Ættfræði: Um Jóelsætt, 8. þáttur.

Ég skildi við Kristmund Guðmundsson, langafa minn, þegar ég var búinn að rekja nokkuð afkomendur hans af fyrra hjónabandi, 7 börn og niðja þeirra að hluta. Fyrri konan, Helga Ingibjörg Bjarnadóttir frá Skúfi í Norðurárdal, lést í júní 1892, þegar yngsta barnið hennar, Guðmundur, sá er myrtur var síðar í Kanada, var rétt orðinn 6 mánaða.

Aðeins má þó tutla meira þarna. Kristbjörg var þriðja barn langafa, f. 1886. Hún ólst upp hjá Guðmundi Guðmundssyni og Helgu Þórarinsdóttur á Refsteinsstöðum og giftist Sigurði Líndal Jóhannessyni, f. 1890. Þau bjuggu m.a. á Uppsölum, eða Umsvölum, í Sveinsstaðahreppi. Börn þeirra voru Guðmundur Helgi (barnlaus), Kristmundur Jóhannes f. 1912 á Refsteinsstöðum, Finnbogi Líndal f. 1948 í Gröf í Víðidal, Ingþór, f. 1920 á Hólabaki og Hólmfríður, f. 1925 á Lækjarmóti í Víðidal.

Kristmundur Jóhannes  var rannsóknarlögreglumaður í Reykjavík og glímukappi. Hann varð glímukóngur Íslands 1942 og „vann fimm sinnum sigur á glímumótum í Húnaþingi.“  Börn hans og Svövu Þórðardóttur, f. 1917, frá Eyrarbakka, eru Gerður Björg, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík og Ómar Hlynur, félagsfræðingur frá HÍ og stjórnsýslufræðingur frá háskóla í Bandaríkjunum, prófessor í stjórnmálafræði við Félagsvísindadeild HÍ. Ómar Hlynur, frændi minn, var leiðbeinandi minn við skrif meistaraprófsritgerðar í opinberri stjórnsýslu við HÍ árið 2011. Kona hans er Steingerður Sigurbjörnsdóttir, sérfræðingur í barnalækningum eftir framhaldsnám í Bandaríkjunum.

Sonur Ingþórs Guðmundssonar var Þorsteinn Rafn, f. 1955, bifvélavirki í Reykjavík. Fyrri kona hans var Jóna Margrét Kristinsdóttir og þau eignuðust dótturina Eygerði, f. 1976 í Reykjavík. Dóttir Eygerðar er Valdís Mist, dóttir Óðins Braga Valdemarssonar, Bragasonar, útvarpsmanns, kirkjuvarðar og starfsmanns í Prentsmiðju Suðurlands, nú Prentmets, á Selfossi.

Seinni kona Kristmundar var Hólmfríður Jóhannsdóttir, fædd 1866 á Haukagili í Vatnsdal. Hún var Húnvetningur í báðar ættir. Hólmfríður eignaðist 12 börn á árunum 1893-1911 en lést árið 1930 í Melrakkadal. Ekki er hægt að segja að Hólmfríður hafi átt barnaláni að fagna. Fyrsta barnið var andvana fætt í Ásbjarnarnesi 1893. Hólmfríður Ingibjörg fæddist í ágúst 1894 en dó í febrúar 1895.

Jóhann fæddist 1895 og lifði langa ævi, lést 1983. Hann eignaðist þrjú börn, Elinborgu sem dó 15 ára, Hólmfríði sem á nokkuð af afkomendum, og Ásgeir sem fluttist til Kanada og á ekki afkomendur sem getið er, a.m.k. ekki hér á landi.

Kristmundur Kristmundsson fæddist 1899 og lést í elli 1982. Hann var bóndi og póstur í Melrakkadal, giftur Elínu Jónsdóttur frá Gröf í Víðidal og eignuðust þau 4 börn. Að auki átti Kristmundur soninn Guðmund, f. 1944, með Soffíu Bjarnheiði Guðmundsdóttur.

Næst í röðinni var Málfríður Guðbjörg, f. 1901 í Ásbjarnarnesi. Maður hennar var Gunnar Finnbogason, f. 1905 og bjuggu þau í Eyrar-Útkoti í Kjósarhreppi. Ekki er stór ættleggur kominn frá Málfríði. Pálmi, f. 1930, er barnlaus, Finnbogi Reynir, f.1931, á nokkurn hóp afkomenda, Gunnar Bergmann (tvíburabróðir Finnboga) dó 6 mánaða, en Kristín Gunnfríður, f. 1942, tryggir viðhald þessa leggs, ásamt Finnboga. Maður Kristínar Gunnfríðar er Skúli Kristinn Gíslason, f. 1938, vélfræðingur og eiga þau 3 börn. Elst er Guðrún Helga, f. 1963 í Reykjavík, hárgreiðslumeistari. Næstur í röðinni er Gísli Kristinn, f. 1964 í Reykjavík, rannsóknarlögreglumaður, búsettur í Mosfellsbæ, en yngstur  Skúli Bergmann, f. 1970, bílasali. Kona hans er Kristjana Lilja Sigurðardóttir, f. 1973, starfsmaður á ferðaskrifstofu. Þau voru búsett á Selfossi og Kristjana Lilja vann með Önnu Maríu konu minni bæði í apóteki og í dagdvöl aldraðra á Selfossi. Börn Skúla og Kristjönu eru Kristín Elísabet, f. 1995, og Kristófer Bergmann, f. 1997.

Margrét, 16. barn Kristmundar, fæddist 1903 og bjó í Efra-Koti í Tungusveit, í Melrakkadal og í Reykjavík. Maður hennar var Jóhannes Jóhannesson, f. 1894 á Litlu-Brekku í Hofshreppi í Skagafirði. Margrét eignaðist 3 börn en þar endaði hennar erfðaefni. Hjalti Auðunn, f. 1932, húsasmíðameistari og frímerkjasafnari og Kristmundur Dalmann, f. 1934, starfsmaður í álverinu í Straumsvík, voru báðir ókvæntir og barnlausir. Þriðja barnið, Helga Ingibjörg, f. 1904, dó í desember sama ár, tæplega 6 mánaða.

Sá 17. var Loftur Hólmfreð, fæddur 1906 í Melrakkadal. Hann var lengst af verkamaður á Akureyri. Kona hans var Sigrún Leifsdóttir frá Baldursheimi í Mývatnssveit. Þau eignuðust 9 börn. Sonur Ragnheiðar Olgu, f. 1944, og Hólmsteins Snædal húsasmíðameistara á Akureyri, er Rósberg Snædal, f. 1967, hattagerðarmaður og klæðskeri en hann hefur getið sér orð sem búningagerðarmaður og leikmyndahönnuður. Afkomendur Lofts Hólmfreðs eru margir búsettir á Akureyri.

Systurnar Elín og Guðríður dóu ungar. Elín, f. 1907, aðeins 8 mánaða og Guðríður, f. 1909, rúmlega eins og hálfs árs.

Yngstur, og sá 20. í röðinni var Hermann, f. 1911 í Melrakkadal. Hann kvæntist Sigríði Kristmundsdóttur frá Möðruvöllum í Kjós. Þau skildu, en eignuðust áður 5 börn frá 1942-1961. Þetta er svo ungt fólk að ekki er von á stórum ættlegg þegar hér er komið sögu.

Og þá er eiginlega ekkert eftir, annað en að segja frá afa mínum, Guðmundi, sem fæddur var 1890. Það kemur næst og síðast.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *