Ættfræði: Um Jóelsætt, 5. þáttur

Fimmta barn Jóels Bergþórssonar var Auðbjörg, fædd 1801 í Efri-Lækjardal. Hún giftist Guðmundi Ketilssyni árið 1828. Árið áður, 1827, eignuðust þau sitt fyrsta barn, Ögn. Sá böggull fylgdi skammrifi að þá var Guðmundur ekki löglega skilinn við fyrri konu sína og var Ögn því í fyrstu kennd Árna Jónssyni, mági Guðmundar, giftum Ketilríði systur hans.

En þessar lagatæknilegu hindranir á hjónabandi Auðbjargar og Guðmundar eru smávægilegar í samanburði við annað. Þau byrjuðu að búa í Neðri-Lækjardal 1827 en fluttu að Illugastöðum á Vatnsnesi vorið 1828 og bjuggu þar allan sinn búskap upp frá því. Illugastaðir losnuðu ekki til ábúðar af góðu. Natan, bróðir Guðmundar, hafði verið myrtur þar um veturinn. Tveimur árum seinna, í janúar 1830, hjó Guðmundur Ketilsson þau Friðrik Sigurðsson og Agnesi Magnúsdóttur í Vatnsdalshólum, eins og alþekkt er. Var það síðasta aftaka á Íslandi. Guðmundur Ketilsson, síðasti íslenski böðullinn, fær þá umsögn að hafa verið „skáld, góður bóndi og verðlaunaður fyrir jarðabætur sínar“ auk þess að koma upp miklu æðarvarpi á Illugastöðum.

Ögn Guðmundsdóttir giftist Jóni Árnasyni og bjuggu þau á Illugastöðum. Grímur sonur þeirra var fæddur 1850 og giftist Guðrúnu Kristínu Guðmudsdóttur frá Stóru-Borg, V.-Hún. en þau bjuggu á Þernumýri. Dóttir Gríms og Guðrúnar var Guðrún, fædd 1879. Maður hennar var Eggert Elíesersson, fæddur í Melrakkadal 1869, en Eggert og Guðrún bjuggu á Ytri-Völlum. Laufey Klara var elst barna þeirra, fædd 1902, gift Guðjóni Hafsteini Guðnasyni. Dóttir þeirra var Guðrún, fædd 1928, en fyrri maður hennar var Bernharður Guðmundsson. Þau eignuðust 3 syni áður en þau skildu, Guðjón Hafstein kerfisfræðing og framkvæmdastjóra, f. 1949, Guðmund Júlíus trésmið, f. 1951 og Eggert Þór sagnfræðing, f. 1958. Eggert Þór lést fyrir aldur fram en var giftur Þórunni Valdimarsdóttur, rithöfundi og sagnfræðingi. Sonur Guðjóns Hafsteins er Guðjón Már, framkvæmdastjóri og stofnandi OZ, fæddur 1972.

Jóel Bergþórsson – AuðbjörgÖgn Guðmundsdóttir – Grímur Jónsson – GuðrúnLaufey Klara Eggertsdóttir – Guðrún Guðjónsdóttir – a) Guðjón Hafsteinn Bernharðsson – Guðjón Már, b) Eggert Þór Bernharðsson.

Þriðja dóttir Layfeyjar Klöru og Guðjóns var Guðný Kristín, fædd 1938 í Vestmannaeyjum. Hún giftist Ástþóri Valgeirssyni, f. 1931. Börn þeirra  eru Ómar, f. 1965, Íris og Þröstur, f. 1969, og Ástþór Arnar, f. 1973. Kona Ástþórs Arnars var Ásdís Þorgilsdóttir, f. 1974, en móðir Ásdísar er Ragnhildur Ragnarsdóttir, systir Harðar Ragnarssonar sem kvæntur er Huldu Björk, systur minni. Dóttir Ástþórs og Ásdísar (þau skildu) er Indíana Dís.

Annað barn Auðbjargar Jóelsdóttur og Guðmundar Ketilssonar var Eyjólfur, fæddur 1829 á Illugastöðum en hann lést 1913 í Utah í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Kona hans var Valgerður Björnsdóttir frá Litluborg í Víðidal. Eyjólfur var kallaður Varp-Eyjólfur, þvi hann stóð að því með föður sínum að koma upp æðarvarpinu á Illugastöðum, sem fyrr er getið. Eyjólfur og Valgerður bjuggu á Eyjabakka og Geitafelli á Vatnsnesi, en fluttu vestur um haf, að því er talið er vegna vona um lækningu fyrir fjölskyldumeðlimi. Ein dóttirin var blind, sonur með herðakistil og tengdasonur fatlaður. Fyrst bjuggu þau í Helena í Montana en fluttu sig til Spanish Fork. Um Eyjólf er sagt að hann hafi verið „einn ákveðnasti fulltrúi íslensks þjóðernis og lútherskrar kristni í Spanish Fork“, hann var forsöngvari í kirkjunni og „eins konar læknir allra Íslendinga“ þar. Ekki er getið um árangur lækninganna á fyrrnefnda fjölskyldumeðlimi.

Eyjólfur og Valgerður eignuðust 12 börn og fóru þau öll með foreldrum sínum til Bandaríkjanna, nema elsta dóttirin, Ögn Eyjólfsdóttir, f. 1854 á Illugastöðum. Ögn giftist Guðmanni Árnasyni frá Hindisvík á Vatnsnesi og eignuðust þau 7 börn á árunum 1878 – 1892. Þriðji sonurinn var Sigfús Sigurbjörn, fæddur 1881, bóndi á Ægissíðu á Vatnsnesi, dáinn 1934. Kona hans var Sigríður Hansína Björnsdóttir, f. 1880 en hún dó af barnsförum árið 1915. Barnið lifði. Næst elsta dóttir Sigfúsar og Sigríðar Hansínu var Ögn, fædd 1907 en hún lést árið 2001.

Ögn Sigfúdsóttir giftist Þorsteini Georgi Jónassyni frá Hlíð á Vatnsnesi, f. 1903, bónda og síðar pípulagningamanni í Hveragerði. Dóttir þeirra var Margrét Bjarnfríður, fædd 1932, gift Hirti Sigurði Jóhannssyni frá Kirkjubæjarklaustri, kennara og forstöðumanni sundlaugar Hvergerðinga í Laugaskarði.

Börn Margrétar Bjarnfríðar og Hjartar Sigurðar eru þrjú: Elst er Ester, f. 1952, gift Halldóri Sigurðssyni, skólastjóra í Þorlákshöfn. Næstur er Þorsteinn, f. 1957, skólastjóri í Brautarholti á Skeiðum og Fellaskóla í Reykjavík, núverandi fræðslustjóri sv.f. Árborgar. Kona hans er Erna Ingvarsdóttir frá Reykjahlíð á Skeiðum, kennari í Hveragerði, f. 1960. Þau eiga þrjú börn, Álfhildi, f. 1985, Fríðu Margréti, f. 1987 og Hjalta Val, f. 1992. Yngst systkinanna er Jóhanna Margrét, f. 1964, íþróttakennari og núverandi íþrótta- og tómstundafulltrúi í Hveragerði, búsett í Þorlákshöfn. Maður hennar er Ragnar Matthías Sigurðsson, íþróttakennari og íþrótta- og tómstundafulltrúi í Þorlákshöfn. Synir Jóhönnu og Ragnars eru þeir körfuboltabræður í Höfninni, Hjörtur Sigurður, f. 1988, Baldur Þór, f. 1990 og Þorsteinn Már, f. 1993.

Jóel Bergþórsson – AuðbjörgEyjólfur Guðmundsson – ÖgnSigfús Sigurbjörn  Guðmannsson – ÖgnMargrét Bjarnfríður Þorsteinsdóttir – Ester, Þorsteinn og Jóhanna Margrét Hjartarbörn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *