Vigdís Finnbogadóttir 90 ára

Vigdís Finnbogadóttir, fyrsta konan í víðri veröld sem varð þjóðkjörinn forseti, er 90 ára í dag.

Vigdís kveikti vonarglóð

sem varð að stóru báli:

Syngjum landi ástaróð,

öllu höfnum prjáli.

Klafa brjótið, kannið slóð,

konur, beitið páli!

Saman tali þjóð við þjóð

þýðu friðarmáli.

 

Hrossanöfn í mótsskrá LM 2018

Sitjandi í brekkunni við kynbótavöllinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík 2018, blaðandi í mótsskránni og hlustandi á þulina þylja upp nöfn hrossanna sem fyrir augu bar, feðra þeirra, mæðra og stundum móðurforeldranna líka, kom stundum fyrir að mér væri sem strokið andhæris um málvitundina. Þessi tilfinning varðaði stafsetningu, beygingar og nafnaval. Ég ákvað því að skoða nánar nafngiftir hrossanna í mótsskránni og velta fyrir mér „frávikum“ m.v. eigin máltilfinningu. Ekki eru þessar vangaveltur á neinn hátt vísindalegar, til þess skortir mig dýpri málfræðiþekkingu og væri gaman ef vísindamenn á því sviði leiðréttu það sem missagt kann að vera.

Halda áfram að lesa

Glíman við tungumálið

Hvað annað sem um rímur og rímnahætti má segja eru bragarhættirnir hreint afbragð til að æfa sig í meðferð tungumálsins, til að efla orðaforða, sníða hugsun sinni stakk og koma frá sér, þegar best lætur, meitluðum, vitrænum hendingum. Sléttubönd eru hvað vandmeðfarnasti bragarhátturinn, en lesa má slíkar vísur jafnt aftur á bak sem áfram án þess bragarhátturinn riðlist. Best er ef merkingin snýst við, eftir því hvorn veginn er lesið. Slíkar vísur eru kallaðar „refhverf sléttubönd“. Meðfylgjandi eru nokkrar hringhendar sléttubandavísur, jafnvel dýrari, og þó skáldskapurinn í þeim sé ekki rishár eru þær afrakstur skemmtilegrar glímu höfundarins við tungumálið. Og það er einmitt galdurinn: Að glíma við tungumálið, svo það deyi ekki átakalaust!

Halda áfram að lesa

Gengisfall

Það eru ekki bara bankarnir okkar sem rændir voru innan frá. Smá saman er verið að hola innan móðurmálið með einhæfni og merkingarlausum frösum. Þessu verður ekki betur lýst en með því að vitna í Andra Snæ Magnason, en í smásögunni Sofðu ást mín segir hann svo:

„Peningafölsurum er hent í steininn vegna þess að þeir offramleiða peninga sem eyðileggja hagkerfið þegar gjaldmiðillinn tapar gildi sínu. En hver á að spyrna við fótum þegar gengi dýrustu orða tungunnar lækkar? Setningar eins og  „ég elska þig“ þokast sífellt nær frösum eins og „I love you“ sem hafa fyrir löngu tapað allri merkingu. „I love you“ merkir ekki mikið meira en „mér líkar alveg sæmilega við þig“ eða jafnvel „bless“ og oft „ekki neitt“. Í hvert skipti sem maður elskar að borða ís, eða maður elskar Toyotur og pizzur, þá fellur gengið og menn þurfa sífellt fleiri og stærri lýsingarorð til að tjá hug sinn. Unglingar sóa orðinu á fyrsta stefnumóti og menn prenta það á boli og loks endar það sem klisja sem er ekki eyðandi á nokkurn mann. En hvernig á maður að orða sínar dýpstu tilfinningar þegar orðið sjáflt verður merkingarlaust? Ef það er búið að slíta það úr sambandi við hjartað og tengja það í staðinn við plasthjörtu og súkkulaði. […]

Hvað gerum við ef „ég elska þig“ verður jafn lítils virði og ágætt eða sæmilegt „I love you“? Þá hefur hjartað ekkert til að nota nema úrelta mynt. […]

Amma hefur aldrei sagt þetta orð svo ég viti. Samt veit ég að það býr í henni, hún geymir það eins og gimstein, orðið skín úr augum hennar.“

Sögnin „að elska“ er smám saman að missa gildi sitt í tungumálinu og það sama á við um fjöldamörg önnur innihaldsrík og lýsandi orð. Í hvert sinn sem fólk t.d. „gerir“ listaverk (ljóð, leikrit, málverk o.s.frv) forsmáir það sagnir eins og að yrkja, semja, mála – og fletur út málið.

Og í hvert skipti sem þjóðin velur til forystu spillta aflandsprinsa og svindlara gengisfellir hún falleg og nauðsynleg orð eins og „siðferði“ og „heiðarleiki“ og holar innan allan merkingargrunninn svo hann hrynur.

Á hverju eiga næstu kynslóðir að byggja siðferðisgrunn sinn ef orðin sjálf verða merkingarlaus? Ef búið er að slíta þau frá rótum með því að tengja þau við hvern sem er, hampa og lyfta í hæstu hæðir mönnum sem láta eins og það sé bara allt í lagi að vera siðlaus svindlari?

 

Framkvæmd sópunar

Um daginn barst inn um póstlúguna hjá mér fréttabréf frá Sveitarfélaginu Árborg þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði samið við ákveðið fyrirtæki um „framkvæmd sópunar“ gatna. Framkvæmdinni var síðan lýst nánar, sem er aukaatriði hér, en þó má geta þess að ekkert var minnst á framkvæmd útboðs vegna framkvæmdarinnar.

Framkvæmd sópunar er mikið þjóðþrifaverk, eins og alþjóð veit, en vandasamt. Oft vakna ég t.d. upp, horfandi niður á hendur mér í óvissu, með kústinn í einari en ryksugubarkann í hinari. Mér er ómögulegt að framkvæma ákvarðanatöku um það hvort ég eigi að ráðast í framkvæmd sópunar eða ryksugunar, þó ljóst sé að löngu tímabært sé að ráðast í slíkar framkvæmdir.

Við þessar aðstæður framkvæmir kona mín jafnan á mér niðurskurð úr snörunni, fljótt og vel, og ég framkvæmi þá vilja hennar.