Úr dagbókinni 2019

Úr dagbókinn 2019. Safnið telur 175 vísur:

04.01.19

Hvað boðar gleði gamlárskvölds?
Gæfu og lífsfylli?
Já, alltaf þegar arfa og hölds
ekkert kemst í milli.

07.01.18

Það er kominn tími til
að taka niður skrautið.
Um hjalla, sléttur, hæðir, gil
hefst nú daglegt stautið.

Þegar kaldur kreppir skór
og kyndir illa mórinn
hjálpar oss, í anda frjór,
orkumálastjórinn.

09.01.19

Miðflokkurinn þjófstartaði á Klausturbar árlegum Bessastaðafagnaði forseta lýðveldisins fyrir Alþingi:

Þeir eltu hann á tveggja hjóla hreinum
þó heldur mikið ískraði í bremsum
en Sigmundur, hann sat á kolli einum,
og sá ei fyrir leynimakk með gemsum.

Á hreinum kostum félagarnir fóru,
í fjöru sælands þótti gott til veiðar.
Upp á klakkinn hengdu litla hóru
sem heldur þótti vera treg til reiðar.

Nú velti sér að urta illa þokkuð,
með ógnarskrækjum, sem í hlustir stungu.
Af drukk úr kerjum víðum var ei nokkuð
velfært, utan karpið meins af tungu.

Svo kom að því að yfir brögnum birti,
bakfalla og hláturrokusnerra
er dró til stól, og öðrum fastar yrti
utanríkismálasendiherra.

Þá var eins og blessuð skepnan skildi,
skjallið allt, og þrútið höfuð reisti.
Á Klausturbarnum var það mesta mildi
að Miðflokkurinn sjálfur upp sig leysti.

20.01.19

Hvorki dugar vol né víl
þó vetur ríði í garð
og hvergi sjái í dökkan díl
nema dálítið lambasparð.

21.01.19

Starfsmaður krafðist þess að málverk Gunnlaugs Blöndal af nakinni konu yrði fjarlægt af veggjum Seðlabankans:

Berandi brjóstin þær grafa
bannhelgi feðranna. Krafa
um líkamlegt frelsi.
En er listin í helsi,
fyrst nekt má þar helst ekki hafa?

22.01.19

Nú er frost á Fróni,
sem fanna klæðist serk.
Sígur senn að nóni,
svalans tökin sterk.

23.01.19

Það var ekki verið að spyrja fólk um afstöðu þess til útfærslna. Aðeins hvort fólk væri hlynnt eða andvígt veggjöldum.

Í vegagerð virðið ei lagði,
þar virðist allt reiknað skakkt,
um veggjöldin þingheimur þagði
í þvældri kosningadragt.
Á snöggu augabragði
álit nú fram hefur lagt
einhver sem áður sagði:
„Ekki á minni vakt“.

30.01.19

Allt að gerast í höfuðborginni:

Í Reykjavík eru Klausturkráin
og kaupaukans helgu vé.
Ó, borg mín, þar sem blessuð stráin
breytast í pálmatré.

01.02.19

Ragnar og Bryndís eiguðust son í dag. Hann er níunda undur veraldar – níunda barnabarnið:

Í hendur okkar lífið lagði rós,
ljúfur ómar hjartastrengur.
Í morgun fyrsta dagsins leit nú ljós
lítill, undurfagur drengur.

03.02.19

Mér ungum þótti allra best
og ennþá gleði veitir
að teygja vakran viljahest
vítt um fagrar sveitir.

04.02.19

Andlitshreina eygja má
upp á steini karla.
Jeminn eini, JBH
jörðu greinir varla.

05.02.19

Í logni blíðan baðar tind
með blautum himnasvampi.
Þegar leysir ljúfan vind,
logar þerrilampi.

06.02.19

Formaður Miðflokksins hafði sínar skýringar á Báru með upptökutækið:

Bára hefur botni náð,
beiskur eitursveppur,
illum svikahröppum háð,
harðsvíraður leppur.

Leikur þeirra laumuspil
og lævíst njósnakerfi,
að sýnast erlend. Um það bil
öruggt dulargervi.

07.02.19

Við það yndi að þó dyndi
og yfir hryndi þil.
Aftur myndi upp í skyndi,
ekkert fyndi til.

14.02.19

Að ‘drepi mann of mikill asinn’
er aðal nútímafrasinn.
Til að sporna við því
spái ég í
að liggja í bælinu, lasinn.

Nú er það náðugt hjá blókinni,
nýtur sín alveg á brókinni,
kannski svolítið spes
en af spenningi les
í Íslensku orðsifjabókinni.

Er það ekki aðalaðferðafræðin að gefa erlendum auðhringjum afslátt af öllu mögulegu hérlendis, í nafni atvinnuuppbyggingar og gott ef ekki byggðastefnu? Milljarðahundruð streyma nánast skattfrjáls úr landi fyrir nokkur störf. Og mengun. Nú eru það íslensku firðirnir sem gefa á norskum laxeldisauðhringjum:

Sannleikur helvíti harður!
Vor náttúruauðlindaarður
er útvöldum fáum
leikur að stráum
en vor skrælingjahlutur er skarður.

23.02.19

Ólafur Ís. og Karl Gauti gengu (loksins) í Miðflokkinn:

Af bullubulli ríkir.
Við blinda augað kíkir.
Ganga í takt.
Gildismat skakkt.
Sækjast sér um líkir.

24.02.19

Konudagurinn er í dag:

Karlrembuleg konudagsvísa

Á mig leikur taktfast tif,
tímann bleikan lita.
Í mér kveikir Adamsrif
ástarveikishita.

27.02.19

Miðflokks hvítu merarnar
mikið virðast lasnar.
Þessir helvítis hálfvitar
haga sér líkt og asnar.

Vigdís Hauks. var ekki alveg með það á hreinu hvort væri vinnufriður eða ekki í borgarstjórn:

Valdist í borgarstjórn versta lið
og vinnufriður því enginn
en við höfum góðan vinnufrið,
vináttu- bindum þvenginn.

12.03.19

Stórpólitísk skipan dómara í Landsrétt úrskurðuð ólögmæt af Mannréttindadómstól Evrópu. Ríkisstjórnin brest við niðurstöðunni að vonum:

Stjórnin daginn glaðan gerir sér
í geislaryki þéttu, handan tómsins.
Snýr bökum saman, enda ljóst hún er
ósammála niðurstöðu dómsins.

13.03.19

Ekkert bítur á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra, enda veit hún betur en aðrir:

Dómstóla skal vera dómframkvæmd fróm,
dómsvirðing þar á hangir.
Þann kvað upp ráðherra dómsmála dóm
að dómarnir séu rangir.

Dómsmálaráðherrann var látinn „stíga til hliðar“ tímabundið til að „skapa vinnufrið“:

Þróast margt á verri veg,
valt nú ein úr sessi.
Ruðningsáhrif alvarleg,
Ísland guð því blessi.

18.03.19

Börn fá pítsu að borða ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli“:

Vitiði, þannig er það,
þvílíkt spennandi að
fá pizzu að borða
ef frá uppreisn skal forða.
Í heiminum brotið er blað.

28.03.19

WOW fór á hausinn, sem fyrirséð var, og hófst þá upp „hjálpræðiskór“ félagsins á Netinu:

Kross- í hernum hyllir láf,
Hjálpræðis- fólk syngjandi.
Aðrir eru Vottar Wow
vinabjöllum klingjandi.

07.04.19

Litli ljúfur, yngsta barnabarnið, fékk nafnið sitt í gær. Hann heitir Hilmir Ragnarsson. Ég leyfði mér að tala til hans að lokinni athöfn, svo:

Byggir traustu bjargi á,
berð með sóma nafnið þitt.
Lífið ákaft lofa má,
lánar okkur gullið sitt.

13.04.19

Á efstu hæð hótels í Þórshöfn:

Kátur út um gónir gluggann,

gestur á sjöttu hæð.

Út siglir sálarduggan,

svona ei við mig ræð …

 

19.04.19

Rifjað var upp, í tengslum við umræður um 3. orkupakkann, að Sigm. Davíð, þá forsætisráðherra, hafði setið á tali við Cameron forsætisráðherra Englands og brallað um orkusölu gegnum sæstreng:

Sátu tveir á tali;
Tjallinn Kameron
og
Simmi orkusali.

21.04.19

Útí garði fagur fugl
fyllist innri gáska,
hið sama gamla sumarþrugl
syngur hverja páska.

25.04.19

Sumardagurinn fyrsti

Færir sumar okkur yl,
ekki regni hreytir.
Nærir sálu, trauðla til
trega stormur þreytir.

En oftar á þessi lýsing betur við:

Þreytir stormur trega til,
trauðla sálu nærir.
Hreytir regni, ekki yl
okkur sumar færir.

29.04.19

Vorið mér um vanga strauk,
vakti góðar kenndir.
Í minninganna munabauk
morgunstundin lendir.

03.05.19

Í nýjasta hefti Sónar rifjar Þórður Helgason upp þessa vísu Páls Ólafssonar, sem sögð er hafa farið á flug árið 1896:

Þegar mín er brostin brá,
búið Grím að heygja,
Þorsteinn líka fallinn frá
ferhendurnar deyja.

Þarna eru Páll sjálfur, Þorsteinn Erlingsson og annað hvort Grímur Thomsen eða Steingrímur Thorsteinsson sagðir síðustu varðmenn ferhendunnar.

Þessi visa kallaði á mikil viðbrögð næstu ár og áratugi, þar sem henni var andmælt; ferhendurnar myndu sannarlega lifa. „Yngsta afkvæmi vísunnar eftir Pál … birtist árið1998“ segir Þórður (Són, 16:2018, bls.116).

Hér kemur þá örverpi til viðbótar, í afturúrkreistingi þessum:

Ei strengur brestur stuðlamáls,
þó stefja kyrrist duna
því glæður Þorsteins, Gríms og Páls,
geyma ferhenduna.

Alltaf vorar að lokum:

Laufið springur óðum út,
ásinn glingri klæðist.
Fuglinn syngur bragarbút,
blærinn kringum læðist.

23.05.19

Leikur í stráum ljúfur blær,
logi á bláum grunni.
Björkin mín háa vaggar vær,
vakinn úr dái runni.

24.05.19

Það er bæði ljúft og skylt að þakka góðar afmæliskveðjur.

Ástar nýt, víst á ég mér
ógnarsterka keðju.
Þúsundfalt ég því vil hér
þakka vinarkveðju.

25.05.19

Eykst með aldrinum vægi
andans, og frá mér því bægi
fánýtu prjáli.
Finn hverju máli
lausnir í sólarlagi.

Mætt’ ég lífi lif’ á ný
líkast myndi breyta
mörgu. En setja aflið í
að Önnu minn’ að leita.

Þrátt fyrir ljúfar sólskinsstundir er ekki allt sem sýnist, og mörg er raunin …

Lífs í gjólu lítið skjól
logi sólar hefur.
Valds í ól hann allur kól,
einn í bóli sefur.

10.06.19

Barnabarnið okkar, Soffía Sif Árnadóttir, fermdist í Þorlákskirkju í dag. Hún fékk kveðju frá afa:

Stöðugt, eins og tímans tif,

tikkar hjólið lukku

er molum bætir Soffía Sif

í sína gullakrukku.

 

13.06.19

Forsetar á ferð við sporð Sólheimajökuls. Fylgdarlið á vappi um allar koppagrundir:

Ekkert nýtt mun undir sól,
þó undrin geymi vengið.
Það er eins og út úr hól
álfur hafi gengið.

Meðan beðið var eftir ferðamannahópnum sat ég í rútunni og náði sjálfu af mér sofandi:

Inni í bílnum alvarleg

og ágeng glóbal vorming

svo þessa vísu orti eg

algerlega dorming.

 

Fyrirsögn af RÚV.IS:

Refsivert að bjarga fólki af Miðjarðarhafi“

Ítalirnir út úr kú

inn’í sínum þrönga hólki.

Raunalegt ef reynist nú

refsivert að bjarga fólki.

 

16.06.19

Lúsmý olli skaða víða, ekki síst í sumarbústaðalöndum:

Allsbert fólk í erg og gríð

úti, í sumarfríi.

Yndisstundir, ár og síð,

á með lúsamýi.

 

20.06.09

Ástandslýsing:

Blýþungt lognið úti er,

óttublærinn feigur.

Inni þögnin eyrun sker.

Eg er hvergi deigur.

 

30.06.19

Veðurlýsing:

Gott er veður, gósentíð,
gleði má ei dylja.
Golan við mig gælir blíð,
geislar sólar ylja.

03.07.19

Barst hjartnæmt bréf, frá Elizabetu vinkonu minni, og komst við að lesa um föður hennar, „áður en hann var ótímabær“ og „áður en hann gaf upp drauginn“. Það er reyndar umhugsunarvert að hann skyldi gefa upp drauginn, og varpar nokkrum skugga á minninguna. Því draugar eiga allt undir dul sinni og uppgefinn draugur er því eins berskjaldaður og keisarinn nakinn … En takk fyrir bréfið, kæra Elizabeth …

Hversdagslífið lofs er vert,
lukku- sterk er taugin,
en það er spurning, þá fer hvert
þegar gef upp drauginn?

08.07.19

Heilræðavísa:

Ef setur þig háan á hest,
hafandi mikið, þarft mest!
þá átta- ert villtur,
alveg gjörspilltur.
En batnandi manni er best.

Stjórnmálaskörungur“ dagsins …

Talfærið ljómandi liðugt
við loforðin, jafnvel er sniðugt
hve margt frá í gær
nýja merkingu fær.
Og sumum finnst þetta siðugt!

Vísnagerðin …

Vísnagerð lokkar mig löngum
og ég laumast í slíkt eftir föngum.
Reyn’ að hitta í liðinn,
finna ljóðstafakliðinn,
en allt er þó tekið með töngum.

14.07.19

Framkvæmdaveður“ í júlí:

Mínúturnar safnast saman,
senn því kemst í feitt.
Hef af bæði gagn og gaman
að gera ekki neitt.

Það þótti, í gær, fyrir gróðurinn,
gott ef ‘ann væta myndi.
Nú er af mesti móðurinn,
útaf mannskaða regni og vindi.

14.08.19

Afmælisdagur eiginkonunnar:

Öðrum konum af hún ber,
ég allt á henni’ að þakka.
Til fleiri ára í för með þér
feikna mikið hlakka.

15.08.19

Við margt er að glíma:

Ef kreist fram gæti Kvasisblóð
og kynt upp á mig trúna,
mynd’ ég snöggvast yrkja óð,
ódauðlegan, núna.

16.09.19

Gleðistefin geyma skalt,
sem gull í hnefa þínum,
þó gengi bréfa gerist valt
í gömlum sefaskrínum.

17.08.19

Hinsegin dagar …

Fjölbreytninni fögnum við,
í friði hver má sýsla.
Ganga saman, hlið við hlið,
hundur, köttur, mýsla.

22.08.19

Mikil umræða var um ofurlaun sveitarstjóra á Íslandi, ekki síst í örsamfélögum, þar sem yfirmennirnir slógu út borgarstjórann í Reykjavík, New York og fleiri stórborgum úti í heimi, ásamt æðstu embætismönnum ríkisins:

Hvergi hefur fundist fé
til fátækra í raunum
því tryggja ber að sómi sé
að sveitarstjóralaunum.

Trump ætlaði að kaupa Grænland, rétt sisvona í gegnum Twitter:

The future there will be just fine and
our freedom and greatness will shine grand
for the right fee.
Folks, you’ll see!“
En það gefur á bátinn við Grænland.

23.08.19

Forsætisráðherrann vildi þegar allt kom til alls gjarnan hitta Mike Pence:

Áður talið ekki sjens
að ‘ún fólann hitti
en föl er núna fyrir pence,
fyrir neðan mitti.

25.08.19

Fyrsta haustlægðin kynnti sig í spákortum veðurfræðinga:

Sumars lending síst er mjúk,
með snerru kemur haust.
Skella mun á feikna fjúk
fyrirvaralaust.

Í garðinum drekkur gróður af stút
með góðri iðsvörun
og limgerðið græn’ hefur gefið út
gula viðvörun.

Fjöldi fólks hellir úr koppum sínum í Málvöndunarþættinum á Fjasbók:

Málvöndun er mikið hér af mörgum stunduð.
Oft er hún þó illa grunduð.

26.08.19

Allt ætlaði að verða vitlaust þegar borgarfulltrúi tjáði þá skoðun sína að minnka ætti kjötframboð í mötuneytum skólanna, jafnvel að útiloka það alveg:

Það á að gefa börnum brauð,
blómkál, skyr og rjóma,
fisk og ávöxt, feitan sauð
svo fullorðnist með sóma.

28.08.19

Þingið kom saman í dag eftir sumarfrí:

Þýtur í runni, þrútið loft.
Það er ekki lengur gaman.
Þyngsli í höfði, þreyttur oft.
Þingið aftur komið saman.

Sigmundur Davíð gerði enn einu sinni í buxurnar með yfirlýsingum sem stönguðust með öllu á við gjörðir hans í forsætisráðherratíð sinni:

Í andlegum fangbrögðum flæ drenginn,
fíflið hann Cameron blekki.
Ég samþykkti’ að leggja sæstrenginn
til að sýna það hentaði ekki“.

Svo kom hann í beina útsendingu að ráðleggja Bretum í Brexitmálum:

Um brexit veitti Bretum ráð:
Í beinni útsendingu
strunsið út og þæfið þráð
í þykka hrútskýringu.

Dagurinn endaði þó vel:

Finn draumaheima þýðan þyt
þelið sætta.
Með gleði í hjarta geng á vit
góðra vætta.

29.08.19

Mannskepnunnar margt er böl,
Mammonsþræll í festi,
stutt í öfga, freistniföl,
með fordóma og lesti.

12.09.19

Lagðist undir hnífinn og fékk viðgerð á hné:

Nýtt á fótinn fékk ég hné,
fyrir þetta gamla.
Ætlast til þess, eftir hlé,
mér ekkert muni hamla.

Þessi lýsing getur átt við ýmsan nú á dögum:

Vitnar mest í sjálfan sig,
svindilbrask og lygi,
orðflóð hefst á hættustig,
sem hundruð belja mígi.

Eitt helsta áhugamál íhaldsins í áratugi er orðið að sérstöku baráttumáli Framsóknar og Vinstri grænna:

Framsókn ávallt félagsvæn,
sér finnur hirslur digrar,
og veggjöld orðin vinstri græn,
vinnast nýir sigrar.

Í lok dags á spítalanum:

Við yndisstundum ekki býst,
í alvöru og djóki,
því sofna núna verð ég víst
í verkjatöflumóki.

13.09.19

Og dagurinn er tekinn snemma á Landspítalanum:

Upp er vakinn, árla mjög,
aðeins til að pissa.
Við það ætt’ að varða lög
og vera talin skyssa.

Endurvinnslur eru vinsælar meðal vísnagerðarmanna:

Ef ég væri orðinn lítil fluga,
ég eflaust myndi kitla nefið þitt
en flugnaspaði myndi mig á duga
að merj’ í eina klessu, holy shit!

Þó ég ei til annars mætti duga
ég inn um gluggann þreytti flugið mitt
því regnið mér er allra efst í huga
en ekk’ að kitla nef og gera hitt.

Margir hafa það verra en ég“ …

Létt er mér, þó strítt sé starf,
að staulast um á hækjum
því saklaus lýður leysa þarf
úr lífsins verri flækjum.

14.09.19

Halldór birti fjári góða teikningu í Fréttablaðinu í dag. Vísan lýsir myndinni:

Gulrótin sem glópaagn
er gömul, bitur saga
og yfirfullur aðals-vagn
sem öryrkjarnir draga.

Fjasbók er yfirfull af gangna- og réttamyndum þessa dagana. Töluveðrur lægðagangur hefur sett mark sitt á smalamennskur:

Á Suðurlandi sjaldgæft er ‘ann rigni,
að sjáist eitthvert fólk í réttunum,
á hæstu tónum tenórar þar digni,
og troði Magnús Hlynur upp í fréttunum.

Allvel Kára kynnumst vér,
kúgast, fretar, hóstar,
hnerrar, skyrpir, snýtir sér,
og sjálfu á Fjasbók póstar.

Meira í endurvinnsluna:

Afi minn fór á’onum Rauð
í iðjuleys’ á bæi.
Svon’ er að vanta veraldarauð
og vera mikill gæi.

16.09.19

Stjörnuglópar telja sig hafa fundið nýja reikistjörnu, með vatni og þar með hugsanlega lífi. Fyrir meira en fjórum áratugum lá það fyrir og tilkynnt okkur menntskælingum hvar vitsmunalíf væri að finna í algeimi, utan Jarðar. Stjörnuspámenn nútímans vaða því í villu og svíma með sín nýjustu útspil.

Þann stjörnuglóp ei trúverðugan tel
sem trúir því er nýjast var að ske.
Í næstu framtíð förum við til El
en fráleitt K2 18 B.

17.09.19

Enn er endurunnið:

Afi minn fór á’onum Rauð
utan við tún og bæi.
Varast gæti villunauð
ef veröldina sæi.

Haustvísur eru árlegur faraldur

Ort ég mikið hef um haust,
himinbogans dætur,
hrímað birki, blaðalaust,
bikasvartar nætur.

19.09.19

Hið innra veðurlag er sígilt yrkisefni:

Svo glæður tímans gefi þér
góðan yl í sálu
þarf að treysta sjálfum sér
á svelli lífsins hálu.

Bergþór Ólason „Klausturmúnkur“ var kosinn formaður með 2 atkvæðum á fundi umhverfisnefndar. Af því verður að draga eftirfarandi ályktun:

Nefndarstarfið gekk í gær
glatt, að Bergþórs vonum:
Mátað hafa tíkur tvær
t
ittlinginn á honum.

Hugleiðingar um lífið og tilveruna:

Ei er sjálfsögð sálarheill
né sómastand á kroppnum.
Hætt er við að finnist feill
í fótum, búk og toppnum.

Margt býr göfugt myrkri í,
munúð sælla drauma,
frjóvgun morguns, fæðing ný,
flæði orkustrauma.

20.09.19

Ríkislögmaður hafnar, fyrir hönd forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar, öllum kröfum Guðjóns Skarphéðinssonar um skaðabætur í makalausri greinargerð sem hann lagði fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Kemur það eins og köld vatnsgusa, eftir sýknudóma í Hæstarétti og afsökunarbeiðni forsætisráðherra fyrir ári síðan:

Hjá ómerkingum æran fer,
útlegð vís í heiðni,
ef merkingarlaus með öllu er
afsökunarbeiðni.

21.09.19

Ef að fagran áttu draum
en afl þér lítið gefið
hindrun engri gefðu gaum,
gakktu fyrsta skrefið.

24.09.19

Kær samstarfsmaður minn, Lárus Ágúst Bragason, er sextugur í dag. Af því tilefni sendi ég honum þessa afmæliskveðju, undir dróttkvæðum hætti:

Ljúfur, gæddur gáfum
góðum, sagnafróður.
Virði allra varðar,
við ungdóminn styður,
glaður, lítillátur.
Lestar um vengi hesta.
Af sómamanni sönnum
er saga Lalla Braga.

25.09.19

Haust

Litadýrðarlota!
Laufið skreytir reitinn
gulu, rauðu. Gælir
gola vær og hrærir
grein en fagurgræna
grasið heldur fasi.
Heiminn lítur himinn,
hélugrár, og tárast.

26.09.19

Haust II

Logn. Svo rok og rigning
rúður þvo. Á súðum
veður, dimmir. Dauður
dæmdur gróður. Í ræmur
flíkur rifna. Fokið
flest í skjólin. Sólin
sífrar, gleymd og grafin.
Gangur lægða strangur.

Vinn þessa dagana við að ragast í vísnasafni mínu og koma einhverri reiðu á skipulagið:

Athyglin skýr, set annað í bið,
ekkert fær huganum sundrað.
Í Kleppsvinnu núna keppist ég við,
kominn á blaðsíðu 100.

29.09.19

Sléttubönd

Sefa fyllir ólga ör,
ekki stillur dvelja.
Efagrillu fresta för,
fráleitt villur kvelja.

Er nóg komið af barlómi?

Í vaxtahít við greiðum gjöld,
erum gróða ausnir brunnar.
En nú við eigum niðjafjöld,
og njótum hamingjunnar.

Rímæfing:

Lítil von að lon og don
linni svona tali:
Heimtar konan honum son,
hraustan konung ali.

02.10.19

Meiri sléttubönd

Böndin sléttu flétta fín,
fanga rétta braginn.
Höndin þétta, gletta, grín,
gjarnan létta daginn.

Daginn létta gjarnan grín,
gletta, þétta höndin.
Braginn rétta fanga, fín
flétta sléttuböndin.

03.10.19

Hannes spurði hvað framtíðin hefði gert fyrir hann?

Fortíð hefur framtíð gefið feikna mikið
en ófædd farið yfir strikið,
ekkert grillað, Hannes svikið.

Enn meiri sléttubönd:

Lokar stundarblundur brá,
bylgjast sundur lundin,
þokar undan grundin grá,
griðum bundin mundin.

Mundin bundin griðum, grá
grundin undan þokar,
lundin sundur bylgjast, brá
blundur stundar lokar.

Rímæfing:

Jafnan augað glöggt er gests,
gangur rakinn úrvalshests,
daufleg ræða pokaprests,
pirringur vegna nestis klessts.

05.09.19

Mektarmenni“ víða um heim hrauna yfir Gretu Thunberg:

Á þekkingu engin er þurrð
er þekjuna skortir nú burð.
Í horn, milli veggja,
hólmsteina leggja.
„Knýr Hösmagi hurð …“.

Enn af framtíðarótta hólmsteina þessa heims:

Með frekju sýnir hún sig,
senn kemst á hamfarastig.
Mín heimsmynd er svert!
Já, hvað hefur gert
framtíðin fyrir mig?

15.10.19

Mikið skýjafar var í morgun, svartbólstrað, og reyndi sólin hvað hún gat að brjóta sér leið í gegn. Henni tókst um stundarsakir að skjóta geisla sínum til mín:

Sólin skrýðir skýin grá,
skýtur fríðum geisla.
Gólfi skríða skuggar á
skammvinn, prýðis veisla.

16.10.19

Undir Eyjafjöllum er margt að sjá. M.a. hafa umfarandi konur afklæðst nærfötum sínum og hengt þau á túngirðingu við hringveginn. Bóndi hefur af einhverjum orsökum hunsað að aka heim af túninu heyrúllunum:

Bóndinn hunsar hirðinguna,

af hugsun taka sýnir völd:

Berar konur, og brjóstahöld

bráðum sliga girðinguna.

 

17.10.19

Öfugmælavísa:

Af aðdáun líð ég engan skort,

ekki þar míg uppí vindinn,

vísurnar ekki af sístu sort,

svo er ég líka fyndinn …

 

21.10.19

Íssslídígar“ er öllum fremri þegar kemur að fjármálagjörningum:

Aflandsprinsa metum meir,
um mörlandann fer kliður:
Við Seðlabankann bruna þeir
brattar Þvottárskriður.

Við bankasölu Bjarna lög,
bæta vina hag.
Klappstýrurnar kætast mjög,
Katrín missir þvag.

Að öðru. Veðrið er sígilt:

Undan venur angann sinn,
ekki kveðjur vandar.
Frá er snúinn faðmurinn,
frostið köldu andar.

22.10.19

Sléttubandavísa, refhverf:

Maður þessi heldur heit,
hvergi undansláttur.
Glaður hressir sína sveit,
sjaldan blundar máttur.

Máttur blundar, sjaldan sveit
sína hressir glaður.
Sláttur undan, hvergi heit
heldur þessi maður.

 

Kannski tilefni þessarar vísu hafi blundað í minninu við samningu sléttubandanna?

Æ skal velja vinar traust,
virðis- dvelj’ í þanka.
Mætti telja makalaust
mér að selja banka.

Um þessar mundir eru 7 ár frá samþykkt frumvarps að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu með 2/3 hlutum atkvæða. Alþingi hunsar kjósendur – og lýðræðið:

Langar, áður leggst í gröf,
að linni sáru þránni.
Nú er orðin nokkur töf
á nýju stjórnarskránni.

Eftirvænting ekki dvín,
aldrei guggna má.
Nær mun þjóðin njóta sín
með nýja stjórnarskrá?

Það má heita kaldur koss,
kúgun lýðs og fána,
að innvígð nátttröll neita oss
um nýju stjórnarskrána.

Margt er okkar mein og hrun
en mín er þessi spáin:
Næstu kynslóð næra mun
Nýja stjórnarskráin.

24.10.19

Stynur margur stressaður,
streðið rýrir haginn,
en bæði sæll og blessaður
býð ég góðan daginn.

03.11.19

Í svartasta skammdeginu er sólarglætan velkomin:

Er ljós á fleti líður skort,
lítil fetin jagar,
bálað geta brenni vort
bjartir vetrardagar.

Pabbahelgar“ heitir framhaldsþáttur í sjónvarpi allra landsmanna, og hefur hlotið mikið lof „fyrir raunsæi“ og að „stinga á ýmsum kýlum í samfélaginu“:

Um neyðaruppköst, næturfliss,
nakta kvenmannsbelgi.
Röfl og drykkja, rúnk og piss;
rishá pabbahelgi.

04.11.19

Rétt í þessu fyrsta föl
féll á pallinn.
„Að moka snjó er mesta böl“,
mælti kallinn.

07.11.19

Er grímu vel eg stað og stund,
ei strengi þel í hlekki.
Þó falli él á frosna grund,
fræin kelur ekki.

10.11.19

Allar nætur sáttur sef,
þó sveigi af dregnum línum.
Fast í gildin held, og hef
hreint fyrir dyrum mínum.

13.11.19

Þorsteinn Már Baldvinson hefur í gegnum Samherja stundað ‘umfangsmikla starfsemi’ í Afríku árum saman. Hans maður í ríkisstjórninni, Kristján Þór Júlíusson, gætir hagsmunanna hjá framkvæmda- og löggjafarvaldinu:

Miskunnsami Samherjinn fer
suður um höfin, því ljúflingur er,
fiskar í matinn, um fátæka sér
uns freigátan siglir á spillingarsker.
Þorsteinn lítið úr býtum því ber.
„Blessaður, það er Kristján Þór hér!
Fréttin kemur alveg að óvörum mér!
Elsku vinur, hvernig líður þér?“

15.11.19

Aldrei eru of oft rifjaðar upp aðferðir fjármálaráðherrans síðustu andartökin fyrir hrun bankanna 2009:

Vafningur víst upp á 10,
viðskiptapólitík hög:
Að selja í Sjóði 9
ef sett verða neyðarlög.

Síldarvinnsla nokkur á Austfjörðum sendi tölvupósta á Samherja til að fá fræðslu um viðskiptahætti fyrirtækisins í Afríku, ef nýta mætti þær aðferðir á Grænlandi til að næla í veiðikvóta:

Í skammdegismyrkri á skjánum
er skemmtanagildispróf.
Framhaldssögu af sjánum
Síldarvinnslan nú óf:
„Verðum að vera á tánum,
viðskiptin hríðarkóf.
Finnst, ef fengist á lánum,
framkvæmdaáætun gróf
um auðlind hjá fjarlægum fánum
við fátækleg kofahróf?
Frá Afríku, utanúr blánum?
Ekkert dugar oss hóf,
þurfum mikla reynslu af ránum,
ráðgjöf og glærushow“.

Gunnar „Klausturbragi“ hafði mestar áhyggjur af börnum Samherjamanna við uppljóstrun um „starfsemi“ fyrirtækisins:

Vernda skal blessuð börnin,
bægja illu þeim frá“.
Á Klaustri var til þess törnin
tekin, það allir sjá.

Lík eru gin og görnin
Gunnari Braga á.

01.12.19

Boðnarmiði ber þá fregn
að betur við ég kunni
en biturt frostið – rökkurregn
og ró, á aðventunni.

Ekki snýst alveg allt um veðrið:

Eigra fláir andans hjarn,
illvíg hrjáir veira.
Aurinn dáir auðsígjarn,
alltaf þráir meira.

Að því gái innra skyn
að ég nái fljóta.
Aðeins þrái að mitt kyn
auðnu fái njóta.

02.12.19

Í dag er það svo:

Mikið er mannkynsins brasið
og mengun á hnettinum.
Það er grenjandi rigning og grasið
grænkar á blettinum.

04.12.19

Nú hefur hann heldur snúist til vetrartíðar. Dróttkvætt:

Frostköld mjöllin fellur
falleg á minn skalla,
bráðnar þar án biðar,
bleytan skjótt vill leita
bakið niður, búkinn
baðar, ekki laðar
fram af vörum frómar
fyrirtölur. Bölva.

07.12.19

Það þurfti að losna við vanhæfan Ríkislögreglustjóra úr embætti. Flokkurinn sér auðvitað um sína og greiðir honum 57 milljónir við starfslok, svo hann þurfi ekki að líða skort, fremur en öryrkjar og ellilífeyrisþegar:

Aðþrengdir fái við starfslok start,
styrk til að kaupa pillur.
Hjá Haraldi’ er útlitið heldur bjart
með hátt í 60 millur.

Jón eða séra Jón?

Sumt er það sem sumur má
í samtryggingarvægni.
Sem dæmi mætti minnast á
mútugreiðslur/þægni.

Enn að veðri:

Nú er fönn á Fróni,
freðin jörð.
Klakaklárinn Skjóni
krafsar börð.

Hannes Hólmsteinn var látinn skrifa „ritdóm“ um bók hins norska fyrrum seðlabankastjóra, Svein Harald Öygaard. Öygaard brást við snarlega og sagði réttilega að það væri eins og að „láta kalkún meta Þakkargjörðarhátíðina“ að fá Hannes í þetta:

Um átrúnað sinn og upphafna Krist
til eilífðar stendur vörð.
Krítík í Mogganum, krydduð af lyst
er kalkúnsins þakkargjörð.

09.12.19

Klukkan á eldavélinni sýndi 02:54 þegar ég var að tygja mig í háttinn, eftir langan dag. Um 11:00 fór ég til Rvk. að sækja rútukálf, ók honum á Selfoss og þaðan með körfuboltaliðið í Stykkishólm. Þaðan að leik loknum með liðið aftur heim og svo til Rvk. að skila bílnum. Renndi svo á eigin bifreið um nóttina sem leið lá heim:

Þá er dagur að kveldi kominn,
kominn tími að nátta sig.
Tanngarð fyrst ég þarf að þvo minn,
þvag að losa og hátta mig.

10.12.19

Stefán Þorleifsson tónlistarkennari og kórstjóri birti færslu á Fjasbók þar sem sagði: „Núna eru veðrin bara gul, appelsínugul og rauð.“ Í kjölfarið kom listi með 113 íslenskum orðum sem lýsa veðri:

Tungumálið tapar krafti,
tilbrigðanna fína blæ,
og fátæklegra fer úr kjafti,
fjársjóð kastað er á glæ.

Í dag brast á með ofsaveðri víða um land, sem olli stórtjóni og margháttuðum vandræðum í mörgum byggðum, sérstaklega Norðanlands:

Nú örlar hér á vetrarveðri,
víst er nokkuð hvasst
og hugsanlegt að hann í neðri
heljarbyggðum fast
kveði að og krafta reyni
á kunnuglegan hátt.
Orðið gæti margt að meini,
magnist leikur þrátt.
Gerast öfgaviðbrögð vani,
veðurkvíði norm?
Ekki vera úti’ á flani
ef óðan gerir storm.
Best er að halda sig heima,
hvíla, og áhyggjum gleyma.

15.12.19

Ragnar, sonur minn, birti í lokuðum hópi á Netinu mynd af syni sínum. Um það hefi ég eftirfarandi að segja:

Yngsta barnabarnið, Hilmir Ragnarsson, er dásamlegur drengur, bráðum eins árs og mikið „krútt“ eins og sagt er, jafnvel „ofurkrútt“ svo gripið sé til Fjasbókarfrasanna. Afi er ákaflega stoltur af honum, eins og öllu sínu magnaða fólki.

Hilmir alltaf æðrulaus,
ekki bugast lætur.
Venur hvorki vol né raus,
voðalega sætur.

16.12.19

Vegna vísunnar um Hilmi hér næst að ofan stigu ýmsir fram í dag á Fjasbók og gáfu mér hæstu krútteinkunn. Er það án vafa ,,besta jólagjöfin í ár“. Má teljast líklegt að ef Rás 2 hefði staðið fyrir vali á krútti, en ekki mannesku ársins hefði ég fengið allnokkrar tilnefningar, ef ekki flestar. Hér er því vinsamleg ábending til þeirra sem hafa horn í síðu minni:

Um þú getur talað trútt,
sem að trölli vilt mig gera.
Yfirmátaofurkrútt
er ég talinn vera.

19.12.19

Lagðist í rímæfingar upp í rúmi, rétt fyrir svefninn:

Halli skjallið fagurt fer,
fráleitt svallar nætur.
Snjalli kallinn ennþá er,
ekki fallast lætur.

Lætur fallast, ekki er
ennþá kallinn snjalli.
Nætur svallar, fráleitt fer
fagurt skjallið Halli.

20.12.19

Og áður en ég steig framúr snemma í morgun hélt ég áfram þar sem frá var horfið:

Skjótast fóta tekur til,
tæpast hótar mönnum.
Rótast grjótið undan il,
ekki blótar grönnum.

Grönnum blótar, ekki il
undan grjótið rótast.
Mönnum hótar, tæpast til
tekur fóta skjótast.

Sjálfsvísur eru alltaf varasamar:

Hvergi skráð í sjálfu sér

að snúið þráðinn gæti

en stakan náði stráknum mér,

stuðla þjáður blæti.

 

21.12.19

Mannlýsing:

Alltaf snjáður, öðrum háður,

er óráðið geð.

Ansi bráður, enginn þráður,

ótal gráður með.

 

23.12.19

Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,

háð eru víða stríðin.

Varnir bresta börnum;

bani, ótti, flótti

vonir þeirra þverra –

Þjóðum skömm er rjóða

æskublóði, í æði

afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju

eru margir argir

af kjörum sínum, kveina,

komið rof í hófið.

Væri flott ef fleiri

fyndu göfuglyndið,

gleðistundir góðar

gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,

geisla börn í veislum.

Sönn er jólasælan“,

syngja Íslendingar.

En ekki allir hlakka

ósköp til, þó dylji.

Til einhvers auður þjóðar

ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara

heims, má ekki gleyma

að verma opnum örmum

óttaslegna á flótta.

Gæðastundir gleðja,

gefum þær af kærleik.

Um land og lög við sendum

ljúfar friðardúfur.

 

24.12.19

Kveðjan í jólakortum barnanna:

Ekki sífellt við svífum

um sólgylltar blómagrundir

og ævisagan er ekki

eilífir góðvinafundir

en víst er að góður mun grunnur

gleði og hamingju undir

að eiga í leikhúsi lífsins

ljúfar samverustundir.

 

Kveðjur í jólakorti til konunnar:

Skríða skal ég fyrir þig,

skafl frá dyrum moka,

ferðast, ganga fjallastig,

fleiru áfram þoka,

við freistingarnar fara’ á svig,

með framúrakstur doka,

og ágætt væri að opna sig,

urða fýlupoka,

ef þú bara elskar mig

ævina til loka.

 

Elsku hjartans ástin mín,

óska þér góðra jóla,

öll svo næstu árin þín

ylji friðsæl gola.

Krummi er í hópum fyrir utan stofugluggann okkar. Einn sat í ösp nágrannans og kroppaði þar græðlinga og krunkaði vinalega:

Krummi úti krunkar
kroppar af greinum fræ.
Hugheilum kærleikskveðjum
kastar ‘ann ekki á glæ.

25.12.19

Jóladagsmorgunn er mildur,
magnaður friður og ró.
Í stofunni hlýtt, og í stillu
stirnir á nýfallinn snjó.
Að skríða þá uppí aftur
er yndisleg, nærandi fró.

31.12.19

Áramótavísan:

Nú árið er liðið, en engu ég skaut
upp að þessu sinni
fremur en áður. Frá mér nú þaut
flís af ævi minni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *