Góður er volgur sopinn

Nú er sá tími þegar ungviðið skilar sér í heiminn. Sauðburður víðast langt kominn og hryssur margar kastaðar. Þó hér sunnan heiða hafi ekki gert áhlaupaveður með stórhríð hafa ekki verið nein hlýindi og gróður í biðstöðu, úthagi víðast sinugrár, enda hörku næturfrost undanfarna viku eða svo og himinn kuldablár. Hætt er við því að „fegurð himinsins“ megi sín lítils í lífi nýfædds folalds gagnvart napurri norðangjólunni. En alltaf má leita huggunar í volgan sopann!

Nýfædd Þóroddsdóttir. Móðirin Spurning u. Loga frá Skarði og Kotru, dóttur Galdurs og Eirar frá Laugarvatni

Himinn blár, en horfinn snjár,
hagans grár er feldur.
Nóttin ári nú er sár,
Norðan-Kári veldur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *