Ættfræði: Um Jóelsætt, 6. þáttur

Ekki er hægt að endursegja hér alla Jóelsætt, enda stendur það ekki til. Hins vegar ætla ég nú að draga fram nokkra fleiri ættingja mína, vini og kunningja hér í nágrenninu í Árnessýslu.

Þá víkur sögunni að Guðlaugi Jóelssyni sem var 9. í röð 13 barna Jóels Bergþórssonar. Guðlaugur fæddist 1809 í Efri-Lækjardal og dó 1862. Hann kvæntist Ragnheiði Brandsdóttur úr Skagafirði. Þau hjón bjuggu alla tíð á Sölvabakka í Engihlíðarhreppi og eignuðust 9 börn, auk þess sem Ragnheiður átti tvö börn með fyrri manni sínum.

Sjöunda barn Guðlaugs og Ragnheiðar var Sigurlaug, fædd 1851 á Sölvabakka. Hún giftist Hallgrími Hallgrímssyni frá Grund í Svínadal. Þau hófu búskap á Ytri-Ey í Vindhælishreppi 1882 en bjuggu líka í Steinnesi, á Leysingjastöðum, Þingeyrum og Snæringsstöðum áður en þau keyptu Hvamm í Vatnsdal árið 1903. Hið sjötta af átta börnum Sigurlaugar og Hallgríms var Guðjón, fæddur 1890 á Snæringsstöðum. Guðjón stundaði nám á Hólum í Hjaltadal og bjó með konu sinni, Ingibjörgu Rósu Ívarsdóttur, á Hvammi í Vatnsdal í 15 ár áður en þau fluttu að Marðarnúpi þar sem þau bjuggu í 40 ár.

Þriðja í röð sjö barna þeirra var Sigurlaug Guðrún, f. 1920. Hún giftist Skarphéðni Péturssyni, f. 1918, presti og prófasti í Bjarnanesi í Hornafirði. Börn þeirra voru 7, elstur Guðjón f. 1943 á Marðarnúpi í Vatnsdal, prestur á Staðastað. Næstur í röðinni var Pétur Zophonías, f. 1946, giftur Sigríði Guttormsdóttur frá Sauðárkróki. Pétur frændi var áratugum saman heilsugæslulæknir í Laugarási í Biskupstungum, og því heimilislæknir fjölskyldu minnar meðan ég var að alast upp. Seinna átti ég svo því láni að fagna að vera samkennari Sigríðar við Reykholtsskóla í Tungunum og kenna börnum þeirra, Skarphéðni, f. 1974 og Ingu Dóru, f. 1980, framkvæmdastjóra hjá UN Women.

Jóel Bergþórsson – GuðlaugurSigurlaugGuðjón Hallgrímsson – Sigurlaug GuðrúnPétur Skarphéðinsson – Skarphéðinn og Inga Dóra.

Næst á undan Guðlaugi af börnum Jóels var Sigurlaug, f. 1807 í Efri-Lækjardal. Hún giftist Jóni Jónssyni frá Þernumýri og áttu þau saman 13 börn en Sigurlaug átti eina dóttur fyrir, sem dó ung. Þau hjón voru vinnuhjú og sýnir heimilsfesta þeirra hraklegt hlutskipti vinnufólks. Þau voru á Gauksmýri þegar þau kynntust og giftust, síðan Illugastöðum, Reynihólum og síðan á mörgum bæjum í Miðfirði; Búrfelli, Króksstöðum, Barkarstöðum og Fremri-Fitjum, oftast 1-2 ár á hverjum bæ.

Elstur alsystkinanna var Jón, f. 1831. Hann bjó í Stóra-Hvarfi frá 1856 til æviloka 1859 með konu sinni Elinborgu Guðmundsdóttur, f. 1831 á Staðarbakka. Þau eignuðust 2 syni, Svein, f. 1855 og Gest 1858. Sveinn Jónsson var fæddur á Fremri-Fitjum og var bóndi á Gilsbakka og síðar Skárastöðum í Fremri-Torfustaðahreppi, kvæntur Jóhönnu Dagbjörtu Jóhannsdóttur frá Núpsdal, V.-Hún. Þrjú börn þeirra voru Sigurlaug, f. 1880, Unnur, f. 1885 og Jón, f. 1892 á Skárastöðum og þar tók hann við búi ásamt konu sinni, Jennýju Guðmundsdóttur frá Tröðum í Staðarsveit. Þau eignuðust 7 börn frá 1921-1939, sú þriðja í röðinni var Jóhanna Dagbjört, f. 1923 á Skárastöðum. Jóhanna Dagbjört bjó í Hnausakoti í sömu sveit og síðar í Reykjavík með manni sínum, sem hún náði í innansveitar, Jóhanni Helgasyni frá Neðra-Núpi, og eignuðust 9 börn. Þriðja í röðinni var Jenný, f. 1946 í Hnausakoti, kennari og búsett á Skarði í Gnúpverjahreppi. Hún er gift Sigurði Björgvinssyni vélfræðingi, sem lengi starfaði við Búrfellsvirkjun. Synir þeirra eru Jóhann, rafvirki og rafmagnstæknifræðingur, f. 1965, Björgvin Guðni, sagnfræðingur, fyrrverandi alþingsimaður og ráðherra, f. 1970, Sigurður Unnar, trésmiður og verkfræðingur, f. 1972 og Davíð, f. 1979.

Jóel Bergþórson – SigurlaugJón Jónsson – SveinnJónJóhanna DagbjörtJennýJóhann, Björgvin Guðni, Sigurður Unnar og Davíð Sigurðssynir.

Næst yngsta barn Jóns Sveinssonar á Skárastöðum í Miðfirði var Ingibjörg Guðmunda, f. 1932. Hún bjó lenst af í Biskupstungum, eins og frændi hennar Pétur læknir. Ingibjörg var því móðursystir Jennýjar Jóhannsdóttur á Skarði. Ingibjörg var gift Gísla Einarssyni, bónda í Kjarnholtum 2 og oddvita Tungnamanna um langa hríð. Börn Ingibjargar og Gísla eru Einar í Kjarnholtum III, f. 1955, lengi framkvæmdastjóri í Þorlákshöfn, Jón Ingi, f. 1959, stjórnmálafræðingur, framkv.stjóri í Reykjavík, Gylfi, f. 1962, rekstrarhagfræðingur, eigandi og framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins JÁ-VERK, búsettur í Mosfellsbæ, og Jenný, f. 1969, búsett í Reykjavík.

Þeir bræður, Jón Ingi og nafni minn Gylfi voru samtíða mér í Menntaskólanum að Laugarvatni á áttunda áratug 20. aldar, Jón Ingi árinu á undan en Gylfi árinu eða tveimur á eftir, og að auki vorum við Jón Ingi samferða í gegnum Kennaraháskólann 1980-1983.

Jóel Bergþórson – SigurlaugJón Jónsson – SveinnJón Ingibjörg Guðmunda Einar, Jón Ingi, Gylfi og Jenný.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *