I
Finnurðu dálítinn dofa?
Einn daginn mun eflust til rofa
ef safnar þú kröftum
gegn kvölum og höftum.
Gott er sjúkum að sofa.
II
Væntingar eru út vatnaðar
ef verðmiða snúast um fatnaðar.
Að eltast við „drasl“
er innantómt basl.
Bíða má sér til batnaðar.
III
Erfiði öllum er gott
enda ber það um vott
stefnumið mýlt.
En streðinu illt
að láta í lekan pott.
IV
Um það er ekki að fárast
að ævigangan mun klárast.
En oft svo til hagar
að eftirsjá nagar.
Fjör er flestum sárast.
V
Vinátta sterkur er strengur.
Að stuðningi mikill er fengur
ef allt fer í kekki.
Vantar þó ekki
vini þá vel gengur.
VI
Ef að til efstu stundar
æviveg keikur skundar
þá öruggast er
að hafa augun hjá sér
því hart bíta konungs hundar.
VII
Sést ef brugðið er Bleik!
Ef böðlast er áfram í reyk!
Í augnabliksfuna
þarf alltaf að muna:
Hóf er best í hverjum leik.
VIII
Hollt er halla að styðja,
hindrun úr götu að ryðja.
Ef þú ert nær
og um það ert fær,
betra er að iðja en biðja.
IX
Götur ætíð gangið keik,
Glöð og hnuggin, sterk og veik.
Þó að vel sjáist
um það ekki fáist:
Ellin hallar öllum leik.
X
Oft sýnist bólsturinn blakkastur,
bjargráðaturninn hvað skakkastur,
og straumröstin hærri,
ef stendur of nærri.
Heima er hundurinn frakkastur.
XI
Einstök engin tár
eða brostnar þrár
í heimi hér.
Hefur hver
sín að binda sár.
XII
Margt er mannanna mein.
Til bóta er brautin þó bein.
Fyrst: Það þarf
að fá í arf
fleira en auðæfi ein.
XIII
Bratt er á líf að læra.
Það ljós þarf ungum að færa
að ljósmynda kóðann:
Lengi skal góðan
graut á gólfi hræra.
XIV
Sértu valtur og veill
vittu, þinn er ei feill
ofan að detta
heldur örlagagletta,
því fall er fararheill.
XV
Ef að þú efast um sinn
axlaðu frekar þín skinn
og harkaðu‘ af þér,
hér ekkert er
fullreynt í fyrsta sinn.
XVI
Er höndin við hjarta þitt köld?
Hífðu frá birtunni tjöld
og allt verður gjallra
því ekki‘ er allra
daga komið kvöld.
XVII
Þó heiminn sé heilmargt að plaga,
með hugsun margt má laga.
Ég gefið mér gat
mikinn mat
og marga helgidaga.
XVIII
Þó einhver á anda þinn skyggi
undir skín ljóminn þinn dyggi.
Í myrkur flýr bull,
og mundu, að gull
skín, þó á skarni liggi.
XIX
Við eigum vandratað flest
og á vegunum oft hefur hvesst.
Þó einhver ei bogni
fer hér enginn í logni.
Af misjöfnu börn þrífast best.
XX
Ágirndin áfram keyrir.
Fyrir eyðslu flestir meyrir.
En staldrið nú við
vítt markaðshlið.
Græddur er geymdur eyrir.
XXI
Fávisku fátt er til varna
og fljótfærnin, bölvuð a‘tarna.
Þannig heimur er gerður
að höfuðið verður
fótum falli að varna.
XXII
Gagnast lítt skyr í skeið
eða skrautleg, ljúffeng sneið
ef þarft ekkert geri,
þó að mig beri
hugurinn hálfa leið.
XXIII
Ljóma af lífi stafar
og lítt hefur orðið til tafar.
Oft má svo vera.
Allir þó bera
eitthvert mein til grafar.
XXIV
Vítt hlaupa sumir um vengin,
vonglaðir, réttu með tengin.
Ef opnum skápinn,
sést í skrápinn.
Amalaus er enginn.
XXV
Eins og úr helju heimt,
úr huga minningu streymt.
Þegar ljósgeislar fara
leitum við svara.
Betra er geymt en gleymt.
XXVI
Mannskepnan háir hildi.
Hver eru lífsins gildi
og siðferðisþrá
þegar að sá
heggur er hlífa skyldi?
XXVII
Hress og háttvís mér smeygi
í hárauðar buxur, mig teygi
í bolinn minn víða.
Já, best er að kvíða
ekki ókomnum degi.
XVIII
Daglegir flokkadrættir,
drýldnir ruddarnir mættir.
Á flestum má finna
að falsi má linna.
Garður er granna sættir.
XXIX
Á mál skal af sanngirni sæst.
Síður ef einn lætur hæst.
Stattu við þitt.
Þekktu og hitt
að flótti er falli næst.
XXX
Þekkt er af veraldarveirunum
í vísindarannsóknargeirunum
og alþjóð það sér
að asninn, hann er
auðkenndur á eyrunum.
XXXI
Hver sá er kökuna sker
fær kipring í augun á sér.
Einnig vill deila
og eiga það heila
því gleymt er þá gleypt er.
XXXII
Heyrist oft grobb gjálfur
gumar um sjálfan sig kálfur.
Sá kappi er enginn
sem klippir á strenginn
né gefur sér gæfuna sjálfur. .
XXXIII
Margir til metorða teygjast,
að Mammoni líka hneigjast.
En samt, allar stundir,
er siðferðið undir.
Sér lætur hygginn segjast.
XXXIV
Ef einhver rakar öllu að sér
ekkert úr býtum annar ber.
Við reisn að lifa,
í lög þarf skrifa:
Jöfnuður góður allur er.
XXXV
Ei kennir ef kulnað er tárið
né kembir, ef visnað er hárið.
Að því gáir:
Ekki tjáir
að búa um banasárið.
XXXVI
Dæma orðin dulin.
Dýr eru loforð mulin.
Í sann og veru
sárin eru
hættulegust hulin.
XXXVII
Vor mun fylgja vetri,
varlegt fet, svo metri.
Barnið sér
að biðin er
bráðræðinu betri.
XXXVIII
Að vera góður og glaður
er gæfa, ef laus við blaður.
Stöðugt að æpa,
er orðhengilsræpa.
Hljóður er hygginn maður.
XXXIX
Ef blaut og húmskyggð er heiðin
verður háskaleg fantareiðin
ef aldrei er vægt.
Svo farðu þér hægt.
Greiðfær er glötunarleiðin.
XXXX
Ekkert liggi í leynum,
leitum, veltum við steinum.
Sannleika tryggjum
er samfélag byggjum.
Fátt segir af einum.
XXXXI
Andúð upp vilja keyra,
útlenska niður reyra.
Það fólsku lýsir
því löngum fýsir
eyrun illt að heyra.
XXXXII
Í dóm nú af drengskap ég legg
deilur um keisarans skegg.
En leikur er patt
ef logið er satt.
Blað skilur bakka og egg.
XXXXIII
Kannski má stinga á kýlin?
Með kennslu leiðrétta stílinn?
Í Grímsnesi, Súdan
sama er skútan
og jöfn eru bræðra býlin.
XXXXIV
Tíminn strýkur um strengi,
styrkum höndum – og lengi
órar mann síst
það eitt sem er víst:
-Valt er veraldar gengi-
XXXXV
Heyrið mig! Höfum við rödd?
Hvar erum við stödd?
Svo er máldaginn gerður
að í manninum verður
aldrei ágirndin södd.
XXXXVI
Þó undan framanum fjari
og fram í gráðið ég stari
þá vonin er heit
og í hjarta mér veit
að kemst þótt hægt fari.
XXXXVII
Þó aðdráttaraðferðir þróir
og engu í framhaldi sóir,
eignast vilt allt.
Vita þú skalt:
Ekk’ er allt gull sem glóir.
XXXXVIII
Margt hefur mannvonskan hrakið
og margur er stunginn í bakið.
En það boðorð ei efað
að betra er sefað
en illt sem upp er vakið.
XXXXIX
Sjaldan er sannleikur skýrari,
sókn eftir vindi rýrari
en við hækkandi sól
og hátíðleg jól
því dyggð er gulli dýari.
L
Fástu því ekki um amann
við auðævin, völdin og framann.
Veittu gæfuríkt skjól
og gleðileg jól
því maður er manns gaman.