Málefni Vísindasjóðs FF/FS

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara föstudaginn 12. apríl sl. gerðu fulltrúar FF í stjórn Vísindasjóðs FF/FS grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins. Endurskoðandi sjóðsins kynnti ársreikning 2012. Fram kom að þrátt fyrir töluverðan lögfræðikostnað á árinu og ýmsan stofnkostnað vegna flutnings sjóðsins út úr Kennarahúsi, er rekstrarkostnaðurinn síst hærri en þegar sjóðurinn var rekinn í samstarfi með öðrum sjóðum og skrifstofu KÍ. Það liggur því fyrir að Vísindasjóður mun spara fé með því að starfa og leigja eigin aðstöðu utan Kennarahúss.

Eins og fram hefur komið er ekki hægt að ganga frá ársreikningi Vísindasjóðs 2011, án fyrirvara og athugasemda endurskoðanda, vegna þess að nauðsynleg gögn liggja ekki fyrir; sjóðurinn hefur ekki fengið þau afhent hjá skrifstofu KÍ, þrátt fyrir ítrekaða eftirgangsmuni.

Að lokinni kynningu endurskoðanda á reikningum gerði lögmaður Vísindasjóðs grein fyrir niðurstöðu héraðsdóms vegna innsetningarkröfu sjóðsins út af þessu máli. Niðurstaða héraðsdóms var að hafna kröfu Vísindasjóðs.

Formaður sjóðsstjórnar, Þórey Hilmarsdóttir, reifaði málið lauslega og vitnaði í útsend bréf og skýrslur sjóðsstjórnar, sem hafa reglulega verið verið send öllum sjóðfélögum til upplýsingar um framvindu mála. Þórey svaraði og nokkrum fyrirspurnum frá fundarmönnum um einstök atriði í ársreikningi.

Skrifstofustjóri KÍ tók til máls og ræddi samskipti skrifstofu KÍ við sjóðsstjórnina. Hann kom nokkuð inn á það hver hefði óskað eftir fundi með hverjum, og hvenær, og bar af sér sakir um óheilindi eða að verið væri að fela eitthvað í reikningunum. Undir slíkum ásökunum hefði verið erfiðast að sitja. Hann sagði að umræddur BIK-reikningur KÍ, sem m.a. fjármunir Vísindasjóðs hefðu verið færðir á, væri í varðveislu Íslandsbanka og stjórn Vísindasjóðs fengi ekki aðgang að honum þar, vegna trúnaðarskyldu bankans. Meira að segja fengi starfsfólk á skrifstofu KÍ ekki aðgang að þessum reikningi.

Skrifstofustjórinn sagði einnig að ef hann væri að hefja þetta ferli (samskiptin við Vísindasjóð vegna krafna sjóðsins um aðgang að bókhaldsgögnum) nú upp á nýtt myndi hann vissulega gera margt öðruvísi en hann hefði gert. Ekki kom nánar fram í máli hans hvað hann hefði gert öðruvísi, né hvers vegna. Undirritaður gat þó ekki skilið þetta öðruvísi en svo að um væri að ræða viðurkenningu á því að framkoma skrifstofu KÍ gagnvart stjórn Vísindasjóðs hefði ekki verið eins og hún helst hefði átt að vera. Dýpri skilning var ekki hægt að leggja í orð hans, ekki var t.d. um að ræða ótvíræða afsökunarbeiðni, eða viðurkenningu á ámælisverðri framkomu.

Það athyglisverðasta í máli skrifstofustjórans, að mati undirritaðs, var tvímælalaust yfirlýsing þess efnis að hann hefði aldrei fyrr, í öllum samskiptum sínum við stjórnir allra þeirra sjóða sem starfa undir hatti KÍ, kynnst neinni kjörinni stjórn sem væri jafn áhugasöm og nákvæm í störfum sínum. Jafnan hefðu sjóðsstjórnir sýnt takmarkaðan áhuga á umsýslu eða málefnum sjóðanna og því hefði sú venja skapast að hann sæi sjálfur um málin, tæki ákvarðanir og hefði rekstur þeirra einn á sinni könnu.

Undirritaður skilur þetta svo að þegar allt í einu var komin stjórn í Vísindasjóði sem vann vinnuna sína og var ljós eigin ábyrgð, fór að spyrja spurninga og krefjast svara, þá brást skrifstofustjórinn stirðlega við, enda miklu þægilegra fyrir hann að gera þetta sjálfur að gömlum vana, heldur en að vera að tína til gögn og svara einhverjum spurningum „þriggja móðgaðra kvenna“, eins og einum sjóðfélaga finnst hæfa að kalla sjóðsstjórnina.

Linda Rós Michaelsdóttir, einn þriggja stjórnarmanna í Vísindasjóði, tók til máls og lýsti upplifun sinni af því að þurfa að sitja undir vantraustsbókun stjórnar KÍ á störf sín og stjórnar Vísindasjóðs. Hún hefði aldrei lent í því, hvorki fyrr né síðar að efast væri um heilindi sín. Formaður FF stóð upp og sagði að hún hefði hringt í þær allar í stjórn Vísindasjóðs og beðist afsökunar á því að hafa samþykkt vantraustsbókunina, sem hún hefði gert „undir gríðarlegum þýstingi“. Ekki kom fram í máli formanns FF frá hverjum sá þrýstingur kom eða nákvæmlega hvers eðlis hann var. Linda sagði að eðlilegt hefði verið að sú afsökunarbeiðni hefði birst á sama stað og vantraustið, á heimasíðu KÍ.

Þá upplýsti Linda Rós fundarmenn um það að þegar stjórn Vísindasjóðs fór að spyrja hvers vegna KÍ tæki sér það vald að millifæra fjármuni sjóðsins fram og til baka hefðu þau svör verið gefin að um það væri samningur milli aðila. Stjórn Vísindasjóðs óskaði í kjölfarið eftir því að fá að sjá þann samning. Ekki var orðið við því, enda enginn slíkur samningur til, heldur því svarað að gerður hefði verið munnlegur samningur. Linda kvaðst hafa haft samband við forvera sína og spurt þá hvort þeir hefðu gert slíkan munnlegan samning við KÍ. Viðkomandi brugðust ókvæða við spurningunni, að sögn Lindu, og spurðu á móti hvað hún héldi að þeir væru? Hvort henni dytti í hug að heiðvirt fólk gerði munnlegan samning um annað eins?

Þá stendur eftir að

    • enginn löglegur samningur er til um það að KÍ hafi haft heimild til að forfæra innistæður Vísindasjóðs út af reikningum sjóðsins og inn á reikninga KÍ, og hirða þar með vaxtatekjur sem sjóðurinn á. Er það ásættanlegt?
    • stjórn Vísindasjóðs ber ein ábyrgð á fjárreiðum sjóðsins og fær reikninga hans ekki endurskoðaða nema með fyrirvara meðan bókhaldsgögn vantar. Er það ásættanlegt?
    • skrifstofustjóri KÍ viðurkennir að hann hefði, í ljósi reynslunnar, gert margt öðruvísi en hann gerði, ef þetta mál væri að koma upp nú. Enn er tækifæri til að biðjast afsökunar.
    • skrifstofustjóri KÍ hefur aldrei á sínum starfsferli hjá sambandinu kynnst jafn áhugasamri, ábyrgri og nákvæmri stjórn í nokkrum sjóði innan vébanda KÍ eins og núverandi stjórn Vísindasjóðs FF/FS. Starfsmenn KÍ: Takið sjóðsstjórnina til fyrirmyndar.
    • stjórn KÍ, þar með talinn formaður FF, bókaði opinberlega vantraust á þessa áhugasömu, ábyrgu og nákvæmu stjórn Vísindasjóðs á fundi 25. mars 2011. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ „harmar þá gagnrýni á vinnubrögð stjórnar Vísindasjóðs“ á fundi 14. október 2011 og biður „velvirðingar á henni“ en hefur hvorki beðist afsökunar á frumhlaupi sínu, né dregið vantraustsbókun sína formlega til baka. Er það ásættanlegt?
    • stjórn KÍ hefur ekki gefið neinar skýringar á því hvað við vinnubrögð sjóðsstjórnar hún taldi svo ámælisvert að verðskuldaði opinbert vantraust, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Er það ásættanlegt?
    • formaður FF segist hafa í einkasamtölum beðið stjórn Vísindasjóðs afsökunar á þætti sínum í málinu, en hefur ekki gert það með formlegum hætti opinberlega. Er það ásættanlegt?
    • rekstrarkostnaður Vísindasjóðs er lægri á eigin skrifstofu úti í bæ heldur en í samrekstri og samnýtingu starfsfólks í Kennarahúsinu. Er það ásættanleg niðurstaða fyrir skrifstofu KÍ?
    • stjórn Vísindasjóðs hefur sjálf unnið ómælda, í raun ótrúlega vinnu, við að halda sjóðnum gangandi og tryggja sjóðfélögum réttindi sín og óheftar greiðslur. Takk fyrir það.
    • þau vandkvæði sem upp hafa komið skýrast af ófullkomnu tölvukerfi, sem ræður ekki við það sem það á að gera. Unnið er að lagfæringum á kerfinu, en fyrir vikið hefur stjórn sjóðsins þurft að handvinna úr styrkumsóknum félagsmanna. Takk fyrir það.

Í þessu ljósi er það bæði ljúft og skylt, nú sem fyrr, að lýsa yfir óskoruðu trausti á stjórn Vísindasjóðs FF/FS og fullum stuðningi við hana í þessu máli til loka.

Selfossi, síðasta vetrardag 2013.
Gylfi Þorkelsson,
formaður Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *