Lífs míns á vegi

Í dag eru 30 ár frá því ég hitti konuna mína fyrst. Ég var tæpra 22 ára gamall þennan apríldag þess dásamlega vors árið 1983, ekkert annað en unglingsgrey sem lítið vissi um það sem máli skiptir í lífsbaráttunni, þó ég þættist náttúrulega hafa svör á reiðum höndum við flestu, eins og gengur.

Þetta var sem sagt vorið þegar útskriftin úr Kennó var á næsta leiti og býsna margt að gerast – allt skemmtilegt. Við kynntumst fyrir algera tilviljun, í gegnum sameiginlega vini, á skemmtistað í Reykjavík sem þá var í móð og hét Hollywood. Við vorum samt alveg ábyggilega bæði ‘úr móð’ þarna inni, innan um diskóliðið. Vonandi bæði hallærisleg og sveitó í þeim samanburði. En náðum svona ljómandi vel saman, eitthvað.

Þeir sem þekkja Önnu Maríu vita hve yndisleg hún er í alla staði, svo ég þarf ekkert að útmála það hér, hún lýsir sér best sjálf. En í tilefni dagsins birti ég hér afmæliskvæði sem ég orti einu sinni til hennar:

Ástin mín

Lífs míns á vegi,
vakir enn minningin
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.

Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.

Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá  skil – þar duga skammt
skilningarvitin.

Dásemdir hreinar:
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *