Að sitja í súpunni

Nú berast af því fréttir að hinir svokölluðu „nýju bankar“ hafi fengið á útsöluverði skuldir sem „gömlu bankarnir“ áttu.Verðtryggð íbúðalán voru seld yfir í nýju bankana á 50% afslætti en íbúðalán í erlendri mynt með 45% afslætti. Þessi útsala var haustið 2008. Ekki mun hún hafa verið auglýst í blöðum eða með stríðsletri í gluggum bankaútibúanna, eins og annars er algengt með útsölur.

Í bókhaldi „nýju bankanna“ er skráð eign vegna húsnæðisskulda almennings því um það bil helmingur af því sem sama eign stóð í þegar „gömlu bankarnir“ fóru á hausinn, samkvæmt úttekt í DV í dag, miðvikudaginn 28. september. Tölurnar munu teknar úr yfirliti frá upplýsingasviði Seðlabanka Íslands.

Til þess að setja þetta í skiljanlegt samhengi er best að reyna tölurnar á eigin skinni.

Í dag standa húsnæðisskuldir okkar hjóna, skv. heimabankanum, í kr. 25.324.940,-. Þá upphæð vorum við komin með í fangið strax eftir hrun. Þegar „Nýi“ Arion banki keypti rúmlega 25 milljóna skuldina okkar, fékk hann hana sem sagt á 50% afslætti (við erum með verðtryggð lán í íslenskum krónum), eða á svona 12,6-7 milljónir. Ágætis kjör, svona til þess að gera, en ég verð þó að viðurkenna að ég keypti mér sjálfur úlpu í haust á svipuðum afslætti, og margar útsölur auglýsa jafnvel 70% afslátt, svo ekki er ástæða til að kvarta yfir þessum kjörum bankans.

En þó bankinn hafi fengið skuldina okkar á 12,7 rukkar hann okkur auðvitað um þessar 25,3. Skárra væri það.

Þegar við hjónin ákváðum að festa kaup á nýju raðhúsi í stað þess að fara út í fyrirliggjandi kostnaðarsamar endurbætur á gömlu húsi sem við áttum (ekki skuldlaust, vel að merkja), þurftum við að taka viðbótarlán. Þegar við fjögur (tveir yngstu strákarnir enn heima) vorum flutt í nýja húsið, 120m2, fjögurra herbergja raðhúsíbúð með áföstum 30m2 bílskúr, skulduðum við tvö lán í Búnaðarbankanum (eða hvað hann hét þá dagana), annað að verðmæti 12,7 og hitt upp á 5,7 eða samtals 18,4 milljónir. Íbúðin kostaði tæpar 24 milljónir svo við gátum talist eiga um það bil fjórðung í „húsinu okkar“. Þetta var árið 2005. Afborganir voru farnar að nálgast 100 þúsund á mánuði fyrir hrun, ef ég man rétt. Allt innan viðráðanlegra marka.

Nú er staðan hinsvegar sú að eignarhlutur okkar í eigin heimili er algerlega gufaður upp. Lánið hefur hækkað um 7 milljónir, eða nálægt 40% að krónutölu, en húsnæðisverð ekki í sama hlutfalli. Við myndum teljast heppin ef húsið stæði undir skuldinni, eins og kaupin ganga nú á eyrinni. Mánaðarlegar afborganir eru komnar hátt í 140 þúsund kall. Hálfrar milljónar króna hækkun „á ársgrundvelli“ eins og það væntanlega héti í bókhaldi bankans.

Nú má segja að við höfum bara reist okkur hurðarás um öxl. Hvern fjárann vorum við að skuldsetja okkur fyrir nýrri íbúð, hvað þá bílskúr, sem bíll hefur aldrei komið inn í? Á móti má segja að þetta hafi nú blessast, þrátt fyrir allt, því við höfum getað staðið í skilum með allar afborganir hingað til og ekki þurft að standa í biðröð eftir mat. Reyndar með smá greiðsluaðlögun og úttekt á viðbótarlífeyrissparnaði fyrst á eftir, vegna skyndilegrar, ófyrirséðrar útgjaldaaukningar, en nú er betra jafnvægi komið á að nýju. Við bara borgum og borgum, meira og meira, á meðan eignarhlutinn hefur minnkað og minnkað.

Á meðan óumbeðnar 7 milljónir hafa bæst við húsnæðisskuld okkar, og við leggjum bankanum fyrir vikið til a.m.k. hálfa milljón á ári aukalega, eru milljarðar afskrifaðir í slumpum hjá ræningjaflokkum sem tæmdu íslenska bankakerfið í skjóli spilltra stjórnmálamanna og -afla, og það um hábjartan dag. Ræningjarnir eru ekki settir á hausinn við afskriftirnar og geta byrjað aftur með „hreint borð“ og þykk peningabúnt í rassvösunum, sem passað er upp á að alls ekki séu notuð til að grynnka á skuldunum.

Til eru „almennir borgarar“ sem fóru offari í lántökum og eyðslu, ráða ekki við afborganir og sitja því í súpunni. Skuldir þeirra verður að afskrifa. Skuldir sumra annarra hafa verið skornar niður í 110% af íbúðarverðmætinu, til að hægt sé að mjólka viðkomandi eitthvað áfram.

Og hvar lendir kostnaðurinn af öllum þessum afskriftum? Eða gufar hann bara upp?

Sennilega eru það ekki þeir sem misst hafa „eignir sínar“, þ.e.a.s. hafa þurft að flytja út af heimilum sínum, sem sitja í súpunni.

Það erum við, sem misst höfum eignir okkar en fáum náðarsamlegast að búa áfram heima hjá okkur. Á meðan við borgum.

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *