Menntun fanga ósáinn akur

Fréttablaðið 4. okt. 2018, bls. 14

Skólahald í fangelsum á Íslandi verður 40 ára í nóvember. Kennslustjóri í fangelsum vill af því tilefni hvetja til skýrari framtíðarsýnar um skólahaldið, og menntun sem besta mögulega betrunarúrræði fyrir fanga, eins og rannsóknir hafa undirstrikað og flestir eru sammála um. 

 

Í haust eru 40 ár síðan formlegt skólahald hófst í fangelsum á Íslandi. Fyrsta haustið innrituðust 14 nemendur í iðnskóladeildina á Litlahrauni og tíu árum síðar voru þeir orðnir 20. Árin á eftir var nemendafjöldi svipaður, milli 20-30, en tók síðan kipp árið 2010 þegar námsráðgjafi var ráðinn til starfa. Síðan þá hafa að jafnaði um og yfir 60 nemendur innritað sig til náms. Námsárangur í fangelsum hefur eðli málsins samkvæmt verið upp og ofan. Til að koma til móts við nemendur er skólinn sveigjanlegri en almennt gerist og nemendur fá lengri tíma til að ljúka einstökum áföngum. Enn er margt sem má bæta í fangelsunum til þess að hvetja fanga og gefa þeim tækifæri til menntunar. Það er margtuggin staðreynd að menntun sé lykilþáttur í betrun. Halda áfram að lesa

Er ekkert að gera í fangelsum?

Heilmikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum undanfarið um stöðu mála í fangelsum landsins. Þetta er allt frá vönduðum úttektum, viðtölum við fanga, starfsfólk fangelsanna og forstöðumenn, yfir í lítt rökstudda sleggjudóma, eins og gengur og gerist. Fagna ber áhuga á málefnum fanga, aukinni umræðu um aðstæður þeirra og leiðir til úrbóta.

Halda áfram að lesa

Menntun fanga

Líklega er óhætt að slá fram þeirri alhæfingu að nám í fangelsum gegni lykilhlutverki í endurhæfingu fanga og möguleikum þeirra á að feta sig aftur inn í samfélagið. „Nám er besta betrunin“ er frasi sem oft er gripið til á tyllidögum – og margir hafa líka fyrir satt hversdagslega. Í skýrslu nefndar frá 2008, á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands og dóms- og menntamálaráðuneyta, um stefnumótun í menntunarmálum fanga, var þetta ein meginniðurstaðan. Og líklega eru flestir í okkar samfélagi sammála því að mikilvægast sé að í fangelsum fái einstaklingar tækifæri til að bæta sig en séu þar ekki eingöngu til að taka út refsingu.

Halda áfram að lesa

Af menntun og skólahaldi í fangelsum

Árið 2008 skilaði nefnd skipuð fulltrúum frá mennta- og dómsmálaráðuneytum, Fangelsismálastofnun og Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) tillögum að stefnumótun í menntunarmálum fanga. Nefndinni var falið að huga sérstaklega að fjarkennslu gegnum Netið, verkmenntun, menntun erlendra fanga og þeim sem fallið hafa út úr skyldunámi. Halda áfram að lesa

Lýðræðið flækist fyrir

Í fréttum var um daginn greint frá nýafstöðnum kosningum í Norður-Kóreu. Þetta virtust hafa verið góðar og friðsamlegar kosningar og úrslitin ánægjuleg, alla vega var fólkið á sjónvarpsskjánum hið brosmildasta. Ekki er verið að flækja málin að óþörfu þarna austur frá, það er einn í kjöri í hverju kjördæmi og leiðtoginn sömuleiðis. Enda ríkir gríðarleg ánægja með hann, eins og sést á því að hann fékk glimrandi kosningu, 100%, og því engin ástæða til að hafa fleiri í kjöri. Það myndi bara auka kostnað og valda óþarfa argaþrasi. Nei, það er miklu skilvirkara, ódýrara og þægilegra að sem fæstir séu að vafstra í ákvarðanatöku fyrir fjöldann, sem venjulega hefur heldur ekki kynnt sér málin nægilega vel til að taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir.

Út af þessu fallega fordæmi Norður-Kóreumanna varð ég svo kátur þegar ég fór að kynna mér tillögur stjórnar FF að lagabreytingum sem liggja fyrir aðalfundi Félags framhaldsskólakennara 20.-21. mars nk. og tillögur um breytingar á lögum Kennarasambands Íslands og breytingar á vinnureglum Orlofssjóðs, Sjúkrasjóðs og Vinnudeilusjóðs sem lagðar eru fyrir KÍ-þingið í næsta mánuði: KÍ stefnir öruggum skrefum í rétta átt, frá þessu dýra, óhagkvæma þátttökulýðræði að einfaldara og skilvirkara fulltrúaræði.

Í fyrsta lagi er lagt til að aðalfundir FF og þing KÍ verði fjórða hvert ár í stað þriðja hvers eins og nú er. Þetta sparar töluverða fjármuni, heilt þing á 12 ára fresti, og minnkar líka allt ónæði, bæði fyrir skrifstofu KÍ sem getur þá einbeitt sér að brýnni verkefnum og losnar við heilmikla nauð af almennum félagsmönnum og misgáfulegum þingfulltrúum utan af landi sem borga þarf undir bíl eða flug og gistingu, en ekki síður sparar þetta félagsmönnum sjálfum mikla fyrirhöfn og tíma við að kynna sér leiðinleg og flókin mál sem þeir geta í staðinn nýtt til afslöppunar heima fyrir framan sjónvarpið.

Í öðru lagi er lagt til að fækka þingfulltrúum úr hópi almennra félagsmanna verulega en fjölga á móti þingfulltrúum úr yfirstjórn aðildarfélaganna. Allir sjá hve guðsþakkarverð þessi breyting yrði fyrir hinn almenna félagsmann og yfirstjórnin á heiður skilinn fyrir að bjóðast til að taka á sig allt ónæðið, leiðindin og erfiðið sem því fylgir að sitja slík þing.

Í þriðja lagi er lagt til að sjóðir (Vinnudeilusjóður, Sjúkrasjóður, Orlofssjóður) verði eign aðildarfélaga en ekki félagsmanna í kennarasambandinu. Þetta er löngu tímabær lagabreyting. Allir sjá það að félagsstjórnirnar eru miklu betur inni í málum og skilja betur þarfir og hagsmuni sjóðanna en óbreyttir félagsmenn, auk þess sem stjórnir aðildarfélaganna eiga hægara um vik að hafa samráð um hagsmuni sín í milli og greiðari aðgang að reikningum og réttum upplýsingum á skrifstofu sambandsins. Til enn frekara hagræðis er lagt til að stjórn KÍ velji sjálf endurskoðendur til að sinna eftirliti. Því eru sjóðirnir auðvitað miklu betur komnir í eigu félaganna en félagsmanna, sem gætu hugsanlega tekið upp á alls kyns vitleysum, eins og t.d. að leita úti í bæ að hagkvæmara rekstrarumhverfi en býðst í Kennarafélagshúsinu, eða að fara að spyrja undarlegra spurninga um reikninga og bókhald, sem þeir hafa náttúrulega takmarkað vit á.

Í beinu framhaldi af þessu er í fjórða lagi lagt til að stjórnir sjóða verði skipaðar beint af stjórnum aðildarfélaganna, í stað þess að stjórnarmenn séu kosnir á aðalfundum og þingum. Þetta er líka eðlileg breyting, því það er alltaf hætta á því að á þessi fjölmennu þing slæðist fulltrúar með undarlegar skoðanir, sem jafnvel skapa starfsfólki sambandsins óþarfa vinnu og fyrirhöfn, eða besserwisserar sem telja sig vita betur en okkar góða fólk sem hrærist í hagsmunagæslunni dags daglega. Gríðarlegt óhagræði yrði af því ef slíkt fólk hlyti kosningu í sjóðsstjórnirnar, sem alltaf getur þó gerst fyrir slysni, eins og dæmin sanna, í þessu ófullkomna skipulagi sem lýðræði óneitanlega er.

Í fimmta lagi er lagt til að stjórn KÍ velji formann sjóðsstjórna úr þeim hópi sem stjórnir aðildarfélaga tilnefna og að hinn handvaldi formaður hafi alræðisvald við þær núverandi en óheppilegu aðstæður sem upp geta komið að mál falli á jöfnum atkvæðum innan stjórna sjóðanna. Þetta er nauðsynleg baktrygging fyrir KÍ, ef stjórnum aðildarfélaganna verða á mistök við val á hæfum stjórnarmönnum.

Í sjötta lagi er lagt til að reikningar aðildarfélaga verði aðeins lagðir fram til kynningar á ársfundum milli aðalfunda og, eins og komið hefur fram, að stjórn KÍ skipi skoðunarmenn reikninga úr hópi fulltrúa sem aðildarfélög tilnefna, í stað þess að þeir séu kjörnir á aðalfundum. Það sama gildir vitaskuld um kjörstjórn, sem lagt er til að stjórn KÍ kjósi, og framboðsnefnd, sem stjórnir aðildarfélaganna skipi, í stað þess að setja á svið eitthvert kosningaleikrit á fundum.

Þetta er í allt fullu samræmi við þá tillögu að engar kosningar muni fara fram á aðalfundum aðildarfélaga og þingum KÍ í framtíðinni. Það felur í sér mikinn tímasparnað, sem hægt verður að nýta í ítarlegri og lengri glærusýningar og fyrirlestra formanna og yfirstjórna, auk þess sem allir vita að misvitrir þingfulltrúar eru þekktir að því að rétta bara upp hönd eins og næsti maður, en spyrja svo: „Hvað var aftur verið að kjósa um núna“? Með þessari breytingu yrði því traustri loku skotið fyrir vitlausar niðurstöður í kosningum.

Í sjöunda lagi er eftirfarandi lagt til: „Skrifstofa KÍ sér um þjónustu fyrir sjóði samkvæmt þjónustusamningi.“ Allir sjóðir skulu undantekningalaust þjónustaðir innanhúss, þar sem rétt þekking er til staðar og um leið trygging fyrir því að meginhagsmuna verði gætt, hagsmuna sem vafasamir aðilar á frjálsum markaði þekkja því miður ekki nógu vel. Og þó ódýrari þjónusta gæti fundist utanhúss, þá skiptir það ekki máli, því svo mikill sparnaður hefur verið lagður til með hinum fyrri tillögunum (um fækkun funda og þingfulltrúa, skilvirkar aðferðir við skipun stjórnarmanna og afnám kosninga) að kennarasambandið hefur vel efni á því að bæta vel í skrifstofukostnaðinn. Enda borga almennir félagsmenn hann með bros á vör, þó þeim sé meinilla við allan þennan óþarfa kostnað sem hlýst af þátttöku þeirra sjálfra í starfi stéttarfélagsins.

Í áttunda lagi er lagt til um örlög sjóðanna að verði sjóður lagður niður „færast eignir sjóðsins í félagssjóð KÍ“ í stað þess að þing ráðstafi eignunum, enda verða sjóðirnir ekki í eigu þingfulltrúa ef þessar breytingar ná fram að ganga, svo þeir hafa hvort eð er ekkert með það að gera að ráðstafa annarra líkum.

Fleira má tína til, en það er þó ein lagabreytingatillaga sem ég sakna, þess efnis að formanna- og stjórnarkjör í aðildarfélögunum og KÍ verði aflagt, en stjórnunum sjálfum falið að skipa nýjar stjórnir í stað sjálfra sín á fjögurra, helst fimm ára fresti. Það veldur óþarfa álagi á skrifstofu KÍ, er gríðarlega dýrt, seinlegt og óhagkvæmt að stemma af kjörskrána og senda út alla þessa kjörseðla, mikil vinna fyrir trúnaðarmenn að eltast við félagsmenn til að fá þá til að greiða atkvæði, auk þess hve tilbreytingalaust og ömurlega leiðinlegt það er að telja atkvæðin. Ákvarðanir um eftirmenn sína eru engir hæfari að taka en formennirnir sjálfir og stjórnirnar, eins og Norður-Kórea er lifandi fyrirmynd um.

Svo mörg voru þau orð og aðeins komið að lokaspurningunni, til væntanlegra fulltrúa á aðalfundi FF og fulltrúa á þingi KÍ: 

Verður þetta síðasta þingið ykkar með atkvæðisrétti?

Greinin birtist á heimasíðu KÍ 14. mars 2014

 

Kennarar krefjast engra ofurlauna

Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út í lok janúar sl. og stéttin er því samningslaus. Samninganefnd ríkisins hefur ekkert að bjóða, og hefur greinilega ekki umboð stjórnvalda til að gera það sem menntamálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að þurfi að gera: að hækka laun kennara. Halda áfram að lesa

Enn skal brýnt og skorið – Sunnlendingar aftastir á fjárlagamerinni

Það er ekki ofsögum sagt að fjárlagafrumvarpið sem nú er til umræðu í þinginu hafi valdið titringi víða: innibyrgðum gleðihristingi til sjávar, en ónotahrolli bæði í sollinum og til sveita. Töldu margir að eftir hin mögru ár í kjölfar tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og ríkissjóðs væri botninum náð og niðurskurðarhnífurinn yrði lagður á hilluna um sinn. En aldeilis ekki. Enn skal brýnt og skorið. Það vekur sérstaka athygli margra og óhug að undir hnífinn er leidd sjálf kýrin Velferð, sem þegar má telja í rifin af löngu færi, en tuddinn Stórútvegur, sem rorrar í þverhandarþykku spiklagi, fær a.m.k. næsta aldarfjórðunginn að graðga í sig kjarnfóðrinu, óáreittur í kálgarði kerlingar, sem á tyllidögum er víst kölluð fjallkona. Halda áfram að lesa

Siggi í Syðra

Útför Sigurðar Sigmundssonar frá Syðralangholti var gerð í dag frá Skálholtskirkju, í fallegu veðri. Jarðað var í Hrepphólakirkjugarði. Þetta var virðuleg, falleg og fumlaus jarðarför. Séra Eiríkur var ekkert að teygja lopann. Fjöldi manns var við útförina, sem vænta mátti, og boðið upp á lystuga kjötsúpu í félagsheimilinu að greftrun lokinni. Það var við hæfi.

Siggi var alltaf viðræðugóður og kom eins fram við alla, tel ég. Ég minnist þess alla vega frá hestamótum, t.d. á Murneyrum, að hann gaf sig á tal við mig, þegar á barns- og unglingsaldri, eins og hvern annan fullgildan fulltrúa Laugdæla, spurði tíðinda og tók það allt gott og gilt sem ég hafði fram að færa. Maður var töluvert hróðugur að loknum þessum samtölum við þennan karl úr fjarlægum hreppi (þetta voru töluverðar vegalengdir á þeim tíma og ekki vikulegur skreppitúr í Hreppana þá eins og nú) sem lét svo lítið að gefa sig á tal við barnið.

Seinna átti ég því láni að fagna að kynnast vel fólkinu í Syðralangholti, þegar ég ferðaðist nokkur sumur með Simma, á hestum um hálendið. Þá var Siggi oft á stjákli um hlöðin, jafnan með vélina um hálsinn auðvitað, að reyna að ná ‘myndinni’. Allt gekk þetta hjá honum með hægðinni, og hann gaf sig á tal við mig fullorðinn með nákvæmlega sama hætti og fyrr.

Ég votta ættingjum Sigga gamla samúð mína. Blessuð sé minning hans.

Íslandsmótið í menntun

Margir átta sig á því að menntun er lykill að farsæld, þó vitaskuld megi finna ágæt dæmi um að menn komist vel af án langrar skólagöngu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi það t.d. á stefnuskrá sinni með einhverjum hætti að „hækka menntunarstig“, enda sé það forsenda fyrir nýjum tækifærum, nýjum störfum, nýjum og auknum útflutningstekjum – já, hagvexti framtíðar. Halda áfram að lesa

Hlauptu, krakki, hlauptu!

Nú er hafið enn eitt áhlaupið að styttingu náms til stúdentsprófs. Menntamálaráðherra hefur í fjölmiðlum sagt að öll rök hnígi að þessu, því í öðrum löndum sé námstíminn ári styttri en hérlendis. Öðrum rökum virðist ekki til að dreifa. Fleiri hafa tekið undir þetta og jafnvel haldið því fram að vegna þessa séu ungmenni á Íslandi „þrepi á eftir“. Aðrir, t.d. Anna María Gunnarsdóttir og Jón Páll Haraldsson hér í Fréttablaðinu, hafa reynt að dýpka umræðuna og bent á að taka verði með í reikninginn margvíslegan aðstöðumun milli Íslands og annarra landa þegar farið er í jafn flókinn samanburð.

Þau áform að stytta framhaldsskólann hafa lengi verið á teikniborðinu og því hefur jafnvel verið haldið blákalt fram að styttingin sé vænleg leið til þess að draga úr brottfalli og bæta skólastarf, sem skili litlum árangri miðað við fjárframlög.

Gott og vel. Lengi má bæta skólastarf og ekki skal dregið úr nauðsyn þess að vera sífellt á tánum hvað það varðar. En margt gott má segja um framhaldsskólakerfið, enda hafa löggjafinn og ráðuneytisfólk, og pedagógar á þeirra vegum, undanfarin a.m.k. 40 ár setið í svitabaði við að kreista fram leiðir til að koma betur til móts við áhuga, þarfir og getu nemenda, fjölga námsleiðum og auka sveigjanleika kerfisins, svo allir gætu fundið sér eitthvað við hæfi. M.a. eru fjölbrautaskólarnir skilgetið afkvæmi þessarar viðleitni, sem og öll löggjöf frá 1970. Þrátt fyrir þetta þrjóskast langflest íslensk ungmenni enn við og innrita sig á bóknámsbrautir til stúdentsprófs.

En þetta var útúrdúr. Stytting framhaldsskólans mun, ein og sér, hvorki bæta skólastarf né draga úr brottfalli. Það sorglega við þetta allt sama er hve innilega hugmyndasnauð umræðan er. Nemendur sem fá 8,0 eða hærra í meðaleinkunn á grunnskólaprófi munu vissulega ljúka stúdentsprófi vandræðalaust á þremur árum. Brottfallsvandinn herjar ekki á þá og stytting námstíma mun lítil áhrif hafa á námsárangur þeirra eða framtíðarplön. Þeir munu bara leysa sín mál, hér eftir sem hingað til, þrátt fyrir skólakerfið. Það hafa þeir lengi sýnt í áfangaskólunum, byrjað á framhaldsskólanámi á grunnskólaaldri og lokið svo stúdentsprófi á mettíma.

Styttingaráformin munu hins vegar uppfylla ríkulega hið dulda markmið, sem ekki virðist mega ræða upphátt: að spara peninga. Vel að merkja: nokkur undanfarin ár hafa verið sparaðir a.m.k. 12 milljarðar í framhaldsskólakerfinu, sem er víst orðið ódýrara hér en víða annars staðar. Hver er þá vandinn?

Öll nálgun menntamálaráðherrans að skólamálum er þess eðlis að hann líti á menntun sem keppnisíþrótt. Haldin eru „héraðsmót“ víða um land sem jafnframt eru úrtökumót fyrir „landsmót“ á þjóðarleikvanginum. U.þ.b. 95% hvers árgangs skráir sig til keppni, langflestir í hlaupagreinar og hingað til hafa allir sem komast í mark átt þess kost að keppa á landsmótinu.

En nú ákveður sem sagt mótsstjórinn að herða tímamörkin í 10 sekúndur, enda hlaupa margir í útlöndum svo hratt. „Öll rök“ hníga sem sagt að þessari breytingu. Þessi ákvörðun breytir að vísu engu fyrir hina fáu fótfráustu, þá sem eru skráðir í 100 metrana. En hvað um „keppendur“ í 200 metrum, maraþoni, 50 km. göngu eða grindahlaupi? Mun þetta leiða til betri árangurs og minna brottfalls meðal þeirra? Þvert á móti munu enn fleiri detta og meiða sig, hverfa á brott á sjúkrabörum án þess að eiga afturkvæmt, eða þurfa að setjast á hnjaskvagninn og fá aðhlynningu við hliðarlínuna áður en þeir geta haldið áfram, auðvitað langt frá tímamarkinu, undir stöðugum köllum úr stúkunni: „Hlauptu, krakki, haluptu!“ Hundraðmetrahlaupararnir eru löngu komnir í sturtu.

Það sem íslensk ungmenni eiga heimtingu á frá menntamálaráðherra eru ekki illa dulbúnar sparnaðarhugmyndir, heldur hugmyndir um það hvernig til stendur að koma til móts við lang- og grindahlauparana, þá sem hentar illa að hlaupa bara nógu hratt, en gætu jafnvel fundið sig í köstum eða stökkum. Hugmyndir um það hvernig má sannfæra afrenndan kúluvarpara til að skrá sig sjálfviljugan í kúluvarp en ekki 3000 m. hindrunarhlaup, sem hann þarf að ljúka á 10 sek.

Slíkar hugmyndir gætu dregið úr brottfalli og bætt skólastarf – og mættu gjarnan vera forgangsmál nýskipaðs menntamálaráðherra. 

Greinin birtist á visir.is 17. september 2013