Árið 2021

Árið 2021 er að renna sitt skeið á enda. Eins og hjá öðrum landsmönnum skiptust á skin og skúrir hjá okkur. Við hefðum t.d. gjarnan viljað vera meira á ferðinni, en þegar á allt er litið höfum við undan engu að kvarta. Við komumust þó til Stokkhólms í haustfríinu til að heimsækja litlu fjölskylduna okkar þar, en tengdadóttirin Bryndís Dagmar hóf sérnám sitt í endurhæfingalækningum síðsumars.This image has an empty alt attribute; its file name is Sif-2.jpg Það hefur verið svo að þegar ein fjölskyldan flytur heim, þá fer önnur af landi brott. Myndsímtöl eru svo alveg dásamleg tækni sem bjargar miklu þegar söknuðurinn knýr á.

Þó heilsan hefði mátt vera betri á köflum er næsta víst að aðrir höfðu það verra, minna milli handa og meiri erfiðleika við að stríða. Við hjónin eigum líka því láni að fagna að geta unað hvort við annað heima hjá okkur, að mestu án stríðsátaka, höfum lafað saman í tæp 39 ár og því orðin ágætlega sjóuð hvort í öðru. Við gefum lítið fyrir þá bábilju að það sé einhverskonar frelsisskerðing að njóta friðar á eigin heimili í sóttvarnaskyni, sjálfum okkur og öðrum til heilla.

Það sem stendur upp úr á árinu er að gæfan hefur gengið okkur við hlið og afkomenda okkar, allri fjölskyldunni. Þó ekki hafi allir lokið einhverjum „stóráföngum“ er okkur löngu orðið ljóst aðThis image has an empty alt attribute; its file name is Margrét-3.jpg mesta vegtyllan, alla vega hérna megin grafar, er heilsa og hamingja. Hvor tveggja hafa þær sannarlega verið með okkur öllum í liði.

Nokkra „hápunkta“ má þó nefna hér. Nýtt barnabarn bættist í hópinn, og fékk nafnið Sif, dóttir Ara og Rebekku Rutar. Hún er alveg jafn dásamleg og öll hin 9 barnabörnin okkar. Sveir mér ef hún er ekki fegursta barn sem fæddist á árinu, og ekkert bara „norðan Alpafjalla“. 

Þá bættust tvær stórglæsilegar stúdínur í hópinn, þegar Margrét útskrifaðist frá VÍ í maí og JasmínThis image has an empty alt attribute; its file name is Soffía.jpg frá FÁ núna í desember. Þessar ungu konur eru báðar á grænni grein og amma og afiThis image has an empty alt attribute; its file name is Raggi-2.jpg auðvitað alveg gríðarlega stolt af stóru stelpunum sínum. Þriðja glæsistúlkan í hópi barnabarna, hún Soffía Sif, kláraði grunnskólann og hóf nám í Borgó í haust. Og að lokum lauk Raggi tengdasonur námi í meistaraskólanum og ber nú titilinn Trésmíða- og byggingameistari.

Á næsta ári er von á þriðju stúdínunni, fermingu, og gott ef ekki stórafmæli! Já, já, já. Það er víst ekkert lát á þeim, sem minnir á að sá sem hér ritar náði þeim áfanga að verða sextugur og átti því láni að fagna að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar. Um meira verður ekki beðið. 

Það sem hefur miður farið á árinu er að mestu takmarkað við hið pólitíska svið. „Æi, er ekki bara best að gera ekki neitt af viti“ lýsir því best. Engar hugsjónir, ekkert frumkvæði, engar umbætur eða nýjungar. Bara haldið áfram á sjálfstýringu á sömu, gömlu spillingarateinunum. Vonarstjarnan Kartín Jakobsdóttir, sem gekk í björg fyrir fjórum árum, lokaði í haust á eftir sér og dansar í myrkrinu með tröllunum – á ekki afturkvæmt að séð verður, því miður. Ekki meira um þá hörmungarsögu alla, nóg að vísa í upplýsandi umfjöllun HÉR og HÉR.

Eins og lofthjúpurinn og náttúran einkennist mannlífið af síauknum öfgum og firringu. Það fyrra auðvitað afleiðing af því síðartalda. Það eru hamfaratímar með gróðureldum, skýstrókum, flóðum, hitabylgjum, drepsóttum, stöðugum stríðsátökum, ofbeldi, einelti og „útilokunarmenningu“. Samfélagsumræðan fer um eins og skýstrókur og skilur eftir sig auðn og eyðileggingu. Hvert fárið af öðru skellur á. Hvað ætli taki við af „blóðmerafárinu“? Það er tímanna tákn að hópur sem berst að eigin sögn gegn ofbeldi og fyrir jafnrétti skuli velja sér nafnið „Öfgar“. Stöðva öfgar ofbeldi? Leiða þær til jafnræðis? 

Nei, fetum aðra slóð. Blásum í glæður hugsjónar um frið, jöfnuð, og manngildi. Höfum hugrekki til að breyta samfélaginu til batnaðar en stöndum ekki kyr með hendur í vösum meðan forréttindalestin brunar hjá.

Megi þjóðin upp af vanans ánauð 

og óráðssvefni vakna.

Hún vaxi upp úr firringu og finni

úr fllækjum sálar rakna.

Árið gefi hamingju og heilsu

og huggi þá er sakna.

 

 

Systa

Systa er dáin. Systa, sem alltaf var. Systa, sem stafaði af ljómi norðan úr landi. Systa, sem með brosi sínu, hlátri og hreinskiptni létti og hreinsaði allt andrúmsloft, hvar sem hún var og kom. Systa var hrein og bein. Systa var skemmtileg.

Védís Bjarnadóttir var yngri systir pabba míns. Heima var hún aldrei kölluð annað en Systa. Hún flutti ung til Húsavíkur með manni sínum, Villa Páls, áður en ég leit dagsins ljós, og fyrirThis image has an empty alt attribute; its file name is Systa.jpg  vikið mótaðist myndin af henni í hillingum fjarlægðar. Hún hringdi oft og kom í heimsóknir „heim í heiðardalinn“ sem hún unni og þær rætur trosnuðu aldrei. 

Systa og Villi. Þau voru eitt og ævinlega nefnd í sömu andránni. Aðrir geta betur sagt frá því hvað þau hafa gert fyrir samfélagið á Húsavík. En það verður alla vega aldrei mælt í neinum þekktum einingum.

Systa náði níræðisaldri, og tveimur mánuðum betur. Hún átti gæfuríka ævi. Hjónin bæði íþróttakennarar og störfuðu samhent að uppeldis og félagsmálum í bænum sínum, og raunar langt út fyrir bæjarmörkin. Börnin þeirra þrjú, frændsystkin mín, hafa öll fylgt fordæmi foreldra sinna og látið gott af sér leiða, öll kennarar sem hafa látið til sín taka, ekki bara í skólastofunni heldur í margvíslegum störfum hringinn í kringum landið – og vítt og breitt um heiminn. 

Mér er það minnisstætt þegar ég fékk 12-13 ára að fara eitt vorið með föður mínum í hrossadómaferð um Norðurland fyrir eitthvert stórmótið. Komið var til Húsavíkur og gist hjá Systu og Villa. Þar var auðvitað ekki í kot vísað hvað líkamlegar þarfir snerti. En ofar í minninu er hin hliðin, andlega næringin. Það var ekki lognmollan í kringum Systu en umhyggjan samt alltumlykjandi. Og Villi gantaðist með, á lágstemmdari hátt, brosandi út í annað með blik í augum. Okkur feðgum var vitaskuld boðið í hesthúsið og í reiðtúr á gæðingunum. Hesthúsin þá í túni í miðjum bænum. Það stafar ljóma af þessari heimsókn í minningunni.

Þegar landsmót UMFÍ var haldið á Húsavík 1987 var ég þar keppandi og við hjónin slógum upp tjaldi á keppnissvæðinu, með tvö ung börn. Um nóttina skall á þoka með vætu og kulda við frostmark. Og fyrr en varði vorum við komin inn á gafl hjá Systu og Villa. Ekki voru tjaldhælar aftur reknir í jörðu í þeirri ferð. Það er svo önnur saga að morguninn eftir var komin himinblíða, og stóð alla mótsdagana svo sem öllum er eftirminnilegt. 

Fyrir fáum árum ók ég hópi ferðamanna hringinn og komið var við í hvalaskoðun á Húsavík. Ég nýtti tímann á meðan til að kíkja til Systu og Villa. Þá var eitthvað farið að minnka þrekið hjá frænku, eftir áfall. Villi hins vegar á fullum snúningi, og er enn, kominn yfir nírætt. Það voru fagnaðarfundir og móttökurnar yndislegar eins og ævinlega. Margt var spjallað í eldhúsinu yfir kaffibolla og rjúkandi pönnukökum. Dýrmæt stund.

Systa var hlý og umhyggjusöm. En hún var líka opin og hreinskilin. Hún lét engan eiga neitt hjá sér og hikaði ekki við að „kúska fúinn kvist“ ef hún taldi þörf á því. Hún var sannkölluð kjarnakona. Blessuð sé minning Systu frænku.

Ég læt fljóta hér með kvæði sem ég orti til Systu á áttræðisafmæli hennar og mér finnst viðeigandi.

Haustdagar á Húsavík

Védís Bjarnadóttir áttræð

 

 

Haustið er komið á Húsavík

og við sjónhring

hafa Kinnarfjöllin klæðst

sinni köflóttu flík.

 

Við fjörðinn er grátt í rót

og fölnað bjarkarblað

en von um margan dýrðardag

áður vetur leggst að.

 

Golan sem í vor

kom sunnan yfir heiðar,

bæði hlý og glettin,

nostrar margt og nýtur skjóls

í litlum, þéttum lundi.

 

Eðli sunnangolu samkvæmt

aumt má ekkert sjá,

að morgni jafnan aftur andar

yl í hélað strá.

 

Getur líka tekið sprettinn,

feykt til grein

og kúskað fúinn kvist.

 

Sveipar jörð við sólarlag,

sátt við gengin spor,

þegar hafflöt hefur strokið,

faðmað kæran fjörustein

og kysst.

 

 

Jólakveðja 2020

Það er jóladagsmorgunn og

friður og kyrrð er í kotinu

er karlinn loks rankað’ úr rotinu

eftir átið í gær.

En mér er víst nær

því sjaldan ég neitað hef flotinu.

 

Við hjónin vorum hjá dóttur okkar, tengdasyni og tveimur yndislegum dætrum þeirra í gær, eins og flest undanfarin ár á aðfangadag, og ekki í kot vísað hjá þeim. Við höfum því látið stjana við okkur og erum enn með öllu óbuguð af jólastressi og álagi sem því fylgir að „hafa allt 100%“ – og halda jólaveislu. Og hin hefðbundna jóladagsveisla okkar verður í skötulíki þetta árið „út af dotlu“ eins og þykir fínt að segja þessi misserin. Aðeins 10 væntanlegir í stað þeirra tuttuguogfimm sem eru skráðir í niðjatalið.

Það væri af mörgu að taka ef fara ætti yfir þjóðlífssviðið. Elítan leyfir sér að venju sínar sjálfteknu 15 mínútna „frímínútur“ með hefðbundnum, innantómum afsökunarbeiðnum. Hvernig hún hefur nýtt sín „náðarkorter“ er svo ljótt og leiðinlegt að það á ekki heima í jólakveðju á friðsælum morgni í svartasta skammdeginu.

Við fjölskyldan höfum haft það gott á árinu og yfir engu að kvarta. Enginn hefur veikst af faraldursveirunni, enginn hefur misst vinnu eða framfærslu, við höfum passað okkur og getað hittst og notið samvista. Við njótum forréttinda okkar í auðmýkt gagnvart örlögunum og sendum þeim sem eiga um sárt að binda hjartans kveðju. Það er of mikið um hörmungar allt í kringum okkur, og barning í óbærilegum aðstæðum. Þetta þarf ekki að vera svona.

Veðurútlitið er ekki allt of gott fyrir Hellisheiðina, en við treystum á dómgreind okkar besta fólks, að það fari ekki að ana út í vitleysu. En vonum það besta og skellum í frómasinn. Ef við sitjum svo ein að 3.4 kílóum af hangiketi með uppstúf og tilbehör vegna veðurs, þá verður að hafa það.

Nú er hann aðeins að byrja að brýna sig hérna utan við glerið, eins og spáin gerði ráð fyrir að gerðist um níuleytið. Farið vel með ykkur, elskurnar.

Gleðileg jól.

Er áföll skekja lýð og lönd,

logar orrahrina,

er bót að rétta hjálparhönd

og hylla mannúðina.

 

Ei á meðul virðumst vönd,

„vík oft milli vina“.

Við óvild þarf að reisa rönd

og rækta samúðina.

 

Þegar glæta dagsins dvín

og dregur lífs úr funa,

bros í gegnum skuggann skín

og skreytir hamingjuna.

 

Ás á hendi allir fá,

aðeins þarf að muna

að treysta bara alltaf á

ást og samveruna.

 

Áramótin 2019-2020

Þetta var aldeilis úrvalsgott ár þegar litið er inn á við – á fjölskylduna. Allir við heilsu og hamingju, þó auðvitað hrjái einn og einn einhverjir kvillar, eins og gengur. En þegar hismið er greint frá kjarnanum þá búum við hjónin við sannkallað barna- og fjölskyldulán. Það er ekki sjálfgefið að yngsta barnið af sex nái þrítugsgsaldri án stóráfalla í fjölskyldunni. Fyrir það ber að þakka. Og vona það besta. Elska og njóta.

Undirritaður komst loks í langþráða aðgerð; hnjáliðsskipti, og allt gengur í framhaldinu að vonum skv. bestu manna yfirsýn. Vonir standa til að ganga og hreyfing verði í boði næstu árin með þvífylgjandi heilsueflingu. Annars er mesti spenningurinn nú hvort nýja hnéð þoli ekki örugglega útreiðar a.mk. jafnvel, og helst betur, en hið gamla og ónýta gerði ágætlega. Anna María er stálslegin; þó hún bíði líka eftir hnjáliðsskiptum á báðum og sé fyrir vikið hætt að hlaupa, þá gengur hún úti í náttúrunni af miklum móð, og lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna. Við þurftum að láta tíkina Freyju fara á vit feðra sinna og mæðra og söknuður er að henni, elskulegt og yndælt kvikindi.

Úr samfélaginu eru verri tíðindi. Sívaxandi misskipting í okkar ríka samfélagi með alvarlegum afleiðingum – eins og eilífum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu – er mikið áhyggjuefni. Og sífellt koma upp á yfirborðið ný og ný spillingarmál. Allir gerðu sér svo sem grein fyrir viðvarandi spillingu: hið gamla helmingaskiptakerfi stærstu stjórnmálaflokkanna var grundvallað með fullveldinu og ól þá spillingu sem hefur verið landlæg allar götur síðan; og þá meðvirkni sem byggst hefur upp meðal þjóðarinnar. Allt of margir hafa litið, og líta enn, undan eða með velþóknun á skattsvikara og gráðuga undanskotsmenn – „vinnukonuútsvar“ stórgróssera í gegnum tíðina, aflandsreikninga nútímans – og náin faðmlög stjórnmála og viðskiptalífs sem kristallast í formönnum tveggja stjórnmálaflokka, beggja fyrrum forsætisráðherra, og svo núverandi sjávarútvegsráðherra. Að ekki sé talað um dómstólana og allt hitt svínaríið.

Vonbrigði ársins eru Vinstri grænir. Björt framtíð og Viðreisn slitu stjórnarsamstarfi þegar spilling dómsmálaráðherra (tveggja fremur en eins) Sjálfstæðisflokksins opinberaðist. Vinstri grænum dettur slíkt ekki í hug en láta sér vel líka að innanbúðarmaður í Samherja, gerspilltu fyrirtæki, sé ráðherra sjávarútvegsmála. Þeir láta sér vel líka að vinna með manni sem nýtti sér innherjaupplýsingar og seldi í „sjóði 9“ korter í hrun og sagði um þann gjörning:  „…ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til …“. Auk þess að sitja á skattaskjólsupplýsingum og fá lögbann dæmt á þann fjölmiðil sem ætlaði að birta upplýsingarnar fyrir kosningar. Svo eitthvað sé nefnt. Í ofanálag hefur Vgf svikið öll kosningaloforð sín er vörðuðu jöfnun lífskjara. Skömm að því.

Sendi „hugheilar“ óskir um gleðilegt nýtt ár.

Gleði og farsældar fjölskyldan naut,
fyrir það bljúgur nú þakka.
Hamingja, ekki neitt óþarfa skraut,
til áranna næstu ég hlakka.

 

Sparibúið á spillingarbraut
speglar sig broshýrt á þingi
viðskiptaliífið og valdstjórn, með graut
sem vonar að þjóðin svo kyngi.

 

Nú árið er liðið og engu ég skaut
upp hér að þessu sinni
femur en áður. Frá mér nú þaut
ein flísin af ævinni minni.

 

 

 

Ættfræði: Móðurættin í stuttu máli

Bjarni á Sjöundá átti Gísla sem átti Guðnýju sem átti Sigurð með Stefáni. Sigurður Stefánsson átti Elínbjörgu með Sigríði, dóttur Jóns og Guðrúnar Pálsdóttur Jónssonar, hvern Pálsætt á Ströndum er við kennd. Elínbjörg átti Ragnheiði Ester með Guðmundi Kristmundssyni Meldal, en Ragnheiður Ester er móðir mín.

Halda áfram að lesa

Ættfræði: Um Jóelsætt, 9. þáttur

Guðmundur Kristmundsson, afi minn, var fæddur í Ásbjarnarnesi 23. mars árið 1890. Hann var getinn utan hjónabands, „framhjátökubarn“. Kristmundur, faðir hans, var þá kvæntur Helgu Ingibjörgu, fyrri konu sinni, og hún fæddi honum dóttur, Sigurlaugu Margréti, 27. september sama ár, og son, Guðmund, 16 mánuðum seinna, 15. janúar 1892.

Halda áfram að lesa

Ættfræði: Um Jóelsætt, 8. þáttur.

Ég skildi við Kristmund Guðmundsson, langafa minn, þegar ég var búinn að rekja nokkuð afkomendur hans af fyrra hjónabandi, 7 börn og niðja þeirra að hluta. Fyrri konan, Helga Ingibjörg Bjarnadóttir frá Skúfi í Norðurárdal, lést í júní 1892, þegar yngsta barnið hennar, Guðmundur, sá er myrtur var síðar í Kanada, var rétt orðinn 6 mánaða.

Halda áfram að lesa

Ættfræði: Um Jóelsætt, 7. þáttur.

Frá Sigurlaugu Jóelsdóttur eru margir afkomendur, enda eignaðist hún 14 börn. Í síðasta þætti var hennar kyn rakið til Jóhönnu Dagbjartar Jónsdóttur í Hnausakoti. Jóhanna eignaðist 9 börn og þegar hefur Jennýjar verið getið og barna hennar. Fimmta barnið var Bryndís Jóhannsdóttir, fædd 1949 á Hvammstanga. Hún býr í Mosfellsbæ, gift Braga Ragnarssyni, vélstjóra frá Hlíð í Súðavíkurhreppi. Sonur þeirra er hinn kunni kvikmyndaleikstjóri Ragnar Bragason, f. 1971. Synir Ragnars og Helgu Rósar Vilhjálmsdóttur eru Alvin Hugi og Bjartur Elí, fæddir 1999.

Halda áfram að lesa