Að vaða elginn

Ég þurfti heldur betur að vaða elginn seinnipartinn í dag. Fór eftir vinnu að líta á blessaða klárana mína (sem stilla sér upp á myndinni hér að ofan). Aðeins var farið að rökkva og ekki mjög víðsýnt fyrir bragðið, en þegar sá yfir beitarhólfið blasti við ófögur sjón: Allt á floti! Árfarvegurinn bakkafullur af snjó og í leysingunum flæddi áin um allt – eins og úthaf yfir að líta (þó ekki láti hún mikið yfir sér hér á myndinni)! Og þeir hímdu uppi á skurðsruðningi, blessaðir kallarnir. Ekki var annað að gera en bruna heim aftur og sækja beisli og brauðmola.

Og svo var að vaða elginn – stígvélin týnd frá því í Kjalferðinni í sumar. Freyr (sá jarptvístjörnótti)  kom á móti mér þegar ég var kominn yfir hafið og upp á ruðninginn, þáði bæði brauðmolann og mélin með þökkum. Ekki þurfti að beisla fleiri, því Þokki (sá moldótti) áttaði sig strax og fetaði sig af stað í áttina upp að hliði. Það var hálfgert torleiði, hált á ruðningunum og á milli þeirra bunaði vatnselgur upp á miðjan legg  – ofan á svelli. En Þokki hélt ótrauður áfram og hinir í humátt á eftir. Við Freyr rákum svo lestina. Allir komumst við svo votir í lappirnar upp að hliði, en þá var seinni hlutinn eftir, að komast upp á veg og yfir á þurrt land í hólfi handan vegar.

Ég beislaði alla fimm og teymdi af stað. Flughált á slóðanum upp að brú en þetta hafðist. Handan brúar fossaði vatnið yfir vegarslóðann á 10 metra breiðum kafla. Spurning hvort við gætum fótað okkur í straumnum, á þessari líka glæru? Fetaði mig út í og fann fljótlega að sem betur fer var ísinn aðeins farinn að digna undan vatnsflaumnum og því ekki eins hált og ætla mátti. Allt gekk því vel og fyrr en varði vorum við komnir upp á bílveginn. Hliðið að hólfinu þar rétt handan og öllum því borgið.

Mikið óskaplega skynjar maður það vel við aðstæður sem þessar hve yfirburðagáfuð og traust skepna þetta er, íslenski hesturinn. Og þakklætið skein úr hreinlyndum augunum þegar ég kvaddi þessa ferðafélaga mína og bestu vini.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *