Sléttubönd

Sléttubönd er nafn á einum hinna íslensku rímnahátta. Þau eru afbrigði af ferskeytlu, þ.e. fjórar braglínur með víxluðu endarími (aBaB), fjóra bragliði í 1. og 3. hendingu, sem enda á stýfðum lið, og þrjár kveður í 2. og 4. hendingu, rétta tvíliði.

 

Bragfræðileg sérkenni sléttubanda, sem skera þau frá hinni einföldu ferskeytlu, eru að fyrsti bragliður í 1. og 3. línu þurfa að ríma, og að stuðlarnir verða að standa í tveimur öftustu kveðunum (3. og 4.) í 1. og 3. línu. Ef svo er má lesa vísuna „afturábak“ án þess að brjóta bragreglur eða raska einkennum bragarháttarins.

 

Megingaldurinn við gerð sléttubanda er að merkingin snúist þegar þau eru lesin afturábak. Ef það tekst eru þau kölluð „refhverf“. Síðan er hægt að leika sér að því að blanda öðrum afbrigðum ferskeytlunnar við sléttuböndin, t.d. hringhendu og oddhendu, og svo sem að prjóna við rími að vild.

 

Þessi bragarháttur hefur jafnan verið talinn allsnúinn og kallaður „dýr“, ekki síst hin refhverfu sléttubönd. Gæði eða „dýrleiki“ sléttubanda, eins og alls kveðskapar, grundvallast svo auðvitað á því að fallega, vel og leikandi sé kveðið.

 

Hér hef ég tekið saman þau sléttubönd (42) sem ég fann í pússi mínum.Þar af eru 18 refhverf. Þau eru auðvitað misjöfn að gæðum og standast ekki samanburð við slétttubönd góðra hagyrðinga, en inni á milli gætu leynst þokkalega kveðnar vísur. Hvað sem því líður er það ákaflega skemmtileg iðja og hugarleikfimi að setja saman sléttubönd, og það ættu allir að reyna:

 

Inngönguvísa á póstlistann Leir; hringhent:

Margir róta ljótum leir,

lyga njóta sögu.

Argir blóta þrjótar þeir

þegar móta bögu.

 

Bögu móta, þegar þeir

þrjótar blóta argir.

Sögu njóta, lygaleir

ljótum róta margir.

 

Jón Ingvar Jónsson opnaði bloggsíðu á Netinu; hringhent, víxlrímað:

Hraður mundar gleiðan gogg,

glópa marga hræðir.

Glaður stundar bögublogg,

búra arga hæðir.

 

Hæðir arga búra, blogg

bögu stundar glaður.

Hræðir marga glópa, gogg

gleiðan mundar hraður.

 

Á Hryllingsvöku á Hótel Geysi; hringhent:

Krafta villta finn ég frá

fólum, snilli betri.

Rafta fylli, skammaskrá

skrifa gylltu letri.

 

Letri gylltu skrifa skrá,

skamma fyllirafta.

Betri snilli, fótum frá

finn ég villta krafta.

 

Af sama tilefni; refhverft, hringhent:

Geisla stillur, skímuskrá

skreytt er gylltu letri.

Beisla Hrylling, ekki á

annan snilling betri.

 

Betri snilling annan á,

ekki Hrylling beisla.

Letri gylltu skreytt er skrá,

skímustillur geisla.

 

Ort á „Leir“ um Fíu á Sandi; hringhent, víxlrímað:

Fía opnar sálarsjóð,

silfurglingrið fína.

Nýja vopnið, ljúflingsljóð,

listafingur brýna.

 

Brýna fingur listaljóð,

ljúflingsvopnið nýja.

Fína glingrið, silfursjóð,

sálar opnar Fía.

 

Styrkir Fía þessa þjóð,

þýðu máli beitir.

Yrkir pían fullvel, fljóð

fögnuð sálu veitir.

 

Veitir sálu fögnuð fljóð,

fullvel pían yrkir.

Beitir máli þýðu, þjóð

þessa Fía styrkir.

 

Ort á „Leir“ um Pétur Stefánsson; refhverft, hringhent, víxlrímað (Pétur svaraði auðvitað þessu gamni á viðeigandi hátt):

Kætir vífið, fráleitt fer

fullur gamli Pétur.

Bætir lífið, ekki er

óður saminn betur!

 

Betur saminn óður er,

ekki lífið bætir.

Pétur gamli fullur fer,

fráleitt vífið kætir.

 

Bragarbót um Pétur; hringhent:

Pétur okkar fremstur fer,

fínar kokkar vísur.

Getur lokkað heilan her,

halur þokkar skvísur.

 

Skvísur þokkar, halur her

heilan lokkað getur.

Vísur kokkar fínar, fer

fremstur okkar Pétur.

 

Myrkrastóðin; refhverft, hringhent:

Vefur gróðinn meinum menn,

myrkrastóðin slægu.

Hefur þjóðin ekki enn

úthellt blóði nægu?

 

Nægu blóði úthellt enn

ekki þjóðin hefur.

Slægu stóðin, myrkramenn

meinum gróðinn vefur.

 

Um rauðstjörnótt merfolald; hringhent, oddhent m.m.:

Þjóðar slóða hróðri hlóð,

hófaljóðin skildi:

Óðar rjóða, góða Glóð

ganginn bjóða vildi.

 

Vildi bjóða ganginn, Glóð

góða, rjóða óðar.

Skildi ljóðin hófa, hlóð

hróðri slóða þjóðar.

 

Sjálfslýsingar; refhverfar:

Þjónar, stritar, sjaldan sér

sjálfum hampar maður.

Bónar, skúrar, ekki er

argur, leiður, staður.

 

Staður, leiður, argur er,

ekki skúrar, bónar.

Maður hampar sjálfum sér,

sjaldan stritar, þjónar.

 

Hálfur eða fullur fer,

fráleitt drykkju stjórnar.

Sjálfur veldur, þrekið þver

þeigi sopa fórnar.

 

Fórnar sopa, þeigi þver

þrekið, veldur sjálfur.

Stjórnar drykkju, fráleitt fer

fullur eða hálfur.

 

Á útreiðum; hringhent:

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár

kannar leiðir nýjar.

 

Nýjar leiðir kannar klár,

kátur greiðir sporið.

Hlýjar breiðir þerrur, þrár

þýðar seiðir vorið.

 

Fyrsta haustæfingin; hringhent:

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

Getur betur, hver sem kór

karla raust í brýnir.

Setur vetur storð á stór

stílbrögð, haustið sýnir.

 

Bjartsýni; hringhent:

Maður kvartar ekki oft,
augun skarta bliki.
Glaður svarta lífsins loft
lít, og bjartur þyki.

 

Þyki bjartur, lít og loft

lífsins svarta, glaður.

Bliki skarta augun oft,

ekki kvartar maður.

 

Ákvörðun ríkislögreglustjóra um „aukinn sýnileika vopnaðra lögreglumanna á fjölmennum útisamkomum“ er umdeild; refhverft, hringhent:

Siðar löggu, fráleitt fer
fyrstur að bögga lýðinn.
Friðar glöggur, ekki er
eilíft að ‘plögga’ stríðin.

 

Stríðin að ‘plögga’ eilíft er,

ekki glöggur friðar.

Lýðinn að ‘bögga’ fyrstur fer,

fráleitt löggu siðar.

 

Drengur góður; hringhent:

Drengur góður alltaf ert,
ekki bróður hnjóður.
Fengur tróðu -silki sért,
síður óður skjóður.

 

Skjóður óður síður sért,

silkitróðu fengur.

Hnjóður bróður ekki ert

alltaf góður drengur.

 

Frostkaldir dagar; hringhent:

Vetrarmjöllu stirnir strá,
stjarnahöllin glitar,
letrar fjöllin úrug á,
einnig völlinn litar.

 

Litar völlinn, einnig á

úrug fjöllin letrar.

Glitrar höllin stjarna, strá

stirnir mjöllu vetrar.

 

Prýða mjallargeislar gljá
glóð á hjalla tindrar.
Skrýða fjallaeggjar, á
efstu skalla sindrar.

 

Sindrar skalla efstu á,

eggjar fjalla skrýða.

Tindrar hjallaglóð á gljá,

geislar mjallar prýða

 

Refhverft, hringhent:

Myrkur bætir, ekki er
andinn næturvætir.
Styrkur mæti, sjaldan sér
sálin þrætur bætir.

 

Bætir þrætur sálin sér,

sjaldan mæti styrkur.

Vætir nætur andinn er,

ekki bætir myrkur.

 

Mannlýsing, refhverft, hringhent:

Galinn skjóður, ekki er
enn í bróðurgriðum.
Talinn óður, fráleitt fer
fyrir góðum siðum.

 

Siðum góðumfyrir fer,

fráleitt óður talinn.

Griðum bróður enn í er,

ekki skjóður galinn.

 

Hringhent:

Veði Óðins forða frá
frétta glóðarperu.
Beði ljóða unir á,
andans gróðurveru.

 

Veru gróðurandans á

unir ljóðabeði.

Peru glóðar frétta frá,

forða Óðins veði.

 

Kári flýtir, og snýtir sér,
snerrinn, lýtur rúnum.
Dári skrýtinn, ýtinn er,
errinn skýtur brúnum.

 

Brúnum skýtur, errinn er,

ýtinn, skrýtinn dári.

Rúnum lýtur, snerrinn sér

snýtir og flýtir Kári.

 

Lengir kvöldin, vetrar vá
vagni köldum ekur.
Hengir tjöldin úrug á
alheim, völdin tekur.

 

Tekur völdin, alheim á

úrug tjöldin hengir.

Ekur köldum vagni, vá

vetrar kvöldin lengir.

 

Flétturöndin himinhá,
heillar vöndur ljósa.
Sléttuböndin yrkja á,
orðaföndur kjósa.

 

Kjósa föndur orða á,

yrkja sléttuböndin.

Ljósavöndur heillar, há

himinflétturöndin.

 

Dapur hímir runnur rór,
raunir gríma hylur.
Napur tími, kuldakór
kvæði hrímuð þylur.

 

Þylur hrímið kvæði, kór,

kuldatími napur.

Hylur gríma raunir, rór

runnur hímir dapur.

 

Hinn þögli meirihluti; refhverft, hringhent:

Hljóður skari yndi er,
ekki bara þiggur.
Skjóður varinn sómir sér,
sjaldan barinn liggur.

 

Liggur barinn, sjaldan sér

sómir varinn skjóður.

Þiggur bara, ekki er

yndi skari hljóður.

 

Á dimmu og hljóðu vetrarkvöldi; hringhent:

Víðan himna ganginn gengur,
gamla trimmið streðar.
Síðan dimmur strokinn strengur,
stilltur fimmund neðar.

 

Neðar fimmund stilltur strengur,

strokinn dimmur síðan.

Streðar trimmið gamla, gengur

ganginn himna víðan.

 

Sumardagurinn fyrsti; refhverft:

Færir sumar okkur yl,
ekki regni hreytir.
Nærir sálu, trauðla til
trega stormur þreytir.

 

Þreytir stormur trega til,
trauðla sálu nærir.
Hreytir regni, ekki yl
okkur sumar færir.

 

Hugarástand; refhverft, hringhent:

Sefa fyllir ólga ör,
ekki stillur dvelja.
Efagrillu fresta för,
fráleitt villur kvelja.

 

Kvelja villur, fráleitt för

fresta grillu efa.

Dvelja stillur, ekki ör

ólga fyllir sefa.

 

Vísnagerð; hringhent:

Böndin sléttu flétta fín,
fanga rétta braginn.
Höndin þétta, gletta, grín,
gjarnan létta daginn.

 

Daginn létta gjarnan grín,
gletta, þétta höndin.
Braginn rétta fanga, fín
flétta sléttuböndin.

 

Lokbrá; hringhent:

Lokar stundarblundur brá,
bylgjast sundur lundin,
þokar undan grundin grá,
griðum bundin mundin.

 

Mundin bundin griðum, grá
grundin undan þokar,
lundin sundur bylgjast, brá
blundur stundar lokar.

 

Mannlýsing; refhverft, hringhent, víxlrímað:

Maður þessi heldur heit,
hvergi undansláttur.
Glaður hressir sína sveit,
sjaldan blundar máttur.

 

Máttur blundar, sjaldan sveit
sína hressir glaður.
Sláttur undan, hvergi heit
heldur þessi maður.

 

Hallur karlinn; refhverft, hringhent:

Halli skjallið fagurt fer,
fráleitt svallar nætur.
Snjalli kallinn ennþá er,
ekki fallast lætur.

 

Lætur fallast, ekki er
ennþá kallinn snjalli.
Nætur svallar, fráleitt fer
fagurt skjallið Halli.

 

Mannlýsingar; refhverfar, hringhendar:

Skjótast fóta tekur til,
tæpast hótar mönnum.
Rótast grjótið undan il,
ekki blótar grönnum.

 

Grönnum blótar, ekki il
undan grjótið rótast.
Mönnum hótar, tæpast til
tekur fóta skjótast.

 

Breytir nokkuð sjálfum sér,
síður flokka skekur.
Beitir þokka, aldrei er
illur bokki, frekur.

 

Frekur bokki, illur er,
aldrei þokka beitir.
Skekur flokka, síður sér
sjálfum nokkuð breytir.

 

Blessuð veiran; refhverft, hringhent:

Veira skekur heiminn hér
hvergi rekin löndum.
Meira þekur, ekki er
óðar tekin böndum.

 

Böndum tekin óðar er,
ekki þekur meira.
Löndum rekin, hvergi hér
heiminn skekur veira.

 

Náttúrustemmning; hringhent:

Grundin brosir heimi hæf,

himin flosar seiður.

Blundinn losar gola gæf,

glóa mosabreiður.

 

Breiður mosa glóa, gæf

gola losar blundinn.

Seiður flosar himin, hæf

heimi brosir grundin.

 

Náttúrustemmning; refhverft, hringhent:

Sefur grundin vota vær,

varla lundur bærist.

Gefur stundin kossa kær,

hvergi sundur færist.

 

Færist sundur, hvergi kær

kossa stundin gefur.

Bærist lundur, varla vær

vota grundin sefur.

 

Mannlýsingar; refhverfar, hringhendar:

Hatti maður veifar, „ven“,

varla slaður þoli.

Skratti glaður er því enn,

ekki staður foli.

 

Foli staður, ekki enn

er því glaður skratti.

Þoli slaður, varla, „ven“,

veifar maður hatti.

 

Gildur drengur, ekki allt

yfir gengur hroki.

Mildur strengur, hvergi kalt

kvelur, spengir oki.

 

Oki spengir, kvelur kalt,

hvergi strengur mildur.

Hroki gengur yfir allt,

ekki drengur gildur.

 

Forsetakosningarnar westra; hringhent:

Valdabrallið sýndi sig,

svallið alla daga.

Tjaldið fallið, stærra stig

stalli kall af draga.

 

Draga kall af stalli, stig

stærra, fallið tjaldið.

Daga alla svallið, sig

sýndi brallið valda.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *