Þú getur átt þinn tjakk sjálfur!

Á unglingsaldri heyrði ég fyrst brandarann um tjakkinn. Hegðun aðalpersónunnar í sögunni þótti svo absúrd að menn hlógu með öllum kjaftinum – veltust um í óstjórnlegum hlátursrokum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt betri brandara síðan. Enginn er jafn eftirminnilegur og „Tjakkurinn“.

Brandarinn er í stuttu máli á þá leið að maður nokkur er einsamall á ferð í bíl sínum yfir fáfarna heiði í myrkri og leiðindaveðri. Skyndilega springur á bílnum. Maðurinn stoppar úti í kanti og undirbýr dekkjaskipti, tekur út varadekkið og tínir til verkfærin. Þá áttar hann sig á því að það er enginn tjakkur í bílnum. Hann bölvar lánleysinu en hugsar með sér að fljótlega komi einhver akandi sem muni lána sér tjakk. Maðurinn bíður. Enginn kemur.

Nú ákveður maðurinn að ganga af stað, það geti ekki verið langt til næsta bæjar. Á göngunni fer hann að hugsa málin og í ljósi alþekktrar gestrisni Íslendinga og við brugðinni hjálpsemi fólks úti á landsbyggðinni sannfærir hann sig um að hann fái hlýjar móttökur, sjálfsagt mál að lána tjakk og trúlega verði honum líka skultað til baka og hjálpað við dekkjaskiptin.

En gangan er lengri en maðurinn hafði reiknað með, veðrið slæmt og myrkrið þétt. Hvergi grillir í ljóstýru frá sveitabýli. Smám saman fer efinn að sá fræjum í huga hans. Það eru nú víða furðufuglarnir, ekki síst á einangruðum bæjum lengst inn til dala. Og til að gera langa sögu stutta hefur manninum tekist að sannfæra sig um það, þegar hann loks greinir útiljósin á innsta bænum í dalnum, að bóndinn þar sé ekki aðeins furðufugl og sérvitringur, heldur hreinasta illmenni sem aldrei geri nokkrum gott. Hann fer því heim að bæ um miðja nótt og vekur upp með barsmíðum. Þegar heimamaður vaknar, skreiðist til dyra með stírurnar í augunum og opnar dyrnar til að kanna gestakomur, fær hann fyrirvaralaust framan í sig frá komumanni: „Þú getur átt þinn helvítis tjakk sjálfur“. Að svo búnu snýr „okkar maður“ sér á hæl og rýkur burt í fússi.

Ekki verður hjá því komist að setja þessa sögu í samhengi við stjórnmálaumræðu nútímans. Þarna eru lifandi komnir Framsóknarmennirnir í ýmsum flokkum sem vilja undir eins slíta viðræðum við ESB, án þess svo mikið að spyrja fyrst hvort á þeim bæ sé til tjakkur, hvort bóndi vilji lána tjakkinn, sé hann til, eða að láta svo lítið að kanna hvort tjakkurinn er í nothæfu ástandi, sé hann til láns.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *