Ættfræði: Um Jóelsætt, 2. þáttur

Bergþór Jóelsson, langa-, langa-, langafi minn var fæddur 3. febrúar árið 1800 í Efri-Lækjardal í Austur-Húnavatnssýslu. Hann ólst upp heima hjá foreldrum sínum, a.m.k. til 16 ára aldurs. Hann kvæntist Guðbjörgu Árnadóttur árið 1835, en hún var dóttir Árna bónda í Helguhvammi og Þórunnar Þorvaldsdóttur, bónda í Krossanesi. Bróðir Guðbjargar var Jón bóndi á Illugastöðum á Vatnsnesi, og þar hófu þau Bergþór búskap sinn. Seinna bjuggu þau á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi og 1845-1860 á Syðri-Þverá. Eftir að Guðbjörg dó 1865 fór Bergþór aftur að Illugastöðum. Hann lést 1888.

Bergþór og Guðbjörg eignuðust 10 börn á árunum 1835-1852. Þau voru Hólmfríður f. 1835, Jóel 1840 (dó 13 daga gamall), Valgerður 1841 (dó barnlaus 45 ára) , Árni Jóel 1846 (dó 7 mánaða sama ár), andvana stúlka 1846 (tvíburasystir Árna Jóels), Árni Jóel 1848, Helgi 1849 (dó 6 mánaða 1850), Sigurunn 1849 (tvíburasystir Helga, dó 8 mánaða 1850), Sigurunn 1852 (eignaðist 4 börn, það elsta dó 5 ára, hin 3 fóru með foreldrum sínum til Winnipeg 1887) og Guðmundur 1852 (dó tæpl. 6 mánaða sama ár).

Af þessum 10 börnum er því aðeins ættbogi kominn frá Hólmfríði, elstu dótturinni, og Árna Jóel, hér á landi. Hólmfríður fæddist á Illugastöðum en dó 86 ára árið 1921, þá húsfreyja í Melrakkadal. Þess má geta að frá þeim bæ er dregið ættarnafnið Meldal, sem margir af Jóelsætt bera. Hólmfríður giftist Guðmundi Helgasyni árið 1860, en hann var fæddur 1824 og því 11 árum eldri en eiginkonan. Hann var inngróinn Húnvetningur langt fram í ættir, eins og Hólmfríður. Forfeður hans bjuggu m.a. á bæjum á Vatnsnesi, Ásbjarnarnesi, í Vesturhópi, Vatnsdal, í Melrakkadal, að Hólabaki og Þóroddsstöðum í Hrútafirði.

Börn Hólmfríðar, langa-, langömmu  minnar og Guðmundar Helgasonar voru 7 talsins. Elstur var Guðmundur  f. 1853 á Syðri-Þverá. Hann giftist 10 árum yngri frænku sinni, Helgu Þórarinsdóttur, og bjuggu þau „á Refsteinsstöðum í Víðidal og síðar á Tittlingastöðum. Þau eignuðust ekki börn, en ólu upp fjögur fósturbörn.“ Næstur í röðinni var Kristmundur, langafi minn, fæddur 14. ágúst 1854 á Efri-Þverá, nákvæmlega hundrað árum fyrr en konan mín leit dagsins ljós í fyrsta sinn!! Þá fæddust Loftur 1858, Valgerður 1865, Guðbjörg 1867 og Bergþór 1874.

Árni Jóel fæddist 1848 og dó 1931, 83 ára gamall. Hann bjó lengi á Kolþernumýri í V.-Húnavatnssýslu, kvæntur Guðríði Jónsdóttur frá Súluvöllum í Þverárhreppi. Þau eignuðust  fjögur börn, Önnu Helgu 1877, Guðmann 1879, Guðmund 1882 og Sigurbjörgu, fædda 1884 á Kolþernumýri. Sigurbjörg giftist Jóhannesi Björnssyni frá Vatnsenda og börn þeirra voru Björn, f. 1906, Árni Jóel 1908, Rósa 1912 og Guðríður 1919.

Rósa Jóhannesdóttir var búsett á Sæbóli á Hvammstanga, gift Guðmanni Sigurði Halldórssyni frá Hrísum. Þau eignuðust 5 börn, næst elst þeirra var Sigurbjörg María, sjúkraliði á Hvammstanga, f. 1937. Fyrri maður hennar var Hörður Hólm Jóhannsson, f. 1932 en hann lést 1970. Dætur þeirra eru tvær. Sú eldri er Erla, f. 1954, húsfreyja í Stykkishólmi. Maður hennar er Jósep Örn Blöndal, læknir þar í bæ, sem gert hefur að hryggjarstykki margra Íslendinga með góðum árangri. Hin er Elísabet Helga, f. 1955. Elísabet er búsett á Selfossi, myndlistarmaður og samkennari minn við Fjölbrautaskóla Suðurlands, gift Valdimari Heimi Lárussyni bókbindara og eiga þau tvö börn, Önnu Kristínu, f. 1981 og Sigurbjörn Má 1984.

Jóel Bergþórsson – BergþórÁrni JóelSigurbjörgRósa Jóhannesdóttir – Sigurbjörg María Guðmannsóttir – Elísabet Helga Harðardóttir – Anna Kristín og Sigurbjörn Már Valdimarsbörn.

Kristmundur langafi reyndist afkastamikill til undaneldis. Hann eignaðist 20 börn með 3 konum, þar á meðal er Guðmundur afi minn. Um Kristmund og afkomendur hans verður fjallað í næsta þætti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *