Ný Ölfusárbrú: Suður eða norður – eða niður?

Í Selfossi-Suðurlandi þann 6. september sl. var fréttaskýring um fyrirhugað nýtt brúarstæði á Ölfuá. Fréttaskýringin var því ánægjulegri að hún er fásén, hálfgert nývirki í fréttamiðlunum í héraðinu. Þar kemur fram að brúarstæði og aðliggjandi vegur um Efri-Laugardælaeyju hafi verið á aðalskipulagi frá því árið 1970, eða í meira en 40 ár. Gera má ráð fyrir að sveitarstjórn á þeim tíma hafi samþykkt aðalskipulagið að loknum ítarlegum umræðum um álitsgerðir sérfróðra á ýmsum sviðum, kosti þeirra og galla.

Nýtt aðalskipulag byggt á íbúaþingum

Á kjörtímabili Bæjarstjórnar Árborgar 2002-2006 var unnið nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, fjóra þá nýlega sameinaða hreppa. Með þessu hinu fyrsta aðalskipulagi Sveitarfélagsins Árborgar, var brotið blað á ýmsan hátt. Allt skipulagið var grundvallað á fjórum íbúaþingum, einu í hverri hinni aflögðu „stjórnsýslueiningu“. Lögð var áhersla á frjálsa aðkomu og frumkvæði íbúanna við mótun aðalskipulagsins og að auki leitað álits sérfræðinga á fjölmörgum sviðum. Um var að ræða algera nýlundu í sk. „lýðræðislegum vinnubrögðum“ hér um slóðir en jafnframt varð vinnan mikil og öll greining ítarleg, því kappkostað var að taka tillit til sem flestra sjónarmiða.

Ferjustaður eða Efri-Laugardælaeyja: Hagfræði Vegagerðarinnar 

Eitt af því sem mikið var rætt við gerð þessa aðalskipulags var ný veglína og brú yfir Ölfusá. Niðurstaða þeirrar umræðu var að halda sig við veglínuna um Efri-Laugardælaeyju. Á næstu árum hélt umræða um þetta mál áfram af fullum krafti. Vegagerðin hélt á lofti hugmyndum um að brúa við gamla ferjustaðinn yfir ána, nokkru norðar en gert er ráð fyrir að brúa skv. skipulagi, og beitti þeim rökum helst að sá kostur væri bæði ódýrari og veglínan styst. Meginrök Vegagerðarinnar voru og eru „hagfræðilegs eðlis“. Tillaga Vegagerðarinnar styttir hringveginn, útheimtir minna slit á bílum, minna slit á vegum, styttir ferðatímann, minnkar útblástur og aðra mengun til viðbótar við það að framkvæmdirnar sjálfar kosta minna.

Það var m.a. af „umhverfisástæðum“ sem bæjarstjórnirnar 2002-2010 lögðust gegn hugmyndum Vegagerðarinnar um að brúa á gamla ferjustaðnum. Þó það væri trúlega ódýrari og „hagkvæmari“ kostur hafði hann í för með sér ókosti sem að margra mati vógu upp beinhörð peningasjónarmið.

Í fyrsta lagi mun vegur austanmegin að þeirri brú gjöreyðileggja golfvöllinn, sneiða hann í tvennt í miðju, með þeim afleiðingum að GOS þyrfti að byrja á núllpunkti, einu sinni enn, og byggja nýjan golfvöll á öðrum stað. Það var þó samviskusamlega rætt aftur á bak og áfram og m.a. var jörðin Borg, milli Stokkseyrar og Eyrarbakka og í eigu sveitarfélagsins, í umræðunni í þessu samhengi.

Í öðru lagi mun veglína vestanmegin að ferjustaðnum rústa ræktunarstarfi Skógræktarfélagsins. Það ágæta félag hefur nefnilega áratugum saman miðað ræktunarstarf sitt við það að brúin komi á Efri-Laugardælaeyju og skilið þar eftir breitt skarð í skógræktina fyrir veginn. Engum dettur í hug að halda því fram að sá vegur sem nú er á skipulaginu sé yfir gagnrýni hafinn eða hafi engin neikvæð áhrif. Hann er hins vegar skárri kostur, sker t.d. ef ég man rétt aðeins eina holu af golfvellinum, sem mun vera hægt að bæta með annarri norðar með ánni. Og þó vegurinn gegnum skógræktina verði síður en svo staðarprýði, þá kallar núverandi veglína allavega ekki jarðýtur yfir áratugagamalt, ómetanlegt ræktunarstarf.

Í þriðja lagi liggur óskaveglína Vegagerðarinnar töluvert fjær Selfossi en sú veglína sem bæjaryfirvöldum hefur hugnast best, en aukin fjarlægð er talin minnka líkurnar á því, sem sumir telja mestu varða, að vegfarendur komi við í bænum.

Suðurleiðin“

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 talaði Vinstrihreyfingin grænt framboð, eitt framboða í Árborg, fyrir veglínu og brú sunnan Selfoss. Samkvæmt fyrrnefndri fréttaskýringu Selfossblaðsins hefur Vg bæst liðsauki í núverandi forystumanni Samfylkingarinnar í bæjarstjórn. Sá telur „fráleitt“ að brúa við Efri-Laugardælaeyju. Helstu rök hans eru þau að „dýrmætu útivistarsvæði verði fórnað“ og „glæsilegur golfvöllur skorinn í sundur“. Hann trúir því að vegur fyrir sunnan Selfossbæ „muni ekki hafa mikil áhrif á þá verslunar- og þjónustuaðila sem hafa haft áhyggjur af þróun mála“. Allt þetta hefur verið rætt í þaula, aftur á bak og áfram. Meira að segja voru líka ræddir og kannaðir kostir jarðganga undir Ölfusá, en þótti ekki vænlegur kostur vegna óhagstæðra jarðlaga – fyrir utan kostnaðinn

Þessi veglína er í fyrsta lagi lengsta mögulega leiðin framhjá Selfossi. Fáum dettur í hug, þegar ráðist er í nýframkvæmdir í vegagerð, að lengja samgönguleiðirnar eins og þessi tillaga gerir, með tilheyrandi aukinni eldsneytisbrennslu og mengun, lengri ferðatíma o.s.frv. Hætt er við að einhver hluti gegnumstreymisins muni þá stytta sér leið um „gömlu brúna“, renna Austurveginn í gegnum Selfoss, og spara sér í leiðinni nokkra bensíndropa. Og hvert fer hækkaður flutningskostnaður vöruflutningafyrirtækjanna vegna lengingar hringvegarins?

Í öðru lagi eru vestan og sunnan Selfoss, bæði í Ölfusi og Árborg, býli þar sem bændur stunda blómlegan landbúnað af ýmsu tagi. Er réttlætanlegt að fórna allri þeirri atvinnustarfsemi, fjölmörgum hestabúgörðum og kúabúm, fyrir hraðbrautina? Hvað með Sölvholt, Dísarstaði, Smjördali, Ljónsstaði, Austurkot, Votmúla, Byggðarhorn, Eyði-Sandvík og Geirakot, auk búgarðabyggðar og margra smábýla við „Votmúlaveginn“? Eða Hvol, Sunnuhvol, Kirkjuferjubæina, Kjarr og Þórustaði í Ölfusinu? Mega þessar jarðir og starfsemin þar sín einskis í samanburði við hin „dýrmætu útivistarvæði“ og „glæsilegan golfvöll“ norðan byggðar? Er þetta svæði hvorki dýrmætt né glæsilegt á neinn hátt?

Í þriðja lagi liggur stærstur hluti framtíðarbyggingarlands á Selfossi vestan og sunnan bæjarins. Af framsýni keypti bæjarstjórnin 2002-2006 jörðina Björk til þessara nota. Á að setja hraðbrautina þvert í gegnum eða alveg í jaðrinum á íbúðahverfum framtíðarinnar?

Í fjórða lagi er um að tefla heilan flugvöll. Hvers virði er hann? Að því leyti er hann þó sambærilegur golfvellinum að þar stundar hópur manna áhugamál sitt. Og ef mig misminnir ekki er völlurinn líka talinn mikilvægur út frá öryggissjónarmiðum.

Það er ekkert nýtt í umræðunum um nýtt brúarstæði á Ölfusá. Samtök verslunar- og þjónustuaðila hafa alla tíð lýst áhyggjum sínum af því að missa umferð út úr bænum. Enginn meiri þungi er í þeirri umræðu nú en verið hefur, nema síður sé. Samkvæmt könnun, sem vísað er til í fyrrnefndri fréttaskýringu Þorláks Helgasonar í Selfossblaðinu, áttu um 86% ökumanna á leið um Selfoss, eða 6 af hverjum 7, erindi þangað. Gegnumstreymið var því einungis 14%. Þetta bendir ekki til þess að sérstök ástæða sé fyrir hagsmunaaðila að óttast hjáleiðina. Sjálfsagt er þó að rannsaka það betur.

Þó Samfylkingin hafi tekið pólitíska u-beygju virðist forystumaður Sjálfstæðisflokksins standa í lappirnar í brúarmálinu. Hann lýsir þeirri skynsamlegu stefnu að halda sig við veglínuna í núgildandi aðalskipulagi en vinna jafnframt að „mótvægisaðgerðum“, til að forðast hættuna á því að ferðalangar fari beinustu leið framhjá og fyrirtæki og þjónustustofnanir í bænum missi þar með spón úr aski sínum.

Að endurskrifa söguna: Einbeittur brotavilji

Í lýsingum sínum á mótvægisaðgerðunum fer leiðtoginn þó stundum utan vegar eða móti umferð á sannleiksbrautinni. Hann segir að stór slík skref hafi verið „stigin á síðustu tveimur árum“, og gerir tilraunir til að endurskrifa söguna með því að nefna í því samhengi uppbyggingu við Larsenstræti, stefnubreytingu í uppbyggingu íþróttasvæða á Selfossi og hugmyndir um „Ölfusársetur“.

Lóðunum við Larsenstræti var sannarlega búið að úthluta löngu fyrr, þó uppbygging á þeim hafi tafist. En látum það nú vera. Um stefnubreytingu í uppbyggingu íþróttamannvirkja gildir öðru máli. Reyndar voru bæði nýr knattspyrnuvöllur (ásamt stúku) og flottur frjálsíþróttavöllur þegar til staðar og búið að ákveða viðbyggingu við Sundhöll Selfoss (að ónefndum nýjum útiklefum) áður en leiðtogi Sjálfstæðismanna tók við lyklavöldum í Ráðhúsinu vorið 2010. Má teljast undarlegt að honum hafi yfirsést þessi glæsilegu mannvirki á íþróttavallarsvæðinu, sem segja má að núverandi bæjarstjórn hafi fengið upp í hendurnar.

Gaman væri að heyra af því hvaða stefnubreyting hefur orðið á uppbyggingu íþróttamannvirkja á síðustu tveimur árum. Hyggst núverandi bæjarstjórnarmeirihluti kannski rífa þau nýju mannvirki sem risin eru og gera eitthvað annað?

Núverandi bæjarstjórn er þó skylt að hrósa fyrir að hafa tekist að kaupa miðbæjarreitinn á Selfossi, sem fyrri meirihluta tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, og að fyrir liggi ákvörðun um viðbyggingu við sundhöllina. Sú framkvæmd er þó enn aðeins í fjárhagsáætlunum, þar sem hún hefur verið um alllanga hríð.

Sömuleiðis eru „Mjólkursafn“ og „Fischersafn“ mikilvæg skref, sem núverandi bæjarstjórn á heiður skilinn fyrir að styðja við – og enginn gleðst jafn einlæglega og undirritaður að lesa það að tillögum hans um Ölfusársetur virðist ekki hafa verið stungið í pappírstætarann. Nógu hart var barist fyrir þeim, þó ekki hafi náðst samkomulag í þáverandi meirihluta um framganginn, og enginn stuðningur fengist frá minnihlutanum.

En að stefnubreyting um uppbyggingu íþróttamannvirkja og hugmyndir um „Ölfusársetur“ séu meðal þeirra skrefa sem stigin hafa verið á síðustu tveimur árum – er það ekki einum of langt gengið?

Burtséð frá einbeittum brotavilja Eyþórs Arnalds á sannleikanum, er óskandi að allar þær „mótvægisaðgerðir“ sem hann nefnir, þ.e.a.s. þær sem ekki eru þegar komnar í framkvæmd, verði að veruleika í allra nánustu framtíð.

Og valkvíðinn við næstu sveitarstjórnarkosningar snarminnkar líka, ef þessi nýja stefna Samfylkingarinnar verður þá enn ofan á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *