Nokkrar hestavísur

Fer í bítið ferskur út,

flest eg hlýt að megna!

Mér frá ýtir morgunsút

að moka skít og gegna.

 

………………………………………………….

 

Syngur blærinn sæll við kinn,

sólin nærir, bjarta.

Legg við kæra ljúflinginn,

logi skær í hjarta.

 

………………………………………………….

 

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár,

kannar leiðir nýjar.

 

………………………………………………….

 

Þyl ég blíða þakkargjörð,

þá til prýði bestur

er fram líður yfir jörð

undurþýður hestur.

 

………………………………………………….

 

Af mélum freiðir, augu ör,

andann seiðir þorið.

Dunar heiðin, funar fjör,

fákar greiða sporið.

 

………………………………………………….

 

Ör við léttan leikur taum,

lífs mér glettu vekur.

Sporin þéttir gangs við glaum,

góðan sprettinn tekur.

 

………………………………………………….

 

Lífs- á vorin vekur þrá,

og von á forarslettu,

að finna þorið flugi á

fáks í spori léttu.

 

………………………………………………….

 

Ferðir inn til fjalla spinn

frjáls í sinni.

Í hjarta finn ég fögnuðinn

er fáknum brynni.

 

………………………………………………….

 

Ei við skrautið sómdi sér

á snúrubrautarmóti.

Mýrar flaut, og fótasver

fyrir laut ei grjóti.

 

………………………………………………….

 

Þegar árum fjölgar, flest

færi skár að nýta.

Hærugrár, enn heillar mest

að heyra klárinn bíta.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *