Úr dagbókinni 2015

Árið er 2015, Safnið telur 193 vísur

01.01.15

Það er við hæfi að ég sendi konu minni fyrstu kveðju nýs árs:

Léttir angur lundin þín
lífs á gangi mínum.
Enn mig langar, ástin mín,
upp að vanga þínum.

 

12.01.15

Í fréttum var þetta helst.

Það herðir heldur á frosti.

Heimsbyggðin öll er í losti.

Á fötluðum brotið.

Fólkið er skotið.

Aðra smyr brauðsneið með osti.

 

14.01.15

Sóknarpresturinn í Vík kvaddi sér hljóðs á Fjasbók og tilkynnti að 29 ár væru frá því hann tók við kallinu. Hann fékk í kjölfarið fjölmargar heillakveðjur. Þess má geta að Gulla, kona hans, er bekkjarsystir mín úr menntaskóla:

Vinsæll er Víkurprestur

og varla því víkur prestur.

Haraldur Magnús

í messunum sagnfús

og hjá Guðlaugu aufúsugestur.

 

15.01.15

Í dag eru 20 ár frá því snjóflóð olli hörmulegu stórslysi á Súðavík. Í Kastljósi var viðtal við konu sem lifði af, bjargaðist eftir 14 tíma undir brakinu af húsi fjölskyldunnar, þá unglingur að aldri. Frásögn hennar var átakanleg:

Alltaf með sár á sálinni.

Snjóflóðagnýr undir nálinni.

Hugsanir stríðar

en höggið kom síðar.

Skelfing í minningaskálinni.

 

Nú er að hefjast enn eitt HM í handbolta, nú haldið í Katar. Íslendingar eru á meðal keppenda og því fylgja ákveðin leiðindi:

Ennþá er vakin upp vofan.

Vonsvikinn þrýsti á rofann.

Kuldi og vetur

kvalið mig getur

og helvítis HM-stofan.

 

19.01.15.

Það er mikill lægðagangur þessi misserin og sér ekki fyrir endann á honum:

Endalaus vosbúð og væta,

í vindinn er ennþá að bæta,

svo blyndöskubylur

er blotinn við skilur.

Er furða að þjóð vilji þræta?

 

21.01.15

Borgarfultrúar Framsóknarflokksins gera það ekki endasleppt. Eftir Moskuhneykslið fyrir síðustu kosningar bæta þær um betur með því að skipa annálaðan og þjóðþekktan rasista og hommahatara sem varamann í Menningarráð Reykjavíkur:

Dýrð sé oss, dætur og synir

drottins guðs. Burt skreiðist hinir.

Vora finnum vér línu

að frelsarans pínu“.

-Framsókn og flugvallarvinir.

 

22.01.15

Skagamenn heimsóttu FSu í 1. deild karla í kvöld:

Létt var yfir liðinu,

leikið á nokkurrar pressu.

Allir voru á iðinu

nema Skagamenn sem riðu ekki feitum hesti frá þessu.

 

24.01.15

Þrátt fyrir mikinn lægðagang og læti í veðrinu er nauðsynlegt að halda ró sinni:

Hávaðasöm og hyldjúp lægð

hertekur landið og miðin.

Að Gustavsbergi ég geng með hægð

því góð voru bóndadagssviðin.

 

Handboltalandsliðið stendur í ströngu og var „með bakið upp við vegg“ þegar það mætti Egyptum í síðasta leik sínum í riðlakeppni HM og sæti í 16 liða úrslitum að veði, þar sem Danir bíða, en helsta skytta liðsins, Aron Pálmarsson er fjarri góðu gamni:

Guðjón Valur gerði sitt,

sá gamli ennþá nokkuð fit.

Danir bíða við hornið hitt,

-held við þurfum nýja skytt

u.

 

Fyrrnefndur Aron var sleginn niður í miðbæ Reykjavíkur og missti af undirbúningsleikjum fyrir HM. Í næsta leik á undan Egyptum mættu Íslendingar Tékkum þar sem Aron fékk annað höfuðhögg og vankaðist svo hann var úr leik:

Aftur fékk hann einn á kjamma,

aftur lá í valnum.

Engan bolta, ekki djamma,

ósköp hart á dalnum.

 

25.01.15

Umboðsmaður Alþingis hefur birt skýrslu sína um afskipti Hönnu Birnu af lögreglurannsókn á ráðuneyti sínu. Umræður um þetta mál á Alþingi hafði hún fyrr kallað „ljótan pólitískan leik“:

Þar sem logar, þar er gjarnan reykur,

í þéttu rými að lokum kæfir mann.

Hvort er það nú ljótur pólitískur leikur

að ljúka upp, eða reyna að fela hann?

 

26.01.15

Víglundur Þorsteinsson kemur fram með gamalkunna samsæriskenningu um glæpi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Alþingis, allra helstu íslenskra stofnana og margra erlendra aðila gegn íslenskum almenningi í hruninu:

Í bræði vætir Víglundur nú tenn,

vopnast, fægir ryð af snaginhyrnu

því agalega vondir vinstrimenn

veltu af stóli smáðri Hönnu Birnu

og gengu líka alltof nærri Geir!

Slíkt inmúraðir ei fyrirgefið fá,

sín finna hefndarráðin valdasjúkir

og drýsla marga í dimmunni má sjá

en Davíð upp á fjósbitanum húkir.

Til hinsta dags í flórnum þrauka þeir.

 

Eftirfarandi texti er klipptur úr Fréttablaðinu í gær: „Umræðan er einungis að fara að aukast vegna þess að stöðugt fleiri fá tækifæri til að tjá sína skoðun sem áður höfðu það ekki. Samskipti milli fólks eru að fara að aukast og þau eru meira og minna að fara að eiga sér stað….“:

Eru að fara að eiga sér stað
aukin samskipti fólks í milli,
því er að fara að aukast mjög
umræða góð og málfarssnilli.

 

30.01.15

Þó umgjörð HM í handbolta sem haldið er í Katar um þessar mundir sé slétt og felld ganga ásakanir um að dómgæslan hafi hjálpað heimaliðinu áfram í keppninni, jafnvel talað um mútur og dómarahneyksli:

Yfirborðsáferðin lygn

en alltaf er dómarinn skyggn.

Furstar í Katar,

kolspilltir snatar,

kaup sér meistaratign.

 

02.02.15

Mannlýsingar úr sveitinni:

Í afdalakoti bjó kall,
sem kúkaði‘ og hrækti í dall.
Japlandi roðið
og reykjandi moðið
reið hann svo fullur á fjall.

 

Og kellingin feiknmikið fall
sem forðaðist gesti og spjall.
Í myrkustu krókum
hún muldi úr brókum
í soðningu, saman við gall.

 

Syni var stillt upp á stall,
samt stundaði ónytjubrall.
Góða fylli í kvefi
fékk hann úr nefi
svo allur varð grár eins og gjall.

 

Dóttirin iðaði öll
úti um móa og völl.
Í dagbækur skráði
að skemmtun hún þráði,
skagfirska sveiflu og böll.

 

03.02.15

Mannlýsingar af mölinni:

Í borginni lögmaður bjó
sem bergði af stressinu fró.
Keppti við grannann
í græðgi, og vann ´ann.
Frá dýrðinni ungur svo dó.

 

Frúin er fínasta snobb
sem faðmaði annan, hann Rob.
Hún aðeins fær unað
við allsnægt og munað,
á rándýran kobbidí kobb.

 

Dóttirin orðin er djörf,
af drykkju um helgar oft stjörf
og af afskiptaleysi
þessu ógissla pleisi
hugsar hún þegjandi þörf.

 

Sonurinn beinni á braut,
bráðger og sterkur sem naut.
Á kagganum fer um
fullur af sterum,
flottur, en geðið í graut.

 

05.02.15

Mannlýsingar úr þorpinu:

Þorparinn þrautgóður var,
á þakkir og hrósið ei spar.
Í orðfæri „linur“:
„Elskan“ og „vinur“,
og kleip svo í kellingarnar.

 

Konan hjá kunningjum sat
í kaffi, og bauð sér í mat,
til að þefa upp fréttir
og það var nú léttir
ef fásinnu fundið þar gat.

 

Strákur á þrítugu stóð,
staðarins uppháhalds jóð.
Að spóla í brekkum
á belgvíðum dekkjum
stundaði, miklum af móð.

 

Stelpan á liðinu lúin
fyrir löngu í huganum flúin.
Þá bar þar að Dana
sem barnaði hana-
og þar með var draumurinn búinn!

 

06.02.15

Eyðimerkuróráð:

Þrammandi‘ í eyðimörk þrír,

af þorsta er hugur óskýr.

Svo líðanin batni

leita að vatni

en dropinn hjá guði er dýr!

 

Andinn í óráði dalar,

bara ímyndun þorstanum svalar.

Í sturlun þeir ná

stjörnur að sjá

og til þeirra himinninn talar!!!

 

Á kvöldgöngu kærustupar,

hún komin á steypirinn var.

Þau gönguleið breyta

og á gistihús leita

en vertinn þar veitir afsvar:

 

Þið finnið í fjárhúsi hey.

Bara fyrningar reyndar, OK?“

Þar Jósef á ný

fer að jagast í því

að varla sé María mey:

 

Ég hef aldrei hold þitt séð bert

og hitt höfum við aldrei gert.

Það er hlálegt að blanda

í þetta heilögum anda!!!

Hvað heldur þú að þú sért?“

 

Af tuðinu María mæddist,

upp í myglaða jötuna læddist

og myrkrið óp klauf.

Hennar meyjarhaft rauf

freslarinn þegar hann fæddist.

 

09.02.15

Um þá hegðan að hlaupast undan ábyrgð og láta öðrum eftir að halda uppi samfélagsþjónustu en nýta sér hana að fullu eftir sem áður:

Sett á haus með svikafléttum

og í sárum þjóðin lá.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Lagt var herðar á.

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

 

Að laga ruglið, launastéttum,

lagt var herðar á.

Virtist allt á réttu róli

rummungunum hjá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Skildingurinn lá.

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

 

Margur þeirra‘ í skattaskjóli

skildingurinn lá.

Nú er Bjarni‘ í nokkrum vanda

nú fer að koma‘ í ljós

hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Talin „undir rós“.

Hvort tíund innan tryggðabanda

var talin „undir rós“.

 

10.03.15

Á búslóðarböndin þeir skáru,
búkkinn þá hrundi. Með sáru
ópi við brást.
Í birtingu sást
að ennþá var borð fyrir Báru.

 

12.03.15

Ekki‘ er öll vitleysan eins!
og eigi var hikið til neins
því í loftinu lá
löngun og þrá
milli Sleggju og Steins.

 

18.03.15

Vorið fann sinn hvíta kjól
og klæðist brúðarslöri.
Nú ég æði út á hól
æsku- hlaðinn fjöri.

 

Vorið fór í hvítan kjól
og keypti brúðarslörið.
Höldum núna heilög jól,
held að það sé kjörið.

 

21.03.15

Sjáið núna! Sólin skín!
og syngur fugl sitt lag!
Töfrar kór fram tónverk sín
á tónleikum í dag!

 

22.03.15

Nú er loks til sólar sér,
sunnudagur gjöfull,
hef ég allt á hornum mér;
helvítis, andskotans, djöfull!

 

Nú er dynur haglél hart
og hratt í lofti syrtir,
gleðibros mitt veiklast vart;
ég veit að aftur birtir.

 

Úr reiðtúr engin orðin fregn,
enda fastur liður:
Sólskin, haglél, slydda, regn,
svikalogn og hviður.

 

03.04.15

Nú á tímum telur smátt
trúarþruglið stranga
svo fíflagangi flíka mátt
á föstudaginn langa.

 

8.04.15

Sumt mætti alveg una í þögn.
Í eiginhagsmunaskyni
forsætisráðherrann gróf upp gögn
frá Guðjóni Samúelssyni.

 

Allsekki var það illa meint
þó aftur vini sína
Illugi greyið alveg hreint
óvart hitti í Kína.

 

Simmi brúar gliðnandi gjá,
glóir á perum öllum.
Hann ekki lengi hangir á
hugmyndum eitursnjöllum.

 

17.04.15

Lítið borið á því enn,
mitt andlit skorið þéttara,
en kannski vorið vakni senn?
Þá verður sporið léttara.

 

21.04.15

Ágætur flóa- er -friður
þar sem frjóan á jarðveg sá siður
að breiða út snakkið.
Og baktjaldamakkið!!!!
Það sannlega segi ég yður.

 

23.04.15

Komið norðanfár og fjúk,
frostrós víða brumar.
Landið þakið þykkum dúk,
það er komið sumar.

 

Dottnir eru ei af baki
og allt á fínu róli
fyrst gátu loftað grettistaki.
Gott hjá Tindastóli.

 

25.04.15

Inni sit með símann minn,
sól á himni gleður.
Um allan kroppinn yl ég finn,
ekta gluggaveður.

 

Ég er bú’nað járna fimm,
jólin daga flesta,
enda stunda útitrimm
með alla mína hesta.

 

26.04.15

Gott að finna gust um kinn,
gleður sinnið kvalda.
Verst að linnir vart um sinn
vetrarstinningskalda.

 

Þið, sem við skjáina skrunið
og í skorti við brauðmola unið!
Eins og vel kveðin vísa
nú vísindin rísa:
„Hannes að rannsaka hrunið“!

 

27.04.15

Er Eygló gamla alveg lost?
Hví urrar Kári grimmdarfrost
svo ömurlega í öllu hvín?
Eriddigi bara grín?

 

02.05.15

Þjóðin sýnir þor og dug.
Þrótti íhald tapar.
Sjóræningjar fara á flug.
Framsókn niður hrapar.

 

Hamingjan í hæstu mekt
í hægriöfgaþíðunni.
Nú er allt svo yndislegt
og útreiðar í blíðunni.

 

04.05.15

Enn mun verða erfið raunin
inn- að styrkja -viðina
því annars munu lægstu launin
landið setja’ á hliðina.

 

05.05.15

Æ, já – viltu koma með eina á þá sem hirða allan arðinn í þessu þjóðarbúi? spurði Eygló Eiðsdóttir eftir lestur vísunnar frá því í gær:

Gleðipillur upp nú urnar,
arka stjórnir kvalaveg
með þungan bagga, arðgreiðslurnar,
og ábyrgð, sem er hrikaleg.

 

Um ríkisstjórn SDG

Samfélags grefur samtakamátt
og sundurlyndisfjandann elur.
Launamenn alla hún leikur grátt
en landsgæðaarðinn í ríka telur.

 

10.05.15

Mæðradagsvísan:

Lífs á himni skærast skín

skips míns leiðarstjarna.

Elsku, besta mamma mín

merlar alltaf þarna.

 

18.05.15

Þeyr með Glóð við gjörð í för,
í gusti makkar brúsa
og knapann heilla Hátíð, Ör,
Hrímnir, Venus, Spúsa.

 

19.05.15

Úthaga skipað á aftasta bekk“,
úrsvalur vindurinn þuldi
svo heimurinn kæfandi hóstakast fékk.
Helvítis, andskotans kuldi.

 

22.05.15

Úlpu um mittið undireins bind
og erfitt í peysu að tolla.
Á hestbaki ég heimta vind!
Helvítis, andskotans molla.

 

27.05.15

Eftir langerfiðustu af sex fæðingum móðurinnar var hann tekinn í hasti og settur í súrefniskassa, þar sem pabbi gat fyrst skoðað frumburð sinn gaumgæfilega í gegnum glerið. Næstu tvö árin vildi hann hvergi vera annars staðar en í fangi og við brjóst mömmu sinnar, og drakk þar í sig sína bestu eiginleika: umhyggju, vandvirkni og lífsgleði. Þetta er sem gerst hefði í gær.

Viljinn skýr og virðing sterk,
að varúð beygðist krókur,
öll sín skyldi vanda verk
og vakna gleðihrókur.

 

Ragnar enn á réttri braut
og ræktar vinarhuginn.
Með sínum kunna þokka þaut
þriðja áratuginn.

 

Úr ferð starfsfólks FSu til Finnlands og Eistlands

26.05.15

Anna skundar, í ferðum fljót,
framhjá margri kránni
svo á mér birtist býsna ljót
blaðra á stóru tánni.

 

27.05.15

Þegar maður fer í frí
eru fyrstu morgunverkin
að hemja skjálftann og huga’ að því
að hylja næturmerkin.

 

Lagleg mjög um lend og hupp,
lundin góð, og svona
lýsir heiminn allan upp
þessi yndislega kona.

 

01.06.15

Hvern langar ei langt út í geim?
Nema lyndi og þjóðanna hreim?
En þegar atið er mest
er alltaf best
með henni að koma sér heim.

 

04.06.15

Ók nemendum Vallaskóla í vorferð inn í Bása, þar sem gist var í skála.

Er lifnar gróður lyftist brún,
en lítið hefur á því borið;
haginn gulur heim við tún.
Hvenær kemur blessað vorið?

 

Fingur sljóir, slær mér að,
slokknar líf í tásum.
Ég man hlýrri, játa það,
júnídag í Básum.

 

Björn hér fyrrum bjó í Mörk
sem bróðir reyndist Kára.
Nú vitjar mín, svo vísu’ á örk
verð um hann að pára.

 

09.06.15

Loksins birtist lauf á trjám,
loksins grænka börðin.
Loksins aftur lyftir brám,
loksins vaknar jörðin.

 

14.06.15

Blátær himinn blasir við,
ei bærist á kolli hárið.
Feikilega friðsælt svið
og fallegt í morguns árið.

 

18.06.15

Þetta var helst að frétta af hátíðinni „Halló Akureyri“!

Nýta Pollinn sem næturgagnið,
nú telst busl þar svalt
því iðragerla er þar magnið
áttahundruðfalt.

 

20.06.15

Fyrsta stopp í fyrstu langferðinni með ferðmenn í sumar:

Á grænni rútu við glæstan Skógafoss,
í glugga sér í myndasmiðinn,
sem bíður einn en hugsar mest um hross
og heyrir varla fossaniðinn.

 

Dálagleg Dyrhólaey
í dýrðlegum kvöldsólarþey.
Þetta mýrdælska svið
verð að sætta mig við
því allt er í harðindum hey!

 

21.06.15

Er sem fyr augum mér dökkni
og aðeins að rómurinn klökkni
er ég stend og gón-
i á Jökulsárlón?
Jæja, enginn er verri þó vökni.

 

22.06.15

Ástarbríma enn í hjarta finn,
orðlaus jafnan verð í Skaftafelli.
Fósturjarðar legg ég kinn við kinn
en kossi fyrst á varir hennar smelli.

 

Er föðurlandsins helga dýrð óhult?
Á heimanmund að vernda, eða’ ofnota’ ‘ann?
Sjá, bílastæðið alveg orðið fullt!
Ennþá bætist jafnt og þétt í flotann.

 

Aftanfriður, útsýn góð,
allt í nokkuð fínu standi.
Veiðihús, í grilli glóð,
gistinótt í Meðallandi.

 

23.06.15

Með leiðsögn, varkár og vökul
ef vafrið þann auruga hökul.
Á margt er að líta
(en hvorki míga né skíta)
um sumar við Sólheimajökul.

 

24.06.15

Heiðhvolfin himinblá,
hamrar og jökulgljá,
litfagrir balar,
lækurinn hjalar,
stansað við Stakkholtsgjá.

 

25.06.15

Höfum rambað um mel og í rásum
á rútubíl stynjandi hásum.
Þá er ómaksins vert
og engastund gert
að drífa upp búðir í Básum.

 

Af krafti sem kann enga vægð
er klettaborg jökulvatnsfægð,
gljúfrum öll sorfin
og Gígjökull horfinn
en lifir þó fornri á frægð.

 

Að ofan eins og rök ull
Eyjafjallajökull.
Sá nafnkunni, fríði
er náttúruprýði.
Dýrðarinnar djö…gull !!!

 

Gamlir menn eiga ekki að liggja á dýnuræksni í tjaldi:

Þegar heilan hvíldardag
hefur, þá er alveg rakið
ef að verður illt á mag-
anum, velta sér á bakið.

 

26.06.15

Núna borga eg mitt ævigjald,
við útilegur gerist harla stirður,
of gamall til að troðast inn í tjald,
með tak og ónýt hné, og lítils virður.

 

Vinir, þennan sjáið sviðna haus!
svartan, fúlan, þó á hálsi lafi!
Grettir sterki var við lánið laus,
látum eins og þessi betra hafi.

 

27.06.15

Stoppað í Hellisheiðarvrkjun:

Úr iðrum jarðar fundið féð
fer um merktan krana
en Orkuveitan meiru með
mjólkar túristana.

 

28.06.15

Ferðamannastraumur bara vex og vex,
vonglatt fólk um landið þarf að keyra.
Bandarískir gestir borða hér á KEX
borgara og ket, og eflaust fleira.

 

05.07.15

Veröld hyggur vel að oss,
vini trygga hefur.
Birkið þiggur blautan koss,
blærinn dyggur gefur.

 

Foldarskrúðið fer á ið,
fagna lúðir steinar.
Léttur úði leikur við
laufi prúðar greinar.

 

06.07.15

Hringferð með hóp ferðamanna frá Hollandi hefst í dag:

Að utan margir, var við verð,
velja gamla frónið.
Með Hollendinga fer í ferð,
fyrst í Bláa lónið.

 

Laugarvatn í Laugardal
lífs- minn kveikti -þróttinn.
Í þeim fagra fjallasal
er fyrsta gistinóttin.

 

07.07.15

Frá Laugarvatni lagt af stað,
lýsir sólin bjart inn.
Gullna hringinn á ég að
aka fyrripartinn.

 

Það er alveg undravert,
að ekki sit á hrossi!
Geri eg það opinbert:
ók að Hjálparfossi.

 

Með Fróni við stöndum og föllum,
fögnum þess kostum og göllum:
Loftfærslan hröð
við Hrauneyjastöð
en alltaf er fagurt á fjöllum.

 

Gott að fá ég ekki á!
Engin whiskíflaska
og leitt að sjá, mér liggur hjá
lúin ferðataska!

 

08.07.15

Eftir góðan morgunmat
margt er vert að skoða.
Á ferðum þó skal forðast pat
og að fara sér að voða.

 

Brautin er þvottabretti
svo bílinn í fyrsta gír setti.
Í Landmannalaugum
er lið samt í haugum
og smælið á hverju smetti.

 

Á fimmta tíma merkja má
að mesta gleðin þverri.
Heppinn var að hitta þá
heillakarlinn Sverri! (… Geir Ingibjartsson)

 

Með háði útúr hefðum sný
og helgimyndaklastri.
Hekla þarna hangir í
heldur ljótu mastri.

 

Er nú kominn upp í rúm,
enn þó laus við tremma,
og mér finnst það alveg too m
uch hve ræst er snemma!

 

09.07.15

Hrauneyjar – Landeyjahöfn.
Fyrir hrynjandi ágætis nöfn.
Nú verð ég að þreyja.
Til Vestmannaeyja
klýfur dallurinn dröfn.

 

Sveittur nú sit ég á dollunni,
sjálfsagt að skila út rollunni
sem át af í gær
úrbeinað lær.
Næsta mál: Móka í mollunni.

 

Efalaust oft hafið keyrt
áleiðis framhjá og heyrt
þessar hlálegu sögur
um að Hlíðin sé fögur.
Já, sölumenn engu fá eirt.

 

Um Gunnar er togað og teygt,
t.d. heyrist því fleygt
að tauma- í -skaki
hann skylli af baki
– og aumingja bóndinn sá bleikt!

 

Nú ég yrki bragarbót,
bara fyrir Magnús.
Fljótshlíðin er ekkert ljót,
akrar bleikir túns við fót
og margur þar söng- og sagnfús.

 

Við Skógafoss nú enn ég er.
Ansi fer það hratt nið-
ur. Illt að maður aldrei sér
aftur sama vatnið.

 

10.07.15

Hve fagurt í þurrki og þey!
Er því nú að heilsa? Ó nei.
Í hávaðaroki
mér er hætta á foki
ofan af Dyrhólaey.

 

11.07.15

Stundum getur vindur vægt,
nú varla hreyfast flöggin
og friðsæl um sig hefur hægt
höfug morgundöggin.

 

Á ferðalaginu þarf að fylgjast með helstu fréttum: Bjarni og Hera urðu í dag Íslandsmeistarar í 100 m. skeiði þriðja árið í röð:

Eftir þetta Íslandsmót
opin- mætti -bera
áskrift, því svo öskufljót
eru Bjarni og Hera.

 

Aftur að ferðalaginu:

Ferðamannafjöldi vex,
framtíð þannig metum:
Tölur sannar, sinnum x,
það sem við annað getum.

 

Ef stuðlar ei v með v-i
í vandræðum lendir og straffi.
En burtséð frá því
mun ég borða á ný
silung á Systrakaffi.

 

12.07.15

Á Íslandi vítt er til veggja
og vandalaust farið bil beggja.
En á ákveðnum stöðum
þarf að standa í röðum
og bílnum ólöglega leggja.

 

Ísland, það er ofursvalt,
með asfalti, hrauni, melum.
Gestir vorir á það allt
ota myndavélum.

 

Þar híma allar rúturnar í röðum
með rassinn uppí haugablautan vindinn.
Þær vildu gjarnan ver’ á öðrum stöðum,
verkjar sárt í dekk og stíf er grindin.
Svo situr bílstjórinn og flettir blöðum,
bölvaður, og þykist vera fyndinn!

 

Afmælisdagur dótturdóttur:

Hefur tóna hreina,
hjarta úr gulli skartar.
Gefur ömmu og afa
undur góðar stundir.
Stálpast hefur stelpan,
sterk í hverju verki.
Orðin sextán ára,
asi er þetta, Jasmín!

 

13.07.15

Góðan daginn, göngum að
grænni meri, reistri.
Í bleytu leggjum brátt af stað
til Borgarfjarðar eystri.

 

Í ferðabæklingsauglýsingum
er eins og sérhver fjörður logi
en veruleik ei læðumst kringum
í leiðu veðri’ á Djúpavogi!

 

Víða fegurð ljóðræn lifir,
landið faðminn býður.
Nú fara viljum Öxi yfir,
undir leggjast síður.

 

Fossar margir fagrir hér
freyða um klappir harðar.
Ágætlega af Öxi sér
ofan til Berufjarðar.

 

Víða á mínum ferðum fer,
og á fjasbók vísum læði.
En það sem aðeins óska mér
er íslenskt sjoppufæði.

 

Tileinkað Eygló Eiðsdóttur, í sudda og þoku á Borgarfirði eystri:

Heimamönnum legg nú lið,
lands að auka virði.
Sjáið bara útsýnið
austur á Borgarfirði!

 

Enn frá Borgarfirði:

Er mig að dreyma eitthvert rugl,
í andagt við Kjarvals hné?
Í litadýrðinni liggur fugl
og lætur sem ekkert sé!

 

14.07.15

Við Jökulsá á Fjöllum. Dettifoss og Selfoss skoðaðir:

Dettinn ertu Dettifoss,
dettur um máða steina.
Það er margt sem þjakar oss,
þú veist hvað èg meina.

 

Skapari góður! Ei skelf oss!
Sko! Þarna settirðu fagn inn!
Sjáiði, þetta er Selfoss!
En shit! Hvar er Pylsuvagninn?

 

Komið í Sænautasel. Sauðféð bítur þekjuna:

Margt skrýtið til skoðunar vel,
mig skúbba samt þessu ég tel.
Að Hrúturinn Hreinn
fari hringveginn einn
og hvílist við Sænautasel!

 

Þó að virðist spaug og spé
má spyrja, í því skyni
að vita hvort þessi sauður sé
af séraguðmundarkyni?

 

Að annars ráðum aldrei fer,
ein skal heldur dúsa
til efsta dags, og þæfast þver
á þekju Sumarhúsa.

 

Andar dagsins önn á ný
frá öðru tímaskeiði.
Saga landsins lifir í
litlum bæ í heiði.

 

15.07.15

Farið um Mývatnssveit og til Húsavíkur í dag:

Gjóskuauðn og gullið traf,
gleði, sorgir.
Drottinn tók, og drottin gaf
Dimmuborgir.

 

Á Hverfjalli þurfa menn ekki að kvíða
þeim kæfandi gróðri sem dreifir sér víða
og geta því skefjalaust skrefað upp sandinn,
og skeiðað svo niður, það minnstur er vandinn.
Ó, hó, laus er nú fjandinn!

 

Ferðamenn höfðu tjaldað á hrauninu við Grjótagjá:

Innsýn veitir gjáin grjóts
í glettur fyrri alda.
Á barmi þessa brunafljóts
er býsna gott að tjalda.

 

Túrað í kulda og trekki
en tanað í sólskini ekki.
Ferðin því varð hröð
í funandi jarðböð.
Þannig ég landið mitt þekki.

 

Umhyggjan engu lík,
í anda og hjarta rík.
Sit ég og tsjilla
hjá Systu og Villa
í heimsókn á Húsavík.

 

16.07.15

Ekið á einum degi frá Mývatni að Ósum á Vatnsnesi:

Áfram veginn kátur keyri,
í kvöld er stefnt til Ósa.
Nenni’ ei að kveða’ um Akureyri,
óver- fer að -dósa.

 

Glæðum lífi gamlan tíma
í Glaumbæ, Skagafirði.
Kveðum enn. Sú kúnst að ríma
er kannski einhvers virði?

 

Glímdi við malbik og möl í dag,
frá Mývatni vestur að Ósum,
og reyni nú saman að berja brag
en býst ekki við neinum rósum.

 

Útsýnið frá Ósum: Hliðið á girðingunni í forgrunni vakti athygli:

Augum renni
yfir sviðið.
Fyrst þá kenni
að flott er hliðið.

 

17.07.15

Gist í gömlu timburhúsi á Ósum:

Um gólfborð núna gengið er,
gnestur í hverju tré.
Á því, vil ég óska mér,
að aldrei verði hlé.

 

Eflaust gæti einhver hér
oní gryfju fallið.
Myndir tvær en á þeim er
eitt og sama fjallið.

 

18.07.15

Daglega ég deili hér
dýrum vísum, smellnum.
Eitthvað nú mér aftur fer,
orðlaus verð á Hellnum.

 

Hún Margrét varð 13 ára í gær:

Í foreldranna ættarmót
allt það besta sóttir.
Mikil fyrirmyndarsnót,
Margrét Stefánsdóttir.

 

19.07.15

Kominn heim eftir hálfs mánaðar ferðalag:

Héðan ég í friði fer
því frúin nú upp sló
humarveislu handa mér
og hafði meir en nóg.

 

Þú ert óstöðvandi, hvað er í morgunmatnum hjá þér, spurði Anna Lína frænka mín:

Alltaf sami morgunmatur,
málið snýst um annað:
Vakna seint og vera latur,
vísur þá get hannað.

 

22.07.15

Ók Önnu Maríiu og systrum hennar tveimur að Króki í Grafningi:

Um tíuleytið lagt af stað
í Laugaskarð, frá Króki.
Systur þetta ætla að
ana, í flugnamóki!

 

25.07.15

Fórum í dag vestur í Borgarns að heimsækja Gunnar Sigurjónsson skólabróður minn og Guðrúnu Hilmisdóttur konu hans, kæra vini okkar:

Gamlirauður reyndar er
af ryði nokkuð lúinn
en um landið okkur ber
-aftur og nýbúinn!

 

Og svo var áð í Borgarnesi:

Lífið ei lukkuna sparði
er laugardeginum varði
með Guðrúnu’ og Gunna.
Glampandi sunna
og skjól í Skallagrímsgarði.

 

18.08.15

Glæsikosta tekinn til
á tölti, skeiði, brokki.
Geði Bjarna gefur yl
gæðingurinn Hnokki.

 

29.08.15

Laugardagur. Úti er
eitthvað hægt að bauka.
Glóir sól og gefur mér
góðan sumarauka.

 

19.09.15

Nú er úti veður vott,
varla stætt í hviðum,
sem mér þykir þvílíkt gott,
það er allt sem bið um.

 

27.09.15

Þó veður núna víst sé þurrt
sér vindur Kári í skjólin.
Piltur sá með pí og kurt
prófar vetrartólin.

 

03.10.15

Alltaf finnst mér yndislegt
einn að bíða’ í flugstöð.
Betra aðeins áður þekkt
aftastur í slugsröð.

 

25.10.15

Laufin falla gul af grein,
glóey varla hjarir.
Vetur kallar, kyssa stein
kaldar mjallarvarir.

 

28.10.15

Ef vetrarmyrkur, rok og regn
reynir styrkinn á,
vísu yrkið grýlu gegn,
gleði virkið þá.

 

08.11.15

Tíminn strýkur um strengi,
styrkum höndum – og lengi
órar mann síst
það eitt sem er víst:
Valt er veraldar gengi.

 

09.11.15

Heillaráð andskotans:

Ef að hrjáir manninn kynleg kvöl og pína,
kannsk’ ‘ann bara þurfi’ á hjálp að halda,
þá er best að einkavæða ömmu sína,
annars hún mun markaðstjóni valda.

 

10.11.15

Sá ég heiðan sumardag á fjöllum,
sælureit, og gnægtir handa öllum.
Það er gott í þankaórum dreyma
þegar maður liggur veikur heima.

 

Svolítil vísnagáta í kjölfar blaðalesturs:

,,Lífið gaf mér Luca og Cal“,
lítill svanaungi kvakar.
,,Í englasveit ég una skal,
og ekki ríkidæmi sakar“.

 

17.11.15

Eitthvað er nú skrýtið að ske,
í skyndi held mig leggi!
Pönnukökur og plokkfisk sé
prýða Hvíta veggi!

 

19.11.15

Hekla er alveg hulin mjöll,
hásætið skipar með sóma
í roða úr austri, og Eyjafjöll
aldeilis fögur ljóma.

 

26.11.15

Þorbjörg systir mín er sextug í dag:

Var skammaður, kjassaður, kysstur,
já, kærleikur innstur og ystur.
Þett‘ er öryggisnetið
og aldrei fullmetið
að eiga svo ágæta systur.

 

30.11.15

Fagurt nú til fjalls að líta,
fannaslæðu jörð er klædd.
Frost í kinnar finn ég bíta,
funa heitum sálin glædd.

 

Smá pólitík inn á milli:

Vigdís bæði vinsæl, góð og skýr
og veit sko alveg hvað hún syngur.
Páll á móti virðist vansæll fýr
og voðalegur þurfalingur.

 

Aftur að veðri og nátúru:

Mjúk nú fellur mjöllin,
myndar birtusindur.
Himinn sortnar, heimi
hverfa rósaljósin.
Fagnar lýður logni,
létt er fönn og glettin.
Ef upp með roki rýkur
ratar enginn um vengi.

 

01.12.15

Mikið gekk á í fjölmiðlum í viðvörunum vegna yfirvofandi veðurofsa:

Barma eymingjarnir sér,
undir sængur skríða.
Þetta fræga illviðr’ er
allra mesta blíða.

 

Vetrarríki:

Vetur kreppir kló.
Krafsa hross í mó.
Mér er um og ó.
Allt á kafi’ í snjó.

 

Stjórnmálamaður taldi erlenda sérfræðinga sem bentu á ískyggilegar horfur í efnahagsmálum Íslendinga þurfa á endurmenntun að halda:

Komin hringinn, hér um bil,
heimsbyggð núna aftur kennt mun
sérfræðinga að siða til
og senda þá í endurmenntun.

 

Þessi í Erfðagreiningu situr ekki alltaf á friðarstóli:

Til eilífðar skemmtir með skvaldri
skrattanum. Ritar með galdri
svartagallsletur:
„Setjið á vetur
karl á áttræðisaldri“.

 

07.12.15

Enn er varað við stórviðrum og fólk beðið að halda sig innan dyra. Síðan hreyfir varla vind:

Eg hef fengið upp í kok
af öllu þessu floppi.
Hvar er þetta rosa rok?
Rétt að kasti toppi!

 

Gegnum mókið greini klið,
glym af máli hröðu.
Daglangt hermir útvarpið:
,,allir í viðbragðsstöðu.“

 

Uppnám þetta alveg skil,
augnabrúna- margir -krepptir,
því víða standa vonir til
að veðurspáin gangi eftir.

 

Er landið siglir hallt á hlið
við hættustig mig flokka
því kökuboxin kúri við.
Konan prjónar sokka.

 

Inni er gott að geta kúrt
er gustar vel á Fróni
en þó bragðið afar súrt
af öllu þessu tjóni.

 

23.12.15

UNICEF á Íslandi var með auglýsingaherferð í sjónvarpi um sín góðu málefni, því miður í „bundnu“ máli. „Vísurnar eru svo hræðilegar að þær eru eiginlega fyndnar, lesnar með svona yfirmáta hátíðlegum brag“, skrifaði Fjasbókarvinur:

Íslensk ljóð, hin æðstu stef
áttu, hvert sem ferð.
En hleypið aldrei unicef
aftur í vísnagerð.

 

29.12.15

Virðist mér veröldin dormi
vær, bæði’ í efni og formi.
Kann líka ske
kyrrðin að sé
stilla á undan stormi?

 

Járnaði tvö og settist í hnakkinn.

Hrossin veita hjarta yl,
hitta veika blettinn.
Hlakka alltaf tölvert til
að taka skeifnasprettinn.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *