Að sitja í súpunni – 2. hluti

Eins og rakið var í síðasta pistli fengu bankarnir sem reistir voru á rústum hinna gömlu húsnæðisskuldir almennings á hálfvirði, en krefja skuldarana samt sem áður um að borga allt upp í topp, þ.e.a.s þá sem geta önglað fyrir afborgunum. Hinir fá afskrifað eða eru settir á hausinn og kostnaðurinn við afskriftirnar leggst á hina bjargálna, til viðbótar við óumbeðna a.m.k. 40% hækkun sem þeir eru látnir greiða af skuldum sínum.

Tapið af útsölu húsnæðisskulda til nýju bankanna lendir á ríkissjóði, sem sækir tekjur sínar til skattgreiðenda. Bankarnir hafa hins vegar fengið upp í hendurnar fyrir lítið hreina gullgæs; gæs sem verpir rauðagulli, mánaðarlega fram í andlátið, án þess að geta sérstaklega átt von á því að sjá nokkurntímann út fyrir hreiðurbarminn: Bjargálna skuldara húsnæðislána.

Auðvitað er skattur fleira en tekjuskattur einstaklinga, en þeir sem eru bjargálna og borga tekjuskatt bæta þannig á sig tapinu af útsölu húsnæðisskuldanna og sitja þar með ekki í einni, heldur þrem súpum samtímis. Geri aðrir betur! Skyldi Njáll á Bergþórshvoli hafa þurft að láta segja sér slík tíðindi þrem sinnum, eins og þegar Þórður leysingjason vóg Brynjólf rósta á sínum tíma?

Og þær eru fleiri súpurnar.

Meðan þessu öllu fer fram, nokkuð friðsamlega að því er virðist, berst helsti hávaðinn í samfélaginu frá sérhagsmunahópum sem reyna af öllum lífs og sálarkröftum að koma í veg fyrir það að eitthvað breytist í þessu þjóðfélagi.

LÍÚ og málgagn þess mega ekki til þess vita að hróflað sé við kerfi sem gerði nokkrum fjölskyldum það kleift að baða sig upp úr kvótagulli, þó persónulegir baðsiðir fjölskyldumeðlimanna hafi skilið útgerðina í landinu eftir með 4-500 milljarða skuldabagga.

Bændasamtökin umhverfast í heilagri vandlætingu þegar minnst er á það að hugsanlega mætti stokka upp styrkjakerfi landbúnaðarins. Enginn er samt að tala um það í alvöru að leggja af opinberan stuðning við landbúnað. Aðeins að velta því upp hvort hægt er að gera kerfið skilvirkara. Að hver króna sem lögð er til þess nýtist betur, því erfitt er að sjá að núverandi kerfi þjóni markmiðum sínum almennilega, eða bændastéttinni ef út í það er farið. Að minnsta kosti er ekki annað að heyra en sauðfjárbændur beinlínis lepji dauðann úr skel. Og er garðyrkjubændum hleypt að þessari jötu? Hverjum þjónar þetta kerfi svo frábærlega að alls ekki má tala fyrir breytingum á því? Og hvers vegna mega skattgreiðendur, þeir sem leggja til styrkina, ekki hafa skoðanir á því hvernig með þá er farið?

Samtök atvinnulífsins, sem bölva og ragna yfir afskiptasemi hins opinbera þegar vel gengur, góla nú og kveina svo heyrist milli heimsálfa, jafnt yfir því hvað ríkið gerir og gerir ekki. Nú heimta samtökin sem sagt að hið opinbera standi í atvinnurekstri, alveg hægri vinstri, eins og í tísku er að taka til orða. Það er allt ómögulegt. Athafnamennirnir eru því miður sjálfir vita úrræða- og bjargarlausir. Þeir komast ekki út í sandkassann að reisa sína sandkastala nema Jóhanna og Steingrímur reimi fyrir þá skóna, renni saman úlpunni og setji á þá vettlingana.

Það er bölsótast yfir samningaviðræðum við ESB. Það má bara alls ekki ná ásættanlegum samningi, bara engum samningi, hvað þá að kjósa um hann í almennum kosningum. Hér verður helst allt að vera eins og það var og hefur alltaf verið. Reynslan er svo frábær af stjórnunarháttum íslenskra valdaafla að það má ekki svo mikið sem gjóa augunum á búskaparhætti hinum megin fjarðar. Það skal aldrei verða! Höldum okkur inni í formyrkvaðri spillingarbaðstofunni og vogum okkur ekki að líta út um gluggann, hvað þá að stinga hausnum út í gættina. Myrkrið hlýtur bara að vera enn svartara útifyrir. Skríðum aftur ofan í gamla lúsarbælið og breiðum upp yfir höfuð. Við höfðum það svo gott þar.

Þetta viðhorf sá ég í gær gamlan skólabróður minn kalla annað hvort víðsýni eða frjálslyndi, nema hvort tveggja hafi verið.

Af skoðanakönnunum verður það helst ráðið að meirihluti íslenskra kjósenda vilji gömlu valdaflokkana aftur. Kannski það skipti engu máli, úr því þeir sem nú ráða ferðinni hafi ekki megnað að breyta neinu sem máli skiptir? Það er öldungis alveg rétt að þeir hafa ekki komist áfram með ætlaðar breytingar, t.d. á þeim málaflokkum sem hér hafa verið til umræðu. Gömlu valdablokkirnar hafa lagt opinbera umræðu undir málþóf. Þá er ég ekki bara að vísa í ævarandi skömm fulltrúa þeirra, og fliss, inni á Alþingi.

Hér verður nefnilega allt að vera eins og það var. „Nýja Ísland“ á að verða eins og bankarnir: Skeyta bara „nýja“ framan við og láta þar við sitja. Jú, það má svo sem setja upp nýtt skilti, ef einhver nennir því. En alls ekki meira.

En þrátt fyrir mestu erfiðleikatíma og mótstreymi sem nokkur ríkisstjórn hefur glímt við, og sögulegar óvinsældir hennar, þá er stjórnarandstaðan jafnvel enn óvinsælli.

Kannski er þá von, eftir allt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *