Úr dagbókinni 2018

Úr dagbókinni 2018. Safnið telur 210 vísur/erindi

07.01.18

Veðurlýsing:

Vætan er lárétt og lemjandi.
Löðrandi stormurinn emjandi.
Rigning og rok!
Rennbleytufok!
Blautlega söngvana semjandi.

08.01.18

Hugleiðing:

Vel það hefur verið kannað
og vísindalega sannað
að flestir bæð’ um eitthvað annað
ef það vær’ekki bannað.

20.01.18

Bóndadagur:

Í þurrakaldri þorratíð
þvottur blaktir á snúru
og þjóðin kjamsar kinnavíð
á kæstu, reyktu og súru.

01.02.18

Veðurvísa:

Úti staddur áðan nam
(engin rökin þyngri)
væntanlegan veðraham
með vinstri bendifingri.

Af veðri og færð:

Sjálf- á rennireiðinni,
reynir á í neyðinni,
margir lengi’ á leiðinni,
lokað er á Heiðinni.

03.02.18

Bóndadagssviðaveisla haldin á miðjum þorra:

Á þorra bóndinn borðar svið,
best er augnakonfektið.
Á eftir ropar og rekur við,
ræðum ekkert framhaldið.

05.02.18

Tíðarfarið:

Árans stríð um ár og síð
að óblíð tíðin líði.
Fjárans hríðarfár. Þín bíð,
fríða þýðuprýði.

06.02.18

Útsýnið:

Falleg sýn til fjalla,
fyllir gil og drög
mjöll, og strýtustalla
stilla ísalög.

Bráðum er mitt búið spil
en blóðið myndi styrkja
hefði’ ég meiri tíma til
að tutlast við að yrkja.

Dróttkvætt:

Strengur veðrar vanga,
vítisélin bíta,
kæfa vill mig kófið
hvíta, fyllir vitin.
Vel þó gengur, viljug,
vindinn klýfur yndið,
megnar hreti móti
merin heim mig bera.

10.02.18

Vitlaust veður víða um sveitir, en besta útreiðaveður á Selfossi:

Útreiðar, mitt óskastarf
og ei um skjól nein kvöð,
svo opna í flýti í Flóa þarf
fjöldahjálparstöð.

11.02.18

Loksins nú ‘ann eitthvað er
upp að rjúka.
Kannski’ er best að kúra sér
og kviðinn strjúka?

14.02.18

Kára gamla slær á slig
slen, af hárri elli,
en rumskar svo og ræskir sig
og rekur við, með hvelli.

Ásmundur Friðriksson var gagnrýndur harðlega fyrir háar akstursgreiðslur, á kostnað skattgreiðenda, að erinda fyrir sig og flokkinn í bland við alþingisferðir. Svo rífur hann bara kjaft:

Ásmundi gengur önugt flest,
allur í fornaldarstílnum.
Á heildina litið er, held ég, best
að haf’ ‘ann sem mest í bílnum.

Við akstur hindrar þá ekki neitt
með íhaldsfórnarlundina.
Einnig mæta þeir yfirleitt
óbeðnir á fundina.

15.02.18

Auðvitað kom í ljós að aðrir þingmenn voru heilmikið á ferðinni, þó ekki kæmust í hálfkvisti við Munda Frikk.:

Umferð við þingið þykir slík,
og þyrlar upp ferðarykinu,
að rotturnar í Reykjavík
ryðjast burt af skipinu.

18.02.18

Frekar kaldur febrúar,
en frostið nú að digna.
Á fannabreiðufreðurnar
farið er að rigna.

Vísan endurunnin eftir heimsókn FSU-liðsins í Stykkishólm, þar sem mínir menn skutu Snæfellinga nánst í kaf af þriggjastigafæri:

Frekar kaldur febrúar,
frostið þó að digna.
Á youtube finnur fréttirnar:
FSU lætur rigna.

20.02.18

Úr veðurfréttum:

Flughált, þungfært, þæfingur,
þoka, hálkublettir,
krapi, renningskæfingur,
kafaldsbyljir þéttir.

26.02.18

Ekki fleira um ég bið,
allt vil til þess vinna
að áfram leiki lánið við
líf og heilsu minna.

Töluvert er nú um að nemendur fái sk. „opin vottorð“ í skólum og þurfi þá ekki að mæta nema þegar þeir megna það, eða þegar þeim sýnist. Þetta er mikilvægt úrræði fyrir þá sem eiga við alvarleg veikindi eða vanda að stríða, en er svo sem líka þægilegt fyrir hvern sem er, ef út í það er farið. Og það eru ekki bara skólanemendur í vanda sem fá opin vottorð. Katrín Jak. skrifaði t.d. upp á opið vottorð fyrir formann og þinglið Sjálfstæðisflokksins nýlega:

Mannkynssögu sígild stefin,
síst með tíma minnkar efinn.
Með opin vottorð, aflátsbréfin,
öllum synd er fyrirgefin.

04.03.18

Er vetrarsólin vermdi ból
og vakti kalið hjarta
norðan gjóla í gulum kjól
gekk í salinn bjarta.

05.03.18

Náströnd kalla norðlægt sker,
narrast þangað lóa.
Aðeins tórir önnur hver
úr því fer að snjóa.

Jasso:

Ei minn huga glepur gull,
því glaður frá mér bendi.
Mín innsta þrá, af yndi full,
er mér föst í hendi.

06.03.18

Tilvitnunin er í pistil á Herðubreið, um Sigríði Andersen dómsmálaráðherra, sem Vg. styður heilshugar í spillingunni og varði vantrausti á Alþingi í dag:

Afstöðu þeirra undrast hlýt,
áður var siðferðið vænna.
„Eins og að éta óðs manns skít“,
atkvæðin Vinstri grænna.

22.03.18

Drótt- er hefðar -háttur,
hagleiks -kvætt og bragar-.
Stuðlar, höfuðstafir
standi rétt, og vandi
hálf- og alríms heilum
hendingum að lenda
í þremur risum. Rómað
renni og fram kenning.

23.03.18

Fjasbók löngum les hún,
ljóða „stórust“ þjóðin.
Þar þusa mjög og masa
margir, virðast argir.
Enn sést Pollyanna,
aðrir steypu blaðra.
Alveg verðlaust orðið,
ef enginn þegir lengur?

Flýt í ös að ósi.
Enginn daginn lengir.
Meir ei hef í háfi
held’r en áin geldur.
Víða bar í veiði
vel, eg margt við dvelja
vil, en tíminn telur
taktviss griðin niður.

24.03.18

Er í morguns árið
undurfögur stundin.
Hrím á jörðu harðri,
himinn tær, og skærir
geislar sólar gæla
grundu við í friði
stafalogns, og lofa
lýðum degi blíðum.

25.03.18

Klæðist snemma, framúr fer
ferskur, tremma laus við.
Fæðist stemma, óvart er
ágæt, hremmir rausið.

26.03.18

Veri blessað, vorið!
Vindar æsast, yndi
flestra, næturfrostið,
faðmar jörð og hörðu
élin bíta, ýla
sem englasöngur löngum.
Vinafastur, að venju,
vorboði er horið.

01.04.18

Silfurtjöldum sviptir frá
sólin, full af gáska,
svo um græsku gruna má!
Gleðilega páska.

03.04.18

Grunuð var um græskufjör,
glottið klippt og skorið,
og sólin brimhvítt brúðarslör
breiddi yfir vorið.

04.04.18

Ný fimmáraáætlun hægristjórnar Vg. leit, ef líta skyldi kalla, dagsins ljós:

Örorku og elliþega
arði ræna,
tel því utan vamms og vega
vinstri græna.
Lygamerði lítið trega
en lýsi frati,
það er alveg augljóslega
„allt í plati“.

16.04.18

Ef staðan virðist vonlítil,
vandi hér að þreyja,
stóru plönin strax bý til
og stefnu upp næ sveigja.

17.04.18

Fer í bítið ferskur út,
flest eg hlýt að megna!
Mér frá ýtir morgunsút
að moka skít og gegna.

18.04.18

Mér varð á að stafsetja meinlega vitlaust í vísu sem ég birti hér í gær. Þessi er ort í skaðabætur:

Í bítið ég á fætur fer,
fyllist óðar mundin,
rauðagull úr býtum ber,
blæðir morgunstundin.

Birti barnamynd af sjálfum mér í tilefni af Barnamenningarhátið í Reykjavík. Stína í Austurhlíð skrifaði í athugasemd við myndina: „Sumir að krútta yfir sig“:

Er „að krútta yfir sig“,
eins og verðlaust glingur.
Við glæsileikann gekk á svig
gamall Laugvetningur.

19.04.18

Tónleika er dagur, tærnar uppí loft,
um textaheftið renni lokayfirferð.
Svo góðar náðarstundir gefast ekki oft
en gamalt fyrir pallastöður hvíla verð.

02.05.18

Vorið góða, grænt og hlýtt, og gleði þrungið.
Þannig ávallt um það sungið.

Ei síst á vorin samt er ljóst að snjókorn falla,
köld og blaut, á allt og alla.

Fuglinn kúrir felum í um frostanætur.
Mætti vel fá miskabætur.

Minn þröstur góður þegir núna þunnu hljóði.
Fékk ei styrk úr sjúkrasjóði.

Á fægðu svelli Fannar skautar faldi búinn,
fast að meynni faðmur snúinn.

Í birkilautu bunar engin blátær spræna.
Tíðin hana tók til bæna.

Saman þetta setti ég með sól í hjarta.
Gaman er að kveina’ og kvarta.

07.05.18

Eftir hríðar beittan byl
brosti sól í heiði.
Til skiptis komu með kulda’ og yl,
hvað er hér á seyði?
Fari veðrið fjandans til,
fremur haugaregn ég vil.
Nú bar vel í veiði!!!

08.05.18

Sitt lítið af hvoru úr þjóðarsálinni eftir kvöldið:

Okkar vegur“ virtist beinn,
vinningslagið fundið.
Það samt ekki þoldi neinn,
þvælt og teygt og undið.

Eurovision vegur beinn
þó varla sigri Ari.
Núna efast ekki neinn
að hann fram úr skari.

13.05.18

Gleður þessi morgunn mig,
minn er hugur opinn,
því gula fíflið glennir sig
og góður kaffisopinn.

16.05.18

Má ég yrkja lítið ljóð
og lofa dagsins verk?
Sjálfs míns lof og siguróð,
minn sanna hetjumóð,
að reyna að blása reyk af glóð?
Rökin eru sterk.

17.05.18

Borgarstjóraefni íhaldsins gekk hvorki né rak í kosningabaráttu sinni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og dró því formann flokks síns og fjármálaráðherra úr Garðabæ á blaðamannafund til að lofa framkvæmdafé úr ríkissjóði í umferðarmannvirki í Reykjavík. Aumara getur það varla verið:

Gróða- er og gósentíð,
gengur allt í haginn.
Fjármálaráðherra fékk, um hríð,
að flytja sig „í bæinn“.

Í örvæntingu leggst nú lágt
Laxdals fremsti kappinn.
Óskaplega á hann bágt,
ýtir á neyðarhnappinn.

19.05.18

Það gustar um trén.
Glymur af dropum
á glerinu.
Skammt þess að bíða
að skoli mér burt
af skerinu.

20.05.18

Sonnetta í tilefni komandi kosninga:

Í hreppsnefnd þjóðin kýs á köldu vori.
Hvað skal gera? Engir vitar lýsa
og kenningarnar fráleitt veginn vísa!
Valt er lánið, hik í hverju spori.

En færi svo að frambjóðandi skori,
flytji mál sem uppúr sýndist rísa,
við hjá mörgum tæki töl’verð krísa;
hvort treysta orðum nokkur lengur þori?

Flestir hafa kosið lygalaup,
lengi, sagt er, skal víst manninn reyna.
Ennþá víða sjá má svikahrappa,
sjálfgerð brot í áramótaskaup.
Öðrum röftum betra væri’ að beina
til botns í flösku. Reka svo í tappa.

21.05.18

Oddviti Árneshrepps á Ströndum er einörð fylgiskona Hvalárvirkjunar og gerir ekkert, segir ekkert og ákveður ekkert í nafni hreppsins varðandi virkjunarmálin án þess að ráðgast við HS Orku og framkvæmdastjóra Vesturverks, verktakafyrirtækis sem hefur virkjanaframkvæmdir á sinni könnu:

Oddvitinn vestur- með verk
í vinstri mjöðm, en samt sterk.
Með stikkorðum lærðum
líkn veitir særðum
hreppsnefndin, mikil og merk.

25.05.18

Þar sem ég verð seint talinn jámaður, geti verið stríðinn og hníflóttur (þó þess sjáist ekki merki á höfuðlaginu) og sé almennt séð þokkalega leiðinlegur að meðaltali, var það sannarlega gleðilegt að fleiri hundruð manns skuli hafa ómakað sig að senda mér fallega kveðju á afmælisdaginn.

Við stoðir traustar stend og fell.
Á sterkar vinakeðjurnar
svo af mér næstum andlit féll!!!
Allar þakka kveðjurnar.

26.05.18

Það er margt að minnast á,
margar gæðastundir,
og mig fýsir alltaf þá
aftur í hrossalundir.

27.05.18

Sveitarstjórnarkosningar að baki. Þarna er gripið til mállýsku sem tíðkuð var í ungdæmi mínu á Laugarvatni, svokallaðrar „pétísku“, sem aðrir en innvígðir skilja ekki – og eiga ekkert að skilja:

Þjóðin veður þykkan reyk,
það hún telur betra.
Altso, ljóst að von er veik
Willisa og Pétra.

28.05.18

Eilífðarvandi leirskáldanna:

Þó gerði daglangt dauðaleit
ég dýra fann ei orðið.
Úr huga þessi slitur sleit
og sló á lyklaborðið.

29.05.18.

Eru þetta ekk almenn sannindi?

Þegar ei er staðan sterk,
um stefnumiðin kýtið,
að kalla þá á kraftaverk
kemur fyrir lítið.

Græði maður mikið skjótt,
mun hann fyrir vikið
týna áttum firna fljótt
og fara yfir strikið.

31.05.18

Eftir að „hann“ sló úrkomumetið í maí þraut honum erindið:

Lengi sálarkraftinn kól,
kreppt þó tórði þráin.
Núna geislasverð frá sól
sígur inn um skjáinn.

Öryrkjar og aldraðir geta ekki beðið“ eftir launabótum, sagði forsætisráðherra fyrir kosningar, þá óbreyttur, og setti í brýrnar. Það var forgangsmál. Nú er boðuð lækkun á auðlindagjaldi og hafa Vinstri grænir fundið sér nýtt áhugamál og nýja forgangsröðun, með formann atvinnuveganefndar í fararbroddi og hina marserandi á eftir. Enda „dýnan í kjallara hvíta mannsins“ þægilegri en bert kofagólfið:

Forgangsröðin reyndar var
ríkum að létta streðið
og útgerð vernda. Öryrkjar
og aldraðir geta beðið.

Horft í eigin barm:

Á ýmsu sem ég ekki skil
oft þarf skoðun segja.
Kannski mun ég koma til?
Kannski lær’ að þegja?

Mestan fæ ég morgunverk
í mjöðm og hupp og læri
þegar kemur krafa sterk
að kúst og fæjó hræri.

01.06.18

Gjörvöll útjörð gul og klén

en gróska færist tún í.

Lít ég komið lauf á trén

loks í byrjun júní.

 

09.06.18

Þján af nettri þjóðarrembu,
þakka glettu roksins.
Í grárri, þéttri gróðrardembu
grænkar, sprettur loksins.

Lebron James og Cleveland Cavaliers var sópað 0-4 af Golden State í úrslitum NBA deildarinnar. Meintur „kóngur“ hvarf til búningsherbergja án þess að þakka andstæðingunum fyrir leikinn:

Líður illa Lebron James,
leiksins grillur hálar.
Liggur milli helju og heims,
haldinn kvillum sálar.

Vætutíðin:

Vor á hundavaði fer,
á vætustundum lumar,
svo að grund í gulu er
gegnblaut undir sumar.

Best við metum bleytutíð
ef burt ei fet vill hopa.
Hvað er betra’ en þoka þýð
og þétta netið dropa?

Pólitíkin:

Gjarnan blekkir þingið þig,
þar á hrekk mun örla.
Vantar ekki visku mig,
veröld þekki gjörla.

Lífsins visku luma á,
læst ég giska fróður:
Upp á diskinn ætti’ að fá
eftir fiskiróður.

12.06.18

Með ferðamenn á Flúðum, stoppað í hádegismat:

Áðan fékk á Farmers bístró
fylli mína.
Sést að nú er orðin „ístró“
yfirlína.

13.06.18

Karlakór Hreppamanna skoðaði inntakið og upphafið að Flóaáveitunni við Hvítá. Á þessum slóðum, ofan við Brúnastaði, stíflaðist áin gjarnan fyrrum af ís og jakaburði og flæddi þá yfir landið svo Flóinn varð sem flói. Skurðurinn liggur svo þráðbeinn, væntanlega eitthvað vestur af suðri fyrstu fáa kílómetrana, með stefnu sunnanvert við Ingólfsfjallið. Sverrir Ágústsson leiðsagði um sínar heimaslóðir í vorferð kórsins:

Glöggur fer með gamanmál,
geiflar sig og derrir.
Að burðum vænn og besta sál,
Brúnastaða-Sverrir.

14.06.18

Mikið gekk á í Vestmannaeyjum eftir sveitarstjórnarkosningar. Páli Magnússyni alþingismanni kennt um að íhaldið tapaði meirihlutanum í hreppsnefnd:

Í Eyjum nú suðar í sveiminum,
svart yfir þrónni og geyminum.
Á plani, með pirring í ‘hreiminum’:
„Palli er einn í heiminum“.

Uppnám varð vegna þess að „transari“ átti að leiða Gleðigönguna í Reykjavík:

Feðraveldisþróttur þvarr
um þrep eitt, sunnan heiða.
Glæsilega Gógó Starr
gönguskrúð mun leiða.

Það er engin nýlunda að tvíræðni fylgi Sigríðarnafninu:

Í Fagrahvammi blómlegt ból,
byggðu hjónin ungu
og Indriði smiður sæll með tól
Sigríðar frá Tungu.

16.06.18

Björn Ingi Hrafnsson kom Steikhúsinu Argentínu í þrot. Í sama mund varði Hannes víti frá Messi:

Ekki mikið, margur sér,
að mörlanda sé þokað.
Víða um heim af okkur er
Argentínu lokað.

19.06.18

Viðkoma í Borgarnesi á leið vestur á firði með ferðafólk, og svo rekur bíllinn sig áleiðis:

Brunaði í Borgarnes,
beint í pissustoppið.
Yrki stöku. Æ!!! Á Fés-
ið hún hefur sloppið!

Hraunsnef undir hamravegg,
háreist bæjarstæði.
Héðan næsta legg í legg,
leið um Dali þræði.

Belgingur í Búðardal,
bjart og þurrt og napurt.
Ástand hérna orða skal:
Ekki sýnist dapurt.

Himin strýkur heiðarbrík,
hennar ríkur kraftur.
Við Hólmavík er helgi slík.
Held ég kíki aftur.

20.06.18

Á heimleið frá Heydal í Mjóafirði er komið við í Vatnsfirði:

Þorvaldi varla veitti af
vendi, og hirtingu líka.
Hvort tveggja Vatnsfjarðargoða gaf
gustmikil, Ólöf ríka.

22.06.18

HM í fótbolta stendur yfir:

Nígeríski útherjinn
átti góða spretti.
Boltann rakti, blekkti hinn,
og beint í markið setti.

27.06.18

Spark í mynd er margtuggið,
mál er nú að linni.
Beint við öllum blasir við
að Brasilía vinni.

28.06.18

Enn á ferðinni með túrista:

Á sig broddana binda
og belti með öryggislinda.
Samhæfð og vökul
á Sólheimajökul
sér um vegleysur vinda.

Og leikur um kvöldið:

Náðargjöf er Neymari,
nettur knött að elta
og sá andans sveimari
vill uppúr dögg sér velta.

04.07.18

Á Landsmóti hestamanna:

Eftir stanslaust rok og regn,
já, rosa og drullumak,
þá blessuð sólin braust í gegn
og brosti andartak.

20.07.18

Að ríða sveitir, frjáls um fjöll,
er feikna mikils virði,
þrönga dali, víðan völl,
um veðrið ekkert hirði.

Sjáum víða um kring oss
eldsins raunir harðar
en eg hef lagt á ágætt hross,
annað lítt mig varðar.

23.07.18

Rauneyg, tárvot rósablöð
rauðar brárnar sýna
en himinn grár, með heilsuböð,
heilar áru mína.

25.07.18

Staddur í svokölluðu „Fontana“ á Laugarvatni:

Í gullnu minningaglufunni
geng nú að einni prufunni
að komast á legg:
Ég klifr’ yfir vegg,
fullur, í Gömlu gufunni.

30.07.18

Við Anna María renndum upp í Borgarfjörð dagpart:

Þó að alveg svíki sól
sýnir landið manni
að það á skilið þvílíkt hól.
Um þetta vitnar Glanni.

Tryggir Deildartunguhver
trölla ávöxt mikinn.
Kraumu heimsókn eftir, er
enginn maður svikinn.

31.07.18

Háspekilegt:

Gefur lífið mér svo margt,
mest ef svífa gildi
þau er drífa þor og art
þess er hlífa skyldi.

Von er á fjölgun barnabarna:

Lukku-grér, eg segi satt,
því sifjar eru teitir,
fjölga sér, og gengur glatt,
gleði mér það veitir.

03.08.18

Hver er maðurinn?

Í æskusporum „okkar manns“
og allra seinni ferða
féll á silfur sálar hans,
seint mun fægður verða.

08.08.18

Gengur allt á verri veg,
vonir margra bresta.
Sagan alveg lygileg,
lífið firra mesta.

Gengur allt að vonum vel
og væntingarnar miklar
svo að ekkert torfært tel.
Tinda maður stiklar.

09.08.18

Alheim lofa ekki skalt,
hann oft á hrekkjum lumar:
Úti bjart, og ekkert kalt,
eins og það sé sumar!

Þegar ekki er hægt að kveina yfir rigningu finnur maður eitthvað annað:

Ekki hugnast ástand mér,
ansi hreint er þjáður
því að hitinn orðinn er
alveg nítján gráður.

Er Úlfgrímur raknaði’ úr rotinu
í rykugu, dimmasta skotinu,
kom stuna og hósti,
hann stóð upp, með þjósti:
,,Fjandinn að neiti ég flotinu“.

Ljómar sólin, læknar mein,
lyftir geði súru.
Blærinn vaggar birkigrein,
bylgjast lök á snúru.

Mætti gjarnan minna á
að mör er versta raunin
og kjörþyngd eflaust allir ná
ef ‘ún hækkar launin.

Hingað kom með hitann sól,
himnatjöldin fallin.
Höfuð mitt í höndum fól
er hóf að loga skallinn.

14.08.18

Afmælisvísa:

Brosið hefur stundir stytt
og stutt, á nótt sem degi,
löngum verið ljóðið mitt
og ljós á mínum vegi.

29.08.18

Dregnir eru á flot forsætisráðherra, hagfræðingar og seðlabankinn til að segja launafólki að ofurlaunahækkanir elítunnar séu eðlilegar en kröfur þess og hækkanir í komandi kjarasamningalotum verði að vera hógværar og hóflegar því annars fari allt á hliðina. Hafiði heyrt sönginn áður? Verst að þetta gengur alltaf í lýðinn, ef ekki undir eins þá fyrir rest.

Beitt á fullu heilum her
við hentirullu tama.
Um lygabullið öllum er
alveg drullusama.

Settur til verka í garðinum:

Grasið sker og grjótið ber,
grunda hér skal pallinn.
Gröf nú er að grafa mér,
griðahlerinn fallinn.

Námsmaður erlendis birti grein um lánaníð LÍN:

Íslenskt lán er algert rán,
óp í gjána bresta-,
æviþján og þjóðarsmán,
þrælaánauð mesta.

05.09.18

Þessar sveiflur þoli vart,
þeim af ég fæ geð rið.
Ástand núna ansi hart,
alltof gott er veðrið.

06.09.18

Gerist amstrið leiðinlegt
og lífsins stakkur þröngur?
Besta ráð við því er þekkt;
það er að fara’ í göngur.

12.09.18

Gjarnan yrki úrvalsljóð,
einnig góðar vísur,
um Fjasið allt svo funi glóð
en fáir dragi ýsur.

13.09.18

Að hausti núna falla fer,
fölnar jarðargróður,
sólríkt þó í september,
sumarauki góður.

14.09.18

Verjendur hinna dæmdu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem töluðu tæpitungulaust, voru sagðir hafa verið „myrkir í máli“.

Friðsælt í brandi og báli.
Bómullin gerð er úr stáli.
Sér Geirmundur breytir,
nú Guðfinnur heitir.
Verjendur myrkir í máli.

15.09.18

Eitthvað mikið á sér stað,
árlegt ferli tryggt:
Nær oss sífellt sækir að
svartamyrkrið þykkt.

Kemur nú af fjallið féð
feitt, og lafamótt.
Brátt mun allt, að best er séð,
á bensínvélum sótt.

Vaknar gömul von, og mér
vex að nýju kraftur.
Sólin blindar, glampar gler,
gott ‘ann rignir aftur.

16.09.18

Kominn er á Kálfstindana hvítur litur.
Höfuðdjásn við hnakka situr,
hárið prýðir stjörnuglitur.

Fögur er á festingunni flóra stjarna.
Úr hnýta vönd ég vildi gjarna,
ver’ um eilífð með þér þarna.

17.09.18

Haldið ekk’ um hádaginn sé hitasvækja!
Haustið gott er heim að sækja,
vill höfðinglega skyldur rækja.

Glöð í bragði greiðir sólin gyllta lokka.
Grund, með sína grænu sokka,
góðan býður af sér þokka.

Blakkur himinn, blíða, kuldi, birta sólar.
Andstæðir og ýktir pólar.
Inn í vetur tíminn rólar.

Lýsingin á fullveldishátíð fína fólksins á Þingvöllum kostaði sitt:

Á Þingvöllum er þrálátlega þok’ og ísing.
Dagsbirtan er daufleg lýsing,
í diskóljósum skærum því syng.

18.09.18

Áslaug Thelma Einarsdóttir var rekin úr starfi hjá Orku náttúrunnar fyrir það að kvarta undan káfi, áreitni og almennum dónaskap yfirmanna gangvart konum:

Eftir mikið „ha og humm“,
hik, og skýrslur þunnar,
margir núna yrkja um
orku náttúrunnar.

Fram kom að heildarkostnaður Þingvallafundarins hafi verið tæpar 87 milljónir – en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 45 milljónum. Ekki mátti minna vera fyrir Piu Skærsgaard.

Til veisluborðs af bestu gerð
bjóðum enn að nýju
og teljum glöð fram tvöfalt verð
til að hylla Piu.

Enn fjallað um orkuveitubrottreksturinn. Framkvæmdastjórinn sagði af sér, en hver á að sækja um?

Orku-boltinn braut af sér,
brúnum skeit í töðuna.
Sá yðar sem syndlaus er
sæki nú um stöðuna.

21.09.18

Minnkar gálaust greddustreð,
það granít #meeto kvarnar.
Þá helltist yfir haustið, með
hrútasýningarnar!!

25.09.18

Í sjónvarpinu mínu heyrði ég í gærkvöldi að margskonar samgöngubætur kæmu ekki til greina – nema með veggjöldum. Í morgunkaffinu rifjaði óljúgfróður upp að á kosningafundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands hefði núverandi samgönguráðherra, með hnefann á lofti, kallað yfir lýðinn: „Veggjöld verða ekki á minni vakt“!! og hlotið góðar undirtektir áheyrenda.

Á þjóðar vorrar þröngu leið
þyngist sífellt róður
en gatan verður bein og breið
borgi göngumóður.

27.09.18

Hannes Hólmsteinn birti loks „skýrslu“ sína um efnahagshrunið. Þar kom m.a. fram eftirfarandi um Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra: „ … „Feldur hans er mjallahvítur eins og þeirra Jóns Sigurðssonar og Hannesar Hafsteins og Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar.““

Kollsteyptu bréfin, korter í hrun,
kappinn Bjarni seldi.
Nú gengur ‘ann um, og mestur víst mun,
í mjallahvítum feldi.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kröfur um 375 þúsund króna lágmarkslaun ekki „í samræmi við raunveruleikann“.“

Á hausinn þjóðin þessi fór
(það er önnur saga).
Af verklýðs launakröfukór
má kláran lærdóm draga.

01.10.18

Kári flýtir, og snýtir sér,
snerrinn, lýtur rúnum.
Dári skrýtinn, ýtinn er,
errinn skýtur brúnum.

11.10.18

Fátt var fjallða meira um í október en Braggamálið; óhóflega framúrkeyrslu við endurbyggingu gamals herbragga og náðhúss við Nauthólsvík. Eyþór Arnalds greip auðvitað „stráið á lofti“ og krafðist ábyrgðar borgarstjóra og afsagnar:

Allt eins og stráið eina
er upp vex á danskri grund,
fokdýrt, sem fréttir greina,
fegrar dags morgunstund.
Á snöggu braggabragði
breyttist í fölt og ljótt,
forlögin fyrir sagði:
ferillinn endar skjótt.

16.10.18

Að nú þrengja þrútin ský,
með þokustreng í hæðum.
Þurr er enginn þráður í
þæfðum engjaklæðum.

Meira af Braggamálinu:

Eftir áreiðanlegum heimildum óljúgfróðs sagnfræðings slæ ég þessu fram:

Það er afleitt, en Bragginn er ekkert spes,
í óráði stjórnmálagarpa.
Parþenonhofið hjá Perikles,
Perlan, Ráðhúsið, Harpa.

Að öðru …

Ljósið besta lýsir mér,
ef lengi ok þarf bera.
Í raunum slíkum rökkrið sker
rafmagnsljósapera.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar útskýrði á mannamáli hvað felst í orðum ráðamanna þjóðarinnar um kröfugerðir verkalýðsfélaganna í komandi kjarasamningalotum:

Ef þjóðfélag forsmáir landsins lýð,
í leiknum bara gammar,
þá er það helvítis hrákasmíð,
til háborinnar skammar.

17.10.18

Enn af bragganum:

Braggenn ýter veð öflonöm
og innflötte melgreses vöndörenn.
Þjóðen gengen af göflonöm
en gleymdör er Þingvallaföndörenn.

Já, Þingvallafundurinn fór víst líka vel yfir strikið, þó það sé allt gleymt og grafið. Steingrímur Joð flutti inn „háæruverðugt strá“ úr danska þinginu:

Margt er dýrkeypt Danmörku frá,
sem deilum hefur valdið.
Í sumar flutti inn Steingrímur strá,
stöðugt er því framhaldið.

18.10.18

Bjartsýnisraus á tímum „netlægrar neikvæðni“:

Mjög er þannig málum stillt
að mannsins velti kerra
en fátt er svo með öllu illt
að ekkert finnist verra.

22.10.18

Í hagyrðingahorni á kótelettukvöldi Karlakórs Rangæinga sl. laugardagskvöld var eitt yrkisefnið formaður kórsins, Hermann Árnason, og afrek hans. Lagði þetta m.a. í púkkið:

Um fjöllin síst er gatan greið
þó geti talist lekkert,
Hermann stoltur stjörnu reið,
stöðvar hann víst ekkert.

23.10.18

Morgunvísa

Áfram brunar knörr minn keikur
í kröppu öldusafni.
Ennþá við mig lífið leikur,
land er fyrir stafni.

Síðdegisvísa

Þegar ýfir gaman grátt,
geðið dýfu tekur.
Ástin hrífur andans mátt,
aftur lífið vekur.

Kvöldvísa

Lengir kvöldin, vetrar vá
vagni köldum ekur.
Hengir tjöldin úrug á
alheim, völdin tekur.

24.10.18

Hádegisvísa

Flétturöndin himinhá,
heillar vöndur ljósa.
Sléttuböndin yrkja á,
orðaföndur kjósa.

Önnur síðdegisvísa:

Síðdegis leit sólin oss;
sýndist verð’ að gjalli
er himna- loks fékk konan -koss
og hvítvín út’ á palli.

25.10.18

Bragginn er eilífur og danska melgresið. Og Gunnar Gunnarsson skrifaði Leik að stráum í Danmörku:

Víst er að sjaldan við sjáum
samhengið, þó að við gáum.
Burst eða braggi?
Í blíðunnar vaggi
ljúfur er „Leikur að stráum“.

Kuldalegt er út að litast í dag og kallar á sléttubönd:

Dapur hímir runnur rór,
raunir gríma hylur.
Napur tími, kuldakór
kvæði hrímuð þylur.

26.10.18

Hringhvend sléttubönd, refhverf, í haustmyrkrinu:

Hljóður skari yndi er,
ekki bara þiggur.
Skjóður varinn sómir sér,
sjaldan barinn liggur.

Umhvefismál eru til umræðu þessa dagana, og alla daga, enda framferði mannskepnunnar í náttúrunni ekki til sóma:

Ef stóru nú mænum á myndina
við mígum í uppsprettulindina.
Á heildina litið
úr nál er ei bitið.
Þetta er neðan við þindina.

27.10.18

Ólafur Ragnar sagði frá því í útvavrpsviðtali, með stolt í rómi, að Dorrit væri búin að láta taka sýni úr hundinum Sámi til varðveislu og síðari tíma klónunar:

Stöðugt á Dorrit má stóla.
Vor stórasta hugmyndaskjóla
„pund fyrir pund“.
Plís! Bara hund,
en klónaðu ekki hann Óla!

29.10.18

Listaverki var komið fyrir úti í Tjörninni í Reykjavík. Það var sagt vera „hafpulsa“ til heiðurs Hafmeyjunni frægu í Kaupmannahöfn. Mest minnti það þó á nábleikan mannstittling, og þótti fáum fagurt:

Hún er gefandi, listamannslundin
og í lífinu verðmæt hver stundin.
Með pulsu í Tjörninni,
hversdags í törninni,
andlegur friður er fundinn.

31.10.18

Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna. Það eru mun langdrægari áhrif sem hljótast af því að breyta kerfinu sjálfu“, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, aðspurð um afstöðu sína til ríkisstjórnarsamstarfs Vg og Sjálfstæðisflokksins í ljósi fjármálaglæpa fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar:

Ef kvelur oss kerfislæg hætta

skal kerfinu breyta, og þvætta

einstaklingsglæpi

með orðhengils’hæpi’

því siðferðið ekki má smætta.

 

03.11.18

Ók starfsfólki (konum) á Dvalarheimilinu Lundi í óvissuferð um Rangárþing. Fyrsti viðkomustaður var Nauthúsagil. Meðan konurnar örkuðu upp í gil með leiðsögumönnum og ég beið eftir hópnum skall á með byl:

Ana í óvissuferð,

úti því sjálfsagt ég verð.

Við Nauthúsagil

norpa í byl.

Glætan að leit verði gerð!

 

Frá Nauthúsagili var ekið í Fljótshlíðina og í skóginn á Tumastöðum. Þar var næsti viðkomustaður, gengið um og höfð nokkur viðdvöl í skógarrjóðri.

Í Tumastaðaskógi trén eru reist og há

og töluvert finnst þar af hágæðalogni.

Og inni á milli trjánna yrkjunum planta má

af alúð, þannig að úr þeim togni.

 

Þennan dag var grimmt auglýstur „Neyðarkall“ björgunarsveitanna, sem hannaður var í nýrri stellingu, í „gömlum stíl“:

Nú get eignast neyðarkallinn,

ný er stellingin.

Ennþá kynja- alger hallinn;

engin kellingin!!

 

12.11.18

Karlakór Hreppamanna var á tónleikaferð um Norðurland um helgina, sungið í Miðgarði á föstudagskvöldið og á Dalvík á laugardag. Við fórum nokkrir kórfélagar með Ármanni Gunnarssyni dýralækni o.fl. að skoða hesthús Dalvíkinga sem er upphaflega loðdýrahús – og auðvitað bauð dýralæknirinn upp á allskyns af gleri á „kaffi“stofunni. Í hrókasamræðum þar gerðust flestir skáldmæltir og köstuðu fram fyrripörtum sem mér var ætlað að botna. Einn var í þessa áttina:

Bersköllóttir bræður tveir
á botni þéttum siiiita.

Botnaði þetta þannig og sendi til upphafsmanns:

Grímur ekki yrkir meir,
angrar hann víst skiiiita.

Annar fyrripartur sem þeir feðgar á Kjóastöðum, Hjalti og Bjarni, ásamt Hjálmi hinum unga voru hvað ákafastir að ota fram, hljóðar svo:

Fuglar eru fleiri hér
en frillurnar í Bankok.

Þetta er augljóslega vandmeðfarið, ekki síst undir áhrifum lyfja dýralæknisins og langtíma afleiðinga þeirra. Það var ekki fyrr en í sjoppunni í Borgarnesi á heimleiðinni sem ég bangaði einhverju saman, horfandi á misgilda kórlimi starfa að mat sínum (ef mat skyldi kalla):

Félagar mínir fengu sér
franskar, bjór og langlok
u.

14.11.18

Sjálftökuliðið á Alþingi lætur ekki að sér hæða:

Aukum í aðstoðarleðeð“
(alþinge leit efer sveðeð):
„17 hér vantar.
Sjúklingafantar
og örerkjar enn geta beðeð“.

Vinstri grænir halda áfram að styðja fjármálaelítuna við að mergsjúga íslenskan almúga, níðast á öryrkjum og ausa í einkaarðgreiðslur úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Ef þú hana Kötu kaust
og keyptir alla frasana:
Allt fram streymir endalaust
oní dýpstu vasana.

15.11.18

Jón Gnarr fargaði eftirlíkingu af listaverki eftir götulistamanninn Banksy sem hann hafði fengið að gjöf í borgarstjóratíð sinni, þegar íhaldið ætlaði að hanka hann á því að hafa þegið „ósiðlega“ gjöf sem borgarstjóri. Vg verður trúlega fargað í næstu kosningum:

Viðutan eru og ‘vanksí’
vinstrigræn, já eitthvað ‘kranksí’.
Hver verður ei skrýtinn
síétandi skítinn?
Sömu örlaga bíða og Banksy.

Bjarni Ben. bullar tóma steypu til varnar fjárlagafrumvarpi sínu og heldur því fram að öryrkjar hafi notið kjarabóta umfram alla aðra í samfélaginu, þegar hann sjálfur og þingliðið hafði nýverið þegið launahækkanir sem einar og sér eru hærri en laun margra hópa launamanna í landinu. Stjórnarandstaðan benti á þetta en aflandspésinn sat við sinn keip:

Andstaðan þvælu á borð nú ber
en Bjarni fljótt á kýlin stingur:
„Að yfirleitt verði fólk öryrkjar hér
er óskaplegur misskilningur“.

16.11.18

Þórarinn Eldjárn skrifaði góðan pistil í Skólavörðuna þar sem hann benti á að íslensk börn teldu tryggast að ákalla almættið á ensku, ef þau vildu eiga von um að bænheyrast:

Þegar okkur út á hlið
erfiðleikar beygja
öruggast mun við almættið
‘ómægod’ að segja.

Meira af bulli Bjarna Ben. um kjör öryrkja í umræðum um fjárlagafrumvarið:

Kynnir stoltur fjárlög flott,
en framúr hann vill ekki keyra.
Þó Bjarni hafi það býsna gott
blómstra víst öryrkjar meira.

17.11.18

Það hefur gengið á með strekkingi og gusum í allan dag, reyndar „Queen í öllu“. En við erum svo heppin hjónin að hafa fengið til næturdvalar yngsta barnabarnið, dásamlega stúlku, bráðum tveggja og hálfs árs kraftaverk, svo það er meira en notalegt í kotinu:

Afans brýtur alla skel,
ysja lítil gleður.
Inni nýt ég yndis vel,
úti skítaveður.

18.11.18

Á dimmu og hljóðu vetrarkvöldi:

Víðan himna ganginn gengur,
gamla trimmið streðar.
Síðan dimmur strokinn strengur,
stilltur fimmund neðar.

Smá rímæfingar:

Vinur í raun og vakinn, er
að vonum besti „tindurinn“.
Hrynur í daun og hrakinn, fer
úr honum mesti vindurinn.

19.11.18

Ævintýraþema í limrusmíð:

Dýrið með fráhnepptan frakkann,
en Fríða þá reigð’ aftur hnakkann:
„Já, hvað vilt’ upp á dekk?“
Um jólin þó fékk
perrinn að kíkja í pakkann.

Mjallhvít var góðhjörtuð mey,
mælti víst aldregi: „Nei“!
Er kynnti hann vin sinn
hún sagði við prinsinn:
„Allt er í harðindum hey“!

Laumaðist strax út af leið
lagðist í grasið og beið
þolinmóð virtist
þegar hann birtist
Rauðhetta, úlfinum reið.

20.11.18

Framhald:

Svo greinir frá Hans og frá Grétu
að grimmir í ofninn þau létu.
Þau gát’ana platað.
(Vegna ríms nú er glatað
að Alþingi afnam hér z).

Þyrnirós svaf og hún svaf,
svo bæði missti hún af
Snappi og Tinder.
En á Fjasbók nú mynd er
í kommentum skotin í kaf.

Spurt er: Telst Andrés með öndum?
Þett’ er umdeilt víða í löndum
og milli hópa rís veggur;
Duck eða steggur?
Er Donald brabra í böndum?

Fjaðrafok var út af athugasemdum hjúkrunarfræðinga við mynd og texta í barnabók Birgittu Haukdal, þar sem talað var um hjúkrunarkonu og myndskreytingu af starfsmanni í kjól og með hárkappa:

Kynja viljum fangbrögð forðast
og fellum mál við enskan takt.
„Hjúkka“ nú má ekki orðast.
Ætli „hjúkk-it“ getum sagt?

21.11.18

Meira ævintýraþema:

Það var ólga í Öskubusku
sem æddi um gólfin, með tusku:
„Alveg stein-djöfull-blindir
á staðalímyndir!!!“
hún æpti í morgunsins musku.

Kalla má bévítans bullu
blágráan úlf, sem á fullu
hafði korter í 2
étið kiðlinga 7.
Var þá dasaður orðinn, með drullu.

Stökk hann úr kerlingar klóm
svo klesstist þar ekki við góm.
„Þessi sætabrauðstæknir
verður trúlega læknir“,
sagði refurinn, skjálfandi róm.

Úlfurinn blés og hann blés,
með blóðhlaupin augun og fés.
Þá grísirnir hlógu
uns tveir þeirra dóu.
Já, þessi saga er svolítið spes.

Spjátrungur mikill og spaði,
spinnur upp sögur með hraði
og margar til meins,
öll vitleysan eins!
Kötturinn stígvélaði.

Loks varð henni mjög á í messunni,
mistök, við fjallið, hjá skessunni!
Hún átti krakka með hor
og kraftmikinn bor
EN LOFTIÐ VAR LEKIÐ AF PRESSUNNI!!!

24.11.18

Við erum ótrúlega gæfusöm stórfjölskylda. Barnalánið er ekki einleikið og í dag fékk nýjasti fjölskyldumeðlimurinn nafnið sitt; Vaka, Freyju- og Bjarnadóttir á Þóroddsstöðum.

Lífið, elsku litla smá,
leiki þér í höndum
og skip þitt víðan sigli sjá
seglum öllum þöndum.

26.11.18

Gott nú ekki Grímur fær,
grímur renna á hann tvær.

27.11.18

Forsætisráðherra taldi ekki ástæðu til að bregðast við Klausturdónum með afsagnarkröfu því slík væri íslensk stjórnmálamenning:

Brosmild kattarþvottinn þvær,
þjófagengisfylgdarmær.

29.11.8

Heiladauðir drekk’ einn pott,
svo dáldið á þá fellur.
Samt er drullan soldið ‘hot’
sem að frá þeim vellur.

Vatnsheldur smekkur og svunta,
og samfella nauðsynleg er.
Á þingi er kolbrjáluð kunta
og karlpunga slefandi her.

Þá góðu drengi ég dæma ei vil,
dauft er í þinginu, kvenfólk í röðum,
svo dáindismenn þurfa’ að drekka sig til
fyrir dýrindsveislu á Bessastöðum.

Af einlægni opnaði sig:
„Það allra versta við þig
er hve þú ert góður
og óljúgfróður!!
Sko, ég er að míga í mig“.

30.11.18

Guðmundur í Brim var í sjónvarpsviðtali:

Glaður við góðverkið dó
er til Guðmundar arðgreiðslur dró
eins og ofalinn kálfur,
en átti sig sjálfur.
Fagur fiskur í sjó.

01.12.18

Fyrsti des. er fagur runninn,

fögnum stolt við þjóðarbrunninn.

Þó fullveldis við fengjum grunninn

fyrir hundrað árum

lokasigur ei er unninn.

Þó að eigin flaggi fána,

fóstri heita afreksþrána,

þá efstu þarf hún yfir rána,

ófleyg þjóð í sárum:

Staðfesta nýju stjórnarskrána!

 

03.12.18

Oft um dimman desember
drungi vex í hjörtum
ef kynjavera krímug fer
á kreik í skotum svörtum
en ekki við á eyju hér
yfir neinu kvörtum
því Venus hátt á himni er
og heilsar geisla björtum.

Viðkvæm mál ef orða á
svo ei af hljótist verra
Gunnar Bragi glansar þá
sem góður sendiherra.

04.12.18

Flugabeitt er frostsins kló,
fálmar mér um kinnar
svo mér verður um og ó.

05.12.18

Sólveig Anna var kölluð vanstillt, galin og vitfirrt vegna kröfugerðar Eflingar fyrir láglaunakonur:

Vanstillt, galin vitfiirrt“;
valdakarlarit birt.
Þögul ekki sit snyrt,
svara öllum hnityrt.

Ekki hafði Katrín kjark
að kalla þá réttu nafni
en Lilja setti magnað mark,
urðaði margan auman svark
í ofbeldismannasafni.

12.12.18

Ríkisstjórniun svæfði í nefnd tillögu um afnám „krónu á móti krónu skerðinga á örorkubætur og ellilífeyri:

Loforð svikin, engin efnd,
allt er hér í plati.
Svo er málið svæft í nefnd
samkvæmt stjórnar mati.

Nýtt sér hafa Vg völd,
verkin tala mikið.
Spánný veg- og veiðigjöld
og veika fólkið svikið.

Framsókn hefur fund í lagt
og formaðurinn sagt
um veggjöld orð með allri makt:
„Ekk’ á minni vakt“!!!

13.12.18

Spakur liggur, spyrtur fastur,
á spena sinnar póli tíkur.
Sannleik hver er sárreiðastur
ef sést í rifnar eigin flíkur.

Sjá má nú Sjálfstæðisflokk
snúandi framsóknarrokk
í vinstri grænum,
hlýðnum og vænum.
Helvítis fokking fokk!

23.12.18

Jólakveðja 2018

Ósköp vesæl vaknar sól,

varla lyftir brúnum.

Niðurlút, og nyrst við pól

norpar, mörkuð rúnum.

 

Og dagur eitthvað dundar sér,

en dregur stöðugt ýsur.

Í svefnrofum á fleti fer

með fornar rökkurvísur.

 

Þá birtan heims á hjara dvín

er huggun landsins börnum

að máninn hátt á himni skín

með höfuðkrans úr stjörnum.

 

Þar geislar bregða létt á leik,

því ljóst að ei er köfnuð

trúin, þó að von sé veik,

á visku, frið og jöfnuð.

 

Mín ósk er sú, það eitt er víst,

enn þó bregðist skjólin,

að fái kærleikslogi lýst,

og ljómi heims um bólin.

 

28.12.18

Kaupi sínu kveikir í
kverúlantaflokkur
svo rakettum, með ryk og blý,
rignir nið’rá okkur.

31.12.18

Datt nú allt í dúnalogn,
dátt hlær sól á himni.

Og botnið svo þetta, ef þið getið!!

Að tímamótum troðum stig,
tímans opið sárið,
þá er best að þróa sig
og þakka liðna árið.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *