Meira af Framsókn!

Framsóknarmenn, með þingmanninn Gunnar Braga í fararbroddi, hafa kvartað hástöfum undanfarið yfir því að þeir séu sniðgengnir í fjölmiðlum – aðallega undan RÚV, skilst mér. Gunnar hafi t.d. bara ekkert verið kallaður í Kastljósið og aðrir sniðgengnir líka. Þetta er auðvitað bagalegt, ekki síst eins og fjölmiðlun mun vera háttað nú til dags – bara ein stöð með eina rás – og möguleikarnir því litlir að koma sér á framfæri.

Enginn sækir sennilega heldur lummufundina hjá flokknum á laugardögum, þrátt fyrir Klingenberg og fleira áhugavert. Spurning hvort flokkurinn ætti ekki frekar að bjóða upp á glímusýningu og fánahyllingu til að draga að fólk?

Ég verð í hreinskilni sagt að lýsa yfir stuðningi við þessar umkvartanir Framsóknarmanna. Ég held að það yrði mjög jákvætt fyrir land og þjóð ef Framsóknarmenn væru sem mest í fjölmiðlum, ríkisútvarpinu sem öðrum. Því meira sem þjóðin fær af svo góðu, því betra.

Og megi frábærum þáttum málfarsfulltrúa þingflokksins fjölga sem mest í fjölmiðlum. Ég legg til að RÚV endursýni þá í hverri viku á besta tíma, t.d. í staðinn fyrir Landann eða aðra slíka „ömurlega“ þætti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *