninga) að kennarasambandið hefur vel efni á því að bæta vel í skrifstofukostnaðinn. Enda borga almennir félagsmenn hann með bros á vör, þó þeim sé meinilla við allan þennan óþarfa kostnað sem hlýst af þátttöku þeirra sjálfra í starfi stéttarfélagsins.

Í áttunda lagi er lagt til um örlög sjóðanna að verði sjóður lagður niður „færast eignir sjóðsins í félagssjóð KÍ“ í stað þess að þing ráðstafi eignunum, enda verða sjóðirnir ekki í eigu þingfulltrúa ef þessar breytingar ná fram að ganga, svo þeir hafa hvort eð er ekkert með það að gera að ráðstafa annarra líkum.

Fleira má tína til, en það er þó ein lagabreytingatillaga sem ég sakna, þess efnis að formanna- og stjórnarkjör í aðildarfélögunum og KÍ verði aflagt, en stjórnunum sjálfum falið að skipa nýjar stjórnir í stað sjálfra sín á fjögurra, helst fimm ára fresti. Það veldur óþarfa álagi á skrifstofu KÍ, er gríðarlega dýrt, seinlegt og óhagkvæmt að stemma af kjörskrána og senda út alla þessa kjörseðla, mikil vinna fyrir trúnaðarmenn að eltast við félagsmenn til að fá þá til að greiða atkvæði, auk þess hve tilbreytingalaust og ömurlega leiðinlegt það er að telja atkvæðin. Ákvarðanir um eftirmenn sína eru engir hæfari að taka en formennirnir sjálfir og stjórnirnar, eins og Norður-Kórea er lifandi fyrirmynd um.

Svo mörg voru þau orð og aðeins komið að lokaspurningunni, til væntanlegra fulltrúa á aðalfundi FF og fulltrúa á þingi KÍ: 

Verður þetta síðasta þingið ykkar með atkvæðisrétti?

Greinin birtist á heimasíðu KÍ 14. mars 2014

 

Kennarar krefjast engra ofurlauna

Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út í lok janúar sl. og stéttin er því samningslaus. Samninganefnd ríkisins hefur ekkert að bjóða, og hefur greinilega ekki umboð stjórnvalda til að gera það sem menntamálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að þurfi að gera: að hækka laun kennara.

Mikil samstaða ríkir meðal kennaranna og nemendur hafa stutt þá einhuga, m.a. með kröfustöðu á Austurvelli, enda varðar það þá og framtíð þeirra, ekki síður en starfandi kennara, að kennaralaun séu mönnum bjóðandi. Nýliðun í kennarastéttinni hefur verið léleg lengi undanfarið og meðalaldur framhaldsskólakennara er nú kominn í 56 ár. Framhaldsskólanemar munu ekki velja kennaranám þegar þeir sjá að byrjunarlaunin sem nýliðum í kennslu bjóðast eftir 5 ára háskólanám og meistarapróf eru 300.000 krónur. Yngstu kennararnir munu líka flýja skólana. Stór hópur framhaldsskólakennara fer á eftirlaun á næsta áratug. Hverjir eiga að taka við af þeim? Ekki er að sjá að stjórnvöld hafi teljandi áhyggjur af því.

Einstaklingsmiðuð þjónusta, utan sem innan kennslustofunnar

Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting í framhaldsskólunum. Nánast allir, eða meira en 95% af hverjum árgangi, halda sem betur fer áfram námi eftir grunnskóla. Ánægjulegt er líka að viðhorfsbreyting hefur orðið gagnvart námserfiðleikum af ýmsu tagi. Vandi hvers einstaklings er greindur af fagmönnum og með því lagður grunnur að aðstoð við hæfi. Um leið hefur kennarastarfið orðið margfalt flóknara, gerðar eru auknar kröfur til kennara með nýjum verkefnum, sérlausnum og einstaklingsmiðaðri þjónustu, utan sem innan kennslustofunnar. Í þessu ljósi er það rétt skref að lengja kennaranámið og endurskoða innihald þess, til að efla kennara framtíðarinnar og gera þeim betur kleift að takast á við aukinn fjölbreytileika og flóknari aðstæður. Flestir telja það vonandi eðlilegt að þessu fylgi aukinn kostnaður: að 5 ára nám sé dýrara en 3ja ára nám og að borga þurfi stétt sem þarf masterspróf til starfsréttinda hærri laun en ef aðeins væri krafist bachelorgráðu. Eða hvað?

Stefnt í þverögfuga átt

Blóðugur niðurskurður í framhaldsskólunum, a.m.k. 12 milljarðar undanfarinn tæpan áratug, hefur þvingað skólana til að fara í þveröfuga átt en augljósast mætti telja að stefnt væri: fjölgað hefur almennt í námshópum og fámennari valáfangar verið skornir, eða kennsla í þeim skert, á sama tíma og aðstæður hrópa á minni hópa og aukna fjölbreytni í námsframboði til að koma betur til móts við ólíkar einstaklingsþarfir. Margir skólanna ramba nefnilega á barmi gjaldþrots. Stofnanasamningar, sem gefa áttu færi á „sveigjanleika“ og launaskriði, eru orðin tóm, því ekkert verður af engu. Laun framhaldsskólakennara hafa hækkað minna en hjá öllum öðrum stéttum hér á landi frá 2006 og eru nú 17% lakari en annarra háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríkinu. Verri starfskjör, aukið álag og lélegri laun, fyrir lengri (og vonandi betri) menntun, hafa þegar valdið atgervisflótta, eins og fram hefur komið. 

Ekki þarf að fara mörgum orðum um áhrif þessarar sveltistefnu. Þjóðfélag sem í framtíðinni verður að reiða sig æ meir á nýsköpun, hátækni- og þekkingariðnað til að halda uppi viðunandi lífskjörum þarf á vel menntuðu fólki, öflugu skólakerfi og úrvals kennurum að halda. Nemendur sem nú sitja í framhaldsskólunum, og gætu annars hugsað sér að verða kennarar, munu leita annað, mennta sig til starfa sem gefa þeim a.m.k. möguleika á að framfleyta fjölskyldu. Hverjir eiga þá að kenna komandi kynslóðum, sem þjóðin á allt undir að standi fyrir nýsköpun í auknum mæli?

Stytting náms mun auka brottfall

Við þessar aðstæður mætti ætla að frá stjórnvöldum kæmu hugmyndir til endurbóta. En svo er ekki. Helstu tillögurnar þaðan koma frá menntamálaráðherra um „að stytta framhaldsskólann“ og frá sveitarstjórnarstiginu „að láta kennara gera meira af því sem þeir eru bestir í, að kenna“. Ráðherrann fullyrðir að styttingin muni bæta skólastarf. Þar er hann á villigötum. Í fyrsta lagi er framhaldsskólinn meira en bara bóknámsbrautir til stúdentsprófs. Vandinn snýr ekki að þeim sem geta tekið stúdentspróf á þremur árum (margir gera það nú þegar) heldur hinum sem gengur erfiðlega að ljúka því á fjórum árum, af ýmsum ástæðum. Stytting náms mun þess vegna auka brottfall, ekki minnka það. Fleiri af þeim sem glíma við námserfiðleika, eða þurfa að vinna með skóla, munu hætta námi. Athyglinni ætti fremur að beina að eflingu verk-, list- og starfsnáms og hvetja þannig fleiri nemendur til að velja slíkt nám í stað stúdentsbrautanna. Þetta kostar peninga, sem stjórnvöld eru ekki reiðubúin að leggja til.

Fremur ætti að minnka kennsluskylduna en auka hana

Varðandi tilvitnuð orð málsmetandi sveitarstjórnarmanna er það að segja að þau lýsa algeru skilningsleysi á eðli kennarastarfsins og aðstæðum í grunnskólunum. Markmiðið er, eins og með styttingaráformum ráðherrans, að spara peninga. En krafa sveitarfélaganna um meiri kennslu felur um leið í sér skerðingu á tíma kennaranna til undirbúnings og úrvinnslu, foreldrasamskipta, teymisvinnu, samráðs og annarra starfa sem óhjákvæmilega fylgja því að kenna grunnskólabekk. Í „skóla án aðgreiningar“ og við breyttar aðstæður vegna aukins hegðunar- og námsvanda veitir kennurum sannarlega ekki af þeim tíma sem þeir nú hafa til að sinna starfi sínu af fagmennsku og metnaði, og fremur ætti að minnka kennsluskylduna en auka hana, ef mönnum er alvara með því að mikilvægt sé að bæta skólastarf og að sinna hverjum nemanda betur á eigin forsendum.

Kennarar hafa engan áhuga á verkföllum og krefjast engra ofurlauna, aðeins sanngjarnrar leiðréttingar út frá eðlilegum samanburði við opinbera starfsmenn með sambærilega menntun. Kjarabarátta þeirra varðar ekki bara starfandi kennara og launaseðil þeirra, heldur ekki síður komandi kynslóðir sem munu þurfa sífellt betri menntun til að sinna framtíðarstörfum sem gefa þjóðinni færi á að standast alþjóðlega samkeppni um framleiðni og lífskjör. Slík úrvalsmenntun verður ekki í boði án góðra kennara. Fáir nemendur, og engir afbragðsnemar, munu velja kennaranám við núverandi aðstæður. Það er mikið áhyggjuefni.

Greinin birtist í héraðsblaðinu Selfoss – Suðurland, 27. febrúar 2014

Enn skal brýnt og skorið – Sunnlendingar aftastir á fjárlagamerinni

Það er ekki ofsögum sagt að fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu hafi valdið titringi víða: innibyrgðum gleðihristingi til sjávar, en ónotahrolli bæði í sollinum og til sveita. Töldu margir að eftir hin mögru ár í kjölfar tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og ríkissjóðs væri botninum náð og niðurskurðarhnífurinn yrði lagður á hilluna um sinn. En aldeilis ekki. Enn skal brýnt og skorið. Það vekur sérstaka athygli margra og óhug að undir hnífinn er leidd sjálf kýrin Velferð, sem þegar má telja í rifin af löngu færi, en tuddinn Stórútvegur, sem rorrar í þverhandarþykku spiklagi, fær a.m.k. næsta aldarfjórðunginn að graðga í sig kjarnfóðrinu, óáreittur í kálgarði kerlingar, sem á tyllidögum er víst kölluð fjallkona.

Reyndar eru Sunnlendingar orðnir þaultamdir í því að vera undirmálsfólk þegar kemur að fjárveitingum frá ríkisvaldinu til byggðaþróunarverkefna ýmiskonar, t.d. á sviði menningar- og fræðslu, að undanskildum Vestmannaeyingum sem ávallt tekst að koma ár sinni vel fyrir borð, og því ætti það kannski ekki að koma á óvart að ríkisstjórnin ráðist með fjárlagafrumvarpið að vopni þar að sem minnstrar mótstöðu er vænst: á hinn sunnlenska menntagarð.

Eftir áralanga baráttu tókst loks að knýja ríkisvaldið til að skrifa undir samninga um viðbyggingu við Hamar, verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands. Öllum ætti að vera kunnugt um hvernig eigendur skólans, sveitarfélögin á Suðurlandi, hafa með framsýni og óbilandi trú á gildi öflugrar menntastofnunar í héraði tekið frumkvæðið aftur og aftur þegar nauðsyn hefur kallað á stækkun og viðbætur við skólann. Sú saga hefur verið margrakin hvernig safnað hefur verið í sjóði til að hefja framkvæmdir – og lána ríkinu fyrir sínum hlut – til að gera þennan skóla að því sem hann er orðinn. Það sama gildir um fyrirhugaða og löngu tímabæra stækkun verknámshússins.

Nú gerist það, undir langþreyttum eilífðarsöng sitjandi menntamálaráðherra um mikilvægi þess að efla verknám í landinu, að undirritaðir samningar um fjárveitingar til verknámshúss FSu. eru dregnir undir nýbrýnda niðurskurðarbredduna.

Á Suðurlandi eru fleiri öflugar menntastofnanir en FSu. Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi hefur starfað af krafti síðan 1999, og með síauknum umsvifum. Frá upphafi hefur Fræðslunetið boðið upp á símenntun og fullorðinsfræðslu, bæði nám í tengslum við skólakerfið og fjölbreytt tómstundanámskeið. Síðustu ár hefur sérstök áhersla verið lögð á að efla þann hóp fólks sem horfið hefur frá hefðbundnu námi án þess að ljúka viðurkenndum prófum. Í þessu sambandi má nefna námsleiðir eins og Grunnmenntaskólann, Aftur í nám og Raunfærnimat iðngreina, þar sem fólki sem unnið hefur lengi við iðn sína án tilskilinna réttinda gefst kostur á að fá reynslu sína og sérþekkingu metna til eininga í skólakerfinu. Fræðslunetið hefur nýlega tekið undir sinn væng Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð fatlaðs fólks, og það miðlaði háskólanámi heim í hérað þar til sunnlensk sveitarfélög, önnur en Vestmannaeyjabær, stofnuðu formlega Háskólafélag Suðurlands þann 19. des. 2007. Háskólafélagið hefur gefið fjölda manns tækifæri til að stunda háskólanám í ýmsum greinum án þess að þurfa að rífa sig upp og flytja í önnur héruð. Mikilvægi þess verður seint fullmetið.

Á vegum Háskólafélagsins, og í samstarfi þess og Fræðslunetsins, hefur verið stofnað til metnaðarfullra verkefna til að efla þær sunnlensku byggðir sem staðið hafa höllustum fæti hvað varðar atvinnutækifæri og íbúaþróun. Þar má til dæmis nefna Kötlu-jarðvang , sem er þegar orðin alþjóðlega viðurkennd vísindastofnun, og nú síðast stofnun þekkingarseturs í Vík og á Kirkjubæjarklaustri, með starfsmanni sem ætlað er að meta menntunarþörf á svæðinu, skipuleggja námskeið og hvetja íbúa til að nýta sér ný tækifæri til menntunar. Þetta síðasttalda, bráðnauðsynlega verkefni er grundvallað á fjármunum í Sóknaráætlun Suðurlands, sem öllum að óvörum hefur verið þurrkuð út úr fjárlagafrumvarpinu og því er staða verkefnisstjórans, og verkefnið í heild sinni, í algjöru uppnámi.

En víkjum nú að upphafi þessa máls og langlundargeði sunnlenskra gagnvart grófri mismunun þegar kemur að útdeilingu byggðaþróunarframlaga ríkisins til landshlutanna. Aðilar að Kvasi, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, eru alls 11 á landinu öllu. Að auki eru starfandi staðbundnir háskólar á Vestfjörðum (á Ísafirði), Vesturlandi (á Bifröst og Hvanneyri), Norðurlandi vestra (að Hólum í Hjaltadal) og í Eyjafirði (Háskólinn á Akureyri) og svo þekkingarsetur sem hafa með háskólanám að gera í Þingeyjarsýslum, á Austurlandi, á Suðurlandi, Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.

Þessi fimm síðasttöldu svæði má segja að búi við sambærilegar aðstæður, að því leyti að þar eru bæði símenntunarmiðstöð og þekkingarsetur um háskólanám. Hugtakið „sambærilegar aðstæður“ nær þó ekki nema til hinna ytri aðstæðna og þjónustunnar sem veitt er; þegar kemur að fjárveitingum verður þetta hugtak, eins og sum önnur, heldur en ekki teygjanlegt. Í eftirfarandi töflu kemur þetta vel fram:

Stofnanir í viðkomandi
fimm landshlutum
Fjárlagafrv.
2014
Samtals
(milljónir)
Þekkingarnet Þingeyinga
38,5
38,5
Þekkingarnet Austurlands
Fræða- og þekkingarsetur á Vopnafirði
56,5
8,8
 
65,3
Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi
Háskólafélag Suðurlands
18,8
15,5
 
34,3
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Þekkingarsetur Suðurnesja
21,5
16,0
 
37,5
Fræðslu- og símenntunarmiðst. Vestm.
Þekkingarsetur Vestmannaeyja
21,5
25,4
 
 46,9

Af þessum samanburði má glöggt sjá að Sunnlendingar eru aftastir á merinni. Rökin um nálægð við Reykjavík halda ekki, því þó álíka langt sé til höfuðborgarinnar frá t.d. Keflavík, Selfossi og Borgarnesi, þá vandast málið nokkuð fyrir þá röksemdafærslu þegar komið er í uppsveitir Árnessýslu, Rangárvallasýslu, að ekki sé talað um Skaftafellssýslurnar eða Hornafjörð, sem sótt hefur um aðild að Fræðslunetinu- símenntun á Suðurlandi frá og með næstu áramótum. Til að setja fjárveitingar skv. fjárlagafrumvarpi 2014 í samhengi við íbúafjölda og landfræðilegan veruleika (stærð í km2 og lengd vegakerfis) er gagnlegt að skoða næstu töflu:

Svæði
Fjárv. / íbúa
Fjárv. / km2
Fjárv. / km
Vestmannaeyjar
11.111
2.710.983
6.700.000
Þingeyjarsýslur
7.986
2.085
39.007
Austurland
5.252
2.940
27.681
Suðurnes
1.768
45.181
176.056
Suðurland
1.749
1.393
11.437

Af þessum samanburði ætti enginn að velkjast í vafa um það hverjir bera skarðan hlut frá borði. Rétt er að taka fram að í þessum útreikningum er Hornafjörður hluti Austurlands. Ef áætlanir ganga eftir munu Hornfirðingar hins vegar starfa með Sunnlendingum frá og með næstu áramótum, og mun þá halla enn frekar á Suðurland, þar sem ekki er í fjárlagafrumvarpinu tekið neitt tillit til þeirrar gríðarlegu stækkunar þjónustusvæðis Sunnlendinga sem yfirvofandi er og menntamálaráðuneytinu er fullkunnugt um. Allt tal um jafnræði íbúa í þessu landi til menntunar verður í ljósi þessa í besta falli hlægilegt.

Það er þó huggun harmi gegn að á fundi sem þingmenn Suðurlands héldu nýverið með sveitarstjórnarfólki og fleirum í Ráðhúsi Árborgar, sóru nær allir stjórnarþingmennirnir af sér ábyrgð á þessum nöturlegu tölum. Við getum þá treyst því að þeir muni ekki samþykkja fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp óbreytt?

Það sem er þó ekki síður mikilvægt fyrir þingmennina, annað en að koma skikki á fjárlög 2014, er að tryggja að þar til bært fólk setjist yfir það nú þegar að útbúa vitræna reiknireglu sem tryggi til frambúðar jafnræði milli landshlutanna hvað varðar fjárframlög til símenntunarstöðva og þekkingarsetra. 

Greinin birtist í blaðinu Selfoss – Suðurland (21.tlb. 2. árg.) 7. nóvember 2013

 

Íslandsmótið í menntun

Margir átta sig á því að menntun er lykill að farsæld, þó vitaskuld megi finna ágæt dæmi um að menn komist vel af án langrar skólagöngu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi það t.d. á stefnuskrá sinni með einhverjum hætti að „hækka menntunarstig“, enda sé það forsenda fyrir nýjum tækifærum, nýjum störfum, nýjum og auknum útflutningstekjum – já, hagvexti framtíðar.

Til að ná þessu markmiði þarf að vinna að því að sem flestir haldi áfram námi sem lengst og einhverjir vaxi upp í að verða frumkvöðlar og standi fyrir nýsköpun og þróun sem leiði samfélagið fram á við, helst í fremstu röð í samkeppni þjóðanna. Og þá kemur til kasta nægilega vel menntaðs vinnuafls að sinna öllum nýsköpuðu og þróuðu störfunum.

En menntun er auðvitað dýpra hugtak en svo að hægt sé að afgreiða það á svo einfaldan hátt. Menntun er fyrst og síðast mikilvæg fyrir hvern einstakling, stuðlar að jákvæðri sjálfsvitund, siðferðisþroska og velferð. Að þessu leyti verður menntun ekki mæld í einkunnum og prófgráðum og allur samanburður gerist erfiður, jafnvel ómögulegur, en líka tilgangslaus, því lífsfylling eins verður trauðla sett á mælistiku annars.

Undanfarið hafa orðið háværar á ný raddir sem telja keppnisanda líklegastan til að bæta skólastarf. Gamalkunn er umræðan um nauðsyn þess að bera saman skóla eftir meðaleinkunnum nemenda á lokaprófum: sá skóli sé bestur þar sem meðaleinkunnin er hæst og lægsta meðaleinkunnin sé aumur afrakstur starfs í „lélegasta“ skólanum. Helstu rökin fyrir slíkum samanburði eru að hann sé nauðsynlegur fyrir foreldra og nemendur, svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um val á skóla, og ekki síður hollar stjórnendum og starfsfólki (í „lélegu“ skólunum) til að geta nú tekið sig á.

Þeir sem hafa gefið sér tíma til að hugleiða málið litla stund, og ekki eru pikkfastir í trúarbragðafræði frjálsrar samkeppni, vita að allir aðrir mælikvarðar en meðaleinkunn nemenda á lokaprófi eru betri til að meta gæði skóla og skólastarfs. Fyrir þá sem verða að hafa „beinharðar staðreyndir“ í höndunum, samanburðartölur, er strax skárra að skoða meðaleinkunnir ákveðins nemendahóps annars vegar við innritun og hins vegar við útskrift. Þannig má hugsanlega nálgast þann „virðisauka“ sem hver skóli skapar, og bera þá svo saman, ef það er málið.

Til viðbótar við þessi gamalkunnu stef hafa nýverið bæst nokkrar raddir á sama tónsviði. Nú er hafin ný sókn að styttingu framhaldsskólans og boðaðar hafa verið auknar kröfur um námsframvindu á háskólastigi til að fá námslán. Báðar þessar aðgerðir eru til þess hugsaðar að spara fé. En þær munu jafnframt hafa ófyrirsjáanleg áhrif á líf og framtíðaráætlanir fjölda ungmenna. Þær munu lítil áhrif hafa á „bestu“ nemendurna sem búa við „bestu aðstæðurnar“. En þessi aukna keppnisharka í skólakerfinu mun hrekja stóran hóp fólks frá námi, fólk sem þarf, vegna fjölskylduaðstæðna, efnahags, heilsufars eða námsörðugleika af ýmsum toga, að glíma við fleira í lífinu en bara námið. Er það rétta leiðin til að hækka menntunarstig þjóðarinnar?

Steininn tók þó úr þegar fram komu kröfur um að raða skólum í Reykjavík eftir árangri á lesskimunarprófum í 2. bekk. Staðreyndin er sú að upplýsingar af þessu tagi eru persónulegar og eiga ekkert erindi við aðra en nemendurna sjálfa, foreldra þeirra og kennara. Þær geta gagnast í því samhengi að setja viðkomandi barni persónulega námskrá. Það mun heita á fræðimáli „einstaklingsmiðað nám“, og er talið fínt um þessar mundir. Gæðaröðun grunnskóla eftir lestrarfærni 7 ára barna er ekki bara tilgangslaus, heldur arfaslæm hugmynd sem mun hafa neikvæðar afleiðingarnar til langs tíma, m.a. á sjálfsmynd barna og íbúa í heilu hverfunum, þar sem t.d. er hátt hlutfall fólks með annað móðurmál en íslensku, og fyrirsjáanlegt er að lestrarfærni á framandi máli í upphafi skólagöngu er ekki fullkomin. Hún mun ala á ranghugmyndum og skekkja sjálfsmynd margra, styrkja t.d. þá „elítuhugsun“ sem meira en nóg er af nú þegar.

Það er yfrið nóg af keppni í skólakerfinu: Gettu betur, Skólahreysti og fleira í sama dúr gera meira en að seðja keppnisþörfina. Ef sú braut verður gengin áfram, sem nú er farið að feta sig eftir, og skólarnir gerðir að einhverskonar leikvöngum fyrir „Íslandsmeistarmótið í menntun“, þá er raunveruleg hætta á ferðum.

Greinin birtist í Kjarnanum 19. september 2013

Hlauptu, krakki, hlauptu!

Nú er hafið enn eitt áhlaupið að styttingu náms til stúdentsprófs. Menntamálaráðherra hefur í fjölmiðlum sagt að öll rök hnígi að þessu, því í öðrum löndum sé námstíminn ári styttri en hérlendis. Öðrum rökum virðist ekki til að dreifa. Fleiri hafa tekið undir þetta og jafnvel haldið því fram að vegna þessa séu ungmenni á Íslandi „þrepi á eftir“. Aðrir, t.d. Anna María Gunnarsdóttir og Jón Páll Haraldsson hér í Fréttablaðinu, hafa reynt að dýpka umræðuna og bent á að taka verði með í reikninginn margvíslegan aðstöðumun milli Íslands og annarra landa þegar farið er í jafn flókinn samanburð.

Þau áform að stytta framhaldsskólann hafa lengi verið á teikniborðinu og því hefur jafnvel verið haldið blákalt fram að styttingin sé vænleg leið til þess að draga úr brottfalli og bæta skólastarf, sem skili litlum árangri miðað við fjárframlög.

Gott og vel. Lengi má bæta skólastarf og ekki skal dregið úr nauðsyn þess að vera sífellt á tánum hvað það varðar. En margt gott má segja um framhaldsskólakerfið, enda hafa löggjafinn og ráðuneytisfólk, og pedagógar á þeirra vegum, undanfarin a.m.k. 40 ár setið í svitabaði við að kreista fram leiðir til að koma betur til móts við áhuga, þarfir og getu nemenda, fjölga námsleiðum og auka sveigjanleika kerfisins, svo allir gætu fundið sér eitthvað við hæfi. M.a. eru fjölbrautaskólarnir skilgetið afkvæmi þessarar viðleitni, sem og öll löggjöf frá 1970. Þrátt fyrir þetta þrjóskast langflest íslensk ungmenni enn við og innrita sig á bóknámsbrautir til stúdentsprófs.

En þetta var útúrdúr. Stytting framhaldsskólans mun, ein og sér, hvorki bæta skólastarf né draga úr brottfalli. Það sorglega við þetta allt sama er hve innilega hugmyndasnauð umræðan er. Nemendur sem fá 8,0 eða hærra í meðaleinkunn á grunnskólaprófi munu vissulega ljúka stúdentsprófi vandræðalaust á þremur árum. Brottfallsvandinn herjar ekki á þá og stytting námstíma mun lítil áhrif hafa á námsárangur þeirra eða framtíðarplön. Þeir munu bara leysa sín mál, hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir skólakerfið. Það hafa þeir lengi sýnt í áfangaskólunum, byrjað á framhaldsskólanámi á grunnskólaaldri og lokið svo stúdentsprófi á mettíma.

Styttingaráformin munu hins vegar uppfylla ríkulega hið dulda markmið, sem ekki virðist mega ræða upphátt: að spara peninga. Vel að merkja: nokkur undanfarin ár hafa verið sparaðir a.m.k. 12 milljarðar í framhaldsskólakerfinu, sem er víst orðið ódýrara hér en víða annars staðar. Hver er þá vandinn?

Öll nálgun menntamálaráðherrans að skólamálum er þess eðlis að hann líti á menntun sem keppnisíþrótt. Haldin eru „héraðsmót“ víða um land sem jafnframt eru úrtökumót fyrir „landsmót“ á þjóðarleikvanginum. U.þ.b. 95% hvers árgangs skráir sig til keppni, langflestir í hlaupagreinar og hingað til hafa allir sem komast í mark átt þess kost að keppa á landsmótinu.

En nú ákveður sem sagt mótsstjórinn að herða tímamörkin í 10 sekúndur, enda hlaupa margir í útlöndum svo hratt. „Öll rök“ hníga sem sagt að þessari breytingu. Þessi ákvörðun breytir að vísu engu fyrir hina fáu fótfráustu, þá sem eru skráðir í 100 metrana. En hvað um „keppendur“ í 200 metrum, maraþoni, 50 km. göngu eða grindahlaupi? Mun þetta leiða til betri árangurs og minna brottfalls meðal þeirra? Þvert á móti munu enn fleiri detta og meiða sig, hverfa á brott á sjúkrabörum án þess að eiga afturkvæmt, eða þurfa að setjast á hnjaskvagninn og fá aðhlynningu við hliðarlínuna áður en þeir geta haldið áfram, auðvitað langt frá tímamarkinu, undir stöðugum köllum úr stúkunni: „Hlauptu, krakki, haluptu!“ Hundraðmetrahlaupararnir eru löngu komnir í sturtu.

Það sem íslensk ungmenni eiga heimtingu á frá menntamálaráðherra eru ekki illa dulbúnar sparnaðarhugmyndir, heldur hugmyndir um það hvernig til stendur að koma til móts við lang- og grindahlauparana, þá sem hentar illa að hlaupa bara nógu hratt, en gætu jafnvel fundið sig í köstum eða stökkum. Hugmyndir um það hvernig má sannfæra afrenndan kúluvarpara til að skrá sig sjálfviljugan í kúluvarp en ekki 3000 m. hindrunarhlaup, sem hann þarf að ljúka á 10 sek.

Slíkar hugmyndir gætu dregið úr brottfalli og bætt skólastarf – og mættu gjarnan vera forgangsmál nýskipaðs menntamálaráðherra. 

Greinin birtist á visir.is 17. september 2013