Ættfræði: Um Jóelsætt, 3. þáttur

Jóel Bergþórsson – Jóel Jóelsson – Bergþór Jóelsson – Hólmfríður Bergþórsdóttir – Kristmundur Guðmundsson, langafi minn.

Kristmundur var 20 barna faðir, fæddur 14. ágúst 1854 á Syðri-Þverá í Þverárhreppi í Vestur-Húnavatnssýslu en dó 21. ágúst 1930, nýorðinn 76 ára, í Melrakkadal, þar sem hann bjó lengst af. Í Jóelsætt segir (bls. 147) að hann hafi alist „upp hjá afa sínum, Bergþóri Jóelssyni“ og svo er tekið fram að  hann hafi verið „einn af þeim sem hlóðu veggi Alþingishússins 1880“.

Kristmundur bjó fyrst í Ásbjarnarnesi en síðan í Melrakkadal mestan hluta búskapartíðar sinnar. Hann var tvíkvæntur. Fyrri konan hét Helga Ingibjörg Bjarnadóttir frá Skúfi í Norðurárdal í Húnavatnssýslu, f. 1859. Bjarni, faðir hennar, var bóndi á Skúfi og í Hamarsgerði í Skagafirði en móðirin, Guðrún Hafliðadóttir, var frá Ögmundarkoti í Skagafirði.

Kristmundur og Helga Ingibjörg eignuðust saman 7 börn. Þau voru: Guðrún, f. 1883 í Ásbjarnarnesi, Valgerður Sigrún f. 1885, Kristbjörg 1886, Ásgeir 1887, Bjarni Kristmundur 1889, Sigurlaug Margrét 1890 og Guðmundur, fæddur 1892.

Áður en lengra er haldið langar mig að fjalla aðeins um Guðrúnu afasystur mína, af því hún og yngsta dóttir hennar tengjast mömmu sterkum böndum. Guðrún giftist Stefáni Jónssyni frá Sauðanesi árið 1910, en hann dó úr lungnabólgu eftir að eins 14 ára hjónaband þeirra árið 1924. Guðrún og Stefán bjuggu á Litla-Búrfelli og Smyrlabergi í Austur-Húnavatnssýslu og eignuðust 10 börn á 14 árum, frá 1908-1922. Elstur þeirra var Jón Bergmann. Einkasonur hans og Guðrúnar Aðalheiðar Jónsdóttur frá Laxárnesi í Kjós er hinn þekkti Stefán Jónsson, sem söng svo eftirminnilega með hljómsveitinni Lúdó og Stefán, t.d.: „Nú set ég tvistinn út, og ég breyti’ í spaða…“

Kristmundur – Guðrún – Jón Bergmann – Lúdó og Stefán.

Elsta dóttir Guðrúnar og Stefáns var Hrefna Ingibjörg, fædd 1913 á Smyrlabergi. Elsta dóttir Hrefnu var Sjöfn, fædd 1936, sérkennari í Rvk. og sonur hennar er Friðrik Skúlason, tölvunarfræðingur og höfundur tölvuforrita sem ég hef nýtt í starfi mínu: Púkinn, Espólín og Lykla-Pétur. Takk, frændi!!

Kristmundur – Guðrún – Hrefna Ingibjörg – Sjöfn – Friðrik Skúlason.

Önnur dóttir Guðrúnar kemur hér við sögu, og afkomendur hennar; Jónína Sigurlaug, fædd 1915 á Smyrlabergi. Jónína Sigurlaug giftist Ragnari Þorsteinssyni frá Ljárskógaseli í Dölum árið 1938 og eignuðust þau 9 börn, Hrafn, Úlf Þór, Hrein, Eddu, Örn, Guðrúnu, Örn, Þorstein og Gísla.

Elsti sonur Úlfs Þórs, sem var fæddur 1939, er leikarinn góðkunni og Spaugstofuháðfuglinn Karl Ágúst. Séð er hvaðan ég hef gamansemina!!!

Kristmundur – Guðrún – Jónína SIgurlaug – Úlfur Þór – Karl Ágúst Úlfsson.

Ekki er Jónína Sigurlaug úr sögunni. Þriðja barn hennar var Hreinn, fæddur 1940 á Skagaströnd, en hann lést á síðasta ári. Hreinn Ragnarsson var kennari á Laugarvatni, giftur Guðrúnu Einarsdóttur, sem starfaði lengi á bókasafni menntaskólans þar og býr enn á Laugarvatni. Hreinn frændi kenndi mér í Héraðsskólanum á Laugarvatni, en hann var sagnfræðingur og uppeldisfræðingur frá HÍ. Síðar kenndi Hreinn árum saman við Menntaskólann að Laugarvatni, úrvalskennari, fróður og yfirvegaður við ungdóminn. Dætur þeirra eru mjög janfnaldrar mínir: elst er Harpa fædd 1959, framhaldsskólakennari á Akranesi, gift Atla Harðarsyni úr Laugarási, fyrrum kennara, aðstoðarskólameistara og skólameistara á Akranesi, nú lektors við Menntavísindasvið HÍ. Næst er Ragna, f. 1962, kennari á Eskifirði, gift Friðriki Á. Þorvaldssyni, þá Freyja, fædd 1964, prófessor við HÍ, gift Gísla Mássyni, og nokkru yngri er Einar, f. 1969, sagnfræðingur, kennslu- og innritunarstjóri hjá HR, kvæntur Hrefnu Karlsdóttur.

Þessu úrvalsfólki var ég nokkurn veginn samferða í gegnum barnaskólann, héraðsskólann og menntaskólann á Laugarvatni, Harpa 2 árum eldri og Ragna árinu yngri.

Kristmundur – Guðrún – Jónína Sigurlaug – Hreinn – Harpa, Ragna, Freyja og Einar.

En þá læt ég lokið þesum útúrdúr, enda nóg komið. Þó á ég eftir að geta yngstu dóttur Guðrúnar, afasystur minnar. Segi frá henni næst.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *